Samráð fyrirhugað 30.08.2018—14.09.2018
Til umsagnar 30.08.2018—14.09.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 14.09.2018
Niðurstöður birtar 25.03.2019

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/1794, um farmenn.

Mál nr. 114/2018 Birt: 29.08.2018 Síðast uppfært: 25.03.2019
  • Velferðarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Niðurstöður birtar

Frumvarpið var samið í velferðarráðuneytinu í samráði við fulltrúa frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Frumvarpið var einnig sent til umsagnar til Alþýðusambands Íslands, Sjómannasambandsins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka verslunar og þjónustu sem og Félags skipstjórnarmanna. Þá fór frumvarpið í opið umsagnarferli í samráðsgátt Stjórnarráðsins í ágúst 2018 þar sem almenningi gafst kostur á að koma með athugasemdir við drög að frumvarpinu. Engin umsögn barst með þessum hætti.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 30.08.2018–14.09.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.03.2019.

Málsefni

Tilefni frumvarpsins er að gera nauðsynlegar lagabreytingar svo unnt verði að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2015/1794 frá 6. október 2015, um farmenn.

Með frumvarpsdrögum þessum er lagt til að ákvæði tilskipunar 2015/1794 verði innleidd í íslenskan rétt. Í tilskipuninni er kveðið á um breytingar á ýmsum EES-gerðum sem hafa það að markmiði að farmenn geti nýtt sér að fullu rétt sinn til sanngjarnra og réttlátra vinnuskilyrða sem og rétt til upplýsingamiðlunar og samráðs. Frumvarpsdrög þessi voru samin í velferðarráðuneytinu. Með þeim eru lagðar til breytingar á lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum, lögum um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum, lögum um hópuppsagnir og lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Alþýðusamband Íslands, Félag skipstjórnarmanna, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasambandið og Samtök verslunar og þjónustu.

Talið er að fyrirhugaðar breytingar muni hafa lítil áhrif hér á landi. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið muni fela í sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Sjá nánari umfjöllun um mat á áhrifum í greinargerð með frumvarpi og í fylgiskjali um áhrifamat.