Samráð fyrirhugað
Samráð stendur yfir 01.11.2018 - 03.12.2018
Niðurstöður í vinnslu
Niðurstöður birtar

Tillaga að aðgerðaáætlun í plastmálum

Mál nr. S-184/2018 Stofnað: 01.11.2018
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Samráð stendur yfir

Umsagnarfrestur er 01.11.2018 - 03.12.2018. Umsagnir eru birtar jafnóðum og þær berast. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um tillögu að aðgerðaáætlun í plastmálefnum.

Samráðsvettvangur um aðgerðaáætlun í plastmálefnum hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra tillögu að aðgerðaáætlun um hvernig draga má úr notkun plasts, bæta endurvinnslu þess og takast á við plastmengun í hafi.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, skipaði samráðsvettvanginn, sem í áttu sæti fulltrúar m.a. frá atvinnulífinu, sveitarfélögum, félagasamtökum, stofnunum, Alþingi og ráðuneytum, í júlí 2018.

Hópnum var falið af ráðherra að taka til skoðunar hvaða rannsóknir og vöktun varðandi plast þurfi að ráðast í, koma með tillögur um þær stjórnvaldsaðgerðir sem æskilegt væri að koma í framkvæmd og koma með tillögur um hvernig best verði stuðlað að nýsköpun í vörum sem koma í stað plastnotkunar.

Tillögur að aðgerðaráætluninni fela í sér 18 aðgerðir.

Meðal annars er lagt til að ráðast í þriggja þrepa áætlun um burðarpoka úr plasti sem endi með því að óheimilt verði að selja eða afhenda plastpoka í verslunum. Þá er lagt til að hafist verði handa við að innleiða tilskipun ESB um að draga úr umhverfisáhrifum plasts sem fyrst eftir að slík tilskipun hefur verið samþykkt í Evrópu. Lagt er til að banni við einnota plastdiskum, plasthnífapörum, plaströrum og öðru einnota plasti, sem kveðið er á um í drögum að tilskipuninni, verði flýtt hér á landi.

Lagt er til að ráðist verði í markvissa vitundarvakningu um ofnotkun á plastvörum, komið verði á fót sérstökum rannsókna- og þróunarsjóði sem meðal annars styðji við nýjar lausnir sem komið geti í stað plasts, að leidd verði í lög skylda sveitarfélaga og rekstraraðila til að flokka úrgang og að flokkun úrgangs verði samræmd á landsvísu.

Þá er m.a. lagt til að úrvinnslugjalds verði lagt á allt plast en ekki einungis umbúðaplast, að hreinsun frárennslis verði bætt til að minnka losun örplasts í hafið, að hreinlætisvörur sem innihalda örplast verði bannaðar, að staðið verði fyrir viðamiklu átaki um að hreinsa strendur landsins og að fyrirtækjum og rekstraraðilum verði með miðlægri upplýsingagjöf gert auðveldara fyrir við að velja grænni lausnir fyrir rekstur sinn, til dæmis umhverfisvænni umbúðir undir tilbúna matvöru.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.