Samráð fyrirhugað 05.02.2018—19.02.2018
Til umsagnar 05.02.2018—19.02.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 19.02.2018
Niðurstöður birtar 20.11.2018

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á kvikmyndalögum, nr. 137/2001

Mál nr. 1/2018 Birt: 02.02.2018 Síðast uppfært: 20.11.2018
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður birtar

Samráð var haft við fjármála- og efnahagsráðuneyti vegna ákvæða EES-samningsins um ríkisaðstoð og vegna annarra þjóðréttarsamninga. Frumvarpið var kynnt á samráðsvef Stjórnarráðsins 5. febrúar 2018 og bárust ráðuneytinu nokkrar athugasemdir sem snertu einkum skilgreiningar á hugtökum, skipan í kvikmyndaráð og skipunartíma forstöðumanns. Farið var yfir þær og tekið tillit til þeirra eftir atvikum.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 05.02.2018–19.02.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.11.2018.

Málsefni

Frumvarpið kveður á um breytingar á kvikmyndalögum nr. 137/2001, einkum vegna nýrra leiðbeinandi regla frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um ríkisaðstoð til kvikmynda og annarra hljóð- og myndmiðlunarverka. Þá eru aðrar breytingar sem nauðsynlegar þykja í ljósi reynslu af beitingu laganna.

Hingað til hafa úthlutanir Kvikmyndasjóðs einskorðast við íslenskar kvikmyndir sem samkvæmt kvikmyndalögum eru kvikmyndir sem eru unnar eða kostaðar af íslenskum aðilum eða eru samstarfsverkefni íslenskra og erlendra aðila. Slíkar úthlutanir, sem ekki gera ráð fyrir styrkgreiðslum til framleiðenda sem hafa staðfestu í öðrum EES - ríkjum eða fela í sér aðrar beinar eða óbeinar kröfur um þjóðerni, eru ekki í samræmi við 46. mgr. leiðbeiningarreglna ESA, sem segir að tryggja þurfi m.a. að meginregla 4. gr. EES-samningsins sem bannar mismunun á grundvelli þjóðernis sé virt við framkvæmd ákvæða um aðstoð til kvikmyndagerðar. Meginefni frumvarpsins er því koma til móts við þessar reglur með því að kveða á um með skýrum hætti að umsækjendur frá öðrum ríkjum EES geti sótt um styrk til kvikmyndasjóðs. Jafnframt eru sett ítarlegri skilyrði en nú eru um að styrkur verði einungis veittur vegna íslenskra kvikmynda, kvikmynda sem eru á íslenskri tungu eða hafa íslenska menningarlega eða samfélagslega skírskotun.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hjálmar Einarsson - 17.02.2018

Vinsamlega skoðið viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Margrét Örnólfsdóttir - 18.02.2018

Félag leikskálda og handritshöfunda, FLH, mælist til og gerir í raun þá sjálfsögðu kröfu, að þeirri grein sem fjallar um Kvikmyndaráð og tiltekur samsetningu þess verði breytt á þann veg að félagið fái fulltrúa í Kvikmyndaráð. Samsetning Kvikmyndaráðs eins og hún er nú endurspeglar ekki raunverulegt landslag íslenska kvikmyndageirans á meðan handritshöfundar eiga þar ekki fulltrúa, enda er um að ræða einn mikilvægasta póst kvikmyndagerðarinnar, handritið er grunnur alls, án handrits verður engin kvikmynd eða sjónvarpsefni til. Benda má á að eins og staðan er nú er FLH eina fagfélag kvikmyndagerðarinnar sem ekki á setu í Kvikmyndaráði og hefur þar af leiðandi enga formlega aðkomu að vettvangi þar sem teknar eru mikilvægar ákvarðanir sem varða málefni kvikmyndagerðarinnar, þar með talið handritshöfunda. FLH er í forsvari fyrir íslenska handritshöfunda, bæði hér á landi og gagnvart umheiminum, og því réttmætur aðili til að sinna þessu hlutverki. FLH hefur þegar átt samtal við ráðuneytið um erindið, í ráðherratíð Illuga Gunnarssonar, sem og Kvikmyndaráð, og mætt skilningi á báðum stöðum. Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að leiðrétta þetta núna og binda þar með enda á það aðstöðuleysi sem íslenskir handritshöfundar hafa búið við.

Fyrir hönd FLH,

Margrét Örnólfsdóttir, formaður Félags leikskálda og handritshöfunda

Afrita slóð á umsögn

#3 Sveinbjörn I Baldvinsson - 18.02.2018

Tel eðlilegt að um leið og viturlegar breytingar eru gerðar varðandi ráðningartíma forstöðumanns KMÍ, verði einnig sett tímamörk um ráðningartíma ráðgjafa, sem sumir hverjir hafa starfað óslitið í áraraðir, jafnvel meira en áratug. Slíkt hlýtur að teljast óeðlilegt og á sér ekki hliðstæðu í hinum títtnefndu löndum sem við berum okkur saman við.

Ég styð að sjálfsögðu framkomna athugasemd formanns FLH.

Með vinsemd og virðingu,

Sveinbjörn I. Baldvinsson

Handritshöfundur

Afrita slóð á umsögn

#4 Friðrik Erlingsson - 18.02.2018

Ég, undirritaður, styð og tek heilshugar undir kröfu formanns FLH um að fulltrúi félagsins sitji í Kvikmyndaráði, enda er annað óhæfa þegar horft er til mikilvægis handritshöfunda. Áhersla Kvikmyndasjóðs og Miðstöðvar hefur frá upphafi verið mest á kvikmyndina sem slíka, þ.e. niðurstöðuna eða lokapródúkt framleiðslunnar, sem átti þó upphaf sitt í huga höfundar. Það er löngu orðið tímabært að handritshöfundar fái sæti á þeim vettvangi sem þeim ber, svo rödd þeirra, áhrif og hugmyndir megi móta framtíð kvikmyndaiðnaðar á Íslandi. Það eru jú handritshöfundarnir sem eiga upphafið að því að farsæl kvikmynd verði framleidd að lokum. Hér má einnig benda á þá þumalputtareglu sem hinn alþjóðlegi kvikmyndabransi hefur sett, sem er sú, að í raun séu aðeins þrír meginhöfundar hverrar kvikmyndar: handritshöfundurinn, leikstjórinn og klipparinn. Þetta eru þau þrjú svið þar sem hver einstaklingur fyrir sig skapar og mótar verkið; hver þáttur er ekki æðri eða mikilvægari hinum, heldur standa þeir jafnfætis þegar kemur að sköpun heildarverksins.

Virðingarfyllst,

Friðrik Erlingsson, handritshöfundur að Stuttum frakka, Benjamín dúfu, Litlu lirfunni ljótu, Þór- Hetjur Valhallar, Lói-Þú flýgur aldrei einn.