Samráð fyrirhugað 30.11.2018—14.12.2018
Til umsagnar 30.11.2018—14.12.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 14.12.2018
Niðurstöður birtar 25.01.2019

Drög að frumvarpi til laga um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC)

Mál nr. 246/2018 Birt: 30.11.2018 Síðast uppfært: 25.01.2019
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Háskólastig

Niðurstöður birtar

Þrjár umsagnir bárust um frumvarpið. Tvær í Samráðsgáttina, annars vegar frá Raunvísindastofnun Íslands og hins vegar frá Veðurstofu Íslands og ein umsögn barst eftir að athugasemdafresti lauk en sú umsögn kom sameiginlega frá Félagsvísindastofnun og Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Umsagnaraðilar voru sammála um mikilvægi frumvarpsins. Tveir umsagnaraðilar bentu á nokkur atriði í frumvarpstexta sem mætti skýra betur og var orðalag frumvarpsins breytt lítillega til samræmis við. Þá voru atriði í greinargerð með frumvarpsdrögunum leiðrétt í samræmi við athugasemdir.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 30.11.2018–14.12.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 25.01.2019.

Málsefni

Um er að ræða drög að nýju lagafrumvarpi sem innleiðir reglugerð EB nr. 723/2009 og henni var breytt með reglugerð ESB nr. 1261/2013. Reglugerðin fjallar um ERIC samtök en ERIC stendur fyrir European Research Infrastructure Consortium eða samtök um evrópska rannsóknainnviði.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti óskar eftir umsögnum um nýtt lagafrumvarp um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) en með lögunum er innleidd reglugerð EB nr. 723/2009 eins og henni var breytt með reglugerð ESB nr. 1261/2013. Stjórnvöld eru formlegur aðili að samstarfinu og greiða þátttökugjöld en starfsemin innanlands er í höndum viðeigandi rannsóknarstofnana.

ERIC-fyrirkomulagið er viðurkennt rekstrarform í öllum ESB-ríkjum og hefur í för með sér ákveðnar undanþágur t.d. tengdum virðisaukaskatti og vörugjöldum. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að dómstóll ESB hafi lögsögu yfir málssókn milli félagsmanna í tengslum við ERIC-samtökin, málssókn milli félagsmanna og ERIC-samtakanna og málssókn sem ESB er aðili að. Í flestum tilfellum mun ERIC rekstrarformið verða nýtt hjá þegar starfandi rannsóknarinnviðum sem hafa náð ákveðinni stærð og þroska og eru talin starfa betur sem ERIC.

Það er mikilvægt að Ísland geti tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknarinnviðum sem teljast til ERIC samtaka og því þarf að skapa almenna lagaumgjörð fyrir Ísland til að taka þátt í því samstarfi.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Raunvísindastofnun Háskólans - 13.12.2018

Umsögn Raunvísindastofnunar Háskólans um mál nr. 246/2018 með frumvarpinu

Drög að frumvarpi til laga um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC)

Raunvísindastofnun Háskólans er vettