Samráð fyrirhugað 22.10.2018—05.11.2018
Til umsagnar 22.10.2018—05.11.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 05.11.2018
Niðurstöður birtar 27.12.2019

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla og lögum um meðferð sakamála (birting dóma og myndatökur í dómhúsum)

Mál nr. 173/2018 Birt: 22.10.2018 Síðast uppfært: 27.12.2019
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Dómstólar

Niðurstöður birtar

Frumvarpið fór til frekari skoðunar í ráðuneytinu.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 22.10.2018–05.11.2018. Umsagnir voru birtar í gáttinni að umsagnarfresti liðnum. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 27.12.2019.

Málsefni

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á gildandi reglum um birtingu dóma. Jafnframt er lagt til að dómstólasýslunni verði heimilt að setja reglur um myndatökur og hljóðritun í dómhúsum.

Undanfarin misseri hefur mikil umræða verið í íslensku samfélagi um birtingu dóma á vefnum. Í þeim efnum hefur sérstaklega verið gagnrýnt að ekki sé nægilega gætt að persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Markmið og tilgangur frumvarps þessa er bregðast við framkominni gagnrýni og tryggja að staðinn sé vörður um friðhelgi einkalífs og persónuvernd við birtingu dóma með setningu skýrra og samræmdra reglna þar um. Þá er lagt til að dómstólasýslunni verði heimilt að setja reglur um myndatökur og hljóðritun í dómhúsum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Erna Björt Árnadóttir - 22.10.2018

Ég vil benda á að líkt og reglurnar eru núna hjá dómstólasýslunni þá skal gæta nafnleyndar um dómfellda ef að það er gegn hagsmunum brotaþola að nafn hans birtist. Þá skal einnig gæta nafnleyndar um alla aðra en dómfelldan í sakamálum og dómfelldi á að ári liðnu rétt á því að nafn sitt verði afmáð úr dómum.

Verði það endurstkoðað að birta dóma í kynferðisbrotamálum eða málum er varðar ofbeldi í nánu sambandi/gegn börnum þá þyrfti að taka afgerandi af skarið með það að lýsingar skuli ekki birtar enda nægilegt að fram komi í dómum að um sé að ræða kynferðisbrot og heimfærslan.

Þá vil ég einnig benda á að nokkur ár eru síðan vefsíða héraðsdómstólanna var fjarlægð úr leitarstreng google og birtast því ekki niðrustöður um dóma þegar leitað er eftir nafni. Þetta hefur haldið sér með nýrri síðu.

Ég fagna því að settar verði reglur um myndatökur í dómhúsum þar sem ágangur fréttamanna getur verið íþyngjandi fyrir ákærðan og aðra viðstadda í dómhúsinu.

Afrita slóð á umsögn

#2 Jóhannes Eddi Sigmarsson - 22.10.2018

Líst mjög vel á þetta mál.

Afrita slóð á umsögn

#3 Barnaheill,félag - 05.11.2018

Umsögn Barnaheilla – Save the Children á Íslandi um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dómstóla og lögum um meðferð sakamála (birting dóma og myndatökur í dómhúsum)

Barnaheill – Save the Children á Íslandi veita ofangreindu máli eftirfarandi umsögn:

Barnaheill fagna áformum í tillögum þeim sem hér birtast um að tryggja að staðinn sé vörður um friðhelgi einkalífs og persónuvernd við birtingu dóma, með setningu skýrra reglna þar um, eins og segir í frumvarpinu. Hvað varðar birtingu útdrátta úr dómum sem varða málefni barna og mála sem tengjast börnum með beinum hætti, er afar brýnt að afmá öll persónugreinanleg atriði, svo ekki sé hægt að bera kennsl á barn og/eða fjölskyldu þess. Það á að vera vel gerlegt án þess að réttarframkvæmd beri skaða af. Jafnvel má segja að stíga þurfi það stóra skref að birta slíka dóma aldrei frá hérðaðsdómstólunum. Barnaheill sjá ekki tilefni til að gera greinarmun á birtingu dóma héraðsdómstólanna annars vegar og Landsréttar og Hæstaréttar hins vegar að því leyti, eins og gert er í frumvarpinu.

Réttur barna til friðhelgi einkalífs er varinn í 71. gr. stjórnarskrár og í 16. gr. Barnasáttmálans. Þannig njóta börn sérstakrar verndar. Eins og bent er á í frumvarpinu hafa úrlausnir dómstóla verið birtir rafrænt frá árinu 1999. Undanfarna áratugi hafa á heimasíðum dómstólanna verið birtar mjög viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar um fólk, þ.á m. börn, í andstöðu við mannréttindi þeirra og alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins, eins og m.a. umboðsmaður barna hefur ítrekað bent á í ársskýrslum og umsögnum um lagafrumvörp.

Að mati samtakanna er raunin sú að börn sem hafa verið beitt ofbeldi, og mál þeirra af þeim sökum ratað til dómstóla, hafa upplifað endurtekið ofbeldi við birtingu dómanna. Það felst í því að birtar hafa verið ítarlegar persónugreinanlegar lýsingar á því ofbeldi sem þau hafa verið beitt, iðulega af nákomnum. Að sama skapi liggja einnig úti á heimasíðum dómstólanna ítarlegar persónugreinanlegar félags- og heilsufarsupplýsingar um börn í skaðabótamálum, s.s. þegar börn hafa orðið fyrir skaða í fæðingu, iðulega með nafni móður og barns. Á það er ekki minnst í frumvarpinu, þ.e. slíka birtingu viðkvæmra upplýsinga í skaðabótamálum.

Það er mat Barnaheilla að nauðsynlegt er að árétta í lögum að nafnleyndar skuli einnig ávallt gætt við birtingu dóma í skaðabótamálum. Telja verður að verndahagsmunir aðila að einkarétti ættu þannig að njóta aukinnar verndar og jafn mikilvægt að birta ekki dóma í skaðabótamálum sem varða börn, eins og dóma í kynferðisbrotamálum.

Börn sem lenda með viðkvæm mál sín fyrir dómstólum, þ.á m. vegna heilsufars, njóta núna ekki réttar til að gleymast. Fyrirliggjandi frumvarpsdrög mæta því ekki, þ.e. hvað varðar þá dóma sem þegar hafa verið birtir.

Barnaheill telja að fara þurfi fram nánari athugun á verndarhagsmunum og greining á persónuverndarbrotum gegn börnum sem birt eru í dómasafni dómstólanna og einkarekna dómasafninu Fons Juris ehf. sem dreifir áfram dómum dómstólanna gegn greiðslu.

Það hefur vakið athygli Barnaheilla að þrátt fyrir úrskurði Persónuverndar frá árinu 2017 um ólögmætar birtingar persónuupplýsinga í dómum og afmáningu upplýsinga í þeim tilvikum af heimasíðum dómstólanna virðist engin umræða eða aðgerðir hafa átt sér stað til að afmá sambærilegar upplýsingar í öðrum dómsúrlausnum á heimasíðum dómstólanna. Það er áhyggjuefni hve nýja Dómstólasýslan virðist vera í veikri stöðu gagnvart dómstólunum að halda þeim til ábyrgðar og tryggja að farið sé að núgildandi lögum og reglum dómstólanna við birtingu dóma. Þá hafa leiðréttingar sem gerðar hafa verið á heimasíðum dómstólanna ekki ratað í einkarekna gagnagrunninn Fons Juris ehf. Ekki verður betur séð en að nauðsyn beri til að fara í gagngera skoðun á dómasafninu sem liggur úti á heimasíðum dómstólanna.

