Samráð fyrirhugað 31.10.2018—27.11.2018
Til umsagnar 31.10.2018—27.11.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 27.11.2018
Niðurstöður birtar 12.02.2020

Drög að frumvarpi til laga um sviðslistir

Mál nr. 182/2018 Birt: 31.10.2018 Síðast uppfært: 12.02.2020
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál

Niðurstöður birtar

Lög um sviðslistir voru samþykkt á Alþingi í desember 2019

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 31.10.2018–27.11.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 12.02.2020.

Málsefni

Í drögum frumvarpsins er lögð til rammalöggjöf um sviðlistastarfsemi, þar með talið Þjóðleikhúsið og Íslenska dansflokkinn, auk ákvæða um sviðslistaráð, sviðslistasjóð og kynningarmál.

Frumvarpsdrögin skiptast í fjóra kafla:

Í fyrsta lagi er kveðið á um markmið laganna auk þess sem hugtakið sviðslistir er skilgreint.

Í öðru lagi eru ákvæði um Þjóðleikhúsið. Lagðar eru til nokkrar breytingar frá gildandi leiklistarlögum á ákvæðum sem fjalla um Þjóðleikhúsið. Sem dæmi má nefna að óperur, söngleikir og listdanssýningar verða ekki áfram eitt af aðalhlutverkum leikhússins og um endurskipun þjóðleikhússtjóra fer að fyrirmynd ákvæða annarra laga á sviði lista.

Í þriðja lagi er lagt til að Íslenski dansflokkurinn verði lögfestur í fyrsta sinn.

Í fjórða lagi eru ákvæði um sviðslistaráð, sviðslistasjóð og kynningarmál.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Karen María Jónsdóttir - 04.11.2018

Ég fagna þeim drögum að frumvarpi til laga um sviðslistir sem nú eru lögð fram. Fagna ég sérstaklega lögfestingu á starfsemi Íslenska dansflokksins sem löngu er orðin tímabær.

Ég geri eina athugasemd er varðar 15. grein laganna. Í greininni er lagt til að Bandalag íslenskra listamanna tilnefni tvo af þremur fulltrúum í ráðið. Ekki er tilgreint í greinargerð með lögunum af hverju brugðið er frá þeirri megin reglu að Sviðslistasamband Íslands, tilnefni fulltrúa í Sviðslistaráð eins og önnur ráð sem tilgreind eru í drögunum að lögunum.

Eðlilegast væri að Sviðslistasamband Íslands, sem eru heildarsamtök sviðslista á Íslandi, skipuðu tvo af þremur fulltrúum í Sviðslistaráð, enda eru innan vébanda sambandsins fagfélög sem og deildir innan þeirra sem snerta á öllum þáttum sviðslistanna og einstökum hliðargreinum innan þeirra. Ekki er fagleg ástæða til þess að leita til fagfélaga BÍL til að mynda heildstætt ráð.

Afrita slóð á umsögn

#2 Bandalag íslenskra leikfélaga - 12.11.2018

Bandalag íslenskra leikfélaga fagnar framkomnum drögum að frumvarpi til laga um sviðslistir og þakkar sérstaklega þann skilning sem þar kemur fram á mikilvægi starfsemi áhugamanna í leiklist.

Okkur líst vel á að verða hluti af fyrirhugaðri kynningarmiðstöð sviðlista og vonum að samlegðaráhrifin verði jákvæð, jafnt faglega sem og rekstrar- og félagslega.

Athugasemdir Bandalags íslenskra leikfélaga eru eftirtaldar:

Við teljum vissa hættu á að nýr milliliður milli okkar og ráðuneytisins, sviðslistaráð sem við munum ekki eiga aðild að, taki af okkur ákveðið sjálfræði - sérstaklega þar sem áformað er að ákvarðanir þess verði endanlegar á stjórnsýslustigi og sæti ekki kæru til ráðherra.

Drög að frumvarpi til til laga um sviðslistir

17. gr. Sviðslistasjóður

Við teljum að úthlutun styrkja til aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga vegna verkefna þeirra sé best fyrirkomið með sama hætti og hingað til, þ.e. að stjórn þess geri tillögur að úthlutun úr deild áhugamanna sviðslistasjóðs eftir þeim reglum sem aðilar hafa komið sér saman um. Við höfnum alfarið afskiptum atvinnnumanna af því verkefni.

Um einstakar greinar frumvarpsins

Um 17 gr. bls 11:

Í lok þriðju málsgreinar er talað um Félga íslenskra leikfélaga, vinsamlegast breytið því í Bandalag íslenskra leikfélaga.

Í sömu málsgrein er tiltekið hvaða skipting eigi að vera milli deilda í sviðslistasjóði. Gæta þarf þess að að framlagið til áhugaleikfélaganna og skrifstofu Bandalags íslenskra leikfélaga lækki ekki við þessa breytingu heldur verði tryggt að það hækki árlega til samræmis við almennar hækkanir í landinu. Tryggt verði að framlög til skrifstofu Bandalagsins sem hingað til hafa verið greidd samkvæmt 3ja ára samningi í senn undanfarin 6 ár, séu tekin með inn í reiknireglur vegna sviðslistasjóðs – það kemur ekki skýrt fram í frumvarpinu og skýringum með því.

Stjórn Badndalags íslenskra leikfélaga

Afrita slóð á umsögn

#3 Tómas Zoega - 13.11.2018

Tel að fella eigi niður 5. gr. frumvarpsins í heild sinni.

Sömuleiðis þær vísanir til þjóðleikhúsráðs, sem er að finna í 4. gr. og 8. gr.

Þjóðleikhússtjórar bera skv. lögum fulla ábyrgð á öllum þáttum starfsemi og rekstrar Þjóðleikhússins og verða að fá svigrúm til að gegna hlutverki sínu með aðkomu þeirra aðila, sem þeir sjá ástæðu til að hafa sér til ráðuneytis hverju sinni.

Sé hins vegar af einhverjum ástæðum talin nauðsyn á að viðhalda slíku ráði, þá ætti það að vera þriggja manna ráð, sem ráðherra skipaði og tryggt væri að þar væru hvorki þeir skipaðir, sem tengdust leiklistarstarfsemi að atvinnu né hefðu tengsl við stéttarfélög eða aðra hagsmunaaðila, sem Þjóðleikhúsið þarf að eiga í samningum við. Þá mætti 2. setning 2. málsgreinar 5. gr. frumvarpsins falla niður.

Þjóðleikhússtjórum, eins og öðrum forstöðumönnum ríkisfyrirtækja, verður að sýna fullt traust til að rækja þau störf sem sem þeir eru ráðnir til að gegna og bera fulla ábyrgð á gagnvart ráðherra.

Afrita slóð á umsögn

#4 Sviðslistasamband Íslands - 13.11.2018

Ályktun

Opinn fundur á vegum Sviðslistasambands Íslands, þann 12. nóvember 2018, hefur fjallað ítarlega um drög að frumvarpi til laga um sviðslistir og gerir alvarlegar athugasemdir við þau í grundvallaratriðum.

Fundurinn lýsir furðu sinni á því að Mennta – og menningarmálaráðuneytið skuli ekki hafa átt samráð við fagfólk og hagsmunaaðila við gerð þeirra.

Fundurinn hafnar þessum drögum einróma.

Árni Kristjánsson, leikstjóri

Ása Richardsdóttir, stjórnandi IceHot

Bergur Þór Ingólfsson, leikari og leikstjóri

Birna Hafstein, formaður Félags íslenskra leikara og forseti Sviðslistasamb.Íslands

Erling Jóhannesson, forseti Bandalags íslenskra listamanna

Hafliði Arngrímsson

Hrafnhildur Theodórsdóttir, framkvæmdastjóri Félags íslenskra leikara

Irma Gunnarsdóttir, formaður Félags listdansara á Íslandi

Ísabella Leifsdóttir, Aþýðuóperan

Karl Ágúst Úlfsson, leikskáld

Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu

María Kristjánsdóttir, leikstjóri

Marta Nordal, leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar

Orri Huginn Ágústsson, formaður Sjálfstæðra leikhúsa

Ólöf Ingólfsdóttir, Dansverkstæðið

Pálína Jónsdóttir, leikstjóri

Páll Baldvin Baldvinsson, formaður Félags leikstjóra á Íslandi

Ragnheiður Skúladóttir, framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins

Stefán Baldursson, fv. Þjóðleikhússtjóri

Steinunn Birna Ragnarsdóttir, Óperustjóri

Vigdís Hrefna Pálsdóttir, formaður Leikarafélags Íslands

Vignir Rafn Valþórsson, leikari og leikstjóri

Þórunn Sigurðardóttir

Sviðslistasamband Íslands, SSÍ, eru heildarsamtök sviðslista á Íslandi. Að baki því standa öll fagfélög þeirra starfsgreina er fást við sviðslistir ásamt sjálfstæðum leikhópum, bandalögum og stofnunum innan sviðslista á Íslandi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Erling Jóhannesson - 13.11.2018

