Samráð fyrirhugað 07.11.2018—27.11.2018
Til umsagnar 07.11.2018—27.11.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 27.11.2018
Niðurstöður birtar 22.01.2019

Frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir

Mál nr. 225/2018 Birt: 07.11.2018 Síðast uppfært: 22.01.2019
  • Velferðarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Sjúkrahúsþjónusta
  • Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa

Niðurstöður birtar

Ein umsögn barst og var hún frá Landssamtökunum Þroskahjálp sem lögðu áherslu á að í frumvarpinu yrðu tryggð þau réttindi sem fram koma í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sérstök áhersla var lögð á að í frumvarpinu yrði tryggður réttur fatlaðra einstaklinga, og alveg sérstaklega einstaklinga með þroskahömlun eða skyldar raskanir, til að fá notið óskerts gerhæfis varðandi allt það sem fjallað væri um í frumvarpinu og fá örugglega þann stuðning sem þau þyrftu á að halda til að nýta gerhæfi sitt. Enn fremur að tryggt yrði að viðeigandi aðlögunar væri sérstaklega gætt við alla framkvæmd á umræddu sviði. Markmið og efni frumvarpsins er í samræmi við þessar áherslur Þroskahjálpar og var því ekki talin ástæða til að gera breytingar á því vegna umsagnarinnar. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi. Sjá - https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=149&mnr=435

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 07.11.2018–27.11.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 22.01.2019.

Málsefni

Frumvarp til nýrra heildarlaga um ófrjósemisaðgerðir í stað ákvæðis gildandi laga nr. 25/1975 um ófrjósemisaðgerðir.

Með frumvarpi þessu er lagt til að fjallað verði um ófrjósemisaðgerðir í sérlögum. Í lögum nr. 25/1975 er fjallað um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, um þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir en með hjálögðu frumvarpi er lagt til að fjallað verði um ófrjósemisaðgerðir í sérlögum þar sem um mjög óskildar aðgerðir er að ræða.

Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um ófrjósemisaðgerðir. Markmið þeirra er að heimila framkvæmd ófrjósemisaðgerðar að beiðni einstaklings eða þegar sérstakar ástæður liggja fyrir. Í markmiðsákvæði laganna er tekið fram að gæta skuli mannréttinda og mannhelgi einstaklinga í hvívetna við framkvæmd laganna. Lagt er til að lögin eigi ekki við ef um nauðsynlega læknismeðferð er að ræða, enda þótt ófrjósemi hljótist af.

Í lögunum er ófrjósemisaðgerð skilgreind sem það þegar sáðgöngum karla og eggleiðurum kvenna er lokað til að binda enda á frjósemi. Tvenns konar heimildir fyrir ófrjósemisaðgerðum eru lagðar til, annars vegar að ósk einstaklings sem hefur náð 18 ára aldri og hins vegar á einstaklingi sem er ólögráða fyrir æsku sakir, þegar ætla má að frjósemi viðkomandi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins, en fyrir slíkri heimild er sett það skilyrði að fyrir liggi staðfesting tveggja lækna um fyrrgreind áhrif á heilsu og samþykki sérstaklega skipaðs lögráðamanns, sbr. 53. gr. lögræðislaga. Þá er lagt til að einstaklingur hljóti fræðslu áður en ófrjósemisaðgerð er gerð um í hverju aðgerðin er fólgin, áhættur samfara henni og afleiðingar. Gert er ráð fyrir að sett verði skilyrði um að umsóknin sé undirrituð af þeim einstaklingi sem sækir um aðgerðina á því formi sem landlæknir býr til og að í slíkri umsókn lýsi einstaklingur því yfir að honum sé ljóst í hverju aðgerð sé fólgin. Þá er lagt til að einungis læknar með sérfræðiviðurkenningu í almennum skurðlækningum, kvensjúkdómalækningum eða þvagfæraskurðlækningum megi framkvæma ófrjósemisaðgerðir og að einungis megi framkvæma ófrjósemisaðgerðir á heilbrigðisstofnunum eða starfsstofum lækna sem landlæknir hefur eftirlit með.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Þroskahjálp,landssamtök - 27.11.2018

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að mannéttindamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn.

Samtökin vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi frumvarpið.

Í 23. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Virðing fyrir heimili og fjölskyldu, er lögð sérstök áhersla á skyldur ríkja til að tryggja að fatlað fólk fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra. Þar segir:

Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra, til þess að tryggja megi:

...

að fatlað fólk, þar með talin börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra.

Það er alls ekki að ástæðulausu að sérstaklega og skýrt er kveðið á um þennan rétt í þessum mikilvæga mannréttindasamningi. Ástæðan er einfaldlega sú að sagan og reynsla sýnir svo ekki verðru um villst að mikil hætta er á að fatlað fólk fái ekki notið þessa réttar og þurfi að þola margvísleg brot gegn honum og ofbeldi eða þvinganir á þessu sviði.

12. gr. samnings SÞ hefur yfirskriftina Réttarstaða til jafns við aðra. Þar er mælt fyrir um ýmsar skyldur sem á stórnvöldum hvíla til að tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. fólk með þrokskahamlanir og/eða skyldar raskanir, fái notið gerhæfis til jafns við aðra og ráðstafanir sem stjórnvöld verða að gera til að tryggja það. 2. og 3. mgr. 12. gr. hljóða svo:

Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.

Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir gerhæfi sitt. (Undirstr. Þroskahjálpar)

Í 5. gr. samnings SÞ er kveðið á um jafnrétti og bann við mismunun á grundvelli fötlunar. Í 3. mgr. þeirrar greinar er kveðið á um skyldur ríkja til að tryggja að fötluðum einstaklingum standi viðeigandi aðlögun til boða. Þar segir:

Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.

Sé fötluðum einstaklingi ekki tryggð viðeigandi aðlögun þegar það á við telst vera um mismunun á grundvelli fötlunar að ræða. Slík mismunun brýtur gegn grundvallarreglu samningsins og er alvarlegt mannréttindabrot. Slík brot verða svo eðli máls samkvæmt enn alvarlegri þegar um er að ræða mjög mikislverð mannréttindi eins og um er fjallað í þessu frumvarpi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið leggja Landssamtökin Þroskahjálp eindregið til að í viðeigandi ákvæðum frumvarpsins sem og í greinargerð og athugsemdum með frumvarpinu verði sérstaklega áréttaðar skyldur stjórnvalda til að tryggja að fatlað fólk og alveg sérstaklega fólk með Þroskahömlun og/eða skyldar raskanir fái notið óskerts gerhæfis varðandi allt það sem um er fjallað í frumvarpinu og fái örugglega þann stuðning sem það þarf á að halda til að nýta gerhæfi sitt sem og að tryggt verði að viðeigandi aðlögunar sé sérstaklega gætt gagnvart því við alla framkvæmd á þessu sviði.