Fréttastofa RÚV fjallaði þann 6. júní sl. um ólögmæta birtingu Landsréttar á viðkvæmum persónugreinanlegum upplýsingu í dómi sem kveðinn var upp 18. maí sl. í mjög viðkvæmu barnaverndarmáli, í máli nr. 35/2018. Í kjölfarið var dómurinn tekinn út af heimasíðu Landsréttar en Fons Juris ehf. hélt áfram að að dreifa honum óbreyttum í gagnasafni fyrirtækisins. Börnin í þessu máli og öðrum eru, ólíkt fullorðnum, algerlega varnarlaus því ekki verður séð að nokkur, s.s. réttargæslumenn þeirra eða umboðsmaður barna, sé í stöðu til að verja rétt þeirra, hvað þá fara fram á skaðabætur. Í því sambandi verður að hafa í huga að ríkið viðurkenndi nýverið bótaskyldu gagnvart fullorðnum einstaklingi vegna ólögmætra dómabirtinga.

Eins og ráða má af framangreindum athugasemdum telja Barnaheill þessi frumvarpsdrög skref í rétt átt en það er að mati samtakanna tímabært og þarft að setja samræmdar reglur um að birta ekki dóma sem varða málefni barna í heild sinni. Hitt er ekki síður aðkallandi mannréttindamál barna að hlutast til um stöðvun núverandi dreifingar á viðkvæmum persónugreinanlegum upplýsingum um börn á heimasíðum dómstólanna og einkafyrirtækisins Fons Juris ehf. Sömuleiðis ber að skoða bótarétt þeirra. Að mati Barnaheilla kemur a.m.k. tvennt til greina til að bregðast við þessari lagaeyðu; að lögfesta málsóknarrétt umboðsmanns barna eða annars opinbers aðila til sækja bætur fyrir hönd viðkomandi einstaklinga eða lögfesta bætur þeim til handa.

Barnaheill taka fúslega þátt í frekara samráði um málið og telja raunar að farsælt yrði að víkka út samráðshópinn sem unnið hefur að þessum málum með dómsmálaráðuneytinu og kalla til fleiri sérfræðinga en eingöngu úr réttarvörslukerfinu. Þá sakna Barnaheill umfjöllunar um hvernig þessum málum er háttað á hinum Norðurlöndunum.

Barnaheill standa vörð um réttindi barna og hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Ríkisútvarpið ohf. - 05.11.2018

Umsögn um drög að frumvarpi til laga

Ríkisútvarpið ohf. leggst gegn breytingum sem lagðar eru til í drögum að frumvarpi um breytingu á lögum um dómstóla nr. 50/2016 og lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Verði frumvarpsdrögin óbreytt að lögum mun það hafa neikvæð áhrif á getu fjölmiðla til að rækja lýðræðislegt hlutverk sitt og veita dómstólum aðhald, getu til að upplýsa almenning um þróun í réttarframkvæmd (t.a.m. í kynferðisbrotamálum) og möguleika til að fjalla með gagnrýnum hætti ýmist um frambjóðendur til opinberra embætta sem og annarra sem sinna störfum þar sem bakgrunnskönnun telst nauðsynleg.

Um nauðsyn lagasetningar segir í greinargerð að Persónuvernd hafi kveðið upp úrskurði um að opinber birting viðkvæmra persónuupplýsinga í dómum hafi ekki samrýmst reglum um persónuvernd. Bregðast þurfi við því og tryggja að staðinn verði vörður um friðhelgi einkalífs og persónuvernd. Í fyrsta málinu sem vísað er til voru birtar heilbrigðisupplýsingar í dómi á vef héraðsdómstóla. Sá dómur féll árið 2013. Í úrskurðu Persónuverndar segir að með breytingum á lögum um meðferð sakamála sem tóku gildi 1. ágúst 2015 er fjallað um útgáfu héraðsdóma og hvaða upplýsingar er heimilt og óheimilt að birta. Auk þess sé dómstólaráði falið að setja nánari reglur um hvaða dómar skuli ekki gefnir út og hvernig standa skuli að brottnámi upplýsinga úr öðrum dómum. Ekki fæst því betur séð en að nú þegar sé búið að taka á þeim atriðum sem komu til skoðunar í þessum tiltekna úrskurði Persónuverndar og fylgi dómstólar þessum lagaákvæðum sé þetta tilefni lagasetningar ekki lengur til staðar.

Telji löggjafinn þrátt fyrir þetta ástæðu til að endurskoða reglur um birtingu dóma er að mati Ríkisútvarpsins allt of langt gengið samkvæmt þessum frumvarpsdrögum með því að hætta birtingu fjölmargra dóma og með því að birta ekki nöfn í enn fleiri dómum.

