Samráð fyrirhugað 01.11.2018—03.12.2018
Til umsagnar 01.11.2018—03.12.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 03.12.2018
Niðurstöður birtar 11.09.2020

Tillaga að aðgerðaáætlun í plastmálum

Mál nr. 184/2018 Birt: 01.11.2018 Síðast uppfært: 11.09.2020
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður birtar

Að umsagnarfresti liðnum var unnið áfram með málið og gefin út áætlunin Úr viðjum plastsins, sbr. fréttatilkynningu https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/09/08/Adgerdaaaetlun-i-plastmalefnum-gefin-ut/. Áætlunin samanstendur af 18 aðgerðum sem miða að því að draga úr plastnotkun í samfélaginu, auka endurvinnslu plasts og sporna gegn plastmengun í hafi. Umfjöllun um niðurstöður samráðs er að finna í kafla 1.2.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 01.11.2018–03.12.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 11.09.2020.

Málsefni

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um tillögu að aðgerðaáætlun í plastmálefnum.

Samráðsvettvangur um aðgerðaáætlun í plastmálefnum hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra tillögu að aðgerðaáætlun um hvernig draga má úr notkun plasts, bæta endurvinnslu þess og takast á við plastmengun í hafi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði samráðsvettvanginn, sem í áttu sæti fulltrúar m.a. frá atvinnulífinu, sveitarfélögum, félagasamtökum, stofnunum, Alþingi og ráðuneytum, í júlí 2018.

Hópnum var falið af ráðherra að taka til skoðunar hvaða rannsóknir og vöktun varðandi plast þurfi að ráðast í, koma með tillögur um þær stjórnvaldsaðgerðir sem æskilegt væri að koma í framkvæmd og koma með tillögur um hvernig best verði stuðlað að nýsköpun í vörum sem koma í stað plastnotkunar.

Tillögur að aðgerðaráætluninni fela í sér 18 aðgerðir.

Meðal annars er lagt til að ráðast í þriggja þrepa áætlun um burðarpoka úr plasti sem endi með því að óheimilt verði að selja eða afhenda plastpoka í verslunum. Þá er lagt til að hafist verði handa við að innleiða tilskipun ESB um að draga úr umhverfisáhrifum plasts sem fyrst eftir að slík tilskipun hefur verið samþykkt í Evrópu. Lagt er til að banni við einnota plastdiskum, plasthnífapörum, plaströrum og öðru einnota plasti, sem kveðið er á um í drögum að tilskipuninni, verði flýtt hér á landi.

Lagt er til að ráðist verði í markvissa vitundarvakningu um ofnotkun á plastvörum, komið verði á fót sérstökum rannsókna- og þróunarsjóði sem meðal annars styðji við nýjar lausnir sem komið geti í stað plasts, að leidd verði í lög skylda sveitarfélaga og rekstraraðila til að flokka úrgang og að flokkun úrgangs verði samræmd á landsvísu.

Þá er m.a. lagt til að úrvinnslugjalds verði lagt á allt plast en ekki einungis umbúðaplast, að hreinsun frárennslis verði bætt til að minnka losun örplasts í hafið, að hreinlætisvörur sem innihalda örplast verði bannaðar, að staðið verði fyrir viðamiklu átaki um að hreinsa strendur landsins og að fyrirtækjum og rekstraraðilum verði með miðlægri upplýsingagjöf gert auðveldara fyrir við að velja grænni lausnir fyrir rekstur sinn, til dæmis umhverfisvænni umbúðir undir tilbúna matvöru.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Kjartan Sigurgeirsson - 01.11.2018

Tillögur góðar að öðru leyti en því að það þarf að koma í veg fyrir að mais pokar verði notaðir í staðinn. Mais er að talsverðu leyti uppistaða í fæðu fátækra íbúa mið og suður Ameríku, það er algjör óþarfi að eftirspurn eftir honum verði aukin á meðan nóg er til af papír, sem er miklu æskilegra efni í umbúðir.

Kveðja,

Kjartan Sigurgeirsson

Afrita slóð á umsögn

#2 Sveinbjörn Ragnarsson - 02.11.2018

mér finnst vanta í tillögurnar stæðsta vandamálið í plastnotkun. Þegar ég var krakki var allt gos í gleri mæli með að allar gos og ávstadrikkir verði bannaðir í plasti og færti í gler ég og veit um fleiri sem eru tilbúin til að borga meira fyrri gos í gleri. það verður að taka þetta alla leið ekki vera með plástrana:)

KV Sveinbjörn

Afrita slóð á umsögn

#3 Guðmundur Ragnar Guðmundsson - 03.11.2018

Varðandi

Aðgerð 8

Allt of veik tillaga.

