Samráð fyrirhugað 17.10.2018—31.10.2018
Til umsagnar 17.10.2018—31.10.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 31.10.2018
Niðurstöður birtar 05.03.2019

Drög að skýrslu um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins

Mál nr. 171/2018 Birt: 17.10.2018 Síðast uppfært: 05.03.2019
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Reynt var að taka tillit þeirra athugasemda sem fram komu í umsögnum og var lokaskýrslan send í þýðingu í nóvember 2018. Skýrslan er aðgengileg á vef dómsmálaráðuneytisins.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.10.2018–31.10.2018. Umsagnir voru birtar í gáttinni að umsagnarfresti liðnum. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 05.03.2019.

Málsefni

Óskað er eftir umsögnum og ábendingum um drög að skýrslu Íslands um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (barnasáttmálann).

Í samræmi við 44. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (barnasáttmálann) hefur íslenska ríkið tekið saman þessi drög að skýrslu um framkvæmd barnasáttmálans. Drögin voru unnin af vinnuhópi sem skipaður var í apríl 2018 og samanstendur af fulltrúum frá dómsmálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og utanríkisráðherra. Vinnuhópurinn átti auk þess samráð við stýrihóp Stjórnarráðsins um mannréttindi, þar sem sitja fulltrúar allra ráðuneyta.

Við gerð skýrslunnar var tekið mið af leiðbeiningum nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá árinu 2015, en samkvæmt þeim má skýrslan ekki vera meira en 21.200 orð. Skýrslan tekur til áranna 2009-2018, en leitast er við að gefa sem réttasta mynd af því hvernig barnasáttmálanum hefur verið framfylgt á því tímabili og hvernig tekið hefur verið tillit til lokaathugasemda nefndarinnar til Íslands frá árinu 2011 (vísað er til þeirra eftir númerum).

Leitast hefur verið við að eiga víðtækt samráð við gerð skýrslunnar. Upplýsingar um fyrirhugaða skýrslugerð voru birtar á samráðsgáttinni í maí og þar gafst öllum kostur á að senda inn umsagnir. Þá var haldinn opinn samráðsfundur í maí 2018 með ýmsum hagsmunaaðilum, þar sem aðilum gafst kostur á að koma með athugasemdir um það sem fram ætti að koma í skýrslunni. Þá er nú kallað eftir frekari umsögnum og ábendingum um efni skýrslunnar, en jafnframt eru hagsmunaaðilar hvattir til þess að senda svokallaðar skuggaskýrslur til nefndarinnar, sjá nánar hér: https://www.ohchr.org/EN/HRBodies/CRC/Pages/InfoPartners.aspx.

Sjónarmið barna skipta miklu máli þegar framkvæmd barnasáttmálans er metin. Var því haldinn sérstakur samráðsfundur í maí 2018 með börnum á aldrinum 10-18 ára með aðstoð sérfræðings í þátttöku barna, þar sem staða sáttmálans á Íslandi og réttindi barna voru rædd. Loks var sendur út spurningarlisti til barna, m.a. til ungmennaráða sveitarfélaga, þar sem óskað var eftir svörum við nokkrum spurningum sem varða framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi. Reynt hefur verið að taka tillit til athugasemda í drögunum, en auk þess mun sérstök skýrsla með skilaboðum frá börnum vera send sem viðauki við skýrsluna. Barnaskýrslan er einnig aðgengileg hér á samráðsgáttinni.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Ásta Friðjónsdóttir - 30.10.2018

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að mannéttindamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Aðildarfélög að samtökunum eru rúmlega 20 með um 6000 félögum.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja á þessu stigi koma eftirfarandi atriðum á framfæri varðandi skýrsludrögin sem samtökin telja mjög mikilvægt að hlutaðeigandi stjórnvöld líti sérstaklega við gerð skýrslunnar.

Íslenska ríki fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða öll ákvæði samningsins og framfylgja þeim.

Í samningnum er lögð mjög mikil áhersla á skyldur stjórnvalda til samráðs við fatlað fólk, þ.m.t. fötluð börn og samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þeirra. Í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. (Undirstr. Þroskahjálpar)

Í 7. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Fötluð börn, segir:

1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.