Í meðfylgjandi skjali er umsögn Bandalags íslenskra listamanna

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Sigurður Líndal Þórisson - 16.11.2018

Það er nauðsynlegt að nýtt frumvarp taki á aðstöðumun listamanna eftir búsetu. Eins og viðhengd gögn - frá ráðuneytinu - sýna þá fá atvinnulistamenn á landsbyggðinni ekki úthlutað styrkjum í neinu hlutfalli við íbúafjölda landsbyggðarinnar, hvað þá aukinn kostnað sem felst í farandsýningum. Betrumbót á þessu verður að festa í lög. Ef listin skiptir máli, þá skiptir hún máli um land allt. Jafnt aðgengi að listum er réttlætismál fyrir borgara landsins.

Viðhengi Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Steinunn Birna Ragnarsdóttir - 27.11.2018

Það er mjög brýnt að fundin verði farsæl leið til þess að tryggja framtíð Íslensku óperunnar í nýjum sviðslistalögum sem nú eru í smíðum.

Hún hefur löngu sannað gildi sitt sem þjóðarópera Íslendinga og eitt af flaggskipum íslenskra listastofnanna, sem hefur staðið fyrir nánast allri óperustarfsemi í landinu síðustu 40 árin.  

Í nýjum sviðlistalögum verður það ekki lengur skilgreint sem hlutverk Þjóðleikhússins að flytja óperur og þá verður ennþá brýnna að styrkja stöðu Íslensku óperunnar svo þetta listform eigi sér vísan samastað í lögum þannig að tekinn sé af allur vafi um markmið frumvarpsins hvað þetta listform og Íslensku óperuna varðar sérstaklega.

Það er mjög gleðilegt að 19. grein frumvarpsins fjalli sérstaklega um óperulistformið sem ekki gert er í núgildandi lögum. Við skoðun greinagerðarinnar með frumvarpinu frá 2012 er skýrt kveðið á um að þessari grein sé sérstaklega ætlað að styrkja stöðu Íslensku óperunnar, en í nýjustu drögum frumvarpsins er þetta horfið og kveðið á um að lögunum sé ætlað að styðja við óperuflutning almennt. Þetta tel ég breytingu til hins verra þar sem þessi greinagerð ber ekki með sér neina skýra útfærslu og Íslenska óperan hefur eins og áður kom fram nánast staðið ein fyrir óperuflutningi hérlendis og sett upp tæplega 90 uppfærslur á síðustu 40 árum.  

Í ljósi þessa er ef til vill kominn sá tímapunktur að skoða breytt rekstrarform Íslensku óperunnar og hvort hún ætti að vera formlega í eigu þjóðarinnar eins og Íslenski dansflokkurinn sem til stendur að lögfesta, sem er mikið gleðiefni.  

Ég átta mig á því að núverandi rekstrarform Íslensku óperunnar sem sjálfseignastofnunnar takmarkar lagalegt svigrúm til lögfestingar, en einmitt þess vegna er það ennþá mikilvægara að huga að því við gerð laganna hvernig best má tryggja öryggi Íslensku óperunnar til framtíðar og hefja það samtal sem til þarf til að skoða hvernig stofnuninni og óperuflutningi á Íslandi verður best borgið.

með kveðju,

Steinunn Birna Ragnarsdóttir

óperustjóri

Afrita slóð á umsögn

#8 Húnaþing vestra - 27.11.2018

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Sölvhólsgötu 4

101 Reykjavík

Hvammstangi, 27. nóvember 2018

Efni: Umsögn um drög að frumvarpi um sviðslistir

Vísað er til þeirra frumvarpsdraga til laga um sviðslistir sem liggja fyrir á Samráðsátt. Húnaþing vestra vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum um fyrirliggjandi drög:

Almennt

Athugasemdir okkar fjalla um þá höfuðborgarmiðuðu sýn á sviðslistir sem endurspeglast í þessum drögum. Aðalathugasemdir okkar eru fjórar:

1. Stóru listastofnunum þjóðarinnar sem sækja rekstrarfé sitt til ríkissjóð ætti að vera skylt að sinna öllum borgurum landsins, óháð búsetu. Því ætti að setja í lög kvöð um árlegar sýningarferðir um land allt sbr. 3mgr. 5 gr. laga nr. 138/1998.

2. Setja verður í lög sérstakan fjárhagslegan stuðning, í réttu hlutfalli við íbúafjölda landsbyggðarinnar hið minnsta, við atvinnulistastarfsemi á landsbyggðinni.

3. Í frumvarpið vantar algerlega ákvæði um þríhliða samninga sveitarfélaga, ríkis, og atvinnulistastofnanna.

4. Tryggt sé að aðgengi að sviðslistum sé undanbragðalaust óháð búsetu.

Athugasemdir við einstaka greinar:

Við leggjum til að eftirfarandi greinum verði breytt til þess vegar sem birtist sundurliðaður hér að neðan (viðbót er undirstrikuð og skáletruð í viðhengi):

I. KAFLI.

Markmið og yfirstjórn.

1. gr.

Markmið

Markmið laga þessara er að efla íslenskar sviðslistir á landinu öllu, kveða á um skipan og fyrirkomulag sviðslistamálefna og búa þeim hagstæð skilyrði. Með sviðslistum er átt við leiklist, listdans, óperuflutning, brúðuleik og skylda liststarfsemi sem heyrir ekki undir lög um aðrar listgreinar. Í sviðslistum skal jafnrétti kynjanna ávallt haft að leiðarljósi. Í sviðslistum skal jafnt aðgengi borgaranna að sviðslistum tryggt, burtséð frá búsetu þeirra.

II. KAFLI.

Þjóðleikhús.

2. gr.

Hlutverk

Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar. Í því skal iðka leiklist og aðrar sviðslistir. Þjóðleikhúsið skal í starfsemi sinni leitast við að glæða áhuga landsmanna á sviðslistum og stuðla að þróun þeirra og nýsköpun, um land allt, árlega. Leikhúsið skal kosta kapps um að efla íslenska leikritun og vera til fyrirmyndar um listrænan flutning viðfangsefna á vandaðri íslensku, um land allt, árlega.

3. gr.

Helstu verkefni

Aðalverkefni Þjóðleikhússins er flutningur íslenskra og erlendra leikverka, nýrra og gamalla, og að stuðla að frumsköpun í íslenskum sviðslistum, um land allt, árlega. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggja skal að á dagskrá hvers leikárs séu frumflutt íslensk leikverk og verk sérstaklega ætluð börnum og ungu fólki, um land allt. Einnig skal leikhúsið annast fræðslu- og kynningarstarf og standa að leikferðum, um land allt, árlega.

6. gr.

Samstarf

Þjóðleikhúsið skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna sviðslistum með það að markmiði að auka fjölbreytni og skapa listrænan ávinning, um land allt. Leikhúsið skal eftir föngum veita leikfélögum áhugamanna lið og gera sviðslistanemendum kleift að fylgjast með leikhússtarfinu. Leikhúsið skal einnig stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samstarfi við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi leikhússins eftir því sem við verður komið.

III. KAFLI.

Íslenski dansflokkurinn.

9. gr.

Hlutverk

Íslenski dansflokkurinn er eign íslensku þjóðarinnar. Íslenski dansflokkurinn skal í starfsemi sinni leitast við að glæða áhuga landsmanna á sviðslistum og stuðla að þróun þeirra og nýsköpun. Hlutverk Íslenska dansflokksins er að sýna listdans um land allt og vera að öðru leyti vettvangur fyrir eflingu og framþróun danslistar á Íslandi, um land allt, árlega.

10. gr.

Helstu verkefni

Aðalverkefni Íslenska dansflokksins eru sýningar á íslenskum og erlendum dansverkum, um land allt, árlega. Verkefnaval skal vera fjölbreytt og tryggja skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk dansverk. Einnig skal dansflokkurinn annast fræðslu- og kynningarstarf og standa að sýningarferðum, um land allt, árlega.

13. gr.

Samstarf

Íslenski dansflokkurinn skal kosta kapps um samstarf við stofnanir, félög og aðra sem sinna listdansi ef það verður til að auka fjölbreytni og skapa listrænan ávinning fyrir samstarfsaðila. Dansflokkurinn skal stuðla að listuppeldi um land allt og fræðslustarfi í samstarfi við menntastofnanir um land allt og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi dansflokksins eftir því sem við verður komið.

IV. KAFLI.

Önnur sviðslistastarfsemi.

16. gr.

