Samráð fyrirhugað 28.08.2018—13.09.2018
Til umsagnar 28.08.2018—13.09.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 13.09.2018
Niðurstöður birtar 07.12.2018

Tillaga til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023

Mál nr. 113/2018 Birt: 28.08.2018 Síðast uppfært: 07.12.2018
  • Utanríkisráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Utanríkismál

Niðurstöður birtar

Umsagnir úr samráðsgátt og svör utanríkisráðuneytisins

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 28.08.2018–13.09.2018. Umsagnir voru birtar í gáttinni að umsagnarfresti liðnum. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 07.12.2018.

Málsefni

Utanríkisráðuneytið óskar eftir athugasemdum eða hugmyndum almennings og annarra haghafa um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, nr. 121/2008, með síðari breytingum, skal utanríkisráðherra fimmta hvert ár leggja fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til fimm ára í senn. Stefnan sem sett er fram í þingsályktunartillögunni nær til tímabilsins 2019-2023.

Ísland styður framtíðarsýn Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og leitast við að uppfylla pólitískar, lagalegar og siðferðislegar skyldur sínar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna með virkri þátttöku í alþjóðlegri þróunarsamvinnu. Stefnt er að því að Ísland auki framlög til þróunarsamvinnu á næstu árum og að þau verði 0,35% af VÞT árið 2022. Í stefnunni er sett í öndvegi að draga úr fátækt á grundvelli jafnréttis og sjálfbærni og sérstök áhersla er lögð á berskjaldaða hópa, þar á meðal börn. Þróunarsamvinna Íslands endurspeglar jafnframt þau gildi sem íslenskt samfélag hefur í heiðri; virðingu fyrir lýðræði, mannréttindum, fjölbreytileika og umburðarlyndi, réttlæti og samstöðu. Ábyrgð, árangur og áreiðanleiki skulu höfð að leiðarljósi í öllu starfi Íslands á þessu sviði.

Í framkvæmd stefnunnar verður lögð áhersla á svið þar sem sérþekking Íslands getur nýst í baráttunni gegn fátækt og fyrir framgangi Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Unnið verður að einu yfirmarkmiði og tveimur meginmarkmiðum. Yfirmarkmið stefnunnar er að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar. Meginmarkmið lúta annars vegar að 1) uppbyggingu félagslegra innviða og starfa í þágu friðar, og hins vegar að 2) verndun jarðarinnar og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Níu undirmarkmið eru sett fram til að vinna að þessum meginmarkmiðum, og eru jafnframt þrjú þverlæg áhersluatriði sett fram í stefnunni. Þau eru mannréttindi, kynjajafnrétti og umhverfismál sem verða höfð að leiðarljósi í öllu starfi íslenskra stjórnvalda á sviði þróunarsamvinnu.

Framkvæmd stefnu fer fram í gegnum tvíhliða samstarfs- og áherslulönd og svæðasamstarf, samstarf við fjölþjóðlegar stofnanir, borgarasamtök og aðra samstarfsaðila. Unnið skal markvisst að því að sem bestur árangur náist af þróunarstarfi og að settum markmiðum verði náð.

Um nánari umfjöllun vísast til greinargerðar með þingsályktunartillögu. Umsögnum um stefnu skal skilað í samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 13. september næstkomandi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Stefán Sólmundur Kristmannsson - 10.09.2018

Ég er með tvær athugasemdir við stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019-2023. Önnur er um fiskimál en hin um samvirkni mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu.

1.

Það er mjög miður að fiskimál eru að hverfa sem sjálfstæður málaflokkur úr stefnu íslenskra stjórnvalda í þróunarsamvinnu. Fiskimál hafa frá upphafi verið meginþáttur í þróunarsamvinnu okkar við þjóðir um allan heim og hafa sannað gildi sitt og margt gott hefur af þeim leitt í samstarfslöndum okkar. Að sjálfsögðu eru Íslendingar enn framarlega í sviði fiskimála með margþætta reynslu og sérþekkingu sem ber að nýta áfram í þróunarsamvinnu.

