Samráð fyrirhugað 06.11.2018—27.11.2018
Til umsagnar 06.11.2018—27.11.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 27.11.2018
Niðurstöður birtar 12.06.2019

Drög að matsviðmiðum í íslensku, stærðfræði og erlendum málum fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla.

Mál nr. 179/2018 Birt: 25.10.2018 Síðast uppfært: 12.06.2019
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Leikskólar, grunnskólar, starfsnám og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Niðurstöður birtar

Tvær umsagnir bárust þar sem annars vegar var bent á að matsviðmiðin væru of almennt orðuð og hins vegar gerð athugasemd við tilgang viðmiðanna þar sem sagði að skólum yrði skylt að nota viðmiðin við mat á námi nemenda. Ákvörðun ráðuneytisins var að bregðast við síðari athugasemdinni og orðalagi breytt þannig að viðmiðin skulu vera leiðbeinandi fyrir skóla. Breytingin verður auglýst í Stjórnartíðindum og netútgáfu aðalnámskrár grunnskóla breytt þannig að matsviðmiðin munu birtast í nýjum kafla númer 27.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 06.11.2018–27.11.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 12.06.2019.

Málsefni

Mennta- og menningarmálaráðuneytið kynnir til samráðs matsviðmið í íslensku, stærðfræði og erlendum málum fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla.

Í gildandi aðalnámskrá grunnskóla fyrir einstök greinasvið sem tók gildi 2013 voru sett fram matsviðmið á öllum námssviðum við lok grunnskóla. Menntamálastofnun hefur nú gengið frá drögum að sambærilegum matsviðmiðum fyrir 4. og 7. bekk grunnskóla í íslensku, stærðfræði og erlendum tungumálum en mikið hefur verið kallað eftir slíkum viðmiðum. Stofnunin hafði samráð við ýmsa grunnskóla við gerð viðmiðanna og byggði einnig á fyrri viðmiðavinnu sem fram fór á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis. Við frágang matsviðmiðanna hafa hæfniviðmið á viðkomandi greinasviðum verið höfð til hliðsjónar og matsviðmið við lok grunnskóla sem eru hluti af aðalnámskrá grunnskóla. Gert er ráð fyrir að afloknu samráði verði matsviðmiðin gefin út sem hluti af aðalnámskrá grunnskóla, birt í Stjórnartíðindum og kynnt fyrir skólasamfélaginu og mun Menntamálastofnun annast innleiðingu þeirra. Stofnunin mun á næstu mánuðum vinna að matsviðmiðum fyrir önnur greinasvið í samráði við skólasamfélagið. Þau verða síðan kynnt í Samráðsgátt og að afloknu samráðsferli birt einnig sem hluti aðalnámskrár grunnskóla og kynnt og innleidd með sambærilegum hætti.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Haraldur Ólafsson - 15.11.2018

Ágætu stjórnendur menntamála

Ég hef lesið drög að matsviðmiðum í stærðfræði. Þau þykja mér afar almennt orðuð og ekki ljóst að þau verði til gagns. Kennarar, sveitarstjórnir og skólastjórnendur þurfa miklu skýrari fyrirmæli.

Virðingarfyllst,

Haraldur Ólafsson

Prófessor í Raunvísindadeild Háskóla Íslands

Afrita slóð á umsögn

#2 Bryndís Jóna Magnúsdóttir - 20.11.2018

Ég er hugsi yfir tilgangi þess að matsviðmið fyrir námsgreinar í 4. og 7. bekk, nú í íslensku, stærðfræði og erlendum tungumálum, séu samin á þessum tímapunkti og verði ,,skólum skylt að nota við mat á námi nemenda..." Undanfarin ár hafa stjórnendur og kennarar í grunnskólum landsins unnið mikla og í mörgum tilfellum afar góða vinna við innleiðingu námsmats samkvæmt aðalnámskrá 2013. Í mínum skóla hafa kennarar á öllum aldursstigunum þremur skoðað hæfniviðmið námsgreina grannt, sett upp kennsluáætlanir sínar og námskrár/hæfnikort í Mentor og metið hæfni nemenda samkvæmt þeim. Samráð hefur verið haft innan stiga um eðlilega samfellu og stígandi í þjálfun og mati með tilliti til hæfniviðmiða. Orðalag hæfniviðmiða hefur einnig í mörgum tilfellum verið einfaldað í Mentor námskrám/hæfnikortum og þau sem dæmi stundum verið ,,tekin í sundur" svo að viðtakendur matsupplýsinganna (börn og foreldrar) átti sig betur á því hvaða hæfniatriði er verið að meta. Í allri þessari vinnu hefur fólk ekki velt því fyrir sér hvort matsviðmið við lok 4. og 7. bekkjar fari nú ekki að koma.

