Samráð fyrirhugað 28.11.2018—19.12.2018
Til umsagnar 28.11.2018—19.12.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 19.12.2018
Niðurstöður birtar 16.01.2019

Heilbrigðisstefna til ársins 2030

Mál nr. 241/2018 Birt: 28.11.2018 Síðast uppfært: 16.01.2019
  • Velferðarráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Drög að heilbrigðisstefnu til ársins 2030 voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda dagana 28. nóvember til 19. desember 2018. Alls bárust 27 umsagnir frá heilbrigðisstofnunum og menntastofnunum, fagfélögum, sjúkingasamtökum, sveitarfélögum og einstaklingum. Umsagnirnar voru gagnlegar og tekið var tillit til þeirra eins og kostur var. Þá munu þær jafnframt nýtast vel við gerð aðgerðaáætlana og framkvæmd og eftirfylgd heilbrigðisstefnunnar. Efnislegar breytingartillögur fjölluðu mest um atriði sem umsagnaraðilar vildu sjá meira af í stefnunni, eins og málefni aldraðra, heimahjúkrun, endurhæfingu, fíkn og lýðheilsu svo eitthvað sé nefnt. Í nokkrum tilvikum var um málefnalegan ágreining að ræða sem ekki þarf að koma á óvart í svo mikilvægum og flóknum málaflokki. Í nokkrum tilvikum leiddu umsagnir til þess að texta stefnunnar var breytt til að lýsa betur stöðu sem æskileg er fyrir árið 2030 og einnig var leitast við að skýra texta stefnunnar betur til að samræma ólík stjórnarmið hagaðila hennar. Nokkuð margir umsagnaraðilar sáu ástæðu til að brýna stjórnvöld til að tryggja fjármagn til að stefnan nái fram að ganga. Þá þökkuðu margir fyrir að vinna við mótun heilbrigðisstefnu hafi verið sett af stað en einnig var sett fram gagnrýni á að samráð við vinnu stefnunnar hefði mátt vera meira. Heilbrigðisráðherra mun leggja heilbrigðisstefnuna fyrir Alþingi sem tillögu til þingsályktunar á vorþingi 2019.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 28.11.2018–19.12.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 16.01.2019.

Málsefni

Heilbrigðisstefna til ársins 2030 er sett fram með það að leiðarljósi að íslenskur almenningur búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna sé tryggt.

Framtíðarsýn fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu er sett fram á eftirfarandi hátt:

• Íslensk heilbrigðisþjónusta er á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir er hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar.

• Árangur heilbrigðisþjónustunnar er metinn með því að mæla gæði þjónustunnar, öryggi hennar, hversu aðgengileg hún er og hvað hún kostar.

Heilbrigðisstefnan sem hér er mörkuð nær til ársins 2030 og við vinnu hennar hefur meðal annars verið horft til stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Þessi skýrsla fjallar meðal annars um heilsu og heilbrigðiskerfið í víðara samhengi, þróun norrænna heilbrigðiskerfa, helstu áskoranir og tækifæri heilbrigðisþjónustunnar til framtíðar ásamt því að draga upp framtíðarsýn fyrir grunnstoðir íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Til að lýsa nánar framtíðarsýninni eru í stefnunni sett fram sjö lykilviðfangsefni sem eru:

• Forysta til árangurs

• Rétt þjónusta á réttum stað

• Fólkið í forgrunni

• Virkir notendur

• Skilvirk þjónustukaup

• Gæði í fyrirrúmi

• Hugsað til framtíðar

Til að hrinda heilbrigðisstefnu til ársins 2030 í framkvæmd verður gerð áætlun um aðgerðir til fimm ára í senn og verður sú aðgerðaáætlun uppfærð árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jónína Sigurgeirsdóttir - 03.12.2018

Undirritaðar, Lára M. Sigurðardóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Reykjalundi og Jónína Sigurgeirsdóttir sérfræðingur í endurhæfingarhjúkrun og gæðastjóri, þökkum kærlega fyrir að fá tækifæri til að koma að mótun Heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Margt er mjög gott í stefnunni og við viljum hrósa ráðuneytinu fyrir vel unnið starf. Við höfum lesið stefnuna og sett inn nokkrar athugasemdir eða álit.

Þar sem skjalið var .pdf þá afrituðum við það og límdum textann inn í Word.

Blaðsíðutal í skjalinu frá okkur kemur alltaf efst til vinstri í textabút, en stundum eru tvær blaðsíður pdf skjalsins á einni síðu Word. Blaðsíðutalið svarar til viðeigandi síðu í pdf skjalinu.

Þar sem endurhæfing og hjúkrun eru okkar sérgrein, þá höfðum við þau gleraugu sérstaklega uppi við lestur á þessum drögum að heilbrigðisstefnu til 2030 og athugasemdir okkar eru settar inn með "track changes" eða með athugasemdum.

Með bestu kveðju,

Jónína Sigurgeirsdóttir BS, MS, PhD nemandi

Lára M. Sigurðardóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Kári Jónsson - 03.12.2018

Góðan dag! Um leið og ég fagna þessu metnaðarfulla plaggi um heilbrigði heillar þjóðar vil ég benda á eitt mikilvægt atriði. Það er að í áætluninni og rökstuðningnum er skautað nokkuð hratt yfir mikilvægasta þátt heilsueflingar, hreyfingu. Talað er um mikilvægi hennar en ekkert um hvað þurfi að gera, hver eigi að halda utan um það eða hvernig. Þó er vitað, og lítillega fjallað, um mikilvægi þess að almenningur stundi holla hreyfingu.

Ég sakna þessa þáttar. Mikilvægi fagþekkingar íþrótta- og heilsufræðinga og samstarf þeirra við heilsugæslustöðvar í sveitarfélögunum þarf að koma skírar fram. Íþróttakennsla í skólum hefur verið til fyrirmyndar á Íslandi frá því fyrsta námskráin kom út 1943 og sundkennsla síðan 1903. En nú eru framhaldsskólar farnir að draga úr hreyfingu nemenda sinna og háskólum eru engar skyldur lagðar á herðar með að bjóða nemendum sínum tækifæri til heilsuræktar. Íþróttafélög þjóna nú aðeins 29% almennings og einkareknar líkamsræktarstöðvar ná til um það bil 30% þegar best lætur.

Mjög mikilvægt er að sveitarfélög þjóni því hlutverki að skapa aðstöðu og möguleika fyrir allskyns almenningsíþróttir/hreyfingu með fagmenntuðum leiðbeinendum.

Virðingarfyllst,

Kári Jónsson, MSc heilbrigðisvísindum

Íþróttafulltrúi Garðabæjar

Afrita slóð á umsögn

#3 Kristján Þór Hallbjörnsson - 05.12.2018

Mjög góð lýsing en nokkur atriði sem ég myndi vilja breyta.

Mér finnst vanta gildi forvarna s.s. skipulagður stuðningur við lýðheilsu. Stefna börnum sem mest í heilsueflandi iðkun íþrótta eða annarra tómstunda.

Í dag eru íþróttafélög rekin af litlum efnum og að stórum hluta í sjálfboðavinnu. Þessi vinna skilar gjarnan þeim uppeldisáhrifum að einstaklingar sem hafa tekið þátt halda áfram heilbrigðu líferni til framtíðar.

Þungi stefnunnar miðar að því að taka afleiðingum af heilsuleysi en tekur ekki á grundvallaratriðinu sem er að hvetja á alla lund til heilsueflandi lifnaðarhátta strax í leikskóla og áfram upp alla skólagönguna. Þar hefur hið opinbera mjög gott aðgengi að mótun til lífstíðar.

Birgjum brunninn áður en barnið dettur ofan í hann.

Afrita slóð á umsögn

#4 Guðjón Ólafur Sigurbjartsson - 10.12.2018

Rekstrarform

Mikilvægt er fyrir gæði og hagkvæmni heilbrigðisþjónustunnar að kostir einkaframtakins eigi greiða leið til að láta til sín taka í heilbrigðisþjónustunni.

Grunnhugmyndirnar bakvið það að heilbirgðisþjónustan sé á vegum hins opinbera eru sósíalískar í eðli sínu. Almenn vandamálin við þá hugamyndafræði eru þau að kostnaður hefur reynst hár, "fita safnast fyrir" í kerfinu. Þjónustan verður því gjarnan minni en æskilegt er.

Með útboðum og einkarekstri má oft ná þeim árangri að þjónusta batnar og kostnaður helst lægri en ella.

Ná má markmiðum varðandi kostnaðarþátttöku sjúklinga með útboðsskilmálum og öðrum hætti.

Þeir vel stæðu geta lagt meira af mörkum en hinir, en þjónustan samt verið sambærileg, ef vilji er fyrir hendi. Reyndar geta hinir ríku náð sér í bestu þjónustu í heimi ef þeir hafa efni á því, slíkt verður ekki stöðvað og á ekki að reyna að stöðva.

