Samráð fyrirhugað 30.10.2018—13.11.2018
Til umsagnar 30.10.2018—13.11.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 13.11.2018
Niðurstöður birtar 16.11.2018

Þjóðarsjóður, frumvarpsdrög

Mál nr. 162/2018 Birt: 15.10.2018 Síðast uppfært: 16.11.2018
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir

Niðurstöður birtar

Þær umsagnir sem bárust voru ekki þess eðlis að breyting á texta frumvarpsins kæmi til skoðunar. Í umsögn Samorku var vísað til orðalags í greinargerð um „umtalsverðar nýjar tekjur af arðgreiðslum eða auðlindaafnotagjöldum frá orkuvinnslufyrirtækjum vegna nýtingar á orkuauðlindum á forræði ríkisins“ og „auknar tekjur ríkissjóðs af nýtingu þeirra á orkuauðlindum“. Sú ályktun er dregin í umsögninni að með þessu sé gert ráð fyrir „innheimtu auðlindagjalda af orkufyrirtækjum“. Hið rétta er að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að taka upp auðlindagjöld, þ.e. skattlagningu vegna auðlindanýtingar, heldur er vísað til leigutekna og sambærilegra tekna sem gert er ráð fyrir að kunni að aukast við endurskoðun á því hvernig endurgjaldi vegna nýtingar (afnota) á auðlindum í eigu ríkisins og í þjóðlendum er háttað. Með öðrum orðum er í frumvarpinu tekið tillit til þess að í framtíðinni kunni tekjur ríkissjóðs af orkuvinnslu að færast í aðra mynd þannig að vinnslufyrirtækin fari að greiða afnotagjöld, sem mun hafa áhrif á arðgreiðslur til lækkunar.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 30.10.2018–13.11.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 16.11.2018.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp til laga um að komið verði á fót varúðarsjóði til að mæta hugsanlegum fátíðum efnahagslegum skakkaföllum s.s. vegna vistkerfisbrests eða náttúruhamfara.

Frumvarpsdrögin gera ráð fyrir að Þjóðarsjóði verði sett sérstök stjórn, sem hafi yfirumsjón með rekstri og fjárfestingum hans á erlendum fjármálamörkuðum. Framlög ríkissjóðs til sjóðsins verði jafnhá nýjum tekjum frá orkuvinnslufyrirtækjum í eigu ríkisins sem horfur eru á að falli til á komandi árum. Verði ríkissjóður fyrir verulegum fjárhagslegum skaða af völdum ófyrirséðs áfalls sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir verði heimilt með samþykki Alþingis að veita fé úr Þjóðarsjóði til ríkissjóðs, sem nemi allt að helmingi eigna sjóðsins á hverjum tíma.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Valdimar Össurarson - 05.11.2018

Sá þjóðarsjóður sem hér eru lögð drög að á lítið skylt við loforð núverandi ríkisstjórnar. Í stjórnarsáttmálanum stendur skýrum stöfum:

"Þjóðarsjóður verður stofnaður utan um arð af auðlindum landsins og byrjað á orkuauðlindinni. Hlutverk sjóðsins verður að byggja upp viðnám til að mæta fjárhagslegum áföllum. Afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verður notaður til að efla nýsköpun og ráðast í átak í uppbyggingu hjúkrunarrýma".

Fyrir liggur því loforð ríkisstjórnarinnar um að þjóðarsjóði verði m.a. ætlað að styðja nýsköpun. Ekkert slíkt er að finna í frumvarpsdrögunum. Óviðunandi er að ríkisstjórnin heykist þannig á loforðum sínum nánast um leið og þau eru gefin. Stjórnarsáttmáli á að vera trúverðugt plagg en ekki ryk sem þyrlað er í augu kjósenda

Hér virðist enn og aftur eiga að þjarma að nýsköpun í landinu, en nánast mætti ætla að stjórnvöld vilji leggja allt frumkvöðlastarf í einelti; einkum það sem stundað er utan akademíu og stórfyrirtækja. Hugvitsmenn, sem ákallaðir eru og dýrkaðir í hátíðarræðum stjórnmálamanna, eru lítilsvirtir á allan hátt og þeim gert ómögulegt að koma verkefnum sínum í not og verðmætasköpun fyrir land og þjóð. Hér tala ég af reynslu, því auk þess að hafa í áratug stundað eigið verkefni; þróun fyrstu og einu íslensku sjávarfallatækninnar, þá hef ég jafn lengi verði formaður Samtaka frumkvöðla og hugvitsmanna. Ég hef í skýrslum sett fram rökstudda gagnrýni á aðgerðir og aðgerðaleysi stjórnvalda í nýsköpunarmálum.

Stjórnvöld tóku á sig tvenns konar skuldbindingar með aðild Íslands að Parísarsáttmálanum. Annarsvegar þær að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda innanlands en hinsvegar þær sem um getur m.a. í 10.gr sáttmálans; að styðja við tækniþróun sem stuðlar að markmiðum sáttmálans um orkuskipti og minni losun á heimsvísu. Fyrrnefnda atriðið hafa stjórnvöld ávarpað lítillega með aðgerðaáætlun sinni í loftslagsmálum, en hinu atriðinu hafa þau algerlega litið framhjá. Þannig var það fyrsta verk stjórnvalda eftir undirritun sáttmálans að breyta lögum um Orkusjóð á þann hátt að hann má ekki lengur veita styrki til þróunar nýrrar orkutækni, og hefur ekki gert það síðan. Í samtölum mínum við alþingismenn hefur iðulega verið bent á stofnun þjóðarsjóðs sem stuðningsúrræðis í þessum efnum. Þau fyrirheit eru svikin með þessum frumvarpsdrögum. Engin virk stefna er í raun ríkjandi nýsköpun á sviði tækni sem styður við Parísarsáttmálans. Engin virk stefna er heldur í málefnum frumkvöðla og hugvitsmanna, og hagsmunasamtökum þeirra er markvisst haldið frá allri stefnumótun á sviði nýsköpunar.

