Samráð fyrirhugað 29.08.2018—06.09.2018
Til umsagnar 29.08.2018—06.09.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 06.09.2018
Niðurstöður birtar 25.03.2019

Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum

Mál nr. 112/2018 Birt: 28.08.2018 Síðast uppfært: 25.03.2019
  • Velferðarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Niðurstöður birtar

Við vinnslu frumvarpsins var óskað sérstaklega eftir umsögn frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Vinnueftirliti ríkisins. Alls bárust ráðuneytinu fjórar umsagnir frá framangreindum aðilum. Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins kemur fram að stofnunin telji að þar sem ekki sé lengur um bráðabirgðaverkefni að ræða sé ekki unnt að fallast á að framlengja frávik frá lágmarksreglum um vinnutíma vegna þess starfsfólks sem vinnur við að aðstoða notendur NPA. Telur stofnunin sig ekki geta fallist á það að unnt sé að víkja frá lágmarksréttindum starfsmanna samkvæmt lögum nema fyrir því séu veigamikil rök, svo sem veigamiklir almannahagsmunir, en að mati stofnunarinnar hafi ekki verið sýnt fram á slíkt. Í umsögn Alþýðusambands Íslands kemur fram að sambandið taki undir umsögn Vinnueftirlits ríkisins og hafni efni frumvarpsins að höfðu samráði við Starfsgreinasamband Íslands. Enn fremur hefur BSRB upplýst ráðuneytið um að það taki undir umsögn Vinnueftirlits ríkisins sem og umsögn Alþýðusambands Íslands og styðji ekki frumvarpið. Í umsögn Bandalags háskólamanna lýsir bandalagið yfir andstöðu sinni við áframhaldandi undanþágu frá hvíldartímaákvæðum vinnuverndarlaga. Fram kemur í umsögninni að verði raunin engu að síður sú að ákvæði til bráðabirgða verði framlengt sé það skoðun bandalagsins að gildistími framlengingarinnar verði að hámarki tvö ár. Farið var yfir framangreindar umsagnir við vinnslu frumvarpsins. Ráðuneytið telur hins vegar óhjákvæmilegt annað en að framlengja að svo stöddu gildistíma umrædds ákvæðis um tvö ár enda ekki gert ráð fyrir öðru við framkvæmd þeirrar þjónustu, sem lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir gera ráð fyrir, en að unnt sé að semja um rýmri vinnutíma starfsmanna en kveðið er á um í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, í það minnsta í einhverjum tilvikum. Jafnframt þykir mikilvægt að greina hvernig unnt er að standa að framkvæmd laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir til framtíðar litið þannig að þjónusta á grundvelli laganna rúmist innan almennra reglna um vinnutíma samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þá fór frumvarpið í opið umsagnarferli í samráðsgátt Stjórnarráðsins í ágúst 2018 þar sem almenningi gafst kostur á að koma með athugasemdir við drög að frumvarpinu. Engar umsagnir bárust með þessum hætti.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 29.08.2018–06.09.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.03.2019.

Málsefni

Alþingi hefur samþykkt lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem taka gildi 1. október 2018. Í því skyni að tryggja þá þjónustu sem lögin gera ráð fyrir þannig að markmið laganna nái fram að ganga þykir nauðsynlegt að tryggja áfram í

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gildistími ákvæðis til bráðabirgða 9 í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum verði framlengdur um rúmlega þrjú ár eða til 31. desember 2021. Jafnframt er gert ráð fyrir að ákvæðinu verði breytt þannig að ekki verði lengur vísað til samstarfsverkefnis ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, heldur verði vísað til þeirrar þjónustu sem gert er ráð fyrir að verði veitt á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Að öðru leyti eru ekki lagðar til breytingar á umræddu ákvæði til bráðabirgða 9 í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum en tryggt þykir að með breytingunum verði áfram unnt að semja um frávik frá ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum hvað varðar vinnutíma þeirra starfsmanna sem veita munu þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Er þannig áfram gert ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins veiti umsögn um samkomulag sem samtök aðila vinnumarkaðarins gera á grundvelli ákvæðisins.