Ef opnað verður á einkarekin sjúkrahús má vænta þess að biðlistar styttir og kostnaður skattborgara af sjúkrahúsþjónustunni lækki.

Mikilvægt er tekið sé á þessu í nýrri heilbrigðisstefnu.

Afrita slóð á umsögn

#5 Guðjón Ólafur Sigurbjartsson - 10.12.2018

VIÐBRAGÐSAÐILAR OG BJÖRGUNARMÁL

Með betra skipulagi björgunar og viðbragðsmála hér á landi má bæta viðbragð í mörgum neyðartilvikum.

Setja þarf upp „viðbragðsmiðstöð“ í hverjum landsfjórðungi fyrir sjúkraflutninga, slökkvilið, leit og björgun. Hver viðbragðsmiðstöð þarf að hafa sjúkrabíla, slökkvibíla, leitarbíla og þyrlu ásamt tilheyrandi búnaði og starfsliði.

Með betra skipulagi í þessa veru má mögulega bjarga um 10 mannslífum árlega að jafnaði og minnka skaða margra annara. Hér er því um afar mikilvægt mál að ræða sem bætir líf fólks og er í leiðinni þjóðhagslega hagkvæmt.

Ekki er eftir neinu að bíða að gera þetta vel.

Sjá nánar um þessar hugmyndir hér http://www.visir.is/g/2017170119680/oflugra-vidbragd-borgar-sig

Afrita slóð á umsögn

#6 Salóme Ásta Arnardóttir - 10.12.2018

Umsögn Félags íslenskra heimilislækna um Heilbrigðisstefnu til 2030.

Félag íslenskra heimilislækna fagnar þeirri áheyrslu sem Heilbrigðisstefna velferðarráðuneytisins leggur á mikilvægi uppbyggingar heilsugæslunnar í landinu.

Meginmarkmið er að allir landsmenn hafa rétt á sínum heimilislækni.

Til að tryggja heilsugæsluna í sessi á öllu landinu viljum við benda á að heimilislæknum sem eru lykilstarfsmenn heilsugæslunnar þarf að fjölga. Eins þarf að fjölga öðru starfsfólki heilsugæslunnar. Heimilislæknum þarf að fjölga til að anna þeim verkefnum sem öflug heilsugæsla þarf að geta sinnt bæði í þéttbýli en ekki síst í dreifbýli þar sem hefur verið verulegt vandamál að manna læknisstöður undanfarin ár. Að auki er mikil eftirspurn í samfélaginu eftir læknum með breiðan þekkingargrunn, til dæmis í þjónustu við aldraða, fatlaða og til að styðja við ýmis verkefni félagsþjónustunnar. Menntun heimilislækna nýtist þannig vel á mörgum sviðum þjóðfélagsins.

Í þeim löndum sem við berum okkur saman við eru heimilislæknar um þriðjungur allra lækna. Væru þá heimilislæknar 400 á Íslandi í stað 200 núna. Talið er að í nútíma heilsugæslu geti hver heimilislæknir sinnt að jafnaði 1200 skjólstæðingum í þéttbýli og 1000 í dreifbýli og þarf að hafa þær tölur til grundvallar þegar greiðslukerfi heilsugæslunnar er þróað áfram.

Til að ná markmiði um fjölgun heimilislækna úr 200 í 400 og koma á móts við þann hóp sem hættir á næstu árum vegna aldurs, þarf að koma til átak í sérnámi í heimililslækningum. Það þarf að fjölga sérnámsstöðum í að minnsta kosti 80 og því þarf að fylgja fjölgun kennslustjóra og starfsfólk sérnáms. Einnig er grundvallar atriði að leiðrétta þátt heimlilslæninga í grunnmenntun lækna í Háskóla Íslands.

Með kærri þökk fyrir að leita eftir samráði við mörkun stefnu í heilbrigðismálum

Fyrir hönd stjórnar Félags íslenskra heimilislækna

Salome Arnardóttir formaður FÍH.

Afrita slóð á umsögn

#7 Viðar Magnússon - 12.12.2018

Heilbrigðisstefnan er skrifuð líkt og landakort með heildarmyndina að leiðarljósi og því er eðlilega lítið fjallað um einstakar sérgreinar. Hins vegar er bráðaþjónusta við alvarlega veika og slasaða eitt það sem fólki þykir hvað mikilvægast að sé aðgengilegt, bæði innan heilbrigðisstofnana (bráðamóttökur) en ekki síður utan sjúkrahúsa (sjúkraflutningar / bráðaþjónusta utan sjúkrahúsa) og væri því rétt að geta bráðaþjónustunnar sérstaklega í stefnunni.

Á bls. 7 í Heilbrigðisstefnunni er talað um aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé að sumu leyti misskipt og fyrst og fremst vísað í þjónustu sérgreinalækna og biðlista eftir aðgerðum. Einnig er talað um heilbrigðiskerfið sem byggðamál á bls. 11 en það er einmitt dreifbýlið sem er sá þáttur sem mest takmarkar aðgengi landsmanna að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu sem eðli málsins samkvæmt er fyrst og fremst veitt á höfuðborgarsvæðinu. Það er óhagkvæmt og algjörlega óraunhæft að byggja upp sérhæfða heilbrigðisþjónustu á landssvæðum þar sem fáir búa og því er efling sjúkraflutninga kjarninn í því að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Ekki síst í bráðatilvikum.

Miklu getur munað um skjóta og rétta meðferð á vettvangi og við flutning á sjúkrahús og getur hún jafnvel skilið milli feigs og ófeigs. Tryggja þarf að viðeigandi farartæki og búnaður séu til staðar og í góðu ástandi en ekki síður mikilvægt er aðgengi að heilbrigðisstarfsmönnum með nauðsynlega þjálfun, þekkingu og reynslu. Utan sjúkrahúsa eru það fyrst og fremst sjúkraflutningamenn og bráðatæknar sem veita meðferð á vettvangi og í flutningi með aðkomu læknis í ákveðnum tilvikum, einkum í dreifbýli. Mikilvægt er að efla þjálfun þessara aðila en jafnframt þarf að viðurkenna að það er óraunhæft að sjúkraflutningamenn (og jafnvel læknar) í fámennum byggðarlögum sinni erfiðum og flóknum útköllum án aðstoðar sérhæfðari starfsmanna sem koma lengra að. Í dreifbýlu landi er því mikilvægt að tryggja aðgengi að sérhæfðri sjúkraflutningaþjónustu með stuttan viðbragðstíma og skjótan ferðamáta (t.d. flugvél eða þyrlu) sem er í samræmi við vegalengd og flutningstíma á sérhæft sjúkrahús þar sem áframhaldandi meðferð er veitt. Kostnaður við slík úrræði getur verið umtalsverður en eigi að halda úti byggð í landinu er nauðsynlegt að tryggja bráðaþjónustu í dreifðari byggðum. Því þarf að bera kostnað vegna sérhæfðrar sjúkraflutningaþjónustu saman við kostnaðinn við að halda úti sérhæfðri bráðaþjónustu í dreifbýli.

Viðar Magnússon, yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Jakobína Reynisdóttir - 13.12.2018

Umsögn Sjúkrahússins á Akureyri um heilbrigðisstefnu til ársins 2030

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Guðrún Sæmundsdóttir - 13.12.2018

• Virkir notendur

• Gæði í fyrirrúmí

Í þessum tveimur af sjö lykilviðfangsefnum er fjallað um notendur heilbrigðisþjónustunnar. Veruleg þörf er á að bæta þjónustu við langveika, til að ná að uppfylla Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem að Ísland hefur samþykkt.

Til fatlaðs fólks teljast þeir sem eru líkamlega, andlega eða vitsmunalega skertir eða sem hafa skerta skynjun til frambúðar sem kann, þegar víxlverkun verður milli þessara þátta og tálma af ýmsu tagi, að koma í veg fyrir fulla og virka þátttöku þeirra í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli.

Í þeim hluta samningsins er lítur að heilsu fatlaðra, kemur m.a. fram að aðildarríkin skuli bjóða fram þá heilbrigðisþjónustu sem fatlað fólk þarfnast, einkum vegna fötlunar sinnar, m.a. að fötlun sé uppgötvuð snemma og að gripið sé inn í málið snemma, eftir því sem við á, og þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og framast er kostur og koma í veg fyrir frekari fötlun, m.a. meðal barna og eldri einstaklinga.

Það er ljóst að samningurinn kveður á um að langveikir sjúklingar eigi rétt á snemmbærri greiningu, meðferð og þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og framast er kostur og koma í veg fyrir frekari fötlun.

