Samráð fyrirhugað 23.10.2018—06.11.2018
Til umsagnar 23.10.2018—06.11.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 06.11.2018
Niðurstöður birtar 11.04.2019

Drög að reglugerð um áhættumatsnefnd

Mál nr. 175/2018 Birt: 23.10.2018 Síðast uppfært: 11.04.2019
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Landbúnaður
  • Sjávarútvegur og fiskeldi

Niðurstöður birtar

Málið er í vinnslu í ráðuneytinu.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 23.10.2018–06.11.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 11.04.2019.

Málsefni

Með reglugerð þessari er fyrirhugað að setja áhættumatsnefnd á stofn. Hlutverk nefndarinnar er að veita og hafa umsjón með framkvæmd vísindalegs áhættumats á sviði matvæla, fóðurs, áburðar og sáðvöru

Í lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru er mælt fyrir um áhættumatsnefnd. Að matvælaeftirlit skuli m.a. byggjast á áhættugreiningu og að áhættumat skuli unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna. Í þessum tilgangi skipar ráðherra ráðgefandi nefnd sem veitir vísindalega ráðgjöf um áhættumat að beiðni ráðherra eða Matvælastofnunar.

Í drögum að reglugerð um áhættumatsnefnd er mælt fyrir um skipun nefndarinnar, hæfi nefndarmanna, starfshætti og kostnað við nefndina. Fyrirhugað er að nefndin verði skipuð fimm einstaklingum samkvæmt tilnefningu. Ráðherra skipi einn tilnefndra aðila formann nefndarinnar. Þegar nefndin fær beiðni um áhættumat skal hún úthluta verkefni til þess nefndarmanns eða þeirra nefndarmanna sem talinn er hæfastur til að sinna því. Telji nefndin þörf á sérkunnáttu við úrlausn mála getur hún leitað til innlendra eða erlendra aðila með þar til bæra sérkunnáttu. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skal á hverju ári veita áhættumatsnefnd fjármagn til að sinna störfum sínum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hrönn Ólína Jörundsdóttir - 30.10.2018

Sbr. viðhengi:

Matís gerir eftirfarandi athugasemdir við drög að Reglugerð um áhættumatsnefnd:

2.grein

Það þyrfti að koma fram að formaður og nefndin hafi greiðan aðgang að Matvælaöryggistofnun Evrópu (EFSA) til þess að nýta þá þekkingu sem þar er til staðar varðandi áhættumat á starfsviði nefndarinnar.

Matís telur mikilvægt að skýrt sé að nefndin geti átt frumkvæði til að leggja fram tillögur um framkvæmd áhættumats til sjávar- og landbúnaðarráðherra. Vinna hæfist eftir samþykki ráðherra í samráði við Matvælastofnun.

3.grein

Matís telur eðlilegt að Tilraunastofa Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum sé hluti af áhættumatsnefndinni vegna sérfræðiþekkingar á búfjársjúkdómum og sníkjudýrum sem geta borist í menn með matvælum.

Ekki eru skýrar valdheimildir nefndar að kalla eftir gögnum sem mikilvæg eru til að framkvæma áhættumatið frá opinberum og/eða einkaaðilum í tengslum við vinnu nefndarinnar. Mikilvægt er að slíkar valdheimildir séu fyrir hendi.

Ekki eru skýrar valdheimildir nefndarinnar til að skipa utanaðkomandi sérfræðinga til að taka þátt í áhættumatsvinnunni og að þeir geti forgangsraðað þeirri vinnu fram yfir aðrar starfskyldur. Mikilvægt er að slíkar valdheimildir séu fyrir hendi.

5.grein.

Nauðsynlegt að skilgreina hvernig áhættumiðlun/áhættukynning nefndarinnar fari fram og tryggja að nefndin hafi þetta hlutverk sem og leyfi til þess fjalla um vinnu nefndarinnar á opinberum vettvangi á gagnsæjan og skýran hátt. Áhættukynningin gegnir afgerandi hlutverki með tilliti til niðurstöðu eða áhrifa áhættumatsins og áhættustjórnunar á almenningsálit og hegðun neytenda í kjölfar áhættumats á sviði matvælaöryggis.

Umsjónarmenn eru nefndir í 5 greininni en ekki er skýrt hverjir þessir umsjónarmenn eru. Texti kringum nefndan umsjónarmann er óskýr og mætti fjarlægja. Við bendum á að áhættumat feli í sér víðtækt samstarf sérfræðihóps en ekki einstaklings. Slík skipulagning fellur undir ákvæði að nefndin setur sér starfsreglur.

Það á ekki við áhættumat að meirihluti ráði niðurstöðu nefndarinnar. Sérfræðiþekking og óháð vísindaleg vinnubrögð ráða niðurstöðu, því er nauðsynlegt að fjarlægja þessa málsgrein.

6.grein

6. grein er enn óskýr varðandi fjármögnun og kostnað sem má falla á nefndina. Sem dæmi má nefna ef alvarleg vá er í gangi, hefur nefndin þá leyfi til að greiða fyrir bráðar mælingar til að bera kennsl á uppsprettu hættunnar, utanaðkomandi sérfræðiráðgjöf, gögn úr gagnasöfnun, þróun á mæliaðferðum?

Ekki er skýrt hvernig greiða á fyrir fasta setu í nefnd annarra sérfræðinga en formanns. Er krafist að stofnanir sem skipa fastan aðila í nefndina, beri kostnað af þátttöku starfsmans í nefndinni? Við teljum að vinna nefndarinnar geti orðið viðamikill hluti af starfskyldu skipaðra nefndarmanna og því hætta á að önnur störf innan viðkomandi stofnana verði sett í forgang ef ekki er tryggt að greiðsla fyrir tíma starfsmanns í nefndinni sé fyrir hendi.

Ef nefndin á að geta gegnt hlutverki sínu er mikilvægt að hún geti haft áhrif á framkvæmd rannsókna sem fyrir hendi eru á sviðum tengdum starfssviði hennar. Að öðrum kosti er hætt við að starf hennar verði fyrst og fremst fólgið í að bregðast við málum sem koma upp, í stað þess að geta, í samstarfi við ýmsa rannsóknaaðila, undirbúið jarðveginn fyrir nauðsynlegt áhættumat. Nauðsynlegt er að taka tillit til þess og að ríkisaðilar og fyrirtæki sem kunna að hafa yfir gögnum að ráða og/eða stundi rannsóknir sem skipta máli varðandi hlutverk nefndarinnar, séu upplýstir um þetta og hagi málum í samræmi við mikilvægi áhættumats í lögum 93/1995 og síðar í sömu lögum 143/2009 um matvæli.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Bændasamtök Íslands - 06.11.2018

Hjálögð er umsögn Bændasamtaka Íslands

Viðhengi