Fiskimál eru eðlilegur þáttur í fjölmörgum Heimsmarkmiðum SÞ og fiskimál bera með sér einn helsta vaxtarmöguleika í fæðuöryggi miljóna manna, (HeimsMarkmSÞ nr. 1, 2, 3, 5, 8, 9, 13, 14). Í fiskimálum ber augljóslega að stuðla að sjálfbærri nýtingu og verndun jarðar.

Orðtakið “sjálfbær nýting sjávarauðlinda” sem er notað í skjali utanríkisráðherra, rúmast vel innan fiskimála en þetta lykilorðtak takmarkar þróunarstarf í fiskimálum almennt til að mæta þörfum meirihluta fátækra fiskimanna álfunnar og útilokar samvinnu við samstarfslönd okkar sem eru landlukt. Til dæmis er góð samsvörun á milli þarfa fiskimanna við Malavívatn og þess sem Ísland hefur fram að færa á sviði fiskimála við vatnið.

2.

Ég nefni aðeins tvö atriði sem mæla gegn samvirkni mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu. Í fyrsta lagi eru tímaskalarnir ekki þeir sömu, það fyrra mánuðir til ár, en það seinna tugur ára eða meir. Í öðru lagi eru forsendurnar alls ólíkar, mannúðaraðstoð þarf að gerast strax í óvissum kringumstæðum en þróunarsamvinnan krefst undirbúnings í góðu samkomulagi og þátttöku heimamanna. Margt fleira mætti taka til.

Afrita slóð á umsögn

#2 Arnljótur Bjarki Bergsson - 13.09.2018

Um leið og ég fagna því að Utanríkisráðuneytið hafi sett málið í samráðsferli vil ég koma á framfæri nokkrum hugmyndum í tengslum við mögulega þróun á þróunarsamstarfi Íslands til framtíðar.

Aukin áhersla á þróunarsamvinnu.

Ég tel rétt af Íslands hálfu að styðja markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki veiti sem nemur 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu og eins að Ísland færist nær því að taka mið af framangreindu markmiði SÞ sé litið til framlaga síðustu ár og stefnu um 0,35% af VÞT árið 2022. Þó framansögð stefnumörkun sé vissulega jákvæð og miði að því að koma Íslandi nær markmiðum SÞ er óljóst hvernig slík getur náðst í fyrirsjáanlegri framtíð án aðkomu atvinnulífsins. Með því að leggja saman krafta getur útkoman orðið magnaðri en ef hver starfar fyrir sig. Þá geta íslensk stjórnvöld unnið að því að Ísland nái markmiðum um umfang þróunarsamvinnu í samstarfi við atvinnulífið. Atvinnulífið hefur hlutverki að gegna við úrlausn þróunarsamstarfsverkefna, þar má hvetja fyrirtæki til að nýta möguleika til framtíðar.

Um nokkurt skeið hefur verið á öðrum vettvangi verið stefnt að því að umfang rannsókna og þróunar aukist í 3% af landsframleiðslu (VLF). Með möguleika á skattafrádrætti vegna kostnaðar við rannsókna- og þróunarverkefni virðist af hagtölum að dæma sem rannsókna og þróunarstarfsemi hafi aukist í landinu, einkum með aukinni virkni fyrirtækja á því sviði. Efling Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs eiga jafnframt þátt í þessari þróun. Svipuð skilaboð má lesa úr fréttum sem berast af auknum umsóknum um skattafrádrátt vegna rannsókna og þróunarverkefna. Vilji stjórnvalda stendur til að auka þennan möguleika fyrirtækja til aukinnar rannsókna og þróunarstarfsemi miða við aðgerðir sem lutu að því að hækka hámörk sem og áform um að afnema sömu hámörk.

• Er mögulegt að byggja á fenginni reynslu af aðgerðum til að auka rannsókna og þróunarstarf til að stuðla að aukinni virkni atvinnulífsins með fyrirtækjum í broddi fylkingar í þróunarsamstarfi?

• Væri hægt að halda utan um umsvif fyrirtækja á þessu sviði með sama hætti og fyrirtæki telja fram rannsókna og þróunarkostnað?