Mikilvægt er að fundnar verði leiðir til að uppfylla þessi ákvæði sáttmálans betur en nú er gert. Koma mætti á fót sjálfstæðu embætti umboðsmanns sjúklinga, sem að sjúklingar geta leitað til, verði þeir fyrir því að njóta ekki þeirra réttinda er Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um. Sjúklingar ættu þar kost á að fá óháð mat á sínum greiningum og meðferðum, einnig gætu þeir komið þar á framfæri rannsóknum frá viðurkenndum vísindamönnum, um greiningu og meðferðir sem gætu orðið til að draga úr fötlun og koma í veg fyrir frekari fötlun sjúklingsins.

Virðingarfyllst,

Guðrún Sæmundsdóttir

formaður ME félags Íslands

Afrita slóð á umsögn

#10 Guðný Jónsdóttir - 14.12.2018

Umsögn frá Endurhæfingu - þekkingarsetri um Heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Sjá í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Guðjón Ólafur Sigurbjartsson - 15.12.2018

Fagleg staðsetning sjúkrahúsa

Mikilvægt er að byrja fljótlega að undirbúa næstu sjúkrahúsbyggingar. Nýi meðferðarkjarninn við Hringbraut bætir aðeins við 233 sjúkrarúmum en núverandi spítali er yfirnýttur og þörfin vex um 2% á ári. Ljóst er að ekki verður hægt að loka Fossvogsspítala sem var ein af meginforsendum sameiningar sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu á einn stað en hagkvæmni þess var metin á 3 milljarða króna á ári.

Undirbúningur að sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík á einn stað hefur staðið í rúm tuttugu ár. Flestir viðurkenna að sameining við Hringbraut var misráðin en nægilega margir telja of seint að skipta um kúrs og byggja nýjan spítala á nýjum og betri stað, jafnvel þó það kunni að vera hagkvæmara og betra. Verkefnið við Hringbraut heldur því áfram og verður vart stöðvað úr þessu.

Þó að Fossvogsspítala verði ekki lokað er ljóst að fljótlega þarf að hefja undirbúning að byggingu nýs sjúkrahúss.

Þegar gerð og staðsetning þess verður valin er mikilvægt viðhafa fagleg vinnubrögð. Meðal annars þarf að gera óháða, faglega staðarvalsgreiningu til að finna bestu staðina með hagsmuni almennings í huga, til langs tíma litið. Í framhaldi af því væri athugandi að fela þjóðinni að velja milli bestu staðanna sem koma út úr faglega staðarvalinu, í vandaðri skoðanakönnun eða beinni kosningu.

Fyrir hönd Samtaka um Betri spítala á betri stað,

Guðjón Sigurbjartsson

Sjá:

http://betrispitali.is/

https://www.facebook.com/betrilandspitaliabetristad

Afrita slóð á umsögn

#12 Sálfræðingafélag Íslands - 17.12.2018

Umsögn stjórnar Sálfræðingafélags Íslands er í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Jakobína Reynisdóttir - 18.12.2018

Umsögn frá hjúkrunar- og læknaráðum Sjúkrahússins á Akureyri við drög að heilbrigðisstefnu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Þórólfur Guðnason - 18.12.2018

Athugasemdir sóttvarnalæknis við drög að Heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Drög að heilbrigðisstefnu er metnaðarfullt skjal sem tekur á mögum mikilvægum þáttum er lúta að heilbrigði almennings. Það eru hins vegar nokkur mikilvæg atriði sem snerta varnir og viðbrögð við alvarlegum smitsjúkdómum og öðrum sjúkdómum sem ógna almannaheill sem algjörlega eða að mestu vantar í þessi drög.

Lítið/ekkert er getið í þessum drögum um vöktun og viðbrögð við smitsjúkdómum, sýkingum og eiturefnum/mengun sem skilgreind eru í sóttvarnalögum nr. 19/1997. Sem dæmi má nefna, farsóttir, staðbundnar matarsýkingar og heilsuvá af völdum loftslagsmengunar sem sóttvarnalög taka til. Stöðugt er unnið að skráningu og vöktun gagnagrunna, gerð viðbragðsáætlana og leiðbeininga vegna þessa. Mikil opinber vinna hefur verið innt af hendi og mun halda áfram um ófyrirséða framtíð um gerð viðbragðsáætlana við slíkri vá hér á landi og þarf að koma fram í opinberri stefnu sem ætlað er að tryggja heilbrigði landsmanna.

Í heilbrigðisstefnu þarf að fjalla um heilbrigðisöryggi og hvernig Ísland ætlar að tryggja heilbrigðisöryggi landsmanna. Í þessu samhengi má vísa í vinnu íslenskra stjórnvalda í þjóðaröryggisráði og almannavarna- og öryggismálaráði. Samhliða þessu þarf að minna á og leggja áherslu á alþjóðlegar skuldbindindingar Íslands samkvæmt alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni sem er skuldbindandi fyrir Ísland. Þær heilbrigðisógnir sem fjallað er um í alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni snerta alþjóða sóttvarnir og þurfa að koma fram í heilbrigðisstefnu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir

Afrita slóð á umsögn

#15 Landssamband slökkvilið/sjúkrfl - 18.12.2018

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) fagnar gerð heilbrigðisstefnu og vill jafnframt þakka tækifærið til að fá að koma að mótun hennar í gegn um samráðsgáttina. LSS vill með þessu innslagi koma fram sínum ábendingum er varða sjúkraflutninga og bráðaþjónustu utan spítala.

Mikilvægi málaflokksins er óumdeilt og snýr að öllum þeim sem landið byggja og öllum sem það heimsækja. Sjúkraflutningar og bráðaþjónusta utan spítala eru oft, líkt og heilsugæslan, fyrsta viðkoma sjúklings í heilbrigðiskerfinu. Ekki er þar verið að tala um flutning sjúklings að heilbrigðisþjónustu heldur flutning heilbrigðisþjónustunnar til sjúklings, enda eru sjúkraflutningar og bráðaþjónusta utan spítala skilgreind sem slík. Markmiðasetning og stefnumótun stjórnvalda um aðgengi, menntun starfsfólks og gæði þjónustu eiga þar jafnt við.

Mikið vantar upp á sýnileika þessarar mikilvægu þjónustu í heilbrigðisstefnunni og víða mætti nefna hana sérstaklega, þar sem þörfin á umbótum er mikil en tækifærin jafnframt mörg.

Þróunin í faginu er mikil og hröð. Hún snýr helst að bættri getu okkar til að bjarga lífi og minnka örorku en einnig að vinnuumhverfi þeirra sem þjónustuna veita, því starfið er oft á tíðum hættulegt og unnið við krefjandi aðstæður. Kröfur almennings aukast með um að fylgja þessari þróun. Það er mikil áskorun að reka kerfi á okkar strjálbýla landi sem mætir þeim kröfum og tryggir jafnt aðgengi að þjónustu. Fleiri áskoranir í greininni eru til að nefna breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og fjölgun ferðamanna. Það er morgunljóst að það á við um margar greinar heilbrigðiskerfisins en LSS telur að nefna þurfi málaflokkinn sérstaklega. Það þarf að hjálpa málaflokknum inn í nýja tíma og sú vinna þarf að taka mið af heilbrigðiskerfinu í heild. Þetta er verkefni sem ekki verður leyst nema horft sé til framtíðar.

“Það þarf vel stillt kerfi til þess að bjarga lífi”

Málaflokkinn skortir utanumhald. Yfirsýnin er sárlega takmörkuð og er ekki samboðin nútíma heilbrigðiskerfi. Í skýrslum frá 2007 og 2012 sem unnar voru fyrir ráðuneyti málaflokksins hefur þörfin um heildar endurskipulagningu kerfisins verið útskýrð. Ráðherra málaflokksins hefur tekið undir hana. Svo metnaðarfullt verkefni á erindi inn í stefnumótun sem þessa. Tryggja þarf skilvirkt kerfi á landsvísu, setja upp markvissa gæðastýringu og þjónustuviðmið. Stilla þarf upp stiguðu kerfi vettvangsliða, flutningsviðbragðs og sérhæfðs viðbragðs. Mikil vinna er fyrir höndum og án sterkrar umgjarðar verður það þungur róður.

LSS hefur ályktað og lagt til að stofnuð verði sérstök miðstöð bráðaþjónustu utan spítala, MBUS. Myndi sú miðstöð halda utan um málaflokkinn, koma að gæðamálum, öryggi, menntun og vísindarannsóknum í greininni. Vísindarannsóknir tengdar bráðaþjónustu utan spítala á Íslandi eru takmarkaðar í dag en eru jafn mikilvægar og annarstaðar í heilbrigðiskerfinu. Með aukinni tækni verður söfnun gagna utan spítala auðveldari og með aukinni framhaldsmenntun bráðatækna styrkjast forsendur til þess að stunda rannsóknir í faginu af þeim sem því sinna. Mikilvægt er í þessu samhengi að efla tengsl við háskóla hérlendis og erlendis.

