Samráð fyrirhugað 12.10.2018—26.10.2018
Til umsagnar 12.10.2018—26.10.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 26.10.2018
Niðurstöður birtar 21.12.2018

Drög að reglum um styrkveitingar utanríkisráðuneytisins til félagasamtaka í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð.

Mál nr. 161/2018 Birt: 12.10.2018 Síðast uppfært: 21.12.2018
  • Utanríkisráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:

Niðurstöður birtar

Regludrögin voru birt, til umsagnar, í Samráðsgáttinni á tímabilinu 12.-26. október sl. Athugasemdir frá einum aðila bárust í Samráðsgáttina, auk þess sem athugasemdir bárust frá Rauða krossinum á Íslandi, eftir að umsagnarfresti lauk. Hefur verið brugðist við innsendum athugasemdum og verða reglurnar birtar í Stjórnartíðindum þegar þær eru fullunnar.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 12.10.2018–26.10.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 21.12.2018.

Málsefni

Óskað er umsagnar um drög að reglum um styrkveitingar utanríkisráðuneytisins til félagasamtaka í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð.

Utanríkisráðuneytið óskar eftir umsögn um drög að reglum um styrkveitingar utanríkisráðuneytisins til félagasamtaka í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð, með vísan til 6. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu nr. 121/2008, ákvæða 42. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015 og reglugerðar um styrkveitingar ráðherra nr. 642/2018. Drögin taka mið af fyrri verklagsreglum ráðuneytisins í málaflokknum sem stuðst hefur verið við síðan 2015. Í drögunum hefur þrennum verklagsreglum verið steypt saman í eitt regluverk, en skilyrði og matsviðmið fyrri verklagsreglna standa að mestu óbreytt.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Gísli Rafn Ólafsson - 18.10.2018

Mig langar að byrja á að hrósa ykkur fyrir góðar reglur. Það er frábært að sjá hvernig þessi mál hafa þróast enn frekar í rétta átt hér á landi. Hafandi verið í þessum geira í einn og hálfan áratug út um allan heim þá tel ég mikilvægt að Ísland sé í fremstu röð þegar kemur að því að gera hlutina rétt - nokkuð sem því miður er oft ábótavant í mörgum löndum.

Mig langaði að koma með eftirfarandi athugasemdir við reglurnar eins og þær eru settar fram:

1) Í reglunum er gerð krafa um að samtök séu með mannréttindi og jafnréttindi að leiðarljósi. Ég tel að með tilvísan til umræðu á undanförnu að það sé líka gerð krafa um að samtök séu með verklagsreglur (code of conduct) sem tekur á öflugum máta á kynferðislegu ofbeldi (sexual violence) í starfi sínu og að þær reglur gildi einnig um samstarfsaðila verkefna í því landi sem það er unnið. Framkvæmdastjóri ICRC lagði mikla áherslu á þetta á dögunum í ræðu sinni hér á landi og það væri gott að sjá UTN stíga fyrsta skrefið í þessa átt.

2) Ég hvet ykkur einnig til þess að gera auknar kröfur um gagnsæji. Í þessu fælist eftirfarandi:

a) Allt mat á verkefnum - umsagnir og einkunnir séu sendar á samtök svo þau geti lært hvað megi betur fara.

b) Umsóknir sem eru samþykktar til úthlutunar séu birtar opinberlega

c) Stöðuskýrslur og lokaskýrslur allra samþykktra verkefna séu birtar opinberlega

d) Öll gögn sem safnað er sem hluta af verkefnum sem eru fjármögnuð séu gerð opinber. World Bank setti þessa reglu inn fyrir nokkrum árum og hefur hún haft þá afleiðingu í för með sér að aðgengi að gögnum um hjálparstarf og þróunaraðstoð er nú mun aðgengilegri en áður. Gögn þessi er hægt að gera aðgengileg t.d. í gegnum Centre for Humanitarian Data sem UN OCHA rekur.

3) Hvati til samfélagslegrar nýsköpunnar

Ég hefði viljað sjá hvata inni í reglunum til þess að félagasamtök fari nýjar leiðir í að takast á við þau flóknu verkefni sem þau standa fram yfir. Þar er mikilvægt að slík verkefni fái aukið vægi í einkunnagjöf, en einnig að ef nýju aðferðirnar virka ekki sem skildi, þá sé samtökum ekki refsað fyrir að reyna nýsköpun, heldur sé lært af því - sem aftur tengist því að birta opinberlega allan lærdóm.

4) Hvati til samfélagslegrar þátttöku fyrirtækja

Ég hefði viljað sjá hvata inni í reglunum til þess að félagasamtök fái atvinnulífið með sér í að takast á við þau flóknu verkefni sem þau standa frami fyrir. Þá ekki einungis að fá fjármagn frá fyrirtækjum, heldur að nýta þá reynslu sem fyrirtæki og starfsfólk þess hefur til þess að leysa flókin verkefni. Það að gefa starfsfólki fyrirtækja kost á að nýta starfskrafta sína við flókin verkefni "til góðs" er ekki bara hagsmunamál fyrir félagasamtök, heldur líka nokkuð sem eykur starfsánægju innan fyrirtækja. Hafandi leitt mörg slík samstarfsverkefni innan stærstu fyrirtækja á tæknisviðinu í heiminum, þá get ég borið vitni um hvernig þetta hefur virkilega breytt hjálpar- og þróunarstarfi. Það mætti til dæmis auka vægi þessa þáttar í einkunnagjöf til þess að hvetja til svona samvinnu.

Sé frekari upplýsinga eða umsagnar óskað er ég tilbúinn að veita hana hvenær sem er.