Vantar ákvæði í líkingu við þriggja þrepa burðarpoka áætlun aðgerðar númer 1

Aðgerðaáætlanir eru aðferðir til að ná markmiðum en léttvægar án aðhalds.

Aðgerð 13

taka út „styðja við þá ímynd að sjávarafli Íslands sé heilnæmur“

Vöktunar aðili þarf að hafa möguleika á að komast að annarri niðurstöðu.

Aðgerð 18

Er hér verið að leyfa plast veiðarfæri um ókomna framtíð þó þau séu stærstur hluti vandans ?

Afrita slóð á umsögn

#4 Lúðvíg Lárusson - 03.11.2018

Varðandi plastmálefni:

Fagna ber áætlunum að hemja útbreiðslu plasts. Við þetta má bæta áætlun og sennilega lagagerð vegna sveitarfélaga með kröfu um að skipuleggja fyrsta-, annars-, og þriðja stigs hreinsun á skólpi frá sveitarfélögum í öllu landinu með hæfilegum fyrirvara ca. 10 ár til að hemja breiða mengun út í hafið við strendur Íslands en kostnaður ætti að vera í líku hlutfalli við fjölda íbúa á hverjum stað þannig að ekki aðeins stærstu sveitarfélögin hreinsi meira en þau minni jafn vel ekkert. Hér er hugsað um að minnka líkur á örplasti sem brotnar niður í hafinu við sólarljós sem og önnur óæskileg efni. Hafið tekur ekki endalaust við án þess að verða skaðlegt lífi og heilsu manna og dýra.

Afrita slóð á umsögn

#5 Sigríður Sigurðardóttir - 03.11.2018

Sæl, ég hef flokkað hvert einasta snifsi í mörg ár. Það er ekkert eftirlit með því sem hent er í ruslatunnur hér á landi. Það er óhugnalegt magn af plasti sem fer í ruslatunnurnar. Jafnvel þótt plast- og pappatunnur séu til staðar fer tilheyrandi rustl ekki þangað. Það þarf að banna svörtu ruslapokana svo dæmi sé nefnt. Ég mæli með því að þið farið einn rúnt í nokkrar blokkir og skoðið innihald tunnanna. Það væri áfall fyrir ykkur. Annað hvort á að gera þetta almennilega eða sleppa þessu. Agaleysið í þessu þjóðfélagi er algjört. Það þurfa allir að taka höndum saman, heimilin, skólarnir, þið sem stjórnið þessu verkefni svo og gámastöðvarnar.

Kveðja, Sigríður.

Afrita slóð á umsögn

#6 Eyrún Pétursdóttir - 06.11.2018

Orð fá ekki lýst hvað ég er ánægð með hversu mikið er að fara að eiga sér stað í minnkun á notkun einnota plasts ef tillögur þessarar aðgerðaáætlunar verða að veruleika!

Það eru þó a.m.k. eitt atriði sem ég sakna á listann og það er einhver leið til að auka lýkur á umbúðarlausum matvörum í matvöruverslunum. Ég myndi vilja sjá umbúðalausar matvörur bæði í þessum helstu stórmörkuðum sem flest okkar versla í svo og hjá kaupmanninum á horninu. Kosturinn við að þetta sé í þessum helstu matvörubúðum sem flest okkar versla við dags daglega er að þetta þarf að vera einfalt svo þetta heppnist svo ef þetta er í búðinni sem þú ert hvort eð er að fara í er líklegra að þú nýtir þér þetta. Kosturinn við að þetta sé í boði hjá kaupmanninum á horninu er að hann er nálægt heimilinu þínu og þá ekkert mál að koma við heima eða stökkva heim aftur o.s.frv. ef ílát undir matvöruna gleymist.

Hægt væri að byrja á þessu einfalda, ein hilla með þurrvörum eins og haframjöli, grjónum, fræjum, hnetum, þurrkuðum ávöxtum o.s.frv. Ein hilla sem býður upp á þetta umbúðarlaust þó svo að það sé til að byrja með einnig í boð í umbúðum í næstu hillu. Eftir því sem áhugi vex og sala eykst er svo hægt að fjölga vöruúrvali og hillum.

Afrita slóð á umsögn

#7 Eydís Salome Eiríksdóttir - 12.11.2018

Góðan daginn,

mig langar að benda á eitt varðandi merkingar á veiðarfærum sem er einn af punktunum í tillögunum.

Aðgerð 18: Merkingar á staðbundnum veiðarfærum

Markmið: Að stuðla að rekjanleika tapaðra veiðarfæra.

Lýsing: Stór hluti af því plasti sem finnst í fjörum við Ísland á uppruna frá sjávarútvegi, gjarnan

veiðarfæri. Hingað til hefur staðið á því að sjómenn sinni tilkynningarskyldu á töpuðum veiðarfærum,

en veiðarfæri eru í flestum tilfellum gerð úr plastefnum. Því er lagt til að sett verði í viðeigandi reglugerð

að öll staðbundin veiðarfæri (gildrur, línur og net) séu merkt á skýran hátt, líkt og þegar hefur verið gert

varðandi krabbagildruveiðar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 671/2018, um veiðar á kröbbum, og veiðar í

þorskfisknet, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 115/2006, um þorskfisknet. Þannig má auka rekjanleika

veiðarfæra sem tapast í sjó og vinna að viðeigandi lausnum. Jafnframt þarf að gæta að því að önnur lög

eða reglugerðir vinni ekki á móti tilkynningarskyldu á töpuðum veiðarfærum, þannig að ekki lendi

kostnaður á þeim aðila sem tilkynnir um tap á veiðarfærum heldur aðeins á þeim sem skilja veiðarfæri

eftir af ásetningi og engin tilkynning er til um.

Tími: Tillögur verði tilbúnar 1. september 2019.

Kostnaður: Þarf að kostnaðarmeta sérstaklega.

Ábyrgð: Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og til ráðgjafar Hafrannsóknastofnun, rannsóknar- og

ráðgjafarstofnun hafs og vatna.

Reglugerðin nr 115/2006 um þorskfisknet talar bara um að baujur og drekar séu merktir, ekki netin sjálf sbr.

"4. gr.

Allir netadrekar skulu greinilega merktir umdæmisnúmerum þeirra skipa, sem nota þá. Merki þessi skulu vera soðin á netadrekana.

Netabaujur skulu vera á báðum endum netatrossu og allar merktar með flaggi, sem komið er fyrir efst á baujustönginni. Á flaggið skal mála umdæmisnúmer þess skips, sem notar netin. Auk þessa er heimilt að auðkenna flaggið með kallmerki skipsins. Auk þessa skulu allir belgir merktir með umdæmisnúmerum þess skips, sem notar þá. Merkingar á baujuflöggum og belgjum skulu vera greinilegar og skulu stafir stórir og skýrir.

Verði breytingar á umdæmisnúmerum skips, ber að breyta merkingum á veiðarfæra­útbúnaði í samræmi við þá breytingu.

Þegar netadrekar, netabaujur og belgir eru um borð í veiðiskipi, skulu veiðarfærin vera merkt í samræmi við ákvæði þessarar greinar."

Tilganginum með merkingu veiðarfæra verður ekki náð nema netin sjálf verði merkt þar sem auðvelt er að ná baujum og drekum en hluti af netunum getur fest í botni og slitnað. Þau liggja því bara eftir og ekki er tilkynnt um þau þar sem einhversstaðar stendur víst að hægt sé að rukka útgerðirnar fyrir aðgerðir varðskipa til þess að ná í netin.

Það þyrfti því að taka út eftirfarandi úr tillögunni: " og veiðar í þorskfisknet, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 115/2006, um þorskfisknet." þar sem netin eru ekki merkt, bara baujur og drekar.

Bestu kveðjur

Eydís Salome Eiríksdóttir

Afrita slóð á umsögn

#8 Björn Hafsteinn Halldórsson - 14.11.2018

Sjá meðfylgjandi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Landvernd - 20.11.2018

Landvernd styður heilshugar við bann á burðarplastpokum og öðrum einnota plastvörum. Með þessari umsögn er brugðist við þeirri gagnrýni að burðarplastpokar séu umhverfisvænastir allra burðarpoka og því ætti ekki að banna þá. Sjá umsögn Landverndar í heild sinni í meðfylgjandi skrá.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Þorsteinn Aðalsteinsson - 03.12.2018

Plastefni eru óvinsæl af því að við tökum eftir mikilli sjónrænni mengun sem þau valda.

Hins vegar tökum við ekki eftir menguninni sem verður þegar gler, pappír, bómull og önnur efni sem eiga að koma í staðin eru framleidd. Gler þarf til dæmis allt að vera flutt inn til, og engin endurvinnsla á sér stað þó svo að það fari óheyrileg orka, og þar af leiðandi mengun, í að framleiða þessar vörur. Pappír er nokkuð skárri, en endurvinnsla á pappír mengar aðeins um þriðjung á við nývinnslu á pappír. Nývinnsla á pappír var hins vegar settur í þriðja sæti yfir mest mengandi iðnað í Bandaríkjunum (rannsókn EPA), svo að þar var hægt að ná nokkuð miklu í umbótum.

Við tökum heldur ekki eftir því að vörur sem eru í plasti verða sjaldnar fyrir skemdum og eru því líklegri til að seljast, sem dregur úr matarsóun. Plast hefur einnig gert framleiðendum mögulegt að frysta vörur betur.

Vandræðin við plastið er að langstærstum hluta af því að of fá úrræði eru til staðar þegar kemur að förgun eða endurvinnslu, enda fer stærsti hluti plasts í urðun (eða um 79%, á meðan aðeins um 9% er endurunnið (Sci. Adv 2017; 3(7) e1700782.). Afgangurinn fer í brennslu).

Við lítum einnig á plast sem "ódýrt" og finnst því í lagi að þessi hlut neyslunnar fari út sem "ónýtt" í urðun. Þarna er hugarfar sem mætti takast á við í reglugerðinni.

Ég er sammála því að draga á úr framboði á einnota plastvöru (diskum, bollum og rörum), en er ósammála þeirri stefnu að banna burðarpoka í búðum, þar sem þetta er tiltölulega lítill hluti af öllu því plasti sem við burðumst með þegar við kaupum vöru á annað borð. Burðarpokar geta verið margnýttir ef við lítum á þá sem einhverskonar verðmæti. Það mætti hins vegar hækka gjaldið fyrir pokana töluvert og endurgreiða hluta ef pokum er skilað.

Það mætti víkka þessa hugmynd og setja skilagjald á plast almennt, þar á meðal á veiðarfæri og plastefni sem fer í byggingariðnað, en eins og réttilega hefur verið bent á er langstærsti hluti plasts sem við gröfum upp við sjávarmálið úr veiðarfærum sem hafa týnst. Einnig skila smávægilegar byggingarframkvæmdir töluverðu magni af plast-afskurði og plast sagi, þannig að það hlýtur að vera töluvert af efnum sem falla til við stærri framkvæmdir.

Endurgreiðslan yrði því að vera eftir þyngd, en svo virðist að Íslendingar séu tilbúnir að leggja í söfnun á dósum, glerjum og drykkarumbúðum með góðum árangri.

Ég hvet til þess að við skoðum hlutina í samhengi og tökum til þar sem árangur myndi vera mælanlega til umbóta í umhverfinu. Bann við plastpokum í búðum mun ekki draga mælanlega úr losun plasts út í umhverfið. Umhverfismál snúast um samdrátt í neyslu og endurskoðun á verðmætum, en ekki á því að færa mengunina í bakgarð annarra.

Afrita slóð á umsögn

#11 Samband íslenskra sveitarfélaga - 03.12.2018

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðgerðaáætlun gegn plastmengun.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Pure North Recycling ehf. - 03.12.2018

Drög aðgerðaráætlunuar í plastmálum er bæði metnaðarfull og framsýn.

Óskað hefur verið eftir ábendingum og athugasemdum.

Ísland getur orðið fyrirmynd annarra þjóða í flokkun, sorphirðu og endurvinnslu. Þetta er hægt á jafn litlu landi og Íslandi. Plast er ekki vandamál í sjálfum sér, hedur hvernig mannskepnan umgengst það.  Það eru við sjálf sem berum ábyrgð á því og eigum að leysa vandan heima fyrir en ekki ætlast til að það sé verk nágrannans að þrífa upp eftir okkur.

Í skýrslu Evrópusambandins, A European Strategy for Plastics in a circular economy, er farið yfir helstu ráðstafanir sem yfirvöld eru hvött til að setja í farveg til að efla fjárfestingar og nýsköpun í átt að hringrásarhagkerfi. Þessar áherslur er í takti við drög að aðgerðaraæltun sem nú er til umsagnar. Í skýrslu Evrópusambandsins kemur m.a. fram:

• Breyta efnahagslegum hvötum, einkum til að auka kostnað við losun og brennslu plastefna. Jafnframt að stuðla að og efla endurvinnslu á plasti sem og leiða til minni notkunar.

• Nýta opinber innkaup og opinbera fjárstyrki til að stuðla að minnkun plastúrgangs. Jafnframt er endurvinnsluiðnaðurinn hvattur til að efla innviði ásamt því að auka þarf fjárfestingar til rannsókna og þróunar á sviðum sem beinast að því að ná settum markmiðum og stefnu.

• Stuðla að því að efla einkafjárfestingar til fjárfestinga sem vega á móti umhverfisáhrifum plastframleiðslu.

