Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 9.–17.9.2018

2

Í vinnslu

  • 18.9.2018–14.1.2019

3

Samráði lokið

  • 15.1.2019

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-123/2018

Birt: 9.9.2018

Fjöldi umsagna: 2

Drög að frumvarpi til laga

Forsætisráðuneytið

Fjölskyldumál

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um umboðsmann barna

Niðurstöður

Frumvarpið snertir fyrst og fremst börn, embætti umboðsmanns barna og aðra opinbera aðila og samtök sem vinna að hagsmunum og málefnum barna. Áform um vinnslu frumvarpsins voru birt í samráðsgáttinni 4. júlí 2018 (mál nr. 91/2018). Tvær umsagnir bárust um áformin, frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Barnaheillum. Sömu aðilar sendu inn umsagnir við drög að frumvarpinu. Umsögn Barnaheilla um frumvarpsdrögin var jákvæð. Sérstaklega voru nefnd atriði eins og hlutverk umboðsmanns barna við eftirfylgni og aðhald við innleiðingu barnasáttmálans, að umboðsmaður eigi að vera málsvari barna og þátttaka barna til áhrifa við mótun samfélagsins. Í umsögninni er lagt til að bætt verði við málslið þar sem fram komi sú meginregla að meta þurfi áhrif ákvarðana á börn í samræmi við 3. gr. barnasáttmálans og sjónarmiðið um að það sem barni sé fyrir bestu skuli hafa forgang við ákvarðanir sem varða börn. Í frumvarpinu er ekki orðið við þeirri tillögu þar sem í lögum um umboðsmann barna er kveðið á um starfsemi embættisins en ekki mælt fyrir um réttindi barna almennt. Í því sambandi er vísað til 1. gr. barnalaga, nr. 76/2003, þar sem efnislega sambærilegt ákvæði er að finna. Í umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar er fagnað endurskoðun á lögum um umboðsmann barna með það að markmiði að gera embættið öflugra til að standa vörð um mannréttindi og tækifæri allra barna. Vísað er til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og sérstaklega þeirra ákvæða sem snúa beint að réttindum fatlaðra barna. Samtökin telja mjög mikilvægt að stjórnvöld hafi í huga skyldur sínar gagnvart fötluðum börnum sem og skyldur til virks samráðs við endurskoðun laga um umboðsmann barna þannig að lögin stuðli markvisst að því að fötluð börn njóti allra þeirra mannréttinda sem íslenska ríkinu er skylt að tryggja þeim. Tekið var tillit til þessarar ábendingar með því að í 1. gr. laganna verði ekki einungis tilgreindur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins heldur einnig vísað til annarra alþjóðasamninga sem lúta að réttindum barna. Í 3. kafla greinargerðar með frumvarpinu er útskýrt að þar sé m.a. átt við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ekki er um efnislega breytingu að ræða heldur nánari útskýringu á hlutverki umboðsmanns barna sem nær til allra hópa barna. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi og er orðið að lögum nr. 148/2018, sjá nánar á vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/149/s/0734.html

Málsefni

Óskað er eftir athugasemdum við drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umboðsmann barna.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpinu er lagt til að skýrar verði kveðið á um hlutverk umboðsmanns barna og áhersla lögð á réttindi barna, m.a. samkvæmt ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Sett verði nýtt ákvæði í lögin þar sem umboðsmanni verður falið að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni, í samvinnu við ýmsa aðila. Eiga þau gögn að liggja til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar eins og gert er ráð fyrir í ákvæðum barnasáttmálans.

Þá er lagt til að lögfest verði að umboðsmaður skuli hafa virkt samráð við börn og starfrækja hóp barna sér til ráðgjafar en slíkur hópur hefur verið starfræktur við embættið um árabil.

Loks er í barnasáttmálanum einnig gerð krafa um þátttöku barna í ákvarðanatöku um öll mál sem þau varðar og ber að taka réttmætt tillit til skoðana þeirra. Því er lagt til að lögfest verði ákvæði um að halda skuli reglulega barnaþing þar sem farið verði yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins og að niðurstöður þingsins verði kynntar ríkisstjórn og hlutaðeigandi ráðherrum.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa löggjafarmála

postur@for.is