Samráð fyrirhugað
Samráð stendur yfir 12.02.2018 - 13.03.2018
Niðurstöður í vinnslu
Niðurstöður birtar

Umönnunargreiðslur og greiðslur til foreldra langveikra eða fatlaðra barna - Áfangaskýrsla starfshóps

Mál nr. S-12/2018 Stofnað: 12.02.2018 Síðast uppfært: 13.03.2018
  • Velferðarráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál
  • Örorka og málefni fatlaðs fólks

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (12.02.2018-13.03.2018). Umsagnir um þetta mál munu ekki birtast í gáttinni. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Áfangaskýrsla starfshóps vegna umönnunargreiðslna og greiðslna til foreldra langveikra eða fatlaðra barna. Starfshópurinn hefur ekki lokið störfum en hyggst skila lokaskýrslu sumarið 2018.

Í skipunarbréfi starfshópsins segir m.a. "Starfshópnum er ætlað að fara yfir lög nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna (foreldragreiðslur) og 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem kveðið er á um umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna. Markmið endurskoðunarinnar er að meta reynslu af framkvæmdinni og þörf á breytingum á framangreindum lögum, ásamt þeim reglugerðum sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Í starfi sínu skal hópurinn m.a. líta til fyrri vinnu á þessu sviði."

Starfshópurinn hefur kynnt sér ítarlega núverandi fyrirkomulag og framkvæmd málaflokksins. Gildandi kerfi er komið til ára sinna og hefur verið gagnrýnt fyrir það að vera mjög flókið og miða um of við sjúkdómsgreiningar barna en ekki þörf þeirra fyrir umönnun. Telur starfshópurinn mikilvægt að gerðar verði breytingar á núgildandi kerfi sem nánari grein verður gerð fyrir hér.

Álit starfshópsins er að börn með sömu sjúkdómsgreiningu þurfi oft ólíka umönnun og ætti fjárhagslegur stuðningur velferðarkerfisins að taka mið af því. Líta þurfi heildstætt á hvert tilfelli fyrir sig og byggja ákvörðun um greiðslur á mati, annars vegar á umönnunarþörf viðkomandi barns og hins vegar á umframkostnaði vegna þess.

Starfshópurinn hefur unnið tillögur með það að markmiði að:

1. Einfalda fjárhagslegan stuðning til fjölskyldna fatlaðra og langveikra barna með því meðal annars að sameina í ein lög ákvæði um greiðslukerfi langveikra og fatlaðra barna.

2. Breyta samsetningu greiðslna með því að draga úr áherslu á læknisfræðilegar greiningar og auka vægi mats á umönnun.

3. Aðgreina greiðslur sem byggðar eru annars vegar á umönnun barnsins og hins vegar á kostnaði.

Helstu tillögur starfshópsins eru að:

- fjárhagslegur stuðningur við umönnunaraðila langveikra og fatlaðra barna verði í einum lögum og að ákvæði 4. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, og lög nr. 22/2006, um foreldragreiðslur, verði sameinuð.

- tekjur umönnunaraðila hafi ekki áhrif á fjárhæð greiðslna.

- greiðslurnar fylgi barninu og greiðist til þeirra aðila sem annast það.

- félagsþjónustu hvers sveitarfélags verði falið að gera tillögu að umönnunarmati fyrir langveik börn, líkt og gert er nú fyrir fötluð börn . Jafnframt verði skoðað hvort hægt sé að innleiða samræmt umönnunarmat.

- áhersla verði lögð á samtöl við foreldra um raunverulega umframumönnun barns þeirra.

- umönnunaraðili fái fjárhagslegan stuðning miðað við umönnunarþörf barnsins í stað læknisfræðilegra greininga og greiðslur byggist á sömu hugmyndafræði og NPA.

- innleiddar verði sérstakar greiðslur vegna umframkostnaðar foreldra vegna langveikra og/eða fatlaðra barna sem verði óháðar efnahag foreldra og mati á umönnunarþörf. Með umframkostnaði er átt við kostnað sem til fellur vegna fötlunar eða veikinda barns og er umfram það sem almennt er hjá börnum.