Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 31.8.–14.9.2018

2

Í vinnslu

  • 15.9.2018–24.3.2019

3

Samráði lokið

  • 25.3.2019

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-117/2018

Birt: 31.8.2018

Fjöldi umsagna: 1

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vinnumarkaður og atvinnuleysi

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum (framlag í lífeyrissjóði)

Niðurstöður

Frumvarp þetta var samið í velferðarráðuneytinu í kjölfar samkomulags Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem tók að fullu gildi 1. júlí 2018. Óskað var sérstaklega eftir umsögn frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun. Frumvarpið fór í opið umsagnarferli í samráðsgátt Stjórnarráðsins í september 2018 þar sem almenningi gafst kostur á að koma á framfæri athugasemdum við drög að frumvarpinu. Í umsögn Samtaka atvinnulífsins kemur meðal annars fram að samtökin telji ófært að löggjafinn breyti ákvæðum ýmissa sérlaga um iðgjald til lífeyrissjóða á sama tíma og ekki hafi verið gerðar breytingar á almennum lögum um lífeyrissjóði og frumvarp þess efnis liggi ekki fyrir. Með því sé byrjað á röngum enda að mati samtakanna. Þá telja samtökin að forsenda hækkunar í þeim lögum sem hér um ræðir sé að lögbundið lágmarksiðgjald til sjóðanna sé komið í 15,5%. Þess ber að geta að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur tekið undir framangreind sjónarmið Samtaka atvinnulífsins. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur meðal annars fram að sambandið telji lögfestingu frumvarpsins til þess fallna að stuðla að bættum lífeyrisrétti þeirra einstaklinga sem fá greiðslur á grundvelli viðkomandi laga, til jafns við almennt launafólk. Að mati sambandsins sé hins vegar ekki rökrétt að frumvarp um þetta efni verði lagt fram á Alþingi nema jafnframt verði lagt fram frumvarp um breytingar á almennu framlagi vinnuveitenda í lífeyrissjóði. Verði ekki annað séð en að forsenda hækkunar í því frumvarpi sem hér sé til umsagnar sé að lögbundið iðgjald til sjóðanna sé komið í 15,5%, sbr. 2. gr. laga nr. 129/1997. Þá kemur fram að sambandið árétti jafnframt þá afstöðu sína að samþykkt frumvarpsins dragi ekki úr áformaðri lækkun tryggingagjalds. Fram kemur í umsögn BSRB að samtökin styðji framgang málsins. Þrátt fyrir framangreinda afstöðu Samtaka atvinnulífsins og Sambands íslenskra sveitar-félaga þykir mikilvægt að leggja til þær breytingar á lögum sem frumvarpið gerir ráð fyrir með það að markmiði að takmarka eins og unnt er þá röskun sem kann að verða á öflun lífeyrisréttinda launafólks sem nýtir rétt sinn til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna atvinnumissis, Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingarorlofs og ríkissjóði vegna umönnunar langveikra eða alvarlega fatlaðra barna eða vegna líffæragjafar.

Málsefni

Hækkun á mótframlagi Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs og ríkissjóðs til lífeyrisjóða sem og á greiðslum Ábyrgðasjóðs launa til lífeyrissjóða.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpsdrögum þessum er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og lögum um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, hvað varðar mótframlag Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs og ríkissjóðs í lífeyrissjóði fyrir þá einstaklinga sem nýta rétt sinn til greiðslna á grundvelli framangreindra laga. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um Ábyrgðasjóð launa þannig að ábyrgð sjóðsins hækki vegna krafna lífeyrissjóða um lífeyrisiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á ábyrgðartímabili samkvæmt lögunum.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa lífskjara og vinnumála

postur@vel.is