Samráð fyrirhugað 31.08.2018—14.09.2018
Til umsagnar 31.08.2018—14.09.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 14.09.2018
Niðurstöður birtar 25.03.2019

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum (framlag í lífeyrissjóði)

Mál nr. 117/2018 Birt: 31.08.2018 Síðast uppfært: 25.03.2019
  • Velferðarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Niðurstöður birtar

Frumvarp þetta var samið í velferðarráðuneytinu í kjölfar samkomulags Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem tók að fullu gildi 1. júlí 2018. Óskað var sérstaklega eftir umsögn frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun. Frumvarpið fór í opið umsagnarferli í samráðsgátt Stjórnarráðsins í september 2018 þar sem almenningi gafst kostur á að koma á framfæri athugasemdum við drög að frumvarpinu. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur meðal annars fram að samtökin telji ófært að löggjafinn breyti ákvæðum ýmissa sérlaga um iðgjald til lífeyrissjóða á sama tíma og ekki hafi verið gerðar breytingar á almennum lögum um lífeyrissjóði og frumvarp þess efnis liggi ekki fyrir. Með því sé byrjað á röngum enda að mati samtakanna. Þá telja samtökin að forsenda hækkunar í þeim lögum sem hér um ræðir sé að lögbundið lágmarksiðgjald til sjóðanna sé komið í 15,5%. Þess ber að geta að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið undir framangreind sjónarmið Samtaka atvinnulífsins. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur meðal annars fram að sambandið telji lögfestingu frumvarpsins til þess fallna að stuðla að bættum lífeyrisrétti þeirra einstaklinga sem fá greiðslur á grundvelli viðkomandi laga, til jafns við almennt launafólk. Að mati sambandsins sé hins vegar ekki rökrétt að frumvarp um þetta efni verði lagt fram á Alþingi nema jafnframt verði lagt fram frumvarp um breytingar á almennu framlagi vinnuveitenda í lífeyrissjóði. Verði ekki annað séð en að forsenda hækkunar í því frumvarpi sem hér sé til umsagnar sé að lögbundið iðgjald til sjóðanna sé komið í 15,5%, sbr. 2. gr. laga nr. 129/1997. Þá kemur fram að sambandið árétti jafnframt þá afstöðu sína að samþykkt frumvarpsins dragi ekki úr áformaðri lækkun tryggingagjalds. Fram kemur í umsögn BSRB að samtökin styðji framgang málsins. Þrátt fyrir framangreinda afstöðu Samtaka atvinnulífsins og Sambands íslenskra sveitar-félaga þykir mikilvægt að leggja til þær breytingar á lögum sem frumvarpið gerir ráð fyrir með það að markmiði að takmarka eins og unnt er þá röskun sem kann að verða á öflun lífeyrisréttinda launafólks sem nýtir rétt sinn til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna atvinnumissis, Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs og ríkissjóði vegna umönnunar langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða vegna líffæragjafar.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 31.08.2018–14.09.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.03.2019.

Málsefni

Hækkun á mótframlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs og ríkissjóðs til lífeyrisjóða sem og á greiðslum Ábyrgðasjóðs launa til lífeyrissjóða.

Með frumvarpsdrögum þessum er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, hvað varðar mótframlag Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs og ríkissjóðs í lífeyrissjóði fyrir þá einstaklinga sem nýta rétt sinn til greiðslna á grundvelli framangreindra laga. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um Ábyrgðasjóð launa þannig að ábyrgð sjóðsins hækki vegna krafna lífeyrissjóða um lífeyrisiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á ábyrgðartímabili samkvæmt lögunum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samband íslenskra sveitarfélaga - 13.09.2018

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um ofangreint frumvarp.

F.h. sambandsins,

Guðjón Bragason

Viðhengi