Samráð fyrirhugað 23.10.2018—06.11.2018
Til umsagnar 23.10.2018—06.11.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 06.11.2018
Niðurstöður birtar 27.12.2019

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um helgidagafrið og lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar (starfsemi á helgidögum)

Mál nr. 174/2018 Birt: 23.10.2018 Síðast uppfært: 27.12.2019
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi og varð að lögum nr. 73/2019 https://www.althingi.is/altext/stjt/2019.073.html https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=149&mnr=549

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 23.10.2018–06.11.2018. Umsagnir voru birtar í gáttinni að umsagnarfresti liðnum. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 27.12.2019.

Málsefni

Með frumvarpinu er lagt til að felld verði niður ákvæði sem banna tiltekna þjónustu og afþreyingu á helgidögum þjóðkirkjunnar. Einnig er lagt til að upptalning á helgidögum þjóðkirkjunnar verði færð yfir í þjóðkirkjulög.

Frumvarpið er samið í dómsmálaráðuneytinu. Efnisatriði þess eru annars vegar að leggja til að felld verði niður ákvæði í lögum um helgidagafrið nr. 32/1997 sem banna tiltekna þjónustu, skemmtanir og afþreyingu á helgidögum þjóðkirkjunnar, sem taldir eru upp í 2. gr. laganna, og hins vegar að upptalning á þeim helgidögum verði felld úr lögunum og í staðinn tekin upp í lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Eftir stendur þá ákvæði 1. gr. laga um helgidagafrið lítillega breytt, ákvæði 3. gr. um að óheimilt sé að trufla guðsþjónustur, kirkjulegar athafnir eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar og viðurlagaákvæði 7. gr. laganna.

Þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að afnumin verði sú takmörkun sem er á atvinnustarfsemi og afþreyingu á grundvelli núgildandi laga um helgidagafrið er líklegt að nái frumvarpið fram að ganga verði unnt að koma betur til móts við þá sem stunda vilja afþreyingu á helgidögum og þá sem vilja njóta eða veita þjónustu á þeim dögum. Þá er talið að upptalning á helgidögum þjóðkirkjunnar falli vel að lögum um þjóðkirkjuna, en æskilegt er talið að tilgreina þá áfram í lögum þar sem vitnað er til þeirra daga í lögum um 40 stunda vinnuviku nr. 88/1971.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hjalti Hugason - 04.11.2018

Athugasemdir við frumvarp til laga um breytingu á lögum um helgidagafrið

Undirritaður lýsir yfir almennum stuðningi við markmið frumvarpsins. Á hinn bóginn er bent á að frumvarpið gengur tæplega nægilega langt. Þá er lagt til að II. kafli þess verði felldur brott og að markmiði hans verði náð með öðrum hætti.

Markmiðið með síðari kafla frumvarpsins er eins og fram kemur í greinargerð einkum að skýra orðalag í 1. mgr. 6. gr. laga um 40 stunda vinnuviku, þ.e. orðalagið: „Frídagar eru helgidagar þjóðkirkjunnar […]“. Einföld lausn á þessum vanda er að breyta orðalagi greinarinnar á eftirfarandi hátt: Frídagar eru 1. Sunnudagar, annar dagur jóla, nýársdagur, skírdagur, annar dagur páska, uppstigningardagur og annar dagur hvítasunnu, 2. Föstudagurinn langi, páskadagur og hvítasunnudagur, 3. Aðfangadagur jóla frá kl. 18:00 og jóladagur, 4. sumardagurinn fyrsti, 1. maí og 17. júní, og gamlársdagur frá kl. 13.

Bent skal á að lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar fjalla einvörðungu um mál sem að hefðbundnum skilningi falla undir ytri mál þjóðkirkjunnar. Samkvæmt gildandi þjóðkirkjulögum og mun eldri hefð fer þjóðkirkjan sjálf með innri málefni sín, þar með öll mál sem lúta að guðsþjónustuhaldi. Á því sviði skipa helgidagar þjóðkirkjunnar eðli máls samkvæmt mikilvægan sess. Um innri mál af þessu tagi er fjallað í starfsreglum sem kirkjuþing setur.

Ljóst er að ákvæði um helgidaga þjóðkirkjunnar í þjóðkirkjulögum mundi raska „stíl“ þeirra laga. Það sem er þó verra er að nái sú breyting fram að ganga sem lögð er til í frumvarpinu er raskað þeim hefðbundna skilningi sem ríkt hefur um aðgreiningu innri og ytri mála þjóðkirkjunnar og þar með dregið úr sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti hennar. Slíkt orkar mjög tvímælis miðað við þá stefnu sem ríkt hefur og fjármála- og efnahagsráðherra lýsti yfir í upphafi kirkjuþings 2018 að haldið skuli fast við í framtíðinni.

