Samráð fyrirhugað 07.09.2018—21.09.2018
Til umsagnar 07.09.2018—21.09.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 21.09.2018
Niðurstöður birtar 24.09.2018

Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (endurskoðun).

Mál nr. 121/2018 Birt: 07.09.2018 Síðast uppfært: 24.09.2018
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála
  • Almanna- og réttaröryggi

Niðurstöður birtar

Frumvarpsdrög voru birt til umsagnar hinn 14. ágúst 2018 í samráðsgátt stjórnarráðsins og veittar voru tvær vikur til að skila inn umsögnum. Ein umsögn barst frá Deloitte.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 07.09.2018–21.09.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 24.09.2018.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki þar sem lagðar verða til breytingar á ákvæðum laganna sem varða endurskoðun fjármálafyrirtækja.

Ráðuneytið hefur á undanförnum árum unnið að upptöku tilskipunar 2013/36/ESB (CRD IV tilskipunin) og reglugerðar (ESB) nr. 575/2013 (CRR reglugerðin) m.a. með breytingum á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Eitt af þeim atriðum sem á eftir að innleiða í íslenskan rétt þannig að fulls samræmis sé gætt við framangreinda tilskipun og reglugerð, eru ákvæði er varða upplýsingaskyldu endurskoðenda. Á sama tíma er fyrirhugað að gera breytingar á ákvæðum um starfstíma endurskoðenda í fjármálafyrirtækjum til að tryggja samræmi við reglugerð (ESB) nr. 537/2014, um endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum. Sú reglugerð var tekin upp í EES samninginn á liðnu vori.

Eitt af markmiðum CRD IV tilskipunarinnar er að auka varfærniskröfur og efla varfærniseftirlit með fjármálafyrirtækjum og stuðla að vernd viðskiptavina þeirra. Ábyrgð og skyldur endurskoðenda eru þýðingarmiklar í því samhengi.

Samkvæmt núgildandi lögum ber endurskoðanda að upplýsa stjórn fjármálafyrirtækis og Fjármálaeftirlitið verði vart við ágalla í rekstri eða önnur atriði sem talin eru upp í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 161/2002. Þetta ákvæði er hvorki fyllilega í samræmi við 63. gr. CRD IV tilskipunarinnar né það hvernig Danir, Norðmenn og Svíar hafa innleitt regluna í landsrétt sinn. Í tilskipuninni er upptalning þeirra atriða sem endurskoðanda ber að upplýsa um önnur en í íslensku lögunum og því hætt við að íslensk lög yrðu túlkuð með öðrum hætti en ákvæði tilskipunarinnar standi orðalagið óbreytt. Auk þess er endurskoðanda eingöngu skylt skv. tilskipuninni að tilkynna um brotalamir beint til eftirlitsstjórnvaldsins, en ekki til stjórnar. Það orðalag skerpir á ábyrgð hans gagnvart eftirlitsstjórnvöldum og getur flýtt fyrir að tilkynningar berist þeim.

Í 90. gr. laga nr. 161/2002 er starfstími endurskoðanda og endurskoðendafyrirtækis ákvarðaður að hámarki og að lágmarki 5 ár. Þetta er ekki í samræmi við reglugerð (ESB) nr. 537/2014 sem er afrakstur mikillar vinnu sem Evrópusambandið réðist í til að endurbæta regluverk sitt um endurskoðun í kjölfar fjármálakreppunnar. Samkvæmt meginreglu reglugerðarinnar skal starfstími endurskoðenda og endurskoðendafyrirtækja í einingum tengdum almannahagsmunum ekki vera skemmri en eitt ár og starfstími endurskoðendafyrirtækja ekki lengri en 10 ár. Heimilt er að lengja starfstímann um önnur 10 ár (10 + 10 ár) að undangengnu útboði. Aðildarríkjum er heimilt að kveða á um styttri hámarkstíma.

Í Svíþjóð hefur hámarkstíminn verið ákveðinn 10 ár en í Danmörku og Finnlandi er hann 10 ár með 10 ára framlengingarmöguleika að undangengnu útboði. Fyrir norska þinginu liggur frumvarp til innleiðingar á Evrópureglugerðinni og þar sem lagt er til að hámarks starfstími verði sá sami og í Danmörku og Finnlandi.

Lagt er til að lögum nr. 161/2002 verði breytt þannig að ákvæði um 5 ára starfstíma endurskoðenda eða endurskoðendafyrirtækis í þjónustu fjármálafyrirtækja verði fellt brott. Um starfstíma endurskoðenda lánastofnana fari því eftir þeim lögum innleiða reglugerð (ESB) nr. 537/2014 hér á landi, um einingar tengdar almannahagsmunum. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið áformar að leggja fram það frumvarp á næsta löggjafarþingi. Þau fyrirtæki sem um ræðir eru i) fyrirtæki með skráð verðbréf á markaði, ii) lánastofnanir, iii) vátryggingafélög og iv) lífeyrissjóðir. Viðmið um starfstíma endurskoðenda og endurskoðendafyrirtækja þeirra yrði þá að lágmarki eitt ár og að hámarki tíu ár með möguleika á framlengingu í önnur tíu ár ef endurskoðunarþjónustan er boðin út. Með þessu móti verður umhverfið sambærilegt hvað þetta varðar á flestum Norðurlöndum auk þess sem regluverkið verður einfaldað, fyrirtækjunum til hagsbóta.

Áformað er að breyta ákvæðum er varða upplýsingaskyldu endurskoðenda, bæði hvað varðar þær brotalamir sem þeim ber að tilkynna um og til hverra þeim ber að tilkynna um þær. Í núgildandi lögum ber þeim að tilkynna til stjórnar og Fjármálaeftirlits en mun eftir breytingu eingöngu verða skylt að tilkynna um brotalamir til Fjármálaeftirlitsins.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Deloitte ehf. - 21.09.2018

Sjá meðfylgjandi umsögn frá Deloitte

Viðhengi