• Er hægt að viðurkenna kostnað fyrirtækja vegna þróunarsamstarfs og halda til haga sannarlegum kostnaði um raunveruleg þróunarsamstarfsverkefni sérstaklega aðgreindum?

Ef fyrirtækjum væri gert kleift að telja fram kostnað við þróunarsamvinnu í bókhaldi eins og þau telja fram kostnað í rannsókna og þróunarverkefnum má í það minnsta draga fram hvað fyrirtæki leggja af mörkum á þessu sviði og vonandi stuðla að því að markmið stjórnvalda um 0,35% af þjóðartekjum náist hratt og örugglega. Fyrirtæki gætu talið fram til þróunarsamvinnu sem framlög vörur eða kostnað við þjónustu sem væri liður í að þróa markaði. s.s. vöru og markaðsþróun í nýmarkaðslöndum, sendingar væru t.a.m. afhentar til viðurkenndra samstarfsaðila, eða hjálparsamtaka í ljósi samþættingar þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar, slíkt gæti stuðlað að auknum umsvifum Íslendinga á svið þróunarsamvinnu og aukið tækifæri til framtíðar á milliríkjaviðskiptum. Skoða þarf hvernig megi og að hve miklu leiti sé hægt að hvata slíka þróun, aukning í útgjöldum fyrirtækja til rannsókna og þróunar virðast hafa aukist verulega sem hlutfall af VÞT á árunum 2013 til 2016.

Verndun jarðarinnar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda.

Brýnt er að skoða gaumgæfilega hvernig Ísland geti tekið þátt í aðgerðum gegn plastmengun í hafi, rétt eins og að Ísland leggi sitt af mörkum í aðgerðum gegn allri annarri mengun í hafi sem og að sporna gegn og bregðast við til að draga úr áhrifum af súrnun sjávar.

Samstarf við fjölþjóðastofnanir

Mikilvægt er að byggja á því sambandi sem hefur skapast við stofnanir og stjórnkerfi í þróunarríkjum/nýmarkaðsríkjum við uppbyggingu getu og færni á sviði jafnréttis, jarðhita, landgræðslu og sjávarútvegs í gegnum skóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) á Íslandi, vert væri að kanna hvort auka megi samstarf við fyrirtæki sem starfa á þeim sviðum sem skólarnir kenna sig við, mögulega með aukinni áherslu hagnýt verkefni nemenda HSÞ, í framhaldi af þróun sem unnin hefur verið í það minnsta í sjávarútvegsskólanum. Slíkt má nota til að tengjast hagaðilum í heimalandi nemendanna t.d. með virku samstarfi alþjóðlegum þróunarverkefnum sem koma að heimsmarkmiðum nr. 4, 9, 14, 15 og 17. Aukin virkni HSÞ getur dregið að athygli fleiri aðila en þeirra sem fram að þessu hafa sótt skóla HSÞ á Íslandi slíkt gæti dregið nýja fjármögnunaraðila að náminu og þar með stuðlað að stærra, fjölbreyttara og mögulega sterkara tengslaneti þeirra sem námið stunda. Eins má reyna að auka samskipti milli skóla HSÞ hér á landi til að virkja tengslamyndun.

Með samstarfi við alþjóðastofnanir í Róm, sem stjórnvöld ætla að eiga nána samvinnu við, má tengja sérfræðiþekkingu Íslendinga á þeim sviðum matvælaframleiðslu hvar Íslendingar standa framarlega, svo sem við landgræðslu, nýtingu jarðvarma til matvælaframleiðslu og í sjávarútvegi með reglulegri miðlun starfsmanns þróunarsamvinnu í Róm til Íslenskra hagaðila um framvindu mála, slíkt mætti e.t.v. gera með á vettvangi „bakhóps hér á landi“. Þar má líta til þess verklags sem þróunarsamvinnuskrifstofa hefur komið á um samstarf Íslands og Alþjóðabankans á sviði jarðvarma og sjávarútvegs, enda er Alþjóðabankinn meðal þeirra fjölþjóðastofnana sem lögð er áhersla á. Eins má kanna hvort mögulegt sé að auka líkur á jákvæðum afrakstri þróunarsamvinnu með aðkomu að Hnattræna umhverfisbótasjóðnum (GEF) með sérfræðiþekkingu sem liðkað getur til fyrir heildrænum lausnum á sviði umhverfismála, sem aukið geta líkur á að heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun náist. Vera má að slík aðkoma Íslands geti fylgt fordæmum annarrar þátttöku Íslands í rannsókna og þróunarsamstarfi Evrópu ríkja.