Vissulega hlýtur það að teljast jákvætt, jafnt hjá ríkissjóði sem hverju öðru fyrirtæki, að eiga varasjóði til að mæta áföllum. Hinsvegar ber það vitni um lélegan rekstur fyrirtækis ef allar tekjur eru lagðar til hliðar í stað þess að hluti þeirra sé nýttur til að afla fyrirtækinu tekna og standa undir eðlilegum rekstri.

Þjóðarsjóður verður væntanlega að mestu myndaður af arðgreiðslum þjóðarinnar af sínum orkuauðlindum. Það hlýtur að vera sanngirniskrafa að hluti þess arðs sé nýttur til þróunar nýrrar orkutækni; tækni sem mun nýtast framtíðarkynslóðum til að nýta sér nýjar hreinar orkuauðlindir; t.d. sjávarfallaorku; langstærstu, fyrirsjáanlegustu og hreinustu orkuauðlind Íslendinga.

Ég skora því á ríkisstjórnina að standa við sín eigin fyrirheit í stjórnarsáttmálanum og nýta verulegan hluta þjóðarsjóðs til eflingar nýsköpun; ekki síst á sviði loftslagsmála og nýtingar nýrra hreinna orkuauðlinda.

Valdimar Össurarson

framkv.stjóri Valorku ehf

og formaður Samt. frumkvöðla og hugvitsmanna

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Erla Björgvinsdóttir - 13.11.2018

Vísað er til máls nr. S-162/2018 í Samráðsgáttinni, þar sem kynnt eru til umsagnar drög að frumvarpi um Þjóðarsjóð.

Landsvirkjun fagnar því að frumvarp um Þjóðarsjóð skuli vera komið fram til kynningar og lýsir ánægju sinni með að fá tækifæri til að skila inn umsögn um það. Fyrirtækið styður stofnun Þjóðarsjóðs og styður sem fyrr áform um að arðgreiðslur fyrirtækisins til eiganda síns, íslenska ríkisins, fari með þeim hætti í varúðarsjóð í eigu þjóðarinnar til að mæta umfangsmiklum ófyrirséðum efnahagslegum áföllum sem þjóðarbúið getur hugsanlega orðið fyrir í framtíðinni.

Á undanförnum misserum hefur Landsvirkjun bent á að arðgreiðslugeta fyrirtækisins muni aukast á næstu árum. Fyrirtækið hefur lagt mikla áherslu á lækkun skulda síðastliðin ár með góðum árangri og eiginfjárhlutfallið hefur aldrei verið hærra í sögu þess. Fyrirtækið hefur nýlega lokið við byggingu á tveimur nýjum aflstöðvum, Þeistareykjastöð og Búrfellsstöð II, og Búðarhálsstöð var gangsett 2014. Þessar þrjár virkjanir hafa lagt grunn að styrkari og öruggari tekjustofnum fyrirtækisins. Jafnframt hafa nýir viðskiptavinir hafið rekstur og endursamið hefur verið við eldri viðskiptavini. Stoðir Landsvirkjunar hafa því verið að styrkjast og áætlanir gefa til kynna að rekstur haldi áfram að batna. Síðastliðin ár hefur fyrirtækið greitt eiganda sínum 1,5 milljarð króna árlega í arðgreiðslur. Með sterkari efnahag, minni framkvæmdum og tryggu sjóðstreymi eru nú forsendur til að auka arðgreiðslur. Miðað við núverandi áætlanir er stefnt er að því að arðgreiðslur geti hækkað í skrefum og náð á nokkrum árum upp í 10-20 milljarða króna á ári.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eignir sjóðsins verði varðveittar og ávaxtaðar í erlendum gjaldmiðlum og í greinargerð með frumvarpinu er fjallað um að kanna megi þann möguleika við arðgreiðslur að þær verði að hluta til í erlendri mynt. Uppgjörsmynt Landsvirkjunar er Bandaríkjadalur og eru tekjur fyrirtækisins að stærstum hluta í þeirri mynt. Það gæti því farið vel að arðgreiðslur Landsvirkjunar verði í Bandaríkjadal en ekki í íslenskum krónum eins og verið hefur hingað til.

Ísland hefur fullgilt Parísarssamning Sameinuðu þjóðanna og skuldbundið sig til að leggja sitt af mörkum til að markmiðum samningsins um að takmarka áhrif loftslagbreytinga verði náð. Ísland er eitt af fáum löndum í heiminum sem vinna allt sitt rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum og mun Þjóðarsjóður, meðal annars með arðgreiðslum Landsvirkjunar, því byggja á tekjum af endurnýjanlegum orkuauðlindum sem eru á forræði ríkisins. Í því geta falist mikil tækifæri.

Að lokum vill Landsvirkjun ítreka stuðning sinn við stofnun Þjóðarsjóðs. Fyrirtækið er að sjálfsögðu reiðubúið til að veita upplýsingar og aðstoða stjórnvöld við frekari undirbúning málsins verði eftir því leitað.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Baldur Dýrfjörð - 13.11.2018

Hjálögð er umsögn Samorku - samtaka orku- og veitufyrirtækja um mál nr. S-162/2018 um þjóðarsjóð.

f.h. Samorku

Baldur Dýrfjörð lögfræðingur

Viðhengi