Loks ber að geta þess að lögboðnir frídagar eru öðru fremur vinnumarkaðsmálefni og eiga því heima í lögum sem um slík mál fjalla líkt og lög um 40 stunda vinnuviku. Hugmyndir í samfélaginu um hvaða dagar skuli vera almennir frídagar geta breyst af ýmsum ástæðum. T.a.m. er líklegt að bráðlega komi fram hugmyndir að í stað þess að uppstigningardagur sem haldinn er á fimmtudegi sé frídagur flytjist fríið t.d. til föstudagsins sem á eftir fylgir. Æskilegt er að breytingar af þessu tagi verði í framtíðinni sem auðveldastar. Það yrði best tryggt með því að aðeins væri um að ræða breytingu á lögum um vinnumarkaðsmálefni. Verði upptalningu frídaganna fyrir komið í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar mundi breyting af framangreindu tagi augljóslega leiða til óþrafra kirkjulegra, trúarlegra og guðfræðilegra vangaveltna ef ekki deilna sem mundu torvelda breytingu af þessu tagi. Þjóðkirkjan getur á hinn bóginn haldið uppstigningardag þótt hann sé ekki almennur frídagur.

Að þessu sögðu skal bent á að frumvarpið gengur ekki nægilega langt í breytingum á lögum um helgidagafrið. Í núverandi mynd — sem helst í frumvarpinu — einskorðast lögin um of við helgihald þjóðkirkjunnar og eftir atvikum annarra kristinna trúfélaga. Í nútíma fjölhyggjusamfélagi verður að gera þá kröfu að lögin nái til helgiathafna af hvaða tagi sem er. Við núverandi aðstæður virðist eðlilegt að löggjöf á þessu sviði taki fyrst og fremst til skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga. Út frá þessu sjónarhorni er æskilegt að í stað laga um helgidagafrið sem taka mið af helgidögum kristninnar verði sett lög um friðhelgi trúrarlegra athafna og hliðstæðra athafna almennt. Miðað við gildandi lagaramma virðist eðlilegt að einkum verði horft til skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga í því sambandi. Slík lög gætu verið líkt og hér segir:

Lög um friðhelgi athafna á vegum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga

I. kafli. Tilgangur laganna.

1. gr.

Um friðhelgi athafna er mælt í lögum þessum í því skyni að tryggja frið og næði innan þeirra marka sem greinir í 2. gr.

II. kafli. Um friðhelgi athafna.

2. gr.

Óheimilt er að trufla guðsþjónustu, kirkjulegar athafnir og athafnir á vegum skráðra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar.

3. gr.

Brot gegn lögum þessum varða sektum.

4. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Lög sem þessi yrðu vissulega rýr. Því má athuga þá leið að fella lög um helgidagafrið alfarið úr gildi og koma efni 2. og 3. gr., ef hún er talin nauðsynleg, fyrir í lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Virðist hægast að gera það með nýjum III. kafla er tæki til 2. og e.t.v. 3. gr.

Hjalti Hugason

prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ

Afrita slóð á umsögn

#2 Sigurður Ragnarsson - 05.11.2018

Helgidagar og helgidaga­frið­ur eru forn menn­ing­ar­arf­leifð, sem með­al ann­ars er reist á einu af boð­orð­un­um tíu, sem Jesús Krist­ur bauð að fara eft­ir, en tals­verð­ur meiri­hluti Ís­lend­inga kýs að telja sig krist­inn. “Hvíld­ar­dags­boð Bibl­íunn­ar er lífs­vörn gegn græðgi og kúg­un. Þá skyldi allt fá að hvíl­ast, menn og skepn­ur og jörð­in sjálf. Þann­ig vildi Guð koma í veg fyrir að streit­an og græðg­in næðu yf­ir­hönd­inni og kæfðu um­hyggj­una,” rit­aði merk­ur kenni­mað­ur fyr­ir nokkr­um dögum.

Sunnu­dag­ur var gerð­ur að al­menn­um hvíld­ar­degi í róm­verska rík­inu fyrir nær 1.700 ár­um. Það er ekki af­dank­að­ur sið­ur, heldur enn tíðkað víða um lönd, með mismunandi áherzlum og út­færsl­um, sem læra má af, ef flett væri upp. Í grein­ar­gerð með frum­varp­inu er enga at­hug­un að finna á stöðu þessa máls í öðr­um lönd­um. Þar á með­al í mikl­um ferða­manna­lönd­um (sem þríf­ast vel þrátt fyrir tölu­verð­an helgi­daga­frið), þótt um­hyggja fyr­ir þjón­ustu við ferða­menn sé eitt helzta yf­ir­skyn til­lög­unn­ar. Mér vit­an­lega hef­ur aldrei nokk­ur ferða­mað­ur kom­ið til Ís­lands í þeim til­gangi að dansa, dufla og drekka sjö daga vik­unn­ar og á föstu­dag­inn langa og á páska­dag. Og lög um helgi­daga­frið eru ekki túlk­uð strang­ar en svo, að all­ir geta upp­fyllt nauð­synja­þarf­ir sín­ar og vel það.

