Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 7.–27.11.2018

2

Í vinnslu

  • 28.11.2018–21.1.2019

3

Samráði lokið

  • 22.1.2019

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-225/2018

Birt: 7.11.2018

Fjöldi umsagna: 1

Drög að frumvarpi til laga

Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkrahúsþjónusta

Frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir

Niðurstöður

Ein umsögn barst og var hún frá Landssamtökunum Þroskahjálp sem lögðu áherslu á að í frumvarpinu yrðu tryggð þau réttindi sem fram koma í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sérstök áhersla var lögð á að í frumvarpinu yrði tryggður réttur fatlaðra einstaklinga, og alveg sérstaklega einstaklinga með þroskahömlun eða skyldar raskanir, til að fá notið óskerts gerhæfis varðandi allt það sem fjallað væri um í frumvarpinu og fá örugglega þann stuðning sem þau þyrftu á að halda til að nýta gerhæfi sitt. Enn fremur að tryggt yrði að viðeigandi aðlögunar væri sérstaklega gætt við alla framkvæmd á umræddu sviði. Markmið og efni frumvarpsins er í samræmi við þessar áherslur Þroskahjálpar og var því ekki talin ástæða til að gera breytingar á því vegna umsagnarinnar. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi. Sjá - https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=149&mnr=435

Málsefni

Frumvarp til nýrra heildarlaga um ófrjósemisaðgerðir í stað ákvæðis gildandi laga nr. 25/1975 um ófrjósemisaðgerðir.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpi þessu er lagt til að fjallað verði um ófrjósemisaðgerðir í sérlögum. Í lögum nr. 25/1975 er fjallað um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, um þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir en með hjálögðu frumvarpi er lagt til að fjallað verði um ófrjósemisaðgerðir í sérlögum þar sem um mjög óskildar aðgerðir er að ræða.

Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um ófrjósemisaðgerðir. Markmið þeirra er að heimila framkvæmd ófrjósemisaðgerðar að beiðni einstaklings eða þegar sérstakar ástæður liggja fyrir. Í markmiðsákvæði laganna er tekið fram að gæta skuli mannréttinda og mannhelgi einstaklinga í hvívetna við framkvæmd laganna. Lagt er til að lögin eigi ekki við ef um nauðsynlega læknismeðferð er að ræða, enda þótt ófrjósemi hljótist af.

Í lögunum er ófrjósemisaðgerð skilgreind sem það þegar sáðgöngum karla og eggleiðurum kvenna er lokað til að binda enda á frjósemi. Tvenns konar heimildir fyrir ófrjósemisaðgerðum eru lagðar til, annars vegar að ósk einstaklings sem hefur náð 18 ára aldri og hins vegar á einstaklingi sem er ólögráða fyrir æsku sakir, þegar ætla má að frjósemi viðkomandi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins, en fyrir slíkri heimild er sett það skilyrði að fyrir liggi staðfesting tveggja lækna um fyrrgreind áhrif á heilsu og samþykki sérstaklega skipaðs lögráðamanns, sbr. 53. gr. lögræðislaga. Þá er lagt til að einstaklingur hljóti fræðslu áður en ófrjósemisaðgerð er gerð um í hverju aðgerðin er fólgin, áhættur samfara henni og afleiðingar. Gert er ráð fyrir að sett verði skilyrði um að umsóknin sé undirrituð af þeim einstaklingi sem sækir um aðgerðina á því formi sem landlæknir býr til og að í slíkri umsókn lýsi einstaklingur því yfir að honum sé ljóst í hverju aðgerð sé fólgin. Þá er lagt til að einungis læknar með sérfræðiviðurkenningu í almennum skurðlækningum, kvensjúkdómalækningum eða þvagfæraskurðlækningum megi framkvæma ófrjósemisaðgerðir og að einungis megi framkvæma ófrjósemisaðgerðir á heilbrigðisstofnunum eða starfsstofum lækna sem landlæknir hefur eftirlit með.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Velferðarráðuneytið

postur@vel.is