Samráð fyrirhugað 29.11.2018—13.12.2018
Til umsagnar 29.11.2018—13.12.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 13.12.2018
Niðurstöður birtar 02.01.2019

Drög að reglugerð um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins um málefni sveitarfélaga

Mál nr. 242/2018 Birt: 28.11.2018 Síðast uppfært: 02.01.2019
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Sveitarfélög og byggðamál

Niðurstöður birtar

Reglugerðardrögin voru til kynningar á samráðsgátt Stjórnarráðsins um tveggja vikna skeið. Tvær umsagnir bárust, annars vegar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og hins vegar frá Karen Elísabetu Halldórsdóttur, bæjarfulltrúa í Kópavogi. Umsagnirnar voru jákvæðar og þóttu ekki gefa tilefni til breytinga á drögunum. Þær höfðu á hinn bóginn einnig að geyma ýmsar ábendingar sem horfa má til við gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins um málefni sveitarfélaga. Reglugerðin hefur nú verið birt í B-deild Stjórnartíðinda (nr. 1245/2018) og tekið gildi.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 29.11.2018–13.12.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 02.01.2019.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birtir til umsagnar drög að reglugerð um gerð stefnumótandi áætlunar ríkisins um málefni sveitarfélaga en gerð slíkrar áætlunar er nýmæli. Eru þar nánari ákvæði um markmið og verklag við undirbúningi og gerð áætlunarinnar.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ber að leggja fram tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga fyrir Alþingi, að minnsta kosti á þriggja ára fresti til fimmtán ára í senn. Í stefnumótandi áætlun skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. Ákvæði um gerð slíkrar áætlunar voru færð í 2. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, með 10. gr. laga nr. 53/2018.

Stefnumótun ríkisins á þessu sviði er nýmæli og felur í sér að gerð verður langtímaáætlun í takt við aðra stefnumótun og áætlanagerð á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, þ.e. samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun/sóknaráætlanir.

Sveitastjórnarlög mæla fyrir um að samráð skuli hafa við önnur ráðuneyti, sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga við gerð stefnumótandi áætlunar um málefni sveitarfélaga. Þá skal haft samráð við hagsmunaaðila eftir þörfum. Einnig skal horfa til stefnumörkunar sem fram kemur í byggðaáætlun og sóknaráætlunum sem gerðar eru samkvæmt lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Loks skal almenningi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum í opnu samráðsferli.

Reglugerðardrögin fela í sér ákvæði um markmið, samráð og annað verklag við undirbúning og gerð tillögu ráðherra að stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga. Undirbúningurinn skal vera í höndum fjögurra manna starfshóps sem ráðherra skipar en þar af eru tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Frestur til að senda inn umsögn er til og með 13. desember nk.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Karen Elísabet Halldórsdóttir - 05.12.2018

Góðan dag.

Varðandi skipan í þennan mikilvæga starfshóp.

Ég styð heilshugar stofnun þessa hóps en óska sérstaklega eftir því að fulltrúum verði fjölgað eða að sérstaklega verði horft til seturéttar kjörinna fulltrúa sveitafélaga í viðkomandi starfshóp.

Það hefur verið tilhneiging Sambands íslenskra sveitafélaga að skipa starfsmenn sambandsins í starfshópa. Ég legg til að það verði sérstaklega horft til kjörinna fulltrúa í sveitastjórnum til þess að auka vægi og innsýn nefndarmanna þegar unnið er að stefnumótun til framtíðar fyrir sveitafélögin. Því sé það mikilvægt að tryggja það með einhverjum hætti að kjörnir fulltrúar hverju sinni taki þátt í þessari mikilvægu stefnumótun. Þar með er ekki sagt að starfsmenn Sambandsins eigi ekki að hafa aðkomu að þessum starfshópi, öllu heldur óska ég eftir að staða kjörinna fulltrúa í sveitafélögum sé á einhvern hátt tryggð.

Virðingarfyllst

Karen Elísabet Halldórsdóttir

bæjarfulltrúi Kópavogi

Afrita slóð á umsögn

#2 Samband íslenskra sveitarfélaga - 11.12.2018

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um ofangreint mál.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi