Samráð fyrirhugað 17.10.2018—24.10.2018
Til umsagnar 17.10.2018—24.10.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 24.10.2018
Niðurstöður birtar 15.04.2019

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007

Mál nr. 170/2018 Birt: 17.10.2018 Síðast uppfært: 15.04.2019
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Ferðaþjónusta

Niðurstöður birtar

Frumvarpsdrögin voru kynnt í samráðsgátt Stjórnarráðsins þann 17. október 2018 í samræmi við 2. mgr. 9. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar. Alls bárust tólf umsagnir. Umsagnaraðilar voru meðal annars Samband íslenskra sveitarfélaga, Sýslumannafélag Íslands, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á Vestfjörðum og sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra. Einnig bárust umsagnir frá Samtökum fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu og Viðskiptaráði Íslands. Þá funduðu fulltrúar ráðuneytisins með dómsmálaráðuneytinu og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu eftir að samráðstíma lauk og við endanlegan frágang frumvarpsins. Almennt voru umsagnir mjög jákvæðar og tillögum um bætt eftirlit og skýrari ramma um gististarfsemi vel tekið. Þó bárust ábendingar frá umsagnaraðilum sem töldu ýmist gengið of langt eða skammt í breytingartillögum frumvarpsins.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.10.2018–24.10.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 15.04.2019.

Málsefni

Ferðamálaráðherra leggur til breytingar á lagaákvæðum sem varða heimagistingu og eftirlit með henni.

Í frumvarpinu eru lagðar til þrenns konar breytingar sem allar varða starfssvið Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu varðandi eftirlit með heimagistingu. Í fyrsta lagi varðandi skráningu heimagistingar og í öðru lagi varðandi samræmingu á málsmeðferð og ákvörðun sekta milli skráningarskyldra og rekstrarleyfisskyldra aðila vegna leyfisskyldrar gististarfsemi annars vegar og skráningarskyldrar heimagistingar hins vegar. Í þriðja lagi er lögð til breyting varðandi eftirlit með skilum á nýtingaryfirlitum einstaklinga sem leigja út húsnæði sitt og skrá undir heimagistingu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Skúli Gautason - 19.10.2018

Ég tel að það þurfi að hafa ofurlítinn sveigjanleika eða vikmörk við beitingu þessara laga, þar sem þær aðstæður geta komið upp að bókanir breytast eftir að 90 daga hámarki er náð og fari þannig yfir hámarkið.

Til samanburðar má minna á að við útdeilingu hraðasekta viðhefur lögreglan það verklag að draga 3% vikmörk frá mældum hraða þannig að á vegi þar sem hámarkshraði er 90 km/klst er ekki sektað fyrir brot þar sem menn eru mældir undir 94 km/klst.

Dæmi um hvernig þetta getur komið til: Gestur A bókar gistingu í gegn um AirBnB á tilteknar dagsetningar. Þær gistinætur eru innan 90 daga markanna. Eftir að þær hafa verið samþykktar og greiddar í gegnum AirBnB breytast ferðaplönin og gestur A biður um að dagsetningum sé breytt. Þær dagsetningar sem hann fer fram á rúmast ekki innan 90 daga markanna. Gestgjafinn á þá aðeins um tvennt að velja, að samþykkja breytinguna og fara þar með yfir 90 daga hámarkið eða synja um breytingu, en það er mjög illa séð hjá AirBnB, gestgjafinn er krafinn um skýringar, hann færist neðar á vinsældalistann eða hann jafnvel beittur sektum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Guðmundur Árni Ólafsson - 23.10.2018

Góðan daginn,

Vegna frumvarps um lagabreytingar á heimagistingu þá langar mig til að benda á einn hlut sem ég tel að mismuni leigjendum.

Samkvæmt tölum frá hagstofu þá telur leigumarkaðurinn allt að 35.000 heimili og fjölgaði heimilum á leigumarkaði um 71% á árunum 2005 - 2014.

Rúmlega 8.500 leigusamningar voru þinglýstir á árinu 2016.

Það er löngu vitað að það er almenn óánægja á leigumarkaði og við lok árs 2015 þá sögðust einungist 10.4 % leigjenda vera á leigumarkaði af því að þeir vilja vera þar, samanborið við 18.9% áratug á undan.

Ég tel að þessi lagabreyting muni hafa enn verri áhrif á leigumarkaðinn og að enn færri verði ánægðir með það að vera á leigumarkaði.

Það skref að leyfa aðeins þinglýstum eigendum að selja heimagistingu á heimilum sínum er mismunun við þá sem eru á leigumarkaði og hafa í dag fullan rétt á að selja gistingu í heimilum sínum í 90 nætur eða þéna allt að 2 milljónir króna á almanaksári. (svo lengi sem að það brjóti ekki leigusamninga)

Ég tel þau rök að sýslumaður hafi séð mörg atvik þar sem einstaklingur A færir lögheimili sitt í fasteign B og sólarhring seinna sé fasteign B skráð í heimagistingu á lögheimili A, ekki forsenda til að mismuna öllum þeim þúsundum heimila sem eru í leiguhúsnæði að vera með heimagistingu á sínum heimilum.

virðingafyllst

Guðmundur Árni

Afrita slóð á umsögn

#3 Hermann Guðmundsson - 23.10.2018

Með breytingunni um að ,,skráning heimagistingar verði bundin við þinglýst eignarhald og lögheimili'' er verið að mismuna fólki á leigumarkaði.

Tækifæri fólks á leigumarkaði til þess að afla sér smá aukinna tekna er því ekki til staðar á meðan eigendur fasteigna hafa einir tækifæri til þess.

Ég tel að lögin sem eru nú þegar til staðar gæti jafnræðis milli fólks á leigumarkaði og eiganda fasteigna til útleigu í heimagistingu.

Yrði þetta frumvarp að lögum er ljóst að um skýra mismunun væri að ræða.

Afrita slóð á umsögn

#4 Samband íslenskra sveitarfélaga - 23.10.2018

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, með síðari breytingum.

Virðingarfyllst,

f.h. sambandsins,

Vigdís Häsler

lögmaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Kristófer Oliversson - 23.10.2018

FHG - Fyrirtæki í hótel og gistiþjónustu

Reykjavík, 22. október 2018

Varðar: Frv. til brt. á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007

Samtök fyrirtæka í hótel- og gistiþjónustu (FHG) fagna tækifærinu til að fá að gera athugasemdir við frumvarpið á samráðsgáttinni. FHG telja þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu mikilvægt skref í rétta átt, en telja ástæðu til að ganga lengra varðandi suma þætti þess til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Tillögur frumvarpsins

Meginefni frumvarpsins lúta annars vegar að því að skerpa á skráningu heimagistingar og eftirliti sýslumanns með skilum á nýtingarhlutföllum í tengslum við heimagistingu og hins vegar að samræmdri málsmeðferð einstaklinga og fyrirtækja gagnvart brotum á lögunum sem varða sektum.

A. Heimagisting

i) Skráning

Tillaga um breytingu á 3. gr. frumvarpsins gengur út á að tryggja að hvort sem verið sé að leigja þá eign sem lögheimili er skráð á eða "hina" fasteign viðkomandi sé þinglýst eignarhald beggja skilyrði fyrir skráningu leyfis. Eftir slíka breytingu mundu viðkomandi málsliðir 3. gr. laganna hljóða svo:

“Heimagisting er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings eða í einni annarri fasteign sem hann hefur til persónulegra nota. Þinglýst eignarhald er jafnframt skilyrði skráningar heimagistingar.”

Í greinargerð frumvarpsdraganna kemur fram að markmið ákvæðisins sé að koma í veg fyrir "gervilögheimilisskráningar" til að fullnægja skilyrðum til útleigu í heimagistingu. FHG fagna þessari tillögu, sem miðar að því að færa framkvæmd heimagistingar meira í samræmi við anda lagabreytingarinnar frá 2016.

FHG telja þó ástæðu til að ganga lengra. Þannig telja samtökin að reglan um 2 fasteignir og reglan um 90 daga útleigutíma vinna gegn megintilgangi laganna, að styðja deilihagkerfið með því að veita hinum almenna borgara kost á að leigja út eign sína til skemmri tíma. Þannig hefur reglan um heimild til að leigja út aðra fasteign dregið verulega úr framboði á eignum í útleigu til lengri tíma og hækkað leiguverð þar sem framboð hefur ekki mætt eftirspurn. Sums staðar á landsbyggðinni hefur þetta nánast snúist uppí öndverðu sína, þar sem allt laust húsnæði er frátekið fyrir skammtímaleigu, húsnæði sem annars gæti nýst aðkomufólki sem leitar starfa í bæjarfélaginu. Þá var m.a. bent á í greinargerð frumvarpsins sem varð að lögum nr. 67/2016 að með tveggja eigna reglunni sé m.a. verið að koma til móts við þá sem eiga sumarhús samhliða eigin húsnæði. Þar er horft fram hjá því að víða í frístundabyggðum er slík starfsemi að verða vaxandi vandamál. Loks er ástæða til að nefna það ónæði sem nágrannar verða fyrir, ekki síst að næturlagi vegna komu og brottfarar leigjenda í heimagistingu. Slíkt er fyrst og fremst vandamál í þeim eignum sem eru mikilli útleigu þar sem um aðra fasteign er að ræða.

Að mati FHG er eðlilegt að afmarka skráningu heimagistingar samkvæmt lögunum við eina fasteign og að hámarks leigutímabil á ári miði við einn mánuð, sem er hefðbundið orlofstímabil vinnandi fólks. FHG leggja því til að 1. gr. frumvarpsins orðist svo:

2. og 3. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:

Heimagisting er gisting gegn endurgjaldi á lögheimili einstaklings sem hann hefur til persónulegra nota og er í þinglýstri eigu hans. Fjöldi útleigðra daga í heimagistingu skal ekki fara yfir 30 daga á hverju almanaksári eða samanlagðar tekjur af leigu eignarinnar skulu ekki nema hærri fjárhæð en kveðið er á um í 3. tölul. 4. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

ii) Eftirlit

Frumvarpsdrögin gera ráð fyrir sérstakri heimild til að leggja stjórnvaldssektir á þá aðila sem ekki skila upplýsingum um leigða daga og leigutekjur í heimagistingu á sínum vegum yfir árið. FHG telja það mikilvæga breytingu og til þess fallna að upplýsingar um heimagistingu skili sér betur en verið hefur.

B. Samræmd málsmeðferð

Frumvarpsdrögin gera tillögu um að málsmeðferð í tengslum við beitingu sekta vegna heimagistingar og annarra rekstrarleyfa til gistingar verði samræmd. Þannig verði í báðum tilvikum heimild til stjórnvaldssekta. FHG fagna því, enda einfalt og skilvirkt úrræði.

Horft til framtíðar

FHG telja skráningu og úthlutun leyfa vegna gistiþjónustu betur komna hjá Ferðamálastofu en sýslumönnum. Samkvæmt lögum um skipan ferðamála nr. 73/2005 þá er hlutverk Ferðamálastofu m.a. útgáfa leyfa og skráning á starfsemi á sviði ferðaþjónustu. Þannig er þegar komin sérhæfing við leyfisveitingar vegna ferðaþjónustu hjá stofnuninni og liggur best við að gistiþjónustan falli þar einnig undir. Í tengslum við slíka yfirfærslu yrði þá einnig tryggt að einfaldara verði en nú er að fletta upp aðilum innan ólíkra flokka gististaða. Einnig þyrfti að tryggja betur en nú er að birt séu úthlutuð númer leyfis, en í opinberri skrá á vefnum syslumenn.is er í dag hvergi að finna slík leyfisnúmer.

Þá er æskilegt að huga að því að eftirliti með leyfisskyldri starfsemi verði breytt. FHG teldu skynsamlegt að fara sambærilega leið og gildir um t.d. ökutæki, þ.e. einkaaðilum væri falið að halda utanum slíkt eftirlit. Til að undirbyggja það mætti t.d. skylda leyfisaðila til að taka upp vottað gæðakerfi sem eftirlitsaðila bæri að fyljast með hvort væri til staðar. Einnig mætti sjá slíkt fyrirkomulag svipað og í tilviki Samgöngustofu, sem gefur út skoðunarhandbók ökutækja. Þannig gæfi Ferðamálastofa (ef leyfisveitingar færu þangað) út skoðunarhandbók gististaða.

Loks velta FHG því upp hvort ástæða gæti verið til að skilja lögin í sundur, þ.e. hafa sérlög um gistiþjónustu, enda hún orðin stór atvinnugrein á Íslandi.

Virðingarfyllst,

Kristófer Oliversson

formaður FHG

Afrita slóð á umsögn

#6 Gunnar Þór Gestsson - 23.10.2018

Ég tel að það þurfi að taka tillit til þeirra sem leigja íbúðir og vilja nýta sér leyfi til heimagistingar.

Legg til að þinglýstur leigusamningur hafi jafnt vægi á við eignarhald í þessum lögum.

Afrita slóð á umsögn

#7 Elín Ruth Reed - 23.10.2018

Gerð er athugasemd við 10. gr. laga nr. 85/2007.

Greinargerð

1. Inngangur

Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 sem nú er í umsagnar- og samráðsferli eru lagðar til þrenns konar breytingar sem allar varða starfssvið Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, sem jafnframt er leyfisveitandi rekstrarleyfa. Ein breytingin snýr að samræmingu á málsmeðferð og ákvörðun sekta milli skráningarskyldra og rekstrarleyfisskyldra aðila vegna leyfisskyldrar gististarfsemi. Neðangreind athugasemd snýr að því ósamræmi sem finna má í lögum um mannvirki og laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

2. Tilefni athugasemdarinnar

Eftir breytingu á reglugerð nr. 1277/2016 með reglugerðum nr. 649/2018 og nr. 686/2018 er ekki lengur gerð krafa um að allir gististaðir utan heimagistingar skuli vera starfræktir í atvinnuhúsnæði en krafan þótti of takmarkandi út frá ráðstöfunarrétti fasteigna í eigu einstaklinga og lögaðila, eins og fram kom í fréttatilkynningu á vef stjórnarráðsins 27. júní 2018.

Þessi athugasemd er sett fram í kjölfar 1. gr. reglugerðar nr. 649/2018, sem felldi brott 2. málsl. 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1277/2016. Athugasemdin er sett fram til að benda á að kröfur 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 þurfi að vera í samræmi við 1. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 og ennfremur svo að lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald skarist ekki á við lög um mannvirki. Bent er á að byggingar- og mannvirkjamál er víðtækur málaflokkur sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og fer mannvirkjastofnun með yfirumsjón hans í umboði ráðuneytisins. Ekki er heppilegt að til staðar séu ákvæði í lögum sem sett eru um málaflokk sem er á forræði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem kveða á um með óbeinum hætti hvenær byggingarleyfa er þörf, í ljósi þess að sá málaflokkur er snýr að byggingar- og mannvirkjamálum er ekki á forræði ráðuneytisins. Enn óheppilegra er að slík ákvæði sem finna má í lögum nr. 85/2007 stangist á við ákvæði sem sett eru fram í lögum og reglugerðum um byggingar- og mannvirkjamál og eru á forræði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Í 10. gr. laga nr. 85/2007 er fjallað um umsóknarferli við útgáfu rekstrarleyfa.

Athugasemdin er sett fram svo umsóknir um rekstrarleyfi gististaða í þegar samþykktu íbúðarhúsnæði fái þá meðferð hjá leyfisveitanda sem samræmist lögum nr. 160/2010 og reglugerð nr. 112/2012. Sú grein í lögum nr. 85/2007 sem athugasemd er gerð við hér hefur valdið ruglingi í framkvæmd þar sem greinin gerir kröfu um að leyfisveitanda beri að leita umsagnar hjá byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags til staðfestingar á byggingarfræðilegum atriðum sem hefur þá þegar hlotið samþykki hans með þegar gerðum stjórnsýsluákvörðunum. Í framkvæmd hefur leyfisveitandi óskað eftir umsögn byggingarfulltrúa líkt og farið er fram á í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 en byggingarfulltrúi afgreiðir beiðni leyfisveitanda sem byggingarleyfisumsókn. Því má finna ákvæði í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 sem segja til um með óbeinum hætti að allir rekstrarleyfisskyldir gististaðir séu jafnframt byggingarleyfisskyldir. Krafan um byggingarleyfi á að sjálfsögðu við í mörgum tilfellum enda má finna sérákvæði um mannvirki sem ætluð eru til tiltekins reksturs í reglugerð nr. 112/2012. Í mörgum tilfellum á krafan hins vegar ekki rétt á sér.

3. Meginefni athugasemdarinnar

Eins og áður hefur komið fram þá hefur 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 valdið þó nokkrum ruglingi í framkvæmd og þá sérstaklega þegar um er að ræða umsóknir um rekstrarleyfi gististaða af tegund „Minna gistiheimili“ í samþykktu íbúðarhúsnæði sem er jafnframt nýtt sem einkaheimili umsækjanda. Ekki eru gerðar auknar kröfur til slíks húsnæðis í þeim tilfellum, hvorki í reglugerðum nr. 112/2012 og nr. 1277/2016 né heldur í lögum nr. 160/2010, nr. 75/2000 eða nr. 85/2007. Krafan sem sett er fram í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 hefur verið framkvæmd á þá vegu að leyfisveitandi leitar eftir umsögn byggingarfulltrúa í hvert sinn sem sótt er um rekstrarleyfi til sölu á gistingu óháð flokki og tegund gististaðar að undanskyldum flokki I, enda er sá flokkur ekki rekstrarleyfisskyldur. Byggingarfulltrúi gefur aðeins umsögn til leyfisveitanda útfrá niðurstöðu byggingarleyfisumsóknar. Krafa um byggingarleyfi á við í mörgum tilfellum en hún á hins vegar ekki við þegar kemur að umsóknum um rekstrarleyfi fyrir rekstri gististaða af tegund „Minna gistiheimili“ samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, í þegar samþykktu íbúðarhúsnæði sem einnig er nýtt sem einkaheimili umsækjanda. Slík krafa í lögum nr. 85/2007 hefur valdið ruglingi í framkvæmd eins og áður sagði og stangast m.a. á við ákvæði um „breytta notkun“ í 9. gr. laga nr. 160/2010.

Þar sem byggingarfulltrúi gefur leyfisveitanda aðeins umsögn útfrá byggingarleyfisumsókn um „breytta notkun“ þá er 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 að beina umsækjendum um rekstrarleyfi í þá átt að fá samþykkt byggingarleyfi fyrir sinni starfsemi. Eins og fyrr segir þá á þetta við í mörgum tilfellum en í tilfelli rekstrarleyfa fyrir gististaði af tegund „Minna gistiheimili“ í þegar samþykktu íbúðarhúsnæði sem einnig er nýtt sem einkaheimili umsækjanda, þá stangast sú krafa á við 9. gr. laga nr. 160/2010 ásamt 2.3.1. gr. reglugerðar nr. 112/2012 sem unnin er útfrá þeim lögum. Ofangreind tilfelli eru því ekki byggingarleyfisskyld.

Í c)-lið 4. gr. reglugerðar nr. 1277/2016 kemur fram að „Minna gistiheimili“ flokkast sem sá staður þar sem leigð eru út 5 eða færri herbergi eða hefur rými fyrir 10 einstaklinga eða færri. Jafnframt kemur fram að slík gisting getur verið gisting á einkaheimili. Í þeim tilfellum þegar eigendur íbúðarhúsnæðis leigja út 5 eða færri herbergi eða hafa rými fyrir 10 einstaklinga eða færri í fleiri en 90 daga á ári þá er um að ræða gististað í flokki II af tegund „Minna gistiheimili“. Slík útleiga er rekstrarleyfisskyld og getur verið á einkaheimili samkvæmt reglugerð nr. 1277/2016. Þau mörk sem sett eru á fjölda herbergja og gesta og sett eru fram í skilgreiningu á „Minna gistiheimili“ í reglugerð nr. 1277/2016 eru í góðu samræmi við reglugerð nr. 112/2012.

Þegar leyfisveitanda berast umsóknir um rekstrarleyfi fyrir gististaði af tegund „Minna gistiheimili“ í þegar samþykktu íbúðarhúsnæði þá er, samkvæmt byggingarreglugerð og leiðbeiningarblöðum mannvirkjastofnunar, ekki þörf á byggingarleyfisumsókn og lokaúttekt henni til samræmis. Ekki eru gerðar auknar kröfur til slíks húsnæðis vegna slíkrar starfsemi í reglugerð nr. 1277/2016 enda felur reglugerðarheimild laga nr. 85/2007 ekki í sér slíka heimild. Ekki eru gerðar auknar kröfur til slíks húsnæðis umfram þær kröfur sem gerðar eru til íbúðarhúsnæðis almennt í reglugerð nr. 112/2012 sem unnin er útfrá lögum nr. 160/2010 og m.t.t. ákvæða í lögum nr. 75/2000. Þegar gestafjöldi í þegar samþykktu íbúðarhúsnæði fer ekki yfir 10 manns er ekki um að ræða breytta notkun á slíku húsnæði hvorki í byggingarfræðilegum né brunatæknilegum skilningi. Slíkt húsnæði hefur nú þegar verið samþykkt af byggingarfulltrúa sem íbúðarhúsnæði og lokaúttekt hefur þá þegar farið fram. Ef fjöldi gesta fer umfram 10 þá er um breytta notkun að ræða enda eru gerðar auknar kröfur til eldvarna umfram þær sem gerðar eru til íbúðarhúsnæðis í reglugerð nr. 112/2012 þegar fjöldi gesta er 10 eða færri.

Skorað er á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að leita umsagnar/samráðs mannvirkjastofnunar vegna þessara athugasemdar. Mannvirkjastofnun getur upplýst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið um að ekki séu gerðar auknar kröfur til gististaða af tegund „Heimagisting“ og „Minna gistiheimili“ í þegar samþykktu íbúðarhúsnæði útfrá lögum nr. 160/2010 og reglugerð nr. 112/2012 enda er ekki um að ræða breytta notkun á íbúðarhúsnæði útfrá byggingarfræðilegu og brunatæknilegu tilliti. Þ.a.l. er ekki krafist byggingarleyfis vegna breyttrar notkunar samkvæmt 2.3.1. gr. reglugerðar nr. 112/2012 og kemur það skýrt fram í leiðbeiningarblaði mannvirkjastofnunar við þá grein og birt er á vefsíðu stofnunarinnar.

Í tilfelli eldra íbúðarhúsnæðis, samþykkt á tímum eldri reglugerða, þá getur slökkvilið farið fram á, á grundvelli rekstrarleyfis fyrir rekstri gististaða af tegund „Minna gistiheimili“ í þegar samþykktu íbúðarhúsnæði, að brunavarnir séu uppfærðar m.t.t. núgildandi byggingarreglugerðar. Slíkt getur, eftir atvikum, haft í för með sér byggingarleyfisskyldar framkvæmdir og í þeim tilfellum ber að sækja um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum.

4. Tillaga að breytingu:

Skorað er á atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið að bæta í frumvarpið tillögu að breytingu á 4. mgr. 10. gr. laganna og bæta þar með úr þeim annmörkum sem finna má í lögunum sem snýr að umsóknarferli rekstrarleyfa fyrir gististaði í þegar samþykktu íbúðarhúsnæði þar sem gestafjöldi er undir þeim viðmiðum sem sett eru fram í byggingarreglugerð. Þegar húsnæði hefur fengið samþykki byggingarfulltrúa sem íbúðarhúsnæði þá felur það sjálfkrafa í sér heimild, í byggingarfræðilegu og brunatæknilegu tilliti, fyrir gestafjölda allt að 10 manns. Í þeim tilfellum sem gestafjöldi fer ekki yfir 10 manns í samþykktu íbúðarhúsnæði þá er rekstur gistingar eingöngu skipulags-, eldvarna og hollustuháttarmál. Skipulagsfulltrúi getur gefið neikvæða umsögn vegna umsóknar um rekstrarleyfi útfrá skipulagssjónarmiðum, slökkvilið vegna ófullnægjandi eldvarna og heilbrigðiseftirlit vegna ákvæða um hollustuhætti.

Gerð er sú tillaga að umsóknarferli vegna rekstrarleyfa fyrir gististaði sem fjallað er um í lögum nr. 85/2007 samræmist ákvæðum laga nr. 160/2010 og reglugerðar 112/2012 sem unnin er útfrá þeim lögum. Þar sem jákvæð umsögn slökkviliðs þarf alltaf að liggja fyrir við útgáfu rekstrarleyfis og þar sem slökkvilið tekur húsnæði aðeins út eftir samþykktum raunteikningum þá er gerð sú tillaga að eftirfarandi rati í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007:

Sé um að ræða umsókn um rekstrarleyfi gististaðar í þegar samþykktu íbúðarhúsnæði, fer leyfisveitandi ekki fram á umsögn byggingarfulltrúa nema fjöldi gesta fari yfir þau viðmið sem gerð eru til fjölda gesta í íbúðarhúsnæði og sett eru fram í gildandi byggingarreglugerð. Gerð er krafa um jákvæða umsögn skipulagsfulltrúa, slökkviliðs og heilbrigðiseftirlits.

Virðingarfyllst,

Elín Ruth Reed

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu - 24.10.2018

Hjálagt sendist umsögn Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, með síðari breytingum.

Virðingarfyllst,

f.h. Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

Sigurður G. Hafstað, ftr

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Bjarni G Stefánsson - 24.10.2018

Í viðhengi fylgir umsögn Sýslumannsins á Norðurlandi vestra vegna máls nr. S-170/2018, drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Sýslumannafélag Íslands - 24.10.2018

Sýslumannafélag Íslands leggur áherslu á að samráðs verði leitað við sýslumannsembætti á landsbyggðinni, sem eru átta talsins, áður en ráðagerðum þeim sem frumvarpið boðar, er fram haldið.

Öll embætti sýslumanna eru útgefendur rekstrarleyfa og býr starfsfólk þeirra yfir staðarþekkingu og umtalsverðri reynslu, sem mun án efa verða að gagni við frekari umfjöllun um málið. Auk þess er á vettvangi embættanna starfandi sameiginlegt fagráð um leyfisveitingar, sem meðal annars hefur komið að samningu reglugerðar við lögin og þekkir vel til vandamála sem komið hafa upp varðandi eftirlit skv. lögunum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Viðskiptaráð Íslands - 24.10.2018

Meðfylgjandi er umsögn Viðskiptaráðs Íslands um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Jónas Guðmundsson - 24.10.2018

Hér með fylgir umsögn neðanskráðs sem formanns fagráðs sýslumanna um leyfisveitingar og sýslumanns á Vestfjörðum, dags í dag, í máli nr. S-170/2018, sem varðar drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Ísafirði, 24. október 2018,

Jónas Guðmundsson

Viðhengi