Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 28.9.–12.10.2020

2

Í vinnslu

  • 13.10.–1.12.2020

3

Samráði lokið

  • 2.12.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-200/2020

Birt: 28.9.2020

Fjöldi umsagna: 147

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Almanna- og réttaröryggi

Frumvarp til breytinga á áfengislögum, sala á framleiðslustað

Niðurstöður

Alls bárust 147 umsagnir við frumvarpið. Frumvarpið fór til frekari vinnslu í ráðuneytinu.

Málsefni

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á áfengislögum sem fela í sér undanþágu frá einokun Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis til neytenda þannig heimilaðar verði innlendar vefverslanir með áfengi í smásölu til neytenda og sala á framleiðslustað með þeim takmörkununum sem í frumvarpinu greinir.

Nánari upplýsingar

Áform um þessa lagasetningu voru birt á samráðsgátt í desember 2019. Í febrúar 2020 var birt frumvarp til breytinga á áfengislögum þar sem lagt var til að heimilaður yrði rekstur innlendra vefverslana með áfengi í smásölu til neytenda og boðað var að áfram yrði unnið að frumvarpi til breytinga í þá vegu að heimila minni áfengisframleiðendum sölu á eigin framleiðslu á framleiðslustað. Frumvarp þetta er því að mestu óbreytt hvað varðar vefverslun með áfengi til neytenda og er vísað til birtingar í febrúar sbr. mál 35/2020 hvað það varðar.

Nú hefur bæst við, svo sem boðað var í áformaskjalinu, að lagt er til að smærri brugghúsum verði gert kleift að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað. Við gerð frumvarpsins var m.a. horft til lagasetningar í Norðurlöndunum en í nágrannalöndum Íslands er smærri brugghúsum almennt heimilt að selja áfengt öl í smásölu, þó með mismunandi takmörkunum. Sérstaklega var horft til lagasetningar í Finnlandi en árið 2018 tóku gildi lög þar í landi sem heimila sölu áfengs öls á framleiðslustað í smásölu til neytenda með ákveðnum takmörkunum.

Á undanförnum áratug hefur átt sér stað mikil fjölgun smærri brugghúsa, svokallaðra handverksbrugghúsa, um allt land. Handverksbrugghús eru brugghús sem eru í eðli sínu smá og leggja áherslu á minni framleiðslu, gæði og sjálfstæði. Árið 2018 voru stofnuð Samtök íslenskra handverksbrugghúsa og eru á þriðja tug smærri brugghúsa meðlimir í samtökunum. Samhliða auknum vexti innlendra brugghúsa hefur eftirspurn og áhugi almennings á innlendri áfengisframleiðslu aukist. Endurspeglast það m.a. í umtalsverðri fjölgun á íslenskum áfengisafurðum, þá sérstaklega áfengu öli. Með frumvarpinu er leitast við að styðja við áframhaldandi vöxt og þróun á rekstrarumhverfi smærri brugghúsa á Íslandi.

Smærri brugghús hafa á síðastliðnum árum byggt upp ferðamennsku í kringum rekstur sinn. Á það sérstaklega við á landsbyggðinni en flest störf í tengslum við smærri brugghús eru utan höfuðborgarsvæðisins. Algengt er að brugghús bjóði upp á skipulagðar kynnisferðir um framleiðslustaði gegn gjaldi. Í slíkum ferðum eru afurðir kynntar og er gestum boðið að kaupa áfengi á grundvelli vínveitingarleyfis til neyslu á staðnum. Aftur á móti mega sömu gestir ekki kaupa sér áfengi í smásölu, þ.e. í neytendaumbúðum, frá brugghúsinu til þess að taka með sér heim. Í frumvarpinu er lagt til að slík sala verði heimil. Enn fremur hefur borið á því að erfitt sé fyrir smærri brugghús að fá vörur sínar seldar í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, jafnvel nærri framleiðslustað. Þá geti það verið sérstaklega erfitt í tilviki áfengistegunda sem eru framleiddar einungis tímabundið eða í litlu magni. Smærri brugghús eru oft með fjölbreytt úrval öltegunda sem framleiddar eru í litlu magni eða tímabundið. Hefur það skapað samkeppnisumhverfi þar sem hallar á smærri brugghús, sem eiga umtalsvert erfiðara með að selja vörur sínar til neytenda en stærri samkeppnisaðilar. Þannig kann rekstur áfengisframleiðanda að standa og falla með því að fá vörur sínar seldar í verslunum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Með frumvarpinu er leitast til við að jafna stöðu smærri brugghúsa við þau stærri hvað þetta varðar.

Þrátt fyrir að á þriðja tug brugghúsa séu meðlimir í Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa þá er áfengisframleiðsla téðra brugghúsa ekki stórt hlutfall af heildaráfengisframleiðslu framleiðsluleyfishafa á Íslandi. Þessi undanþága frá einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis er því þröng og mun fela í sér tiltölulega litla aukningu á áfengisútsölustöðum. Gera má ráð fyrir að sala á grundvelli framleiðslusöluleyfis eigi sér fyrst og fremst stað í tengslum við ferðaþjónustu hjá leyfishafa.

Í frumvarpinu er lagt til að smásala áfengs öls verði heimiluð á framleiðslustað að tilteknum skilyrðum uppfylltum og gilda aldurstakmörk sbr. 18. áfengislaga um sölu á áfengi á framleiðslustað eins og annarsstaðar. Þeir handhafar framleiðsluleyfa, sem framleiða minna en 500.000 lítra af áfengi á almanaksári, munu geta fengið framleiðslusöluleyfi. Framleiðslusöluleyfi mun gera handhafa leyfisins kleift að selja áfengt öl, gerjað úr möltuðu eða ómöltuðu korni, sem inniheldur ekki meira en 12% af hreinum vínanda að rúmmáli, á framleiðslustað. Markmið þessarar breytingar er að styðja við smærri brugghús og jafna samkeppnisstöðu þeirra við stærri áfengisframleiðendur. Talið er að sanngjarnasta leiðin til þess að skilja að á milli smærri og stærri brugghúsa sé að miða við heildarframleiðslu áfengis á almanaksári.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Engin skráður umsjónaraðili.