Hlutverk

Hlutverk sviðslistaráðs er að vera vettvangur fyrir umfjöllun og stefnumörkun um málefni sviðslista um land allt. Ráðið er ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar og samráðs. Hlutverk sitt rækir ráðið meðal annars með því að:

a) veita umsögn um þau mál sem ráðherra vísar til þess,

b) gera tillögu til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sviðslistasjóðs til þriggja ára í senn,

c) að gera tillögu til ráðherra um úthlutunarreglur,

d) úthluta árlega styrkjum úr sviðslistasjóði, með áherslu á aðgengi listamanna að sjóðnum óháð búsetu þeirra

e) sinna öðrum verkefnum á sviði sviðslista samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.

17. gr.

Sviðslistasjóður

Hlutverk sviðslistasjóðs er að efla íslenskar sviðslistir um land allt og kosta önnur verkefni er falla undir hlutverk og starfsemi á sviði sviðslista. Sjóðurinn skiptist í tvær deildir, deild atvinnuhópa og deild áhugahópa í sviðslistum. Sviðslistaráð gerir tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sjóðsins til þriggja ára. Ráðherra setur sviðslistasjóði reglur um auglýsingar, meðferð umsókna og afgreiðslu þeirra. Við mat á umsóknum úr sviðslistasjóði er sviðslistaráði heimilt að leita umsagnar fagaðila. Þóknun fulltrúa í sviðslistaráði og annar kostnaður af starfsemi ráðsins greiðist úr sviðslistasjóði. Ákvarðanir sviðslistaráðs eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra.

18. gr.

Kynningarmál

Ráðherra hefur heimild til að fela þar til bærum aðila að reka sérstaka skrifstofu til að kynna íslenskar sviðslistir hér á landi og erlendis og efla alþjóðlegt samstarf íslenskra sviðslistamanna og stofnana um land allt.

19. gr.

Óperustarfsemi

Stuðla skal að því að glæða áhuga landsmanna á óperum og skapa grundvöll fyrir óperuflutningi um land allt. Í því skyni er ráðherra heimilt að styðja sérstaklega við óperustarfsemi og gera fyrir hönd ríkissjóðs tímabundinn samning við lögaðila, félög eða stofnanir um fjárstuðning.

Samantekt:

1. Tryggt verði að listastofnanir þjóðarinnar sinni þjóðinni allri, alltaf.

2. Tryggt verði að listamönnum landsbyggðarinnar sé ekki mismunað í úthlutunum úr sjóðum ríkisins.

3. Tryggt verði að þríhliða samningum um menningarmál verði skapað traust umhverfi.

Virðingarfyllst,

______________________________

Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Ari Matthíasson - 27.11.2018

Í stuttu máli fagna ég framkomnum drögum að frumvarpi til laga um sviðslistir og þeirri ætlan að auðvelda stjórnsýslu og skýra ábyrgðarsvið hvað varðar Þjóðleikhúsið.

Í 4.gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að ráðherra skipi þjóðleikhússtjóra að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Rétt er að benda í þessu sambandi t.d. á álit umboðsmanns Alþingis nr. 7382/2013 þar sem ítrekað er að handhafi veitingarvalds beri ábyrgð á skipunarferli þó stjórnvald geti leitað til utanaðkomandi aðila eða haft lögbundinn umsagnaraðila svo sem gert er ráð fyrir hér, sér til aðstoðar í ferlinu. Ráðherra er þó ekki bundinn af niðurstöðu þessara aðila eða þeirri umsögn sem umsagnaraðili veitir og ber að taka sjálfstæða ákvörðun um hvern hann telur hæfastan til að sinna starfinu. Þar sem löggjafinn hagar málum í frumvarpsdrögunum svo að ákvörðunarvaldið er hjá mennta- og menningarmálaráðherra ber ráðherra að taka sjálfstæða ákvörðun um skipan í embættið út frá því hver sé hæfasti umsækjandinn í ljósi þeirra málefnalegu og lögmætu sjónarmiða sem hann ákveður að leggja til grundvallar. Honum væri því óheimilt að framselja það vald til þjóðleikhúsráðs og að fallast á tillögu þjóðleikhúsráðs án þess að leggja slíkt sjálfstætt mat á umsækjendur. Því velti ég fyrir mér til hvers verið væri að lögfesta að þjóðleikhúsráð skuli gefa umsögn um umsækjendur um embætti þjóðleikhússtjóra.