2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.

3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika. (Undirstr. Þroskahjálpar)

Í 23. gr. samnings SÞ um réttindi barnsins eru sérstök ákvæði sem varða fötluð börn og skyldur stjórnvalda gagnvart þeim. Greinin hljóðar svo:

1. Aðildarríki viðurkenna að andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu.

2. Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það.

3. Með tilliti til hinna sérstöku þarfa fatlaðs barns skal aðstoð samkvæmt 2. tölul. þessarar greinar veitt ókeypis þegar unnt er, með hliðsjón af efnahag foreldra eða annarra sem hafa á hendi umönnun þess, og skal hún miðuð við að tryggt sé að fatlaða barnið hafi í raun aðgang að og njóti menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum.

4. Aðildarríki skulu í anda alþjóðlegrar samvinnu stuðla að því að skipst sé á viðeigandi upplýsingum um fyrirbyggjandi heilsugæslu og læknisfræðilega, sálfræðilega og starfræna meðferð fatlaðra barna, þ. á m. með dreifingu á og aðgangi að upplýsingum um endurhæfingaraðferðir, menntun og atvinnuhjálp, er miði að því að gera aðildarríkjum kleift að bæta getu sína og færni og auka reynslu sína að þessu leyti. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarlanda.

Landssamtökin Þroskahjálp telja augljóst að þegar íslensk stjórnvöld meta stöðu barna á Íslandi m.t.t. mannréttinda þeirra almennt og sérstaklega samkvæmt samningi SÞ um réttindi barnsins hljóti þau jafnframt að hafa mjög mikla hliðsjón af ákvæðum samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks almennt og sérstaklega þeirra ákvæða sem lúta að réttindum fatlaðra barna og skyldum stjórnvalda gagnvart þeim.

Í því samhengi benda samtökin á að fötluð börn eru ekki aðeins berskjölduð vegna aldurs síns, heldur einnig vegna fötlunar sinnar og er því þegar um fötluð börn er að ræða um tvær mögulegar mismununarástæður að ræða sem teljast hvor um sig vera mannréttindabrot í skilningi laga og fjölþjóðlegra samninga. Þegar um er að ræða fötluð börn af erlendum uppruna (innflytjendur, hælisleitendur, flóttafólk) bætist við þriðja mögulega mismununarástæðan, þ.e. uppruni, sem einnig er brot gegn mannréttindum. Það er því sérstök ástæða til og skylda á stjórnvöldum að líta sérstaklega að aðstæðum þessara hópa við gerð skýrslu varðandi mannréttindi barna og hafa mikið samráð við þá sem best þekkja til stöðunnar þeirra hér á landi.

Þá vilja samtökin benda á að mjög skortir á markvissa söfnun og vandaða úrvinnslu og miðlun áreiðanlegra gagna og upplýsinga varðandi stöðu fatlaðra barna á Íslandi. Má í því sambandi t.a.m. nefna upplýsingar varðandi vistun fatlaðra barna utan heimilis og stöðu fatlaðra barna af erlendum uppruna.

Þjónusta við fötluð börn er að mestu á ábyrgð og verksviði sveitarfélaga og skortir verulega á að ríkið haldi uppi nægilega burðugu og skilvirku eftirliti með að þau þurfi ekki að þola mismunun á grundvelli búsetu.

Tækifæri fatlaðra ungmenna til náms eru mun einhæfari og minni en ungmenna almennt hér á landi en það er að sjálfsögðu alvarleg mismunun hvað varðar menntun og þar með atvinnu mörg önnur tækifæri í lífinu og samfélaginu sem mjög ráðast af menntun fólks.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa eindregnum vilja og áhuga til að taka virkan þátt í samráði við stjórnvöld um gerð þessara mikilvægu skýrslu. Samtökin gera einnig ráð fyrir að þau muni skila skuggaskýrslu til eftirlitsnefndar með samningi SÞ um réttindi barnsins.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Lúðvík Júlíusson - 31.10.2018

Meðfylgjandi er umsögn mín um skýrslu um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Viðhengi