Samráð fyrirhugað 15.10.2018—12.11.2018
Til umsagnar 15.10.2018—12.11.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 12.11.2018
Niðurstöður birtar 29.11.2018

Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, með síðari breytingum (tjáningarfrelsi og þagnarskylda)

Mál nr. 165/2018 Birt: 15.10.2018 Síðast uppfært: 29.11.2018
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál
  • Æðsta stjórnsýsla

Niðurstöður birtar

Ein umsögn barst á samráðstímanum, frá utanríkisráðuneyti. Þar var í upphafi tekið fram að ráðuneytið hefði í hyggju að koma á framfæri ítarlegri umsögn síðar. Því næst var vikið að ákvæðum frumvarpsins um trúnaðarflokkun upplýsinga og þagnarskylduákvæðum í lagabálkum er heyra undir utanríkisráðuneyti. Efni frumvarpsins kalli á að gaumgæft verði hvort þörf sé á að fjalla skýrar um trúnaðarskuldbindingar sem felast í alþjóðasamningum og samskipti vegna samstarfs og samskipta við alþjóðleg félagasamtök líkt og Alþjóðaráð Rauða Krossins. Þá virðist eina tilgreinda trúnaðarstigið („trúnaðarmál“) ekki í samræmi við núgildandi flokkun í reglugerð um vernd trúnaðarupplýsinga, öryggisvottanir og öryggisviðurkenningar á sviði öryggis- og varnarmála. Loks sé umhugsunarefni hvort nægjanlegt sé að vísa einvörðungu til 136. og 141. gr. almennra hegningarlaga varðandi brot á þagnarskyldu. Sum brot geti verið mjög alvarleg og rétt geti verið að vísa sérstaklega til ákvæða almennra hegningarlaga um landráð. Utanríkisráðuneytið kom frekari skýringum á umsögn sinni á framfæri símleiðis. Meðal þeirra breytinga sem gerðar voru á frumvarpinu í tilefni af athugasemdum utanríkisráðuneytis má nefna að orðalagi var breytt á þann veg að í stað þess að rætt sé um að auðkenna upplýsingar sem trúnaðarmál er nú notað almennara orðalag, þ.e. að upplýsingar séu trúnaðarmerktar. Trúnaðarmerktar upplýsingar geta skipst í nokkra flokka, en „trúnaðarmál“ er hins vegar einn þeirra trúnaðarflokka sem mælt er fyrir um í samningi aðila að Norður-Atlantshafssamningnum um upplýsingaöryggi. Breytingunni er því ætlað að fyrirbyggja hugtakarugling að þessu leyti. Þá var fallist á með utanríkisráðuneyti að nauðsynlegt sé að mæla fyrir um heimildir til að gera lögaðilum fésektir skv. 42. og 47. gr. frumvarpsins, enda kann oft að vera erfitt eða jafnvel ómögulegt að rekja brot á þagnarskyldu til einstakra starfsmanna lögaðila sem annast þjónustu við borgara á vegum stjórnvalda. Loks voru gerðar breytingar á skýringum við einstök ákvæði frumvarpsins og m.a. áréttað að samskipti við Alþjóðaráð Rauða Krossins geti fallið undir 2. tölul. 1. mgr. 42. gr. og að ákvæði almennra hegningarlaga um landráð gildi áfram um miðlun upplýsinga sem uppfyllir að öðru leyti skilyrði 91. og 92. gr. þeirra laga.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 15.10.2018–12.11.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 29.11.2018.

Málsefni

Með frumvarpinu er lagt til að settar verði skýrar reglur um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna í sérstökum kafla sem bætist við stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Þann 16. mars 2018 skipaði forsætisráðherra nefnd um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Var nefndinni m.a. falið að vinna frekar afurðir stýrihóps sem skipaður var í kjölfar þingsályktunar nr. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Þá skyldi nefndin fara yfir fyrirliggjandi tillögur á þessu sviði, auk þess að meta hverjar aðrar lagabreytingar kunni að vera æskilegar. Gert var ráð fyrir því að nefndin skili einkum af sér í formi lagafrumvarpa og eftir atvikum annarra undirbúningsskjala lagasetningar. Var henni falið að skila af sér í tveimur skrefum. Þannig skyldi tilteknum þáttum lokið fyrir 1. október 2018 en öðrum fyrir 1. mars 2019. Þann 26. september 2018 skilaði nefndin af sér fyrri hluta vinnu sinnar. Meðal afurðanna var frumvarp til laga um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna.

Með frumvarpinu er lagt til að settar verði skýrar reglur um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna í sérstökum kafla sem bætist við stjórnsýslulög nr. 37/1993. Markmiðið er að kveða á um að meginreglan sé sú að opinberir starfsmenn njóti tjáningarfrelsis. Það verði aðeins takmarkað þegar þörf krefur og þá samkvæmt skýrum og fyrirsjáanlegum lagaákvæðum. Frumvarpið hefur einnig að geyma nýmæli um það hvenær stjórnvöldum er heimilt að miðla persónuupplýsingum sem þagnarskylda ríkir um til annarra stjórnvalda.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Helga Hauksdóttir - 12.11.2018

Meðfylgjandi er umsögn utanríkisráðuneytisins, dags. 12. nóvember 2018, um frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, með síðari breytingum (tjáningarfrelsi og þagnarskylda), mál S-165/2018.

Viðhengi