LSS horfir bjart fram á veginn um framtíð sjúkraflutninga og bráðaþjónustu utan spítala og vonast eftir nánari samskiptum við ráðuneyti málaflokksins og aðrar heilbrigðisstéttir.

Meðfylgjandi eru ábendingar um orðalag og tillögur að viðbótum.

Fyrir hönd LSS,

Birkir Árnason, formaður fagdeildar sjúkraflutninga

Anton Berg Carrasco, varaformaður fagdeildar sjúkraflutninga

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Inga Valgerður Kristinsdóttir - 18.12.2018

Ég sakna þess að sjá ekki umfjöllun um heimahjúkrun og þjónustu við fjölveika, hruma aldraða á heimilum sínum í Heilbrigðisstefnunni. Einnig kemur fram í drögunum að Íslendingar geti búist við að tíðni heilabilunar eigi eftir að aukast umtalsvert fram til ársins 2030 en ekki er sett fram nein stefna í skjalinu um þann málaflokk. Í viðhengi eru einnig persónulegar vangaveltur sem komu upp við lestur stefnunnar.

Með kveðju,

Inga Valgerður Kristinsdóttir, Bs, Ms

sérfræðingur í heimahjúkrun

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Samband ísl berkla/brjóstholssj - 19.12.2018

SÍBS hefur ályktað um mikilvægi þess að mörkuð verði heildstæð, opinber stefna í forvarnamálum sem hluti af væntanlegri heilbrigðisstefnu:

„Hlutverk hins opinbera í forvarnastarfi kristallast í að innleiða „heilsu í allar stefnur“ (e. health in all policies). Mikilvægt er að inn í slíka vinnu rati aðilar utan hins eiginlega heilbrigðiskerfis, svo sem menntakerfið, framhaldsfræðslan, sveitarfélögin, vinnustaðir og frjáls félagasamtök. Samhliða „heilsu í allar stefnur“ er æskilegt að komið verði á formlegu ferli um lýðheilsumat (e. health impact assessment) sem taki bæði til aðgerða opinberra aðila og einkaaðila sem líkleg eru til að hafa áhrif á lýðheilsu. Hér má minna á mikilvægi þess að leggja gjald á heilsuspillandi vörur, til dæmis sykurgjald, líkt og þegar hefur verið gert með áfengisgjald og tóbaksgjald, auk fyrirbyggjandi skimunar á áhættuþáttum langvinnra og lífsstílstengdra sjúkdóma. Heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt að unnið verði að því að leggja fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu á yfirstandandi þingi. Skorað er á heilbrigðisráðherra að sem flest af ofangreindu verði að finna í þeirri stefnu.“

Það er mat SÍBS að heildstæð forvarnastefna eigi heima í sérstöku skjali eða undirkafla af heibrigðisstefnu. Bretar hafa t.d. nýlega ákveðið að setja sem nemur 20,5 milljörðum punda árlega í opinbera heilbrigðiskerfið (NHS) til að framfylgja forvarnastefnu sinni sbr. neðangreint skjal, en þetta er stærsta einstaka fjárveitingin til NHS frá upphafi:

Forvarnastefna breska velferðarráðuneytisins (2018):

„Prevention is better than cure – Our vision to help you live well for longer“

https://www.gov.uk/government/news/health-secretary-launches-prevention-is-better-than-cure-vision

Forvarnastefna Alþjóðheilbrigðismálastofnunarinnar (2016):

„Action Plan for the Prevention and Control of Noncommunicable Diseases in the WHO European Region.“

http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0008/346328/NCD-ActionPlan-GB.pdf

f.h. SÍBS

Guðmundur Löve

framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#18 Samband ísl berkla/brjóstholssj - 19.12.2018

ÍBS hefur ályktað um mikilvægi þess að mörkuð verði heildstæð, opinber stefna í forvarnamálum sem hluti af væntanlegri heilbrigðisstefnu:

„Hlutverk hins opinbera í forvarnastarfi kristallast í að innleiða „heilsu í allar stefnur“ (e. health in all policies). Mikilvægt er að inn í slíka vinnu rati aðilar utan hins eiginlega heilbrigðiskerfis, svo sem menntakerfið, framhaldsfræðslan, sveitarfélögin, vinnustaðir og frjáls félagasamtök. Samhliða „heilsu í allar stefnur“ er æskilegt að komið verði á formlegu ferli um lýðheilsumat (e. health impact assessment) sem taki bæði til aðgerða opinberra aðila og einkaaðila sem líkleg eru til að hafa áhrif á lýðheilsu. Hér má minna á mikilvægi þess að leggja gjald á heilsuspillandi vörur, til dæmis sykurgjald, líkt og þegar hefur verið gert með áfengisgjald og tóbaksgjald, auk fyrirbyggjandi skimunar á áhættuþáttum langvinnra og lífsstílstengdra sjúkdóma. Heilbrigðisráðherra hefur tilkynnt að unnið verði að því að leggja fram þingsályktunartillögu um heilbrigðisstefnu á yfirstandandi þingi. Skorað er á heilbrigðisráðherra að sem flest af ofangreindu verði að finna í þeirri stefnu.“

 

Það er mat SÍBS að heildstæð forvarnastefna eigi heima í sérstöku skjali eða undirkafla af heibrigðisstefnu. Bretar hafa t.d. nýlega ákveðið að setja sem nemur 20,5 milljörðum punda árlega í opinbera heilbrigðiskerfið (NHS) til að framfylgja forvarnastefnu sinni sbr. neðangreint skjal, en þetta er stærsta einstaka fjárveitingin til NHS frá upphafi:

 

Forvarnastefna breska velferðarráðuneytisins (2018):

„Prevention is better than cure – Our vision to help you live well for longer“

https://www.gov.uk/government/news/health-secretary-launches-prevention-is-better-than-cure-vision

 

Forvarnastefna Alþjóðheilbrigðismálastofnunarinnar (2016):

„Action Plan for the Prevention and Control of Noncommunicable Diseases in the WHO European Region.“

http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0008/346328/NCD-ActionPlan-GB.pdf

 

f.h. SÍBS

Guðmundur Löve

framkvæmdastjóri

Afrita slóð á umsögn

#19 Herdís Sveinsdóttir - 19.12.2018

Velferðarráðuneytið

Skógarhlíð 6

105 Reykjavík

Reykjavík 19. desember 2018.

Umsögn Hjúkrunarfræðideildar um drög að heilbrigðisstefnu

Í drögum að heilbrigðisstefnu fyrir Ísland til ársins 2030 koma fram margar áhugaverðar hugmyndir. Má þar nefna ábendingar sem tengjast lýðheilsu, heilsueflingu og forvörnum. Að sjálfsögðu ber að fagna því, en mikilvægt er að veikt fólk og þjónusta við það fái sömu áherslur. Því köllum við eftir að fjallað sé á fullnægjandi hátt um heilbrigðisþjónustu fyrir langveika og fjölveika sjúklinga og hrumt eldra fólk. Í stefnunni er látið að því liggja að megnið af langveikum sjúkdómum sé orsakað af lífsstíl. Benda má á fjölmarga alvarlega langvinna sjúkdóma sem lítt er hægt að hafa áhrif á með lífsstíl einum saman. Jafnframt er mikilvægt að hafa hugfast að fátækt, jaðarsetning og bág félagsleg staða hefur áhrif á tilkomu og ekki síst framgang fjölmargra langvinnra sjúkdóma. Víða hefur verið bent á og varað við að of miklar áherslur á að breyta lífsstíl leiði til þess að ábyrgð á heilsufarsvandamálum er alfarið færð til einstaklingsins. Oftar en ekki tilheyrir hann/hún viðkvæmum hópum, sinnir ekki fyrirbyggingu og stundar áhættuhegðun sem leiðir til streitu, hreyfingarleysis, offitu, tóbaksnotkunar og áfengissýki. Nær væri að leggja áherslu á að leitað sé raunhæfra og uppbyggjandi leiða til að aðstoða fólk sem glímir við slík vandamál. Benda má á að hluti þessara vandamála á rót sína að rekja til fíknar sem er langvinnur sjúkdómur og afar mikilvægt að aðgreina frá lífsstíl.

