Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 16.–30.8.2018

2

Í vinnslu

  • 31.8.–28.10.2018

3

Samráði lokið

  • 29.10.2018

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-105/2018

Birt: 16.8.2018

Fjöldi umsagna: 1

Drög að frumvarpi til laga

Innviðaráðuneytið

Sveitarfélög og byggðamál

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011

Niðurstöður

Ein umsögn barst, frá Bændasamtökum Íslands og Sambandi garðyrkjubænda, þar sem fagnað var þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér. Frumvarpið hefur verið lagt fram á Alþingi, sjá: https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=149&mnr=158

Málsefni

Í frumvarpsdrögunum er annars vegar lagt til að gildistími laga um svæðisbundna flutningsjöfnun verði framlengdur til ársloka 2025 og hins vegar að skilyrði flutningsjöfnunarstyrkja verði rýmkuð til að fjölga þeim framleiðendum á landsbyggðinni sem notið geta slíkra styrkja.

Nánari upplýsingar

Með setningu laga um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, sem tóku gildi 1. janúar 2012, var komið á flutningsjöfnunarstyrkjum úr ríkissjóði til að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Var markmiðið að jafna þannig flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa því við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar. Lögin giltu upphaflega til ársloka 2013 en með lögum nr. 132/2013 var gildistími þeirra framlengdur til ársloka 2020.

Flutningsjöfnunarstyrkir eru veittir vegna flutnings vöru frá styrksvæði ef framleiðslan er annaðhvort fullunnin eða hálfunnin vara, þ.e. vara sem hefur farið í gegnum ákveðið framleiðsluferli á styrksvæðinu, eða vegna flutnings til styrksvæðis á hrávöru eða hálfunninni vöru, þ.e. vöru sem vantar til að endanleg framleiðsla á vöru geti átt sér stað á styrksvæðinu. Styrkirnir eru nú einungis veittir þeim sem stunda framleiðslu sem fellur undir C-bálk í íslensku atvinnugreinaflokkuninni ÍSAT2008.

Flutningsjöfnunarstyrkir reiknast í dag sem hlutfall af flutningskostnaði, enda sé lengd ferðar ekki innan við 245 km. Þá er veittur aukinn styrkur á tilteknum svæðum sé ferð lengri en 390 km. Samanlagðir flutningsjöfnunarstyrkir til hvers framleiðanda skulu aldrei vera hærri en sem nemur 200.000 evrum á þriggja ára tímabili. Sjá má nánari umfjöllun um framkvæmd svæðisbundinnar flutningsjöfnunar á árinu 2017 í skýrslu ráðherra sem lögð var fyrir Alþingi nú í vor.

Í frumvarpinu er lagt til að gildistími laga um svæðisbundna flutningsjöfnun verði framlengdur um fimm ár eða til ársloka 2025. Þá eru lagðar til tilteknar efnislegar breytingar á skilyrðum flutningsjöfnunarstyrkja sem miða að því stækka mengi þeirra framleiðenda sem notið geta slíkra styrkja og nýta þannig betur þá fjármuni sem lagðir eru til verkefnisins í fjárlögum.

Í fyrsta lagi er lagt til að gildissvið laganna verði víkkað þannig að auk þess að taka til framleiðsluvara í C-bálki í íslensku atvinnugreinaflokkuninni ÍSAT2008 taki lögin til framleiðslu garðyrkjubænda sem rækta ávexti, blóm eða grænmeti og fullvinna framleiðslu sína í söluhæfar umbúðir, enda falli framleiðsla þeirra undir flokk 01.1, ræktun nytjajurta annarra en fjölærra, og/eða flokk 01.2, ræktun fjölærra nytjajurta, í A-bálki ÍSAT2008. Er þá miðað við að ræktun og pökkun vörunnar fari fram á sama stað þannig að í raun sé um að ræða fullvinnslu vörunnar þannig að hægt er að setja hana beint í verslanir. Er það talið sanngirnismál að þessir garðyrkjubændur séu ekki útilokaðir frá flutningsjöfnunarstyrkjum, enda uppfylli þeir jafnframt önnur skilyrði laganna.

Í öðru lagi er lagt til að lágmarksflutningsvegalengd styrkhæfrar framleiðslu verði lækkuð úr 245 km í 150 km. Það mun eðli máls samkvæmt fjölga þeim sem rétt geta átt á styrk vegna framleiðslu sinnar. Við þessa breytingu myndu þannig Húnavatnssýslur, Búðardalur og þéttbýliskjarnar á Snæfellsnesi bætast við sem styrkhæf svæði, ef miðað er við flutning til og frá höfuðborgarsvæðinu. Auk þess myndu bætast við svæði á Suðurlandi austan Skóga, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur miðað við sömu forsendur.

Í þriðja lagi er lag til að kveðið verði á um það með skýrum hætti að fari styrkhæfar umsóknir fram úr fjárveitingu ársins sé Byggðastofnun heimilt að lækka hlutfall styrkja af flutningskostnaði sem því nemur en reynist styrkhæfar umsóknir lægri en fjárveitingin megi hún hækka þetta hlutfall. Tryggir þetta bæði að þeir fjármunir sem lagðir eru til þessara styrkja séu fullnýttir og jafnframt að ekki sé farið fram úr fjárheimildum.

Um nánari umfjöllun vísast til greinargerðar með frumvarpinu. Þá er einnig vísað til skýrslu ráðherra um framkvæmd svæðisbundinnar flutningsjöfnunar á árinu 2017, sem lögð var fram á Alþingi í vor.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa sveitarfélaga og byggðamála

postur@srn.is