Samráð fyrirhugað 19.11.2018—25.11.2018
Til umsagnar 19.11.2018—25.11.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 25.11.2018
Niðurstöður birtar

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 26/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi.

Mál nr. 235/2018 Birt: 19.11.2018
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (19.11.2018–25.11.2018). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Lög um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins um sama efni og tryggir rétt fagmenntaðra einstaklinga til þeirra starfa sem menntun þeirra lýtur að.

Frumvarpið felur í sér innleiðingu á breytingum við tilskipun Evrópusambandsins um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi á EES-svæðinu.

Ávinningur þess felst einkum í því að einfaldara og fljótvirkara verður að fá viðurkenning á faglegri menntun og starfsreynslu óháð því hvar viðkomandi lærði innan EES-svæðisins. Á þetta við um lögvernduð störf, s.s. lækna, verkfræðinga, talmeinafræðinga, kennara og pípulagningarmanna. Réttur manna til viðurkenningar verður sá sami og áður en tekin eru skref til þess að tryggja einfaldari framkvæmd, meðal annars með innleiðingu evrópsks fagskírteinis fyrir einstaka starfsgreinar.

Með frumvarpsdrögunum eru kynnt drög að reglugerð sem ætlunin er að setja í framhaldi af gildistöku laganna.

Frumvarp það sem hér er kynnt felur í sér innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins nr. 2013/55/EB sem breytir tilskipun ESB nr. 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Tilskipunin var tekin inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í maí 2017 og verður innleidd hér á landi með breytingu á lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi nr. 26/2010 og reglugerðum sem settar verða með stoð í þeim lögum. Viðurkenning faglegrar menntunar og hæfis er ein af grunnstoðum EES-samstarfsins og hefur verið það frá gildistöku EES-samningsins 1994. Á þeim tíma giltu 15 mismunandi tilskipanir um viðurkenningu faglegrar menntunar, en þær voru sameinaðar í eina árið 2005. Mikilvægi tilskipunarinnar felst í þeim réttindum sem hún tryggir þeim er aflað hafa sér faglegrar menntunar til starfa hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu og réttinum til viðurkenningar á menntun og hæfi óháð því hvar nám var stundað. Tilskipun 2005/36/EB var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142/2007 og leidd í lög hér á landi með lögum um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi nr. 26/2010. Í framhaldi af lagasetningunni voru síðan settar þrjár reglugerðir þar sem ákvæði laganna voru útfærð nánar. Þetta eru reglugerð 879/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, reglugerð nr. 461/2011 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum og reglugerð nr. 585/2011 um viðurkenningu á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn hér á landi.

Tilskipun 2005/36/EB var tekin upp á Íslandi með lögum nr. 26/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, reglugerð nr. 879/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi, reglugerð nr. 461/2011 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum og reglugerð nr. 585/2011 um viðurkenningu á menntun og starfsreynslu til starfa í löggiltri iðn hér á landi. Með tilskipun 2013/55/EB verða ekki grundvallarbreytingar á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Réttur manna til viðurkenningar er hinn sami og áður, en tekin eru skref til að tryggja að framkvæmdin verði enn einfaldari og skjótvirkari, m.a. með innleiðingu evrópsks fagskírteinis fyrir einstakra starfsgreinar þar sem afgreiðslufrestir eru styttir frá því sem nú er. Með frumvarpsdrögunum eru kynnt drög að almennri reglugerð sem ætlunin er að setja í framhaldi af gildistöku laganna og skýrir nánar tilhögun einstakra ákvæða laganna.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir - 24.11.2018

Eðlilegt væri að íslenskir sjúkraliðar fengju starfstitilinn hjúkrunarfræðungur. Sjúkraliðanám á Íslandi er þriggja ára hjúkrunarnám. Íslenskir sjúkraliðar eru ekki settir á rétt menntunar- og hæfnistigi í íslensku menntakerfi. Þetta er nauðsynlegt að laga. Þeirra menntun jafngildir associate- gráðu í Bandaríkjunum eða þeirri menntun sem registered nurses fá (RN) þar. Í enskumælandi löndum er eingöngu notað orðið nurse, með viðbættum menntunar- og hæfnistigi viðkomandi fagmanns svo sem ADN, BSN, MSN og segir það sjúklingum og öðrum fagstéttum hvers eðlis viðkomandi fagmaður er. Licenced practical nurses eru þeir hjúkrunarfræðingar kallaðir (í Bandaríkjunum) sem lokið hafa tveggja missera námi í hjúkrun.

Sjá nýlega grein á https://www.hirsla.lsh.is/bitstream/handle/2336/620701/Menntun%2c%20st%c3%b6rf%20og%20t%c3%a6kif%c3%a6ri%20h%c3%a9r%20og%20erlendis.pdf?sequence=1&isAllowed=y

Afrita slóð á umsögn

#2 Dagrún Hálfdánardóttir - 25.11.2018

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 26/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. Umsögn embættis landlæknis

Með lögunum er gert ráð fyrir að framkvæmdin á tilhögun viðurkenningar á faglegri menntun og hæfi á Evrópska efnahagssvæðinu verði einfaldari og skjótvirkari, m.a. með innleiðingu evrópsks fagskírteinis fyrir einstakra starfsgreinar þar sem afgreiðslufrestir eru styttir frá því sem nú er. Eins og fram kemur í frumvarpinu má gera ráð fyrir að aukinn kostnaður falli á herðar lögbærra stjórnvalda hér á landi. Er sérstaklega vísað til embættis landlæknis, Þjóðskrár og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Embætti landlæknis hefur framkvæmt kostnaðargreiningu vegna innleiðingar á tilskipuninni. Sú kostnaðargreining liggur fyrir hjá velferðarráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu sbr. minnisblað embættisins, dags. 11. október 2017. Niðurstaða kostnaðargreiningarinnar var að til að mæta þeim auknu kröfum sem lagðar eru á embætti landlæknis með tilskipuninni er embættinu nauðsynlegt að bæta við tveimur stöðugildum í starfsleyfateymi embættisins, þ.e. tveimur 100% störfum. Með umsögn þessari er umrædd niðurstaða kostnaðargreiningar embættisins áréttuð.

Dagrún Hálfdánardóttir

sviðsstjóri sviðs eftirlits og gæða