Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 7.–21.9.2018

2

Í vinnslu

  • 22.–23.9.2018

3

Samráði lokið

  • 24.9.2018

Mál nr. S-120/2018

Birt: 7.9.2018

Fjöldi umsagna: 0

Áform um lagasetningu

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (stjórn fjármálafyrirtækis).

Niðurstöður

Áform um lagasetningu ásamt kostnaðarmati voru birt til umsagnar hinn 7. september 2018 í samráðsgátt stjórnarráðsins og veittar voru tvær vikur til að skila inn umsögnum. Engin umsögn barst.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki þar sem lagt verður til ný regla varðandi önnur störf stjórnarmanna í kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum.

Nánari upplýsingar

Ráðuneytið hefur á undanförnum árum unnið að innleiðingu tilskipunar 2013/36/ESB (CRD IV tilskipunin) og reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 (CRR reglugerðin) m.a. með breytingum á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Með lögum nr. 57/2015 voru gerðar ýmsar breytingar á VII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem fjallar um stjórn, stjórnarhætti og starfsmenn fjármálafyrirtækja. Nefndin sem undirbjó það frumvarp lagði til að beðið yrði með innleiðingu á beinni takmörkun á þeim fjölda fyrirtækja sem einstaklingur getur sinnt stjórnar- og framkvæmdastjórastörfum í samhliða setu í stjórn fjármálafyrirtækis þar sem þá var ekki ljóst hvernig aðrar Norðurlandaþjóðir myndu innleiða reglurnar. Þessar reglur hafa nú verið innleiddar á Norðurlöndunum.

Meðal úrlausnarefna CRD IV tilskipunarinnar var að draga úr þeim skaðlegu áhrifum sem ófullnægjandi stjórnarhættir geta haft. Meðal úrræða til að ná þessu markmiði eru viðmið um árangursríka yfirsýn stjórnar, um heilbrigða áhættumenningu á öllum sviðum og stigum fjármálafyrirtækja og vöktun eftirlitsaðila á innri stjórnarháttum fyrirtækjanna. Einnig er sérstaklega kveðið á um það í tilskipuninni að stjórnarmenn skuli verja fullnægjandi tíma til starfa sinna í þágu fjármálafyrirtækis sbr. 2. mgr. 91. gr. tilskipunarinnar en ákvæðið er innleitt í 1. mgr. 52. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Meginþorri ákvæða tilskipunarinnar um stjórnarhætti í fjármálafyrirtækjum voru innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 57/2015 en eftir standa m.a. ákvæði sem lýst var í 1. lið þessa kafla. Þá takmörkun sem í þeim felst þarf að taka upp í landsrétt eigi síðar en eftir að CRD IV tilskipunin verður tekin upp í EES-samninginn, sem verður líklega haustið 2018 eða a.m.k. 2019, þannig að skuldbinding Íslands skv. honum verði uppfyllt.

Áformað er að lögfesta takmörkun á þeim fjölda stjórnarstarfa og framkvæmdastjórastarfa sem stjórnarmenn í kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum geta tekið að sér í öðrum fyrirtækjum í atvinnurekstri.

Takmörkunina er að finna í 3. mgr. 91. gr. CRD IV tilskipunarinnar. Samkvæmt henni geta stjórnarmenn fjármálafyrirtækja einungis tekið að sér:

a. að sitja í stjórn fjögurra annarra fyrirtækja samhliða setu í stjórn fjármálafyrirtækis eða

b. eina framkvæmdastjórastöðu og tvær stjórnarsetur samhliða setu í stjórn fjármálafyrirtækis.

Takmarkanir tilskipunarinnar ná eingöngu til þeirra sem sitja í stjórn stærri fjármálafyrirtækja. Tilgangur þeirra er m.a. að stuðla að því að stjórnarmaður verji fullnægjandi tíma til starfa sinna í þágu fjármálafyrirtækis, svo sem kveðið er á um í 2. mgr. 91. gr. tilskipunarinnar.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar að loknum umsagnarfresti. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (2)

Umsjónaraðili

Fjármála- og efnahagsráðuneytið.

postur@fjr.is