Aðgerð 1 felur í sér að notkun einnota burðapoka úr plasti verði bönnuð. Rökstuðning vantar fyrir umhverfislegum, efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum sem slíkt bann hefur. Eins má vekja athygli á endurunnum plastburðapokum en fyrir hvert tonn sem endurunnið er úr plasti sparast 1,8 tonn af olíu. Það er mikilvægt að minnka notkun á plasti en það þarf jafnframt að endurvinna plast og tryggja að plast verði aftur plast.

Pure North Recycling er íslenskt fyrirtæki sem endurvinnur plast. Við endurvinnsluna er einungis notuð ,,græn orka” það er gufu- og raforku frá gufuaflsvirkjun. Aðferðin er íslenskt hugverk, jarðvarminn er virkjaður og engin kemísk efni eru notuð við vinnsluna með það að markmiði að fullvinnslan skilji eftir sig sem minnst eða ekkert kolefnisspor. 

 

Í dag er Pure North Recycling eina fyrirtækið  á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. Fyrirtækið endurvinnur megnið af því heyrúlluplasti sem tilfellur á Íslandi eða um tvöþúsund tonn á ári. Pure North Recycling stefnir að því að endurvinna að auki harðplast, umbúðarplast en 95% af óendurunnu umbúðarplasti er flutt úr landi. Auk þess mun fyrirtækið skoða möguleikana á því að endurvinna veiðafæri.  Starfsemi Pure North Recycling fellur vel við þá hugmyndafræði og þau verkefni sem framundan eru bæði í aðgerðaráætlun í loftlagsmálum og áætlun ríkisstjórnarinnar um átak gegn plasti. 

Aðgerð 3, Rannsóknar- og þróunarsjóður er því afskaplega mikilvæg þannig að ný atvinnugrein, endurvinnsla, geti vaxið og dafnað. Í dag er aðgengi að stuðningi og fjármagni til uppbyggingar takmarkað.

Kolefnislosun frá sorpi á Íslandi er há. Losun kolefnis frá sorpi er um 8% á hvern íbúa hér á landi en er 1%-3% í löndunum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Auk þess hefur kolefnislosun frá sorpi aukist um 40% á Íslandi frá því að mælingar hófust árið 1990 á sama tíma og hún hefur almennt dregist saman um 30-80% í löndunum í kringum okkur. (Heimild World Resource Institude)

Með vísan í landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024 hefur ríkið skuldbundið sig til að enduvinna 22,5% af plastumbúðum, Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2030 segir  m.a. ,,Íslendingar þurfa að minnka losun frá samgöngum, landbúnaði, fiskveiðum, úrgangi og landnotkun og efla bindingu kolefnis úr andrúmslofti…” Starfsemi Pure North Recycling fellur undir þessi markmið. Áætlað er að fyrir hvert tonn sem endurunnið er af plasti sparist um 1,8 tonn af olíu. Með fullvinnslu hér á landi sparast kolefnisspor sem koma til vegna flutninga en áætlað er að um 16.000 tonn af umbúðarplasti séu flutt til landsins árlega, það á að vera markmið að tryggja fullvinnslu á öllu þessu efni hér á landi í samræmi við áætlanir. Aðferðir Pure North Recycling við endurvinnslu plasts stuðla að því að kolefnisspor við endurvinnsluna eru afturvirk.

Það er mikilvægt að hér á landi verði tekin stærri skref í enduvinnslu á plasti enda er ekki ólíklegt að á næsta ári verði samþykktar takmarkanir á flutningi á óunnu plasti milli landa. Það er því nausynlegt að hér á landi verði hægt að fullvinna plast annað hvort til framleiðslu á Íslandi eða útflutnings og þá sem fullunið hráefni til plastvinnslu.

Hugmyndir um hagræna hvata í aðgerð 10, að koma sem mestu plasti til endurvinnslu, eru því fagnaðarefni. Þá teljum við mikilvægt að endurvinnsla hér á landi verið sjálfbær, endurvinnslan verði unnin hérlendis, og tryggjum að plast verði aftur plast.

Fyrir hönd Pure North Recycling,

Sigurður Halldórsson

Afrita slóð á umsögn

#13 Samtök atvinnulífsins - 03.12.2018

Með fylgir sameiginleg umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins og SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Fjóla Jóhannesdóttir - 03.12.2018

Umsögn Veitna um aðgerðaráætlun gegn plastmengun.

F.h. Veitna

Fjóla Jóhannesdóttir

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Sigurjón Norberg Kjærnested - 03.12.2018

Meðfylgjandi er umsögn Samorku um málið.

Viðhengi