Samráð fyrirhugað 09.10.2018—16.10.2018
Til umsagnar 09.10.2018—16.10.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 16.10.2018
Niðurstöður birtar 19.12.2018

Drög að frumvarpi til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum (Flutningur fjármuna, VRA-vottun).

Mál nr. 155/2018 Birt: 09.10.2018 Síðast uppfært: 19.12.2018
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla
  • Almanna- og réttaröryggi
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 09.10.2018–16.10.2018. Umsagnir voru birtar í gáttinni að umsagnarfresti liðnum. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 19.12.2018.

Málsefni

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tveimur efnisatriðum ákvæða tollalaga, þ.e. um skyldu til að veita upplýsingar um flutning fjármuna milli landa og um veitingu og afturköllun VRA-vottunar.

Upplýsingagjöf um flutning fjármuna.

Í 27. gr. tollalaga er fjallað um skýrslugjafir ferðamanna og farmanna. Í 2. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að ferðamenn og farmenn, sem koma til landsins frá útlöndum eða fara frá landinu til útlanda, skuli ótilkvaddir gera grein fyrir hærri fjárhæð en sem nemur 10.000 evrum, miðað við opinbert viðmiðunargengi eins og það er skráð hverju sinni, sem þeir hafa meðferðis í reiðufé eða handhafabréfum, þ.m.t. ferðatékkum.

Í þeim tilgangi að bregðast með tilhlýðilegum hætti við athugasemdum og ábendingum Fjármálaaðgerðarhópsins (FATF) frá því í apríl 2018 eru lagðar til ýmsar breytingar á 27., 162. og 172. gr. tollalaga. Nánar tiltekið eru breytingar eftirfarandi:

a. Ákvæði 2. mgr. 27. gr. laganna, um skyldu ferðamann og farmanna til að tilkynna um fjármuni, þ.e. reiðufé og handhafabréf, sem þeir hafa meðferðis við komu til landsins eða brottför frá því, verði færð í nýja grein tollalaga, 27. gr. a, þar sem kveðið verði jöfnum höndum á um sambærilega skyldu innflytjenda, útflytjanda og tollmiðlara.

b. Heimild 162. gr. laganna, til haldlagningar fjármuna sem ferðamenn eða farmenn hafa meðferðis til og frá landinu, leiki grunnur á að þeir verði notaðir við framkvæmd brots gegn refsiákvæðum almennra hegningarlaga, verði útvíkkuð þannig að hún nái einnig til fjármuna sem inn- og útflytjendur og tollmiðlarar flytja til eða frá landinu.

c. Við 172. gr. laganna, þar sem kveðið er á um refsingar vegna rangrar eða villandi upplýsingagjafar um inn- og útflutning, verði bætt ákvæði þar sem tekið verði af skarið um að það sé refsivert að láta af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi hjá líða að gera grein fyrir fjármunaflutningum eða veita rangar eða villandi upplýsingar um slíka flutninga.

Veiting og afturköllun VRA-vottunar.

Í 2. mgr. 145. gr. a. tollalaga er kveðið á um ýmis skilyrði þess að lögaðila verði veitt VRA vottun. Í 1. tölulið málsgreinarinnar er kveðið á um það óundanþæga skilyrði að umsækjandi, stjórnendur, stjórnarmenn, starfsmenn sem bera ábyrgð á tollamálum umsækjanda eða umboðsmenn hafi ekki gerst sekir um alvarleg eða ítrekuð brot gegn ákvæðum tollalaga, annarra laga sem tollstjóra ber að framfylgja eða annarra skattalaga eða stjórnvaldsfyrirmæla sem sett eru á grundvelli þeirra á síðastliðnum þremur árum áður en umsókn er lögð fram, né megi sömu aðilar, á sama tímabili, hafa gerst sekir um önnur alvarleg brot sem tengjast atvinnustarfsemi umsækjanda.

Í frumvarpinu er lagt til að skilyrðinu verði breytt. Í tillögunni felst í fyrsta lagi að kveðið verði með skýrum hætti á um að einu gildi hvort málinu hefur verið lokið með sakfelli fyrir dómi, annarri ákvörðun um sekt, beitingu stjórnsýsluviðurlaga eða sátt. Í öðru lagi felst í tillögunni að uppsetningu talningar þeirra lögbrota sem geta komið í veg fyrir veitingu VRA-vottunar verði breytt og sérstaklega tekið fram að önnur alvarleg eða ítrekuð brot sem tengjast atvinnustarfsemi umsækjanda komi í veg fyrir að unnt verði að veita lögaðila VRA-vottun svo fremi sem skemmri tími en þrjú ár séu liðin milli framlagningar umsóknar um vottun og fullframins brots. Til að tryggja fullt samræmi eru lagðar til sambærilegar breytingar á ákvæðum 2. tölul. 1. mgr. 145. gr. b. og 1. tölul. 1. mgr. 145. gr. c. tollalaga, þar sem kveðið er efnislega á um að missir skilyrða fyrir að hljóta VRA-vottun hafi þær afleiðingar að vottunin er afturkölluð tímabundið eða varanlega.

Þar sem á þykir skorta að tollstjóri hafi viðeigandi heimildir til öflunar upplýsinga til að sannreyna að skilyrði þess að hljóta VRA-vottun og halda henni er lagt til að nýrri grein verði bætt við XX. kafla tollalaga um vinnslu upplýsinga. Í nýju greininni verði kveðið með jákvæðum hætti á um heimild tollstjóra til að afla slíkra upplýsinga frá opinberum aðilum og vinna þær. Sérstaklega verði einnig tekið fram að opinberu aðilum, þ. á m. dómstólum, sýslumönnum, lögreglu, handhöfum ákæruvalds, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og stjórnsýslustofnunum sem hafa heimildir til að beita stjórnsýsluviðurlögum, sé skylt að veita tollstjóra upplýsingarnar að fenginni beiðni þar um. Ekki er um tæmandi talningu að ræða. Þá verði kveðið á um heimild tollstjóra til að upplýsa umsækjanda um VRA-vottun og viðurkenndan rekstraraðila um ástæðu þess að hann uppfyllir ekki skilyrði vottunar. Svo upplýsingagjöf tollstjóra til viðeigandi yfirvalda í þeim ríkjum sem Ísland kann að gera við gagnkvæma viðurkenningarsamninga um VRA-vottun verði viðunandi er einnig lagt til að kveðið verði á um skyldu tollstjóra til að halda úti á vefsvæði sínu lista yfir þá lögaðila sem hafa VRA-vottun og heimild tollstjóra til að miðla upplýsingum öðrum upplýsingum um þá til stjórnvalda í samningsríkjum.