Með 1. mgr. 1. gr. frumvarpsdragana er lagt til að þeir héraðsdómar sem varða viðkvæm persónuleg málefni aðila verði ekki birtir. Þar er meðal annars átt við málefni er varða lögræði, sifjar og erfðir, málefni barna og mál er varða ofbeldi í nánum samböndum, nálgunarbann og kynferðisbrotamál. Með því að hætta að birta dóma er varða ofbeldi í samböndum, nálgunarbann og kynferðisbrotamál er vegið að réttaröryggi borgaranna. Fjölmiðlar hafa mikilvægt hlutverk við að veita dómstólum og öðrum stjórnvöldum aðhald. Með því að hætta að birta dóma í fjölmörgum málaflokkum, ekki síst í málaflokkum sem sífellt eru í deiglunni líkt og kynferðisofbeldi er, er verulega vegið að forvarnarhlutverki fjölmðila í þeim málaflokkum.

Þá er lagt til að fari mál sem varða viðkvæm persónuleg málefni til meðferðar Landsréttar eða Hæstaréttar verði eingöngu birtur útdráttur úr dómi, sem og dómi héraðsdóms, þar sem fram kemur á hverju niðurstaðan er byggð. Þessar breytingar virðast eiga sér fyrirmynd á Norðurlöndunum þar sem dómar eru almennt ekki birtir í heild sinni á heimasíðum dómstóla. Í þessu samhengi má þó benda á umfjöllun Eyrúnar Ingadóttur um birtingu dóma í Lögmannablaðinu, 3. tölublaði 2013, þar sem fram kemur að í Danmörku hafi fjölmiðlar beinan aðgang að dómum í gegnum vefgátt í 14 daga eftir birtingu þeirra, þó dómarnir séu ekki birtir opinberlega. Fyrirkomulagið er ekki ósvipað í Noregi, segir í umfjölluninni. Með því að takmarka birtingu dóma án þess að tryggja aðgengi fjölmiðla að þeim verður réttarkerfið mun ógegnsærra en í þeim löndum sem Ísland ber sig gjarnan saman við.

Með 1. mgr. 1. gr. frumvarpsdragana er jafnframt lagt til að gætt skuli nafnleyndar um alla þá sem tilgreindir eru í dómum og úrskurðum í sakamálum, þar með talið hinn sakfellda. Einnig skal gæta nafnleyndar í dómum og úrskurðum í einkamálum ef ástæða er til. Í greinargerð segir að eitt eigi yfir alla að ganga og því eigi að afmá nöfn allra þeirra sem koma við sögu í sakamálum. Vandséð er hvers vegna brotaþolar og ákærðir brotamenn eiga að njóta sömu réttinda að þessu leyti og enn síður hvers vegna hætta á allri birtingu nafna í sakamálum en ekki í einkamálum. Samkvæmt þeim reglum sem gilda í dag skal gæta nafnleyndar við birtingu dóma um aðra en ákærða (nema í undantekningatilfellum) og gæta skal nafnleyndar aðila og vitna í einkamálum. Þessar reglur tóku gildi fyrir fáum árum og ekki fæst séð að fram hafi komið skýr rök fyrir því að hverfa frá þeirri reglu.

Með frumvarpinu er einnig lagt til að dómstólasýslunni verði heimilað setja reglur um heimild til myndatöku og hljóðritunar í húsnæði héraðsdómstólanna, Landsréttar og Hæstaréttar. Gjalda skal varhug við því að þrengt verði að möguleikum fjölmiðla til að fjalla um viðamikil og fréttnæm dómsmál. Ekki fæst séð að fjölmiðlar hafi misnotað það frelsi sem þeir hafa haft til að flytja fréttir af dómsmálum hingað til og sama gildir um myndatökur og hljóðupptökur í dómshúsum. Slíkar upptökur hafa hvort tveggja ótvírætt frétta- og heimildagildi í sögulegu samhengi.