Síðast þegar þetta stefnu­mál Pír­ata var flutt á Al­þingi, fékk það all­góð­ar und­ir­tekt­ir frá tveim­ur þing­mönn­um Við­reisn­ar. Að öðru leyti hafði þing­heim­ur stjórn á fagn­að­ar­lát­um sín­um. Nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar­flokk­ar höfðu þetta ekki að kosn­inga­máli við síð­ustu þing­kosn­ing­ar, ef þeir hafa yf­ir­leitt nokk­urn tíma fyrr haft það á stefnu­skrá sinni. Og enn vakn­ar göm­ul spurn­ing: Hvers vegna geta stjórn­mála­menn ekki sagt það fyr­ir kosn­ing­ar, sem þá lang­ar til að gera eft­ir kosn­ing­ar? Hér er að minnsta kosti ekki um að ræða slíka bráða­pest í þjóð­fé­lag­inu, að bregð­ast þurfi við henni í skynd­ingu, áð­ur en nýj­ar kosn­ing­ar kynnu að skella á. Og ekki mál, sem stjórn­ar­mynd­un brýt­ur á.

Í greinargerð með frumvarp­inu seg­ir: “Á und­an­förn­um ár­um hef­ur straum­ur ferða­manna til lands­ins stór­auk­ist og sömu­leið­is sam­setn­ing íbúa lands­ins.” Ég leyfi mér að skilja þetta síð­asta svo, að sam­setn­ing íbú­anna hafi breytzt mik­ið, frek­ar en hún hafi stór­auk­izt, sem er óskilj­an­legt orða­lag. En hvernig hef­ur hún breytzt? Til dæm­is á þann hátt, að í heima­bæ mínum, Kefla­vík, eru nú bú­sett­ir fjög­ur þús­und Pól­verj­ar, sem koma sér yfir­leitt vel, og eng­ir sækja mess­ur bet­ur en þeir á sunnu­dög­um og öðr­um helgi­dög­um. Þeir munu flest­ir vera laun­þeg­ar. Með því að af­nema helgi­daga­frið, svo að vinnu­veit­end­ur geti að stað­aldri og án sér­stakr­ar ástæðu kall­að þá til vinnu á skip­uð­um helgi­dög­um og messut­ím­um, væri ver­ið að stofna at­vinnu­ör­yggi þeirra og bú­setu í tví­sýnu. Þetta fólk á ekki svo mikið undir sér, að hunda­kúnst­ir, sem lög­fræð­ing­ar hjá dóms­mála­ráð­herra kynnu að vilja stinga að því, kæmu að nokkru minnsta gagni. Þetta er til við­bót­ar því, sem ýms­ir bera kvíð­boga fyr­ir, að laun fyr­ir helgi­daga­vinnu muni lækka veru­lega. Reynsl­an ein get­ur skor­ið úr því, ekki ágizk­an­ir eða full­yrð­ing­ar frá stjórn­mála­mönn­um, embætt­is­mönn­um eða einu sinni að­il­um vinnu­mark­að­ar­ins. Í sum­um lönd­um er lög­boð­ið, af til­liti til heilsu­sam­legr­ar hvíld­ar verka­fólks, að það skuli í viku hverri eiga rétt á ein­um frí­degi, sem al­mennt sé sunnu­dagur. Ekki samt á Ís­landi, ef þetta frum­varp nær fram að ganga.

Í umræðu erlendis er því oft hald­ið fram, að óheft­ur af­greiðslu­tími á helgi­dög­um komi í sam­keppni niður á litl­um fyrir­tækj­um, því að stór fyrir­tæki eigi auð­veld­ara með að kljúfa til­kostn­að af slíku og koma upp nægi­leg­um við­bún­aði. Grein­ar­gerð með frum­varp­inu sýn­ir því mið­ur ekki, að þetta sjón­ar­mið hafi þótt at­hug­un­ar virði.

Fram til þess að Pírat­ar og nú dóms­mála­ráð­herra tóku þetta mál­efni upp, voru það eink­um fé­lag­ið Van­trú og stund­um ein­staka kaup­sýslu­menn, sem höfðu með því að snið­ganga lög reynt að grafa und­an helgi­daga­lög­gjöf­inni, ým­ist út af ágengu guð­leysi eða gróðafíkn.

Tekið skal fram, að flest krist­ið fólk á Ís­landi hef­ur sam­eig­in­lega þá helgi­daga, sem lög­in fjalla um, svo að ákvæði um helgi­daga eiga bet­ur heima í al­menn­um lög­um en sér­lög­um um þjóð­kirkj­una. Reynd­ar er ekki að sjá, að höf­und­ar frum­varps­ins hafi gef­ið sér tóm til að kanna sjón­ar­mið hjá kirkju­deild­um lands­ins varð­andi þetta.

Niðurstaða verður því sú, að þetta frum­varp ætti að draga til baka, því að mál­efn­ið er ekki gott og und­ir­bún­ing­ur og að­drag­andi þess ekki heldur.