Ég met það sem svo að þegar mat hefur verið lagt á hæfni nemenda (viðeigandi tákn skráð á hæfniviðmið) í hæfnikort þeirra gefi það góða mynd af því hver hæfni nemandans er í hinum ýmsu og ólíku þáttum námsgreina. Hæfnikortin í mínum skóla hafa verið í þróun undanfarin misseri og eru það enn. Að skipta þessum námskrám út fyrir ný matsviðmið í 4. og 7. b. gjaldfellir þessa miklu vinnu sem hefur átt sér stað og flækir einnig málin fyrir foreldrum sem hafa fengið kynningu á því hvernig námsmatinu er nú háttað. Hægt væri að líta svo á að mat samkvæmt matsviðmiðum væri þá viðbót við mat samkvæmt hæfniviðmiðum, þ.e. að kennarar meti eftir sem áður í hæfnikort nemenda sinna en þá einnig í matsviðmiðanámskrár. Er það, í tilfelli míns skóla, tvíverknaður sem litlum tilgangi þjónar. Matsviðmiðin er jú einfaldlega samantekt á hæfniviðmiðum sem hér er þegar verið að meta. Ég spyr mig: Hvaða tilgangi þjónar þetta? Í hvaða hólf erum við að raða nemendum og fyrir hvern? Í 10. bekk er metið samkvæmt samræmdum matsviðmiðum til þess að skila niðurstöðum inn í framhaldsskólana. Er nauðsynlegt að ,,skila" nemendum af yngsta stigi upp á miðstig með bókstafsstimpil, eða af miðstigi upp á elsta stig?

Í mínum skóla höfum við tekið þá ákvörðun að mat í hæfnikorti er ekki dregið saman í tákn eða bókstaf nema í 10. bekk, niðurstöðurnar í hæfnikortunum sjálfum eiga að tala sínu máli - í þessum þáttum stendur nemandinn sig vel, í þessum þarf hann að bæta sig. Við teljum það ekki þjóna neinum tilgangi, með svo greinagóðu og ítarlegu mati, að ljúka skólaárum þannig að einn bókstafur eða tákn eigi að gefa upplýsingar um stöðu nemandans. Við teljum að með því séum við í raun á sama stað og við vorum með tölueinkunnir. Að skólum ,,sé skylt“ að nota matsviðmiðin við mat á námi nemenda á yngsta og miðstigi þykir mér í hrópandi ósamræmi við þann sveigjanleika og sjálfstæði sem aðalnámskráin gefur skólum. Í inngangi aðalnámskrárinnar segir m.a.: ,,Sett eru matsviðmið um það hvenær nemandi telst hafa lokið einstökum námsgreinum eða námssviðum (bls. 9)." Þetta er skýrt hvað varðar matsviðmið við lok náms í tilteknum námsgreinum en á ekki að eiga við um skil á milli aldursstiga í grunnskóla. Þá eru nemendur ekki að ljúka námi í námsgreinum.

Ég velti fyrir mér hvort matsviðmiðin hafi verið samin og ráðgert sé að koma þeim í gagnið í öllum grunnskólum landsins vegna þeirra skóla sem eru skammt á veg komnir í innleiðingu námsmatsins? Ef svo er þykir mér rétt að endurskoða orðalagið - að skólum SÉ SKYLT að nota matsviðmiðin við mat á námi nemenda í 4. og 7. bekk og gefa þannig þeim skólum sem hafa ákveðið hvernig námsmati sé háttað samkvæmt aðalnámskrá að halda áfram því vinnulagi.

Matsmiðmiðin sem hér eru til skoðunar eru annars vel fram sett og hef ég aðeins eina athugasemd í því samhengi. Í matsviðmiði fyrir talað mál, hlustun og áhorf í íslensku í 7. bekk er áhorfsþátturinn orðaður svo:

,,Nýtt sér myndefni og rafrænt efni á skapandi hátt."

Í hæfniviðmiðum aðalnámskrár er kveðið á um að nemandi geti ,,nýtt sér myndefni og rafrænt efni á gagnrýnin hátt“, ekki skapandi. Finnst skjóta skökku við að hafa ekki samræmi þarna á milli. Að nýta sér efnið á skapandi hátt getur t.d. falið í sér að finna skapandi leiðir til að túlka eða setja fram það efni sem horft er á. Að nýta sér það á gagnrýninn hátt getur t.d. falið í sér að ræða það sem kom fram, skoða það út frá mismunandi hliðum, velta fyrir sér réttmæti þess o.s.frv. Ég tel að þetta þurfi að laga.

Virðingarfyllst,

Bryndís Jóna Magnúsdóttir

Aðstoðarskólastjóri Heiðarskóla í Reykjanesbæ