5.gr. frumvarpsins felur í sér nokkra breytingu á hlutverki þjóðleikhúsráðs frá núgildandi Leiklistarlögum nr. 138/1998, en í síðari málsgrein 6.gr. þeirra laga er hlutverk þjóðleikhússtjóra skilgreint í stuttu máli og kemur þar fram sú ætlun löggjafans að orðalagið gefi skýrt til kynna að þjóðleikhússtjóri sé ótvíræður stjórnandi stofnunarinnar og beri ábyrgð á starfi hennar í samræmi við það. Á sama hátt er í 7.gr. Leiklistarlaga skýrgreint hlutverk þjóðleikhúsráðs og tekið er fram að það sé stjórnarnefnd leikhússins sem allar meiri háttar rekstrarákvarðanir skuli bornar undir. Það sé þjóðleikhússtjóra til samráðs um mótun starfseminnar, leggi samþykki á árlega starfs- og fjárhagsáætlun og hafi eftirlit með framkvæmd hennar. Löggjafinn telur þó rétt í lögskýringum með lögunum að ítreka að í 6. gr. Leiklistarlaga sé áhersla lögð á forustuhlutverk og ábyrgð þjóðleikhússtjóra. Hlýtur samstarf þjóðleikhúsráðs og þjóðleikhússtjóra að taka mið af því.

Miðað við núgildandi lög, þ.e. Leiklistarlög nr. 138/1998 og lögskýringar með þeim er þjóðleikhússtjóri því ótvíræður stjórnandi Þjóðleikhússins þó þjóðleikhúsráði sé ætlað að vera til samráðs og samþykktar rekstrar og starfsáætlunum og ráðuneytis um allar meiriháttar rekstrarákvarðanir.

Nú hafa verið sett lög um opinber fjármál nr. 123/2015. Í IV. Kafla laganna 27.gr. er tiltekið að forstöðumaður ríkisaðila beri ábyrgð gagnvart ráðherra á að starfsemin skili tilætluðum árangri og að rekstur og afkoma sé í samræmi við fjárveitingar og áætlanir sem samþykktar hafa verið. Þannig ber forstöðumaður persónulega ábyrgð á fjáreiðunum og að samþykktum áætlunum sé fylgt gagnvart ráðherra. Í 35. gr. laganna er kveðið á um upplýsingaskyldu forstöðumanns gagnvart ráðherra þegar um frávik frá rekstraáætlunum er að ræða. Þá skal forstöðmaður upplýsa hlutaðeigandi ráðherra án tafar um frávik frá rekstraráætlun, ástæður þeirra og hvernig fyrirhugað er að bregðast við þeim. Hlutaðeigandi ráðherra skal upplýsa forstöðumann innan 15 daga um afstöðu sína til fyrirhugaðra viðbragða. Fallist hann ekki á tillögurnar skal hann, innan sama tímafrests, leggja fyrir forstöðumanninn að bregðast við með nánar tilgreindum hætti þannig að settum markmiðum verði náð. Ef forstöðumaður upplýsir ekki um frávik frá rekstraráætlun eða ef afkoma eða rekstur er ekki í viðunandi horfi, eða ástæða er til að ætla að svo geti verið, getur hlutaðeigandi ráðherra falið óháðum aðila að gera úttekt á starfsemi ríkisaðilans. Hlutaðeigandi ráðherra skal leggja sjálfstætt mat á þær skýringar sem fram koma í úttektinni og skal tryggja að gripið sé til nauðsynlegra úrræða til að afkoma eða rekstur sé í samræmi við samþykktar áætlanir.

Í ljósi laga um opinber fjármál er því eðlilegt að þjóðleikhúsráði sé hvorki ætlað eftirlitshlutverk með starfs- né rekstraráætlunum enda hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið það hlutverk með lögum og eftir atvikum fjármála- og efnahagsráðuneytið einnig. Hins vegar er þess getið í reglugerð nr. 117/2009 fyrir Þjóðleikhús sem sett er á grundvelli leiklistarlaga nr. 138/1998 að þjóðleikhúsráði sé ætlað að stuðla að því að Þjóðleikhúsið búi við raunhæfan rekstrargrundvöll. Þannig hefur þjóðleikhúsráð og þá sérstaklega formaður þess beitt sér fyrir því að fjárveitingar til leikhússins séu ekki skertar meira en raun hefur borið vitni á niðurskurðartímum og nú í seinni tíð fyrir því að fjármagni hafi verið veitt til nauðsynlegra endurbóta á tækjabúnaði og húsakosti. Sá stuðningur skiptir miklu máli fyrir framgang leiklistar á Íslandi og þess vegna væri gott að slíka hvatningu væri að finna í lögum og reglugerðum um Þjóðleikhús til framtíðar.