Afrita slóð á umsögn

#5 Alma Ómarsdóttir - 06.11.2018

Umsögn frá Félagi fréttamanna:

Félag fréttamanna mótmælir drögum að frumvarpi dómsmálaráðuneytis í þeirri mynd sem það er nú og hvetur ráðherra til að endurskoða þann hluta þess er varðar bann við nafnbirtingu á sakborningum til fjölmiðla og birtingu dóma um ofbeldi í nánum samböndum og kynferðisbrot.

Félag fréttamanna fagnar því hins vegar að dómskerfið taki mið af nýrri persónuverndarlöggjöf.

Ein grunnforsenda lýðræðislegrar umræðu er að almenningur hafi aðgang að réttum upplýsingum til að geta mótað sér upplýstar skoðanir á málefnum líðandi stundar. Félagið telur það varða hagsmuni almennings að koma á framfæri upplýsingum um dæmda menn og afbrot þeirra. Hagsmunir almennings eru sérstaklega ríkir hvað þetta varðar ef um er að ræða stjórnmálamenn sem brotið hafa af sér.

Félag fréttamanna telur að frumvarpið dragi úr getu fréttastofu RÚV til þess að sinna þeirri lögbundnu eftirlitsskyldu sinni að veita ráða- og valdamönnum þjóðarinnar aðhald. Mikilvægt er að fjölmiðlar hafi forsendur til að sjá heildarmyndina og geti tengt saman ólík brot sama einstaklings. Til þess þarf aðgengi að upplýsingum frá dómstólum.

Í rökstuðningi með frumvarpinu er vísað til úrskurða Persónuverndar, í málum nr. 2016/1783, 2017/711 og 2017/1999. Síðastnefnda málið er reyndar ekki til samkvæmt upplýsingum frá Persónuvernd, en hin málin varða dóma héraðsdóma og Hæstaréttar í máli sama manns, þar sem dómstólar birtu opinberlega nafn þolanda í málinu auk heilsufarsupplýsinga um hann. Dæmdir sakamenn geta tæpast átt heimtingu á sömu nafnleynd og brotaþolar. Að mati Félags fréttamanna eiga opinberar persónur, embættismenn, stjórnmálamenn og valdamiklir einstaklingar ekki að njóta sömu nafnleyndar og brotaþolar eins og frumvarpið kveður á um enda bryti það gegn margviðurkenndri meginreglu í dómaframkvæmd.

Félag fréttamanna er því ósammála röksemd dómsmálaráðherra, um að mikilvægt sé að „jafnt eigi að ganga yfir alla” þegar kemur að nafnbirtingum í dómum. Innlend og erlend dómaframkvæmd hefur um langt skeið viðurkennt þá staðreynd að opinberar persónur njóti ekki sömu réttinda til friðhelgi einkalífs og almennir borgarar.

Samkvæmt frumvarpinu verða dómar um „málefni barna, ofbeldi í nánum samböndum og nálgunarbann sem og kynferðisbrot“ ekki birtir. Félag fréttamanna telur það skjóta skökku við að hætta að birta slíka dóma í ljósi kröfu samfélagsins um aukna umræðu um kynbundið ofbeldi og kynferðisbrotamál í kjölfar „MeToo“, og ekki síður í þeim sakamálum þar sem þolendur eru börn. Félagið telur almenning eiga rétt á að fá upplýsingar um þessi mál. Í það minnsta ætti að veita viðurkenndum fjölmiðlum aðgang að slíkum dómsúrskurðum. Fjölmiðlum hér á landi er fullkomlega treystandi fyrir aðgengi að viðkvæmum upplýsingum og til að vinna úr þeim á traustan og upplýsandi hátt.

Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að dómstólasýslunni verði heimilt að setja reglur um myndatökur og hljóðritun í dómhúsum. Félag fréttamanna telur mikilvægt að fjölmiðlum verði heimilt að mynda í dómhúsum þegar dómsmál eru tekin fyrir, og bendir í því samhengi á sögulegt mikilvægi þess að eiga slíkt myndefni líkt og raunin er til dæmis í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.

Viðhengi