Samráð fyrirhugað 24.08.2018—02.09.2018
Til umsagnar 24.08.2018—02.09.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 02.09.2018
Niðurstöður birtar 11.04.2019

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr

Mál nr. 109/2018 Birt: 24.08.2018 Síðast uppfært: 11.04.2019
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Landbúnaður

Niðurstöður birtar

Frumvarp samþykkt óbreytt.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 24.08.2018–02.09.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 11.04.2019.

Málsefni

Frumvarpið felur í sér breytingu á 6. gr. laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998. Lögð er til breyting á skilyrði þess að dýralæknar í opinberum störfum skuli hafa vald á íslenskri tungu.

Frumvarpið felur í sér breytingu á 6. gr. laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998. Lagt er til að skilyrði þess að dýralæknar í opinberum störfum skuli hafa vald á íslenskri tungu sé breytt þannig að það verði ekki skilyrðislaus krafa heldur verði kveðið á um það í reglugerð í hvaða tilvikum nauðsynlegt er að dýralæknar í opinberum störfum hafi vald á íslenskri tungu. Breytingin er lögð til vegna skorts á íslenskum dýralæknum til að sinna lögbundnum verkefnum Matvælastofnunar, en umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um ráðningu erlendra dýralækna til að starfa hjá stofnuninn í máli nr. 9510/2017. Þá tekur breytingin mið af ákvæðum laga nr. 105/2014 um frjálsa atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Bændasamtök Íslands - 31.08.2018

Hjálögð er umsögn Bændasamtaka Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Ólafur Jónsson - 02.09.2018

Efni; Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr

Tilv. 2018080010

Frumvarpið var birt til umsagna 24. ágúst sl. og veittur frestur til að senda inn umsögn til og með 2. september 2018 . Héraðsdýralæknir Norðurlands eystra hefur farið yfir efni frumvarpsins og vill benda á og gera eftirfarandi athugasemdir:

Í fyrsta lagi;

Íslenskt mál var fest í lög sem opinbert tungumál á Íslandi 2011 (Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011). Samkvæmt þeim er íslenska þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi sbr. 1. gr. laganna.

Í öðru lagi;

Íslensk málnefnd hefur ítrekað ályktað um nauðsyn þess að nýbúum sé markvisst gert kleift að læra íslensku þannig að þeir aðlagist íslensku samfélagi .

Með þessari lagabreytingu er verið að ganga gegn þessum lögum og skirrast við ábendingum íslenskrar málnefndar. Þetta tel ég ámælisvert í ljósi þess að hvorki ráðuneytið né Matvælastofnun hafa unnið markvisst að því að kenna þessum erlendu dýralæknum íslensku eða sett sem skilyrði þeir læri hana.

Ólafur Jónsson

Afrita slóð á umsögn

#3 Silja Edvardsdóttir - 02.09.2018

Hjálögð er umsögn Dýralæknafélags Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Jón Kolbeinn Jónsson - 02.09.2018

Efni; Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr

Tilv. 2018080010

Frumvarpið var birt til umsagna 24. ágúst sl. og veittur frestur til að senda inn umsögn til og með 2. september 2018. Héraðsdýralæknir Norðurlands Vestra hefur farið yfir efni frumvarpsins og gerir eftirfarandi athugasemdir:

Nú er verið að gera tilslakanir varðandi kröfur til dýralækna sem eru í opinberum störfum á þá leið að íslenskukunnátta skuli ekki vera skilyrði heldur skal kveða á um það í reglugerð hvenær það sé nauðsynlegt. Þessar tilslakanir geta haft víðtæk áhrif í för með sér sem eru öll af neikvæðum toga. Nú þegar hefur hið opinbera ráðið erlenda dýralækna bæði tímabundið og til langtíma án þess að það sé gerð krafa um að viðkomandi starfsmenn hafi vald á íslenskri tungu. Þetta hefur þegar valdið auknu álagi á kollega þeirra sem geta talað eða skrifað islensku Öll upplýsingagjöf verður af mjög skornum skammti til viðskiptavina og skýrslur eru skrifaðar á erlendum tungumálum. Misskilningur vegna tungumálaörðuleika getur valdið því að heilnæmi afurða og dýraheilbrigði býður skaða af. Þetta frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr (Tilv. 2018080010) er líklegast lagt fram til þess að leysa þann vanda að ekki tekst að manna lausar stöður sem auglýstar eru hverju sinni, með dýralæknum sem hafa vald á íslenskri tungu. Lítið hefur verið gert af hálfu hins opinbera að bjóða upp á íslenskunámskeið fyrir þá dýralækna sem ekki hafa vald á íslenskri tungu og reyna að aðlaga þau að íslensku samfélagi.

Það er ýmislegt sem veldur því að störf hjá því opinbera eru frekar mönnuð með erlendum dýralæknum sem hafa ekki vald á íslensku heldur en íslenskum dýralæknum. Til dæmis er dýralæknum mismunað varðandi starfskjör eftir því hvort verið er að fá dýralækna utan Íslands eða innanlands. Erlendum dýralæknum býðst frítt, flug, gisting og fæði ef þeir koma til landsins. Ég hef bent á þann möguleika að taka megi þann kostnað sem er við að hafa erlendan dýralækni í t.d. sauðfjárslátrun og bjóða dýralæknum sem kunna íslensku þessi kjör; föst laun, flug, fæði, húsnæði og bíl til og frá svefnstað. Ég tel að fleiri myndu sækja um störf t.d. í sauðfjárslátrun ef þessi leið væri farin en hingað til hefur yfirstjórn Matvælastofnunar ekki hlustað á þessa hugmynd og þar af leiðandi hefur hún ekki komið til framkvæmda. Ég tel þessa lagabreytingu ekki leysa vanda varðandi ráðningu dýralækna sem hafa vald á íslenskri tungu til starfa hjá hinu opinbera heldur mun þetta auka á álag á þá dýralækna sem þegar eru í starfi hjá hinu opinbera, þannig að þeim mun fækka enn frekar.

Ef það er vilji til að halda íslenskum dýralæknum starfandi á Íslandi og tryggja að áfram verði töluð íslenska hjá opinberum stofnunum, hvet ég hið opinbera til þess að staldra aðeins við og hugsa áður en haldið er áfram með þetta frumvarp til laga um breytingu á lögunum. Ég hvet ykkur eindregið til þess að leita annarra lausna en lagabreytingar sem þessarar. Ég lýsi mig reiðubúinn til þess að benda á betri lausnir á þessu vandamáli heldur en þetta frumvarp.

Virðingarfyllst Jón Kolbeinn Jónsson

Viðhengi