Í hinu nýja frumvarpi til Sviðslistalaga hefur áheyrnarfulltrúi starfsmanna í þjóðleikhúsráði verið felldur brott og er það miður, en núgildandi Leiklistarlög tryggja fulltrúa starfsmanna setu-, málfrelsis- og tillögurétt á fundum þjóðleikhúsráðs. Í þjóðleikhúsinu eru um 300 manns á launaskrá og um 100 í föstu starfi. Í leikhúsinu starfa á hverju starfsári um 40 leikarar og eru af þeim milli 25-30 í föstu starfi. Það er mikilvægt að rödd þeirra heyrist í hinu ráðgefandi listráði sem frumvarpsdrögin gera ráð fyrir að þjóðleikhúsráð verði. Þess vegna hvet ég til þess að þetta verði endurskoðað í frumvarpsdrögunum. Jafnframt bendi ég á að á stjórnarfundi þann 30.10. s.l. í SAVIST, samtökum atvinnuveitenda í sviðslistum og tónlist sem allar sviðslistastofnanir á Íslandi eiga aðild að auk RUV, voru allir stjórnarmenn sammála um að ekki væri skynsamlegt að í slíku ráði sætu formenn stéttarfélaga.

Að endingu er rétt að benda á þá staðreynd að öll ákvörðunartaka í listastofnunum fer fram í samvinnu allra þeirra sem þar starfa, bæði almennra starfsmanna, listamanna og listrænna stjórnenda að meira eða minna leyti þó forstöðumaður beri endanlega ábyrgð á niðurstöðunni. Ef leitað er sjónarmiða starfsfólks og á það er hlustað viðhelst góður starfsandi og traust á yfirstjórn. Í leikhúsum kemur saman fjöldi einstaklinga af mörgum toga og er samvinna óvíða í öðrum rekstri eins mikið lykilatriði.

Afrita slóð á umsögn

#10 Félag íslenskra leikara - 27.11.2018

Samþykkt stjórna Félags íslenskra leikara og Félags leikstjóra á Íslandi.

Drög að sviðslistalögum í nóvember 2018.

Við fögnum markmiði nýrra sviðslistalaga að efla skuli íslenskar sviðslistir á landinu öllu en leggjumst gegn því að heimildarákvæði gildandi laga, III. Kafli, 16. grein um tímabundna samninga atvinnuleikhúsa, sveitarfélaga og ráðuneytis, hverfi úr lögum um sviðslistir sem er forsenda þess að sviðslistir þrífist víðar en í Reykjavík og nálægum sveitarfélögum.

Við fögnum að loks 45 árum eftir stofnun Íslenska dansflokksins skuli starfsemi hans tryggð með lögum og ítrekum mikilvægi þess að flokknum sé tryggt rekstrarfé svo hann standi undir þeim markmiðum sem tilgreind eru í frumvarpsdrögum III kafla greinum 9.-14. Samkvæmt Mati á áhrifum lagasetningar frá 27. 9. 2018 verður að efast um að þeim markmiðum verði náð án þess að til komi verulega aukið rekstrarfé.

Við leggjum þunga áherslu á að staða óperulistarinnar verði tryggð með viðlíka hætti og listdansins nú 38 árum eftir stofnun Íslensku óperunnar. Ákvæði frumvarpsins ganga í þveröfuga átt, þar sem breytt er ákvæðum gildandi laga um óperuflutning í Þjóðleikhúsi – I. kafli 5. grein, þannig þrengir frumvarpið enn að stöðu þeirra menntuðu listamanna sem starfa heima og erlendis á vettvangi óperu.

Við undrumst að í frumvarpsdrögunum skuli ekki rætast fyrirheit um stofnun Kynningarmiðstöðvar sviðslista sem er brýnt til framfara fyrir sviðslistamenn á Íslandi eins hefur reynst raun um aðrar listgreinar sem njóta þessháttar starfsemi: tónlistar, myndlistar, kvikmynda, hönnunar og bókmennta. Kynningarmiðstöð sviðslista verður að setja á fót – nú er tækifærið.

Við teljum mikilvægt að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á starfslaunakerfi sviðslistafólks þannig að saman fari verkefna- og starfslaunastyrkir listrænu sköpunarstarfi til heilla og ríkistjórn líti raunsæjum augum á að laun til listamanna úr því kerfi dugi til framfærslu sem þau gera ekki í dag. Ákvæði þess efnis þyrftu að vera í frumvarpinu, eða a.m.k. tíunduð í greinargerð þess.

Mikilvægt er að stjórnkerfi listastofnana: Íslenska dansflokksins, Sviðslistasjóðs og Þjóðleikhúss byggi á faglegri þekkingu á starfinu sem þar fer fram og leggjum því áherslu á að skipan í þau ráð sem fara með stjórnunarhlutverk skv. frumvarpinu verði að meirihluta í höndum fagfélaga þeirra sem vinna að listsköpun en lúti ekki samsetningu þingsins hverju sinni. Í því sambandi leggjum við til að ráðherra skipi jafnan minnihluta stjórna og treysti þeim til að skipta sjálfar með sér verkum og móta sér starfsreglur.

Við furðum okkur á hugmyndum í drögunum um að draga úr mikilvægi þjóðleikhússráðs við mótun framtíðarstefnu leikhússins í samræmi við fjármálaáætlun, minnka valdsvið þess frá gildandi lögum og gera það þannig að valdlausri umsagnarnefnd um starfsemi höfuðvígis íslenskra sviðslista. Það er vert að ræða útfærslu frumvarpsins nánar og leita leiða til að gera ráðið ábyrgt í störfum sínum án þess að dregið sé úr listrænni ábyrgð leikhússtjóra.

F.h. Félags íslenskra leikara, Birna Hafstein formaður

F.h. Félags leikstjóra á Íslandi, Páll Baldvin Baldvinsson formaður

Afrita slóð á umsögn

#11 Irma Mjöll Gunnarsdóttir - 27.11.2018

Félag íslenskra listdansara og Íslenski dansflokkurinn fagna því að loks hyllir undir að starfsemi Íslenska dansflokksins verði bundin í lög. FÍLD og Íd eru með nokkrar breytingatillögur við kafla III er varðar drög að lögum um Íslenska dansflokkinn, einnig er athugasemd við 15.grein frumvarpsins, sjá umsögn í meðfylgjandi viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Marta Nordal - 27.11.2018

Ánægjulegt að Íslenski dansflokkurinn sé festur í lög

Í gildi er 3ja ára menningarsamningur milli Akureyrar og ríkis um styrki til menningarstarfsemi og er það vel. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þess sér ekki stað í þessu frumvarpi og hvers vegna 15. og 16. greinar úr gömlu leiklistarlögunum hafa verið felldar úr gildi í stað þess að endurskoða þær með tillitil til breytts umhverfis.

15. grein. Í frumvarpi um sviðslistalög frá árinu 2013 var lagt til að Sviðslistaráð fengi viðamikið hlutverk. Hugsunin var þar að búa til öflugt ráð líkt og hjá Miðstöð íslenskra bókmennta þar sem fjármagn væri allt á einum stað og ráðinu falin meiri ábyrgð en núverandi Leiklistarráði. Í ráðinu áttu að sitja fimm aðilar, fjórir tilnefndir af Sviðslistasambandi Íslands (áður Leiklistarsamband Íslands) og einn af ráðherra. Þannig átti að tryggja að ráðið endurspeglaði breidd sviðslistanna og heildarsamtök sviðslista; Sviðslistasambandi Íslands gefið sanngjarnt vægi og völd.

Nú hefur þessari grein verið breytt töluvert frá 2013 og í raun er lagt til í þessu frumvarpi að Sviðslistaráð hafi nákvæmlega sömu völd og núverandi Leiklistarráð nema að einhverra hluta vegna er það BÍL sem tilnefnir tvo og ráðherra einn. Vandséð hvers vegna lagt er til að slíkt vald sé tekið frá sviðslistafólki og fært yfir á heildarsamtök listamanna með ýmsum öðrum listgreinum innanborðs og þar sem hvorki sviðslistastofnanir eða sjálfstæðir leikhópar eiga aðild.

Það má líka spyrja sig hvernig úthluta á oftar en einu sinni á ári úr Sviðslistaráði til atvinnuhópa ef listamannlaunum verður áfram úthlutað einu sinni á ári. Það er mikilvægt fyrir sviðslistafólk að úthlutun fari fram oftar yfir árið en þá þarf að breyta lögum um Listamannalaun, opna það upp og setja hlut sviðslistafólks inní pott Sviðslistaráðs.