Til að stuðla að sjálfbærum vexti þeirra eininga hér á landi sem styðja við skóla HSÞ á Íslandi, þyrftu samningar HSÞ að byggja á samskiptum fyrirtækis við fyrirtæki (HSÞ), hvort sem umsjón með námsbrautum, stundakennslu eða leiðsögn í tengslum við verkefna vinnu er að ræða. Þannig má byggja upp teymi sem koma að og efla þróunarsamstarf til frambúðar, þar má horfa til verklags sem Þróunarsamvinnuskrifstofa Utanríkisráðuneytisins viðhafði í tengslum við samstarf við Alþjóðabankann á sviði fiskimála. Vera má að það komi fyrir vegna gengisáhrifa eða annarra þátta að taxtar hjá þeim einingum sem búa yfir sérfræðiþekkingu séu hærri en það sem fæst greitt fyrir hverja unna vinnustund í tengslum við þróunarsamvinnu, mismuninn mætti e.t.v. telja fram sem framlag þeirra sem halda á sérfræðiþekkingunni til þróunarsamvinnu.

Hugleiða má eftir því sem skilningur á mikilvægi ábyrgra og sjálfbærrar auðlindanýtingar vex fiskur um hrygg í sjávarútvegi, í kjölfar siðareglna Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ um ábyrgar fiskveiðar (e. Code of Conduct) og Hafnríkisráðstafanir (e. Port State Measures) sömu stofnunar gegn ólöglegum, ótilkynntum og stjórnlausum fiskveiðum (e. IUU) þá þarf að beina athyglinni að því að gera sem mest verðmæti úr því sem fæst úr sjó, til að lágmarka álag á villta stofna og byggja undir sjálfbærni, en slíkt getur dregið úr veiðiálagi og stuðlað ennfrekar að sjálfbærni, þannig væri hægt að kanna hvort sjávarútvegsskóli HSÞ geti aukið samstarf sitt við Matís enn frekar.

Uppbygging félagslegra innviða

Meðan að unnið er að því að auka aðgengi fólks að heilnæmu vatni sbr. Heimsmarkmið nr. 6, er mikilvægt að stuðla jafnframt að bættu aðgengi að heilnæmum og öruggum matvælum sbr. heimsmarkmið 2.

Aðrir samstarfsaðilar

Eins mikilvægt og það er að draga íslenskt atvinnulíf sterkar inn í þróunarsamvinnu, þá er ekki síður mikilvægt að stuðla að öflugu atvinnulífi í samstarfslöndum Íslands. Í anda heimsmarkmiða nr. 14, 15, 11, 12, 13, 2, 1, 9 og 17 má jafnframt vinna með nýmarkaðsríkjum að uppsetningu ramma fyrir sjálfbæra auðlindanýtingu með hagnýtingu fyrirliggjandi aðgengilegra lausna með áherslu á verðmætasköpun.

Kanna mætti hvort undirbúa ætti skipulagða viðtöku nemenda frá mikilvægum nýmarkaðssvæðum, s.s. Nígeríu, inn í HSÞ til að styrkja mannauð þess lands sem við eigum í viðskiptum við með fjölgun nemenda við íslenska háskóla s.s. meistaranemenda Háskóla Íslands, Landbúnaðar Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum, og doktorsnemenda, HÍ, HR og HA í samræmi við Heimsmarkmið nr. 4. Þannig mætti virkja fleiri einingar háskólasamfélagsins til meiri þátttöku í þróunarsamvinnu.