Verulegur hluti glímunnar við langvinna sjúkdóma krefst sérfræðiþekkingar og mikillar áherslu á heildræna nálgun, samráð, samfellu og öruggt aðgengi að þjónustu sem oft er veitt í þverfaglegri samvinnu. Rétt þjónustustig er mikilvægt í þessu samhengi ekki bara til að lágmarka útgjöld heldur ekki síður til að varðveita sjálfstæði og lífsgæði skjólstæðinga og fjölskyldna þeirra. Stóran hluta heilbrigðisþjónustu við langveika, einkum þá sem hafa fjölþættan vanda, má veita á forvarnarstigi 2. Í stefnunni kemur fram að það séu sérfræðistofur lækna og að einhverju marki dag- og göngudeildir sjúkrahúsa (Landspítala) sem falli þar undir, auk heilsugæslunnar. Bent skal á að á undanförnum áratug hefur sérfræðiþjónusta í hjúkrunarstýrðum dag- og göngudeildum fyrir langveika, börn, fullorðna og aldraða stóreflst einkum á Höfuðborgarsvæðinu. Þessi þjónusta er jafnan fjölskyldumiðuð og þverfagleg. Sýnt hefur verið fram á verulega bætt lífsgæði, fækkun koma á bráðamótttöku og innlagna á sjúkrahús, aukna tilfinningu um öryggi og í sumum tilvikum minni kvíða og þunglyndi. Til mikils er að vinna að efla þessa þjónustu enn frekar og auka möguleika á að sjúklingar og fjölskyldur á landsbyggðinni njóti hennar á jafnréttisgrundvelli.

Meðal nágrannaþjóða okkar og í stefnumótun alþjóðlegra samtaka eins og WHO og OECD hefur ítrekað verið bent á að fjölveikt og hrumt eldra fólk þarfnast vel samhæfrar heilbrigðis- og félagsþjónustu. Spár benda til að þetta sé sá hópur sem muni einna helst þarfnast heilbrigðisþjónustu á komandi árum. Jafnframt er í allri stefnumörkun lögð áhersla á að hjálpa fólki til að búa sem lengst heima. Til að svo megi verða er þó áríðandi að tryggja vel samhæfða þjónustu þeirra sem að henni koma, bæði milli ólíkra þátta grunnþjónustu, heilsugæslu og heimaþjónustu og milli bráðaþjónustu og grunnþjónustu. Lögð hefur verið áhersla á þátt heilsugæslunnar í þjónustustjórnun þessa hóps sem er sannarlega mikilvægt. Einnig hafa rannsóknir sýnt að hjúkrunarfræðingar í heimahjúkrun gegna veigamiklu hlutverki í að tengja ólíka starfsmenn og samhæfa störf þeirra á þann hátt að árangursrík teymisvinna eigi sér stað. Nauðsynlegt er skýra hvernig þessum málum verði best fyrir komið þannig að fólk sem tekst á við heilsufarserfiðleika og býr heima njóti vandaðrar og viðeigandi þjónustu. Sú stefna að fólk haldi áfram að búa á heimilum sínum sem lengst hefur jafnframt leitt til þess að auknar byrðar eru lagðar á aðstandendur. Því er brýnt að huga vel að aðstæðum þeirra og líðan. Til að aðstandendur geti risið undir þeim væntingum sem til þeirra eru gerðar um þátttöku umönnun, meðferð og samhæfingu þurfa stjórnvöld að skapa möguleika til leiðsagnar, stuðnings og hvíldar. Í þessu sambandi má sérstaklega nefna aðstandendur fólks sem býr við heilabilun. Ekki er nægilega tekið á þessum þáttum í stefnunni og þá sérstaklega hvernig standi skuli að mönnun og fjármögnun þjónustu við aldraða/sjúklinga sem þarfnast heimaþjónustu.

Í stefnunni er nefnt mikilvægi þess að unnt sé að breyta verkaskiptingu og ábyrgð heilbrigðisstarfsfólks í þágu bættrar þjónustu við sjúklinga. Það er gott og mikilvægt að gangi eftir. Hinsvegar þarf að útfæra betur hvað átt er við í stefnunni. Talsvert er vitnað í McKinsey skýrsluna sem því miður gefur mjög skekkta sýn á starfsemi Landspítala þar sem nánast einungis er gengið út frá læknisfræðilegri starfsemi. Í stefnunni eru því að mestu nefndar áherslur og leiðir sem lúta að störfum lækna og sérfræðilækna. Á undanförnum árum hefur verið byggt upp öflugt klínískt meistaranám við Hjúkrunarfræðideild HÍ og Landspítali hefur staðið fyrir tveggja ára starfsþjálfun til sérfræðiviðurkenningar fyrir þá sem útskrifast hafa. Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður sem hafa lokið þessu námi og þjálfun, yfir 50 talsins, starfa nú sem sérfræðingar á Landspítala og vinna þar ómetanlegt starf á göngudeildum og víðar. Það mætti ætla að ráðamenn þekki ekki til þessarar þróunar en sérfræðingar í hjúkrun og ljósmóðurfræði eru ómissandi við kennslu nýrra kynslóða. Ekki er gert ráð fyrir hlutverki þessara sérfræðinga í stefnunni. Þekkt er að til að heilbrigðisþjónustan verði skilvirkari þá þarf að eiga sér stað ákveðin tilfærsla afmarkaðra verkefna fagstétta sem hafa forsendur til að taka að sér slík verkefni. Líta ber til annara landa sem hafa langa og góða reynslu af slíku fyrirkomulagi. Í stefnumótun WHO til 2020 sem vitnað er til í umræddum drögum er lögð áhersla á lykilhlutverk hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í að takast á við heilbrigðisþarfir samfélagsins með því að veita örugga og árangursríka heilbrigðisþjónustu. Til þes að svo megi verða þarf að hámarka nýtingu menntunar þessara stétta sérstaklega. Í nokkrum löndum er löng reynsla af sérfræðingum í hjúkrun (s.s. clinical nurse specialists og nurse practitioners) en mikil gerjun og þróun á sér stað í menntun og hlutverki þeirra í heilbrigðisþjónustu víða um heim svo sem í nágrannalöndum okkar í Norður-Evrópu (file:///H:/Rannsoknanamsnefnd/NP/OECD_2017%20Maier%20Aikin%20Busse.pdf).

Í drögunum ætti því að bæta við um sérfræðinga í hjúkrun og ljósmóðurfræði. Það má gera á bls. 19 þar sem segir „Mikilvægur liður í því að manna....er að mennta fleiri sérfræðinga í heimilislækningu og hjúkrun og ljósmóðurfræði....“ en sterkar vísbendingar eru um mikilvægi og gagn sérfræðinga í hjúkrun í fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu. Jafnframt á bls. 20 þar sem segir „Skipuleggja þarf sérfræðiþjónustu...fyrir þjónustu sérgreinalækna í samvinnu...“ Hér þarf að bæta við sérfræðingum í hjúkrun, ljósmóðurfræði og öðrum heibrigðisvísindagreinum. Í okkar tiltölulega litla heilbrigðiskerfi ætti háskólasjúkrahús og e.t.v. kennslusjúkrahús að vera ráðgefandi. Þekkt er t.d. vestan hafs í Bandaríkjum Norður Ameríku að minni heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisþjónusta í strjálbýlli héruðum nýtur góðs af sérfræðiþekkingu háskóla og háskólasjúkrahúsa í því augnamiði að auka aðgengi að slíkri þjónustu og bæta þar með öryggi og gæði sjúklinga og starfsfólks.

Þá viljum við nefna að á nokkrum stöðum er talað um „lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk“ s.s. á bls. 34 í næst neðstu efnisgrein sem hefst á „Landspítali hefur sett sér....“ Allt heilbrigðisstarfsfólk hefur mikilvæga aðkomu að því að þjónusta sjúklinga. Allir sem fylgst hafa með umræðu um öryggi í heilbrigðisþjónustu á undanförnum árum vita að aðgreining heilbrigðisstarfsfólks (einn settur ofar öðrum) leiðir til samskiptaleysis og samskiptaleysi er hreinlega banvænt. Við teljum viðeigandi að þetta orðalag sé tekið út og vísað í „heilbrigðisstarfsfólk.“ Jafnframt ef dæmi eru tekin um þjónustu sem má efla, bæta eða hefja er mikilvægt að dæmi séu tekin af fjölbreyttum vettvangi og þjónustu sem flestra heilbrigðisstétta.

Auk þess sem að ofan er talið eru nokkrar minniháttar athugasemdir sem við viljum nefna:

• Í stefnuna vantar með skýrari hætti að kveða á um hlutverk Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri sem ráðgefandi sérfræði samstarfsaðila við aðrar minni heilbrigðisstofnanir/staði og væri eðlilegt að það kæmi fram í punktunum á bls. 22-23.

• Í 6. punkti á bls. 25 er rétt að bæta við „...í samræmi við bestu gagnreyndu þekkingu, lög og kjarasamninga.“

• Í kaflanum Gæði í fyrirrúmi sem hefst á bls. 31 er ekkert kveðið á um öryggi starfsmanna, en öryggi sjúklinga helst í hendur við öryggi starfsmanna (sjá t.d. https://www.jointcommission.org/assets/1/18/TJC-ImprovingPatientAndWorkerSafety-Monograph.pdf).

• Í kaflanum Gæði í fyrirrúmi þar sem settir eru fram punktar um stöðuna 2030, vantar punkt(a) þar sem kveðið er á um gæðakröfur til þeirra sem fá leyfi til að reka heilbrigðisþjónustufyrirtæki og þeirra sem eru með samning við SÍ.

• Á bls. 34 í efnisgrein sem hefst „Hlutverk Heilbrigðisvísindadeildar Háskóla Íslands...“ þarf að lagfæra. Verið er að tala um Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, - það er engin Heilbrigðisvísindadeild við Háskóla Íslands.

• Í kaflanum Hugsað til framtíðar er kveðið á um mikilvægi góðrar menntunar í heilbrigðisvísindum og samstarf háskóla og heilbrigðisþjónustu. Með flóknari og fjölþættari sjúkdómum og heilbrigðisvandamálum og flóknari tækni í heilbrigðisþjónustu kemur vaxandi krafa um enn meiri og betri klíníska færni. Hvergi er getið um það hvernig tryggja eigi fjármagn til þálfunar/kennslu í klíník stúdenta og starfsþjálfunar.

• Á bls. 31 er vitnað í virtan lækni og ýjað að því að í gegnum tíðina hafi læknisfræði verið „tiltölulega örugg“. Við teljum varhugavert að halda slíku fram í stefnunni. Fjölmörg dæmi eru um að heilbrigðisþjónusta hafi ekki verið örugg og er nóg að líta til sögu um samskipti kvenna við heilbrigðisþjónustuna til að hrekja að þjónustan hafi verið tiltölulega örugg.

• Að lokum er bent á að sérnafnið Landspítali er með óákveðnum greini (sjá Lög um heilbrigðisþjónustu 2007 nr. 40 27. mars, https://www.althingi.is/lagas/nuna/2007040.html).

Í lokin þá fögnum við því að þessi drög hafi litið dagsins ljós. Við áréttum mikilvægi þess að heilbrigðisstefna sé samþykkt og aðgerðaráætlanir unnar. Það er ekki vænlegt til árangurs að stefnuleysi ríki í heilbrigðismálum líkt og verið hefur frá því síðast stefna leið undir lok árið 2010.

Virðingarfyllst f.h. Hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands

Herdís Sveinsdóttir, deildarforseti

Stefnumótunarskjöl um heilabilun:

Frá WHO:

Towards a dementia plan: a WHO guide

https://www.who.int/mental_health/neurology/dementia/policy_guidance/en/

Frá OECD:

Renewing priority for dementia: Where do we stand

http://www.oecd.org/health/health-systems/Renewing-priority-for-dementia-Where-do-we-stand-2018.pdf

OECD (2018), Care Needed: Improving the Lives of People with Dementia, OECD Health Policy Studies, OECD Publishing, Paris, https://doi.org/10.1787/9789264085107-en.

https://read.oecd-ilibrary.org/social-issues-migration-health/care-needed_9789264085107-en#page1

Afrita slóð á umsögn

#20 Erna Magnúsdóttir - 19.12.2018

Ég sat málþingið um mótun Heilbrigðisstefnu til ársins 2030, það var gagnlegt og ég þakka fyrir að fá að taka þátt í umræðum og athugasemdum. Plaggið er metnaðarfullt en við lestur þess tók ég strax eftir að lítið er fjallað um endurhæfingu almennt, sem er þó stór þáttur í okkar metnaðarfulla heilbrigðiskerfi, bæði hvað varðar forvanir en eins sem nauðsynleg eftirfylgni vegna veikinda og slysa. Þar sem ég hef stýrt sérhæfðri endurhæfingarstofnun fyrir krabbameinsgreinda í 13 ár er málið mér hugleikið. Mig langar til að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri. Í plagginu kemur fram að alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telur langvinna sjúkdóma af ýmsum gerðum og krabbamein vera eina helstu ógn við heilsu manna.

Í dag er tilviljanakennt hverjir fara í endurhæfingu í kjölfar krabbameinsgreiningar. Starfsfólk heilsugæslu og heilbrigðisstofnana gerir sitt besta til að benda á þau úrræði sem eru til staðar, en nauðsynlegt er að efla umsjón og flæðisstýringu svo allir fái sömu upplýsingar og jafnan aðgang að endurhæfingu hjá þessum hópi.

Á Íslandi eru starfandi endurhæfingarstofnanir og miðstöðvar með frábæru fagfólki með áralanga reynslu af endurhæfingu og á sumum stöðum mikil sérhæfing hvað varðar krabbameinsendurhæfingu. Til að framtíðarsýnin verði að veruleika þarf stefna heilbrigðismála að vera skýr og fjármagn skilgreint í þennan málaflokk. Ég vil því hvetja stjórnvöld til að setja skýr markmið í heilbrigðisstefnuna þegar kemur að endurhæfingu almennt. Vel menntað heilbrigðisstarfsfólk og mannauðurinn er til staðar nú þegar en þegar kemur að málaflokknum endurhæfing fyrir krabbameinsgreinda þá vantar skýrari stefnu og stuðning frá heilbrigðisyfirvöldum.

Erna Magnúsdóttir forstöðumaður Ljóssins, endurhæfingar-og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur.

Afrita slóð á umsögn

#21 Þroskahjálp,landssamtök - 19.12.2018

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að íslenskri heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að mannéttindamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Aðildarfélög að samtökunum eru rúmlega 20 með um 6000 félögum.

Samtökin Þroskahjálp fagna því að setja eigi heilbrigðisstefnu og vilja á þessu stigi koma eftirfarandi á framfæri varðandi þau drög sem hér eru til umsagnar.

Fatlað fólk hefur orðið fyrir og verður enn fyrir mismunun á öllum sviðum samfélagsins. Það á við um fatlað fólk á Íslandi og það á við um aðgang að heilsugæslu og þjónustu heilbrigðiskerfisins. Ríki heims hafa viðurkennt þessa mismunun og þá brýnu þörf sem þess vegna er til að grípa til ráðstafana á öllum sviðum til að bregaðst við því. Þess vegna var sérstakur samningur um mannréttindi fatlaðs fólks gerður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 2007. Langflest ríki í heiminum hafa fullgilt samninginn og þar með skuldbundið sig til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Íslenska ríkið fullgilti samninginn árið 2016.

Í 3. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar meginreglur segir m.a.:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar segir m.a.:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.

Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð. (Undirstr. Þroskahj.)

Bann við mismunun á grundvelli fötlunar á öllum sviðum samfélgsins er rauður þráður í öllum ákvæðum samningsins. Í 5. gr. hans er það bann áréttað sérstaklega. Greinin hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og hljóðar svo:

1. Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar.

2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.

3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.

4. Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa. (Undirstr. Þroskahj.)

Ástæða er til að vekja sérstaklega athygli hér á skyldu stjórnvalda „til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.“ Sé það ekki gert telst vera um mismunun á grundvelli fötlunar að ræða. Hvað átt er við með „viðeigandi aðlögun“ er skýrt í 2. gr. samningsins. Þar segir:

„Viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi.

Þá er einnig í þessu sambandi tilefni til að vekja sérstaklega athygli á skyldum ríkja samkvæmt 12. gr. samningsins. Greinin hefur yfirskriftina Réttarstaða til jafns við aðra og þar segir m.a.:

1. Aðildarríkin árétta að fatlað fólk eigi rétt á því að vera viðurkennt alls staðar sem per-sónur að lögum.

2. Aðildarríkin skulu viðurkenna að fatlað fólk njóti gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum lífsins.

3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái þann stuðning sem það kann að þarfnast þegar það nýtir gerhæfi sitt. (Undirstr. Þroskahj.)

Í 25. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Heilsa er kveðið sérstaklega á um skyldur ríkja varðandi aðgang fatlaðs fólks að heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu. Greinin er svohljóðandi:

Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki eins og frekast er unnt án mismununar vegna fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af kyni, einnig að heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu einkum:

a) sjá fötluðu fólki fyrir heilsugæslu og heilbrigðisáætlunum sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra einstaklinga, meðal annars með tilliti til kyn- og frjósemisheilbrigðis og að því er varðar samfélagsáætlanir á sviði lýðheilsu,

b) bjóða fram þá heilbrigðisþjónustu sem fatlað fólk þarfnast, einkum vegna fötlunar sinnar, sem felur í sér eins snemmbæra greiningu og inngrip eftir því sem við á og þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og frekast er unnt og koma í veg fyrir frekari fötlun, einnig meðal barna og eldri einstaklinga,

c) bjóða fram fyrrnefnda heilbrigðisþjónustu eins nálægt samfélögum fólks og frekast er unnt, einnig í dreifbýli,

d) gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, meðal annars á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, með því, auk annars, að vekja til vitundar um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilsugæslu, og með útbreiðslu siðferðislegra viðmiðana meðal þeirra,

e) leggja bann við mismunun gagnvart fötluðu fólki að því er varðar sjúkratryggingar og líftryggingar, þar sem slíkar tryggingar, sem skulu boðnar fram á sanngjarnan og rétt¬mætan hátt, eru heimilar samkvæmt landslögum,

f) koma í veg fyrir að einstaklingum sé synjað um heilsugæslu eða heilbrigðisþjónustu eða um mat og drykk þannig að um mismunun vegna fötlunar sé að ræða.

26. gr. samningsins hefur yfirskriftina Hæfing og endurhæfing og hljóðar svo:

1. Aðildarríkin skulu gera skilvirkar og viðeigandi ráðstafanir, einnig með tilstyrk jafn-ingjaaðstoðar, til þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast sem mest sjálfstæði, fulla líkamlega, andlega og félagslega getu, ásamt starfsgetu, og að vera þátttakendur í lífinu á öllum sviðum án aðgreiningar, ásamt því að viðhalda þessum gæðum. Til þess að svo megi verða skulu aðildarríkin skipuleggja, efla og útvíkka þjónustu og áætlanagerð á sviði víðtækrar hæfingar og endurhæfingar, einkum að því er varðar heilbrigði, atvinnu, menntun og félagsþjónustu, með þeim hætti að fyrrnefnd þjónusta og áætlanir:

a) hefjist eins snemma og frekast er unnt og séu byggðar á þverfaglegu mati á þörfum og styrks hvers einstaklings um sig,

b) stuðli að þátttöku í samfélaginu og þjóðfélaginu á öllum sviðum án aðgreiningar, séu valfrjálsar og standi fötluðu fólki til boða sem næst samfélögum þess, einnig í dreifbýli.

2. Aðildarríkin skulu stuðla að þróun grunnþjálfunar og stöðugrar þjálfunar sérfræðinga og starfsfólks sem vinna við hæfingu og endurhæfingu.

3. Aðildarríkin skulu stuðla að því að hjálpartæki og tækni, sem eru hönnuð fyrir fatlað fólk og notuð eru til hæfingar og endurhæfingar, séu tiltæk og þekking á þeim sé fyrir hendi.

Ekki þarf að hafa mörg orð um að mjög margt fatlað fólk er mjög háð margvíslegri heilbrigðisþjónustu vegna fötlunar sinnar. Ekki þarf heldur að fjölyrða um að mjög margt fatlað fólk hefur litlar tekjur og býr því við mjög bágan efnahag og ræður þ.a.l. mjög illa við að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Landssamtökin telja afar mikilvægt að stjórnvöld líti sérstaklega til þessa við mótun og framfylgd heilbrigðisstefnu, eins og þeim er skylt samkvæmt samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Einnig telja samtökin afar mikilvægt að framangreind ákvæði samnings SÞ varðandi heilbrigðisþjónustu o.fl. og skyldur sem af þeim leiða fyrir hlutaðeigandi stjórnvöld komi eins skýrt fram í heilbrigðisstefnunni og nokkur kostur er og að ávallt sé litið þeirra við framfylgd hennar.

Þá telja samtökin mjög mikilvægt að í stefnunni komi mjög skýrt fram að á hlutaðeigandi stjórnvöldum hvíli skylda til frumkvæðis og viðeigandi stuðnings og aðlögunar til að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu til jafns við aðra, hvort heldur þjónustan sem það þarf á að halda lýtur að líkamlegum eða andlegum þáttum gagnvart fólki sem þarf vegna fötlunar sinnar á sérstökum stuðningi, leiðbeiningu og viðeigandi aðlögun að halda til að það fá notið þeirrar þjónustu til jafns við aðra og án mismununar. Í því sambandi vilja samtökin sérstaklega vekja athygli á þörfum og aðstæðum fólks með þroskahömlun og fatlaðra barna. Til að svo verði er nauðsynlegt að stjórnvöld tryggi að við heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu starfi nægilega margt fagfólk sem hefur sérþekkingu á ýmis konar fötlun og þörfum og aðstæðum fatlaðs fólks almennt og sérstaklega m.t.t. andlegrar og líkamlegrar heilsu. Samtökin telja mjög mikilvægt að þetta komi skýrlega fram í heilbrigðisstefnunni.

Að lokum lýsa Landssamtökin Þroskahjálp eindregnum vilja og áhuga til að taka þátt í samráði við heilbrigðisráðuneytið og önnur hlutaðeigandi stjórnvöld til að tryggja að heilbrigðisstefnan og lög og reglur sem sett verða um framkvæmd hennar og eftirlit með framkvæmdinni verði í fullu samræmi við kröfur og skyldur sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Samtökin lýsa í því sambandi sérstaklega til samráðsskyldu stjórnvalda við fatlað fólk og samtök sem vinna að hagsmunamálum þess, sbr. m.a. 3. tl. 3. gr. og 3. tl. 33. gr. samningsins.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Afrita slóð á umsögn

#22 Samtök iðnaðarins - 19.12.2018

Góðan dag

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um heilbrigðisstefnu til ársins 2030.

Virðingarfyllst,

Björg Ásta Þórðardóttir,

lögfræðingur SI

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Reynir Arngrímsson - 19.12.2018

Greinargerð Læknafélags Íslands fylgir í viðhengi.

Virðingarfyllst,

fh. stjórnar

Reynir Arngrímsson, formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Sandra Bryndísardóttir Franks - 19.12.2018

Ágætis samantekt til að varpa ljósi á heildarmyndina. Sakna þess að ekki er vísað til aðferðafræðinnar sem stuðst er við mótun þessarar stefnu fyrir íslenska heilbrigðiskerfið. Þá sætir það furðu að næst stærsta heilbrigðisstéttin, sjúkraliðar, voru ekki verið kallaðir til samstarfs með formlegum hætti við frumgreiningu og stefnumótunarvinnu á þessum drögum.

Ekki fæst séð að framkvæmdar hafi verið frumrannsóknir á mikilvægum þáttum heilbrigðiskerfisins til að átta sig á núverandi stöðu, s.s. mannfjölda tiltekinna starfstétta og starfshlutfall, mannfjöldaþróun og spá um aldursamsetningu þjóðarinnar.

Mikilvægt er að vísa í tölfræðilegar staðreyndir, s.s. fjöldatölur um einstaklinga og aldursamsetning þjóðarinnar, fjölda heilbrigðisstarfsmanna og faggreinar þeirra auk starfshlutfall.

Þá er afar óheppilegt að greina frá einstökum starfsstéttum þegar móta á stefnu til lengri tíma. Þó ekki sé sýnilegur skortur á tilteknum heilbrigðisstarfsmönnum í dag, gæti slíkur skortur verið staðreynd eftir fimm ár. Í stefnudrögunum er bent á að skortur sér á tilteknum fagstéttum nú, hins vegar eru engar upplýsingar um hvernig mönnunarmál eru í raun metin.

Til að varpa ljósi á mönnun heilbrigðisstétta og meta skort eða offramboð, þarf að skilgreina störfin, afleiddu störfin og skörun þeirra. Það eru til dæmi um að kostnaðarsamt vinnuafl, eins og t.d. læknar og sérfræðilæknar, sinni einnig afleiddum störfum sínum. Þegar slík vinnubrögð eru viðhöfð má efast um þá fullyrðingu að skortur sé á læknum.

Þá kemur fram á bls. 16 í kaflanum „Hver verður staðan 2030?“ þar segir m.a. „Góð samvinna ríki á milli heilbrigðis- og félagþjónustu.“ Þessi yfirlýsing, eða stefnumið vekur upp fleiri spurningar en svör. Mun „góð samvinna“ tryggja framlag til þeirra málaflokka sem hér um ræðir? Mun „góð samvinna“ tryggja viðeigandi þjónustu við skjólstæðinginn. Mun „góð samvinna“ tryggja að skjólstæðingar / sjúklingar fái félagslega þjónustu þegar heilbrigðisþjónustunni sleppir í þeim tilvikum sem það á við? Ég tel heppilegra að skilgreina samvinnuna með skýrum hætti þegar gerðar eru yfirlýsingar um hana.

Með góðri kveðju,

Sandra B. Franks, formaður Sjúkraliðafélags Íslands

Afrita slóð á umsögn

#25 Krabbameinsfélag Íslands - 19.12.2018

Í viðhengi er umsögn Krabbameinsfélags Íslands.

Með bestu kveðju

Halla Þorvaldsdóttir

framkvæmdastjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#26 Samband íslenskra sveitarfélaga - 19.12.2018

Vinsamlegast sjá meðfylgjandi gögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Virðingarfyllst,

f.h. sambandsins,

Vigdís Häsler

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#27 Þórarinn Guðnason - 19.12.2018

Heilbrigðisstefna til 2030 tillögur Læknafélags Reykjavíkur í samráðsgátt stjórnvalda 19. desember 2018:

Stjórnun og samhæfing:

• Á Íslandi verði áfram rekið opinbert félagslegt heilbrigðiskerfi sem rýmir ólík rekstrarform.

• Lög og reglur séu skýr og gegnsæ.

• Stjórnun kerfisins sé fagleg og rekstrarlega heilbrigð, þjónustan sé veitt þar sem það er hagkvæmast og gæði eru tryggð.

• Kerfið sé fjármagnað í samræmi við þörf og í samræmi við þau lönd sem við berum okkur saman við.

• Við kostnaðarmat á heilbrigðisþjónustu skal taka tillit til ávinnings, bæði hvað varðar lífsgæði og fjárhagslegan hagnað samfélagsins.

• Samvinna sé milli ólíkra rekstraraðila og sátt um hvar ákveðnum verkefnum sé sinnt.

• Nýliðun og upptaka nýjunga sé tryggð.

• Unnið sé að sífelldri þróun kerfisins og nýjungar sem gera að aðgerðir og meðferðir sem áður þurftu sjúkrahúslegu en þurfa þess ekki lengur verði flutt í dagdeildarumhverfi eða á stofur.

• Kennsla nema og heilbrigðisstétta verði í öllu kerfinu og kennslutækifæri í stofurekstri nýtt betur en nú er. Sama á við um vísindaiðkun.

Veiting heilbrigðisþjónustu:

• Kostir fjölbreyttra rekstrarforma verði nýttir við veitingu heilbrigðisþjónustu til að fá sem mest fyrir hverja krónu.

• Gæði og aðgengi verði tryggt með gæðavísum og kröfulýsingum og eftirliti.

• Hlutverk hinna mismunandi þjónustuveitenda eru skýr en sveigjanleg eftir því sem tækni og framförum fleygir fram.

• Samvinna hinna mismunandi veitenda þjónustunnar er góð m.a. gegnum sameiginleg rafræn kerfi sem hið opinbera veitir forstöðu og þróar.

• Húsnæði verði viðunandi fyrir viðkomandi þjónustu og tryggt að svo sé með sameiginlegum stöðlum.

• Sérstaklega skal hafa í huga að byltingarkenndar nýjungar í veitingu heilbrigðisþjónustu eru þegar að koma eða eru í hraðri þróun, sérstaklega á sviði örflögutækni, gervigreindar og upplýsingatækni, sem munu færa þjónustu nær neytendum.

• Tækifæri í vísindum, menntun og símenntun verði opin aðilum sem veita heilbrigðisþjónustu óháð rekstrarformi og í samkeppnisumhverfi og þannig tryggt að tækifæri í okkar smáa heilbrigðiskerfi séu öll nýtt.

• Heilbrigðisþjónusta sem er veitt sé í samræmi við þörf og sjúkratryggingaréttur landmanna sé þar leiðarljós.

Mannauður:

• Tekið sé tillit til sérstöðu lækna sem flestir stunda sérnám sitt erlendis í um áratug og heilbrigðiskerfið styðji við og geri þeim kleift að hafa sveigjanleika þegar flutt er heim á ný.

• Mannafli sé í samræmi við þörf.

• "Task shifting" milli ólíkra aðila í kerfinu verði skoðað bæði kostir þess og gallar, t.d. má skoða í meira mæli en gert er í dag hvort ákveðin verk sem læknar sinna í dag megi vinna með aðstoð annarra stétta t.d. sjúkraliða, lyfjafræðinga, hjúkrunarfræðinga, ritara eða annarra stétta undir handleiðslu lækna. Eins hvort einhver verk sem unnin eru af hjúkrunarfræðingum í dag megi vinna af sjúkraliðum eða öðrum stéttum o.s.frv.. Þannig má að einhverju leyti létta álagi af stéttum sem eru undirmannaðar.

• Einnig að komið verði á námi læknaliða (aðstoðarfólks lækna) sem heyri stjórnunarlega undir lækna og aðstoði lækna við störf sín.

• Vinnutími og vaktir séu í samræmi við lög og reglur.

• Hugað sé að aðgerðum til að sporna gegn kulnun í starfi meðal lækna. Mikilvægt er þar að læknar fái meira hlutverk við stjórun og geti í ríkari mæli en nú er stýrt eigin vinnudegi. Mikilvægt að benda á að stofustarfsemin í dag er mikilvæg með tilliti til þessa og að ein megin orsök þess að læknar velja vinnu á stofu er að þar eru ríkari tækifæri til að stýra eigin vinnu sjálfur.

• Skipulagðar verði aðgerðir til forvarna og meðferðar á sem breiðustum grundvelli til að sporna gegn starfskulnun, fíknsjúkdómum og sjálfsvígum

• Öryggi starfsmanna verði tryggt, ekki aðeins öryggi sjúklinga sem hefur verið sett í öndvegi frá efnahagshruni etv á kostnað heilsu og öryggis lækna og starfsfólks.

Þátttaka notenda:

• Heilsuvera verði efld.

• Samræmd sjúkraskrá efld og einkum þar litið til góðrar vinnu sem unnin hefur verið í samvinnu við lækna og heilbrigðisstarfsfólk við Heilsugátt.

• Aðgengi sjúklinga að eigin upplýsingum efld.

• Hið opinbers styðji við að sterkari sjúklingasamtök verði aðili að þróun heilbrigðiskerfisins. Landssamtök sjúklinga verði stofnuð og fái opinbera fjármögnun.

• Embætti umboðsmanns sjúklinga verði stofnað.

Fjármögnun og greiðslukerfi:

• Fjármögnun kerfisins opinber eins og verið hefur.

• Fjármagn aukið í sambærilegt hlutfall af landsframleiðslu og í nágrannalöndum.

• Fjármagn sett í þjónustu sem er hagkvæmust og þar sem eru mest gæði óháð rekstaraðila.

• Gæðavísar innleiddir og tengdir fjármögnun.

• Þjónustukannanir innleiddar og tengdar fjármögnun.

• DRG eða sambærilegu greiðslukerfi komið á þar sem það á við.

• Samanburður við útlönd gerður reglulega.

Gæði og öryggi:

• Kliniskar leiðbeiningar og gagnreynd læknisfræði eru grundvöllur meðferðar en útilokar ekki þróun eða tilraunameðferðir.

• Kliniskar leiðbeiningar frá virtum erlendum aðilum svo sem Evrópusamtökum sérgreinalækna notaðar sem grunnur eða frá öðrum þegar það á við. Víða eru til vandaðar kliniskar leiðbeiningar sem eru jafnvel aðgengilegar í appi eða vasabroti auk textaútgáfu og eru uppfærðar reglulega á 2-5 ára fresti. Nýtum þær í stað þess að finna upp hjólið. Landlæknisembættið haldi utan um slíkar leiðbeiningar hvar þær eru aðgengilegar og hverjum þeirra er mælt með fremur en að skrifa nýjar leiðbeiningar nema í völdum tilvikum.

• Gæðavísar innleiddir, LR og sérgreinafélög lækna eru að ganga þar fram fyrir skjöldu og vinna að gæðavísum og skráningu.

• Þjónustukannanir innleiddar og á sama hátt er LR er undirbúa þjónustukannanir fyrir stofurekstur sérgreinalækna. Stuðning og fjármögnun þarf fyrir þau verkefni.

• Niðurstöður verði aðgengilegar og birtar reglulega.

• Samanburður við útlönd verði gerður mögulegur þar sem það er unnt t.d. með aukinni samvinnu sem þegar er fyrir hendi t.d. við gæðaskrár og gagnagrunna í Svíþjóð í ýmsum sérgreinum.

Vísindi, menntun og nýsköpun:

• Tækifæri í heilbrigðisþjónustu sem veitt er á vegum SÍ verði nýtt með tilliti til vísinda, menntunar og nýsköpunar. Þar má sérstaklega nefna kennslu hjúkrunar og læknanema, kennslu kandidata og sérnámslækna og vísindarannsóknir á öllum þeim sjúklingafjölda sem sinnt er í sérfræðiþjónustunni utan sjúkrahúsa dag hvern.

• Gríðarleg tækifæri eru í að nota fjarheilbrigðisþjónustu við veitingu sérfræðilæknisþjónustu á stofu.

• Örugg samskiptakerfi verði tekin upp á öllum sérfræðilæknisstofum sem fyrst og samið við lækna um gjaldkrár fyrir slíka þjónustu við landsmenn.

• Stofnaður verði þróunarsjóður um nýsköpun í heilbrigðiskerfinu, sem hafi tvíþætt hlutverk; veita styrki til sprotafyrirtækja og veiti styrki til að innleiða nýja tækni í heilbrigðisþjónustu, innan og utan hefðbundinna stofnana.

Þórarinn Guðnason formaður fh Læknafélags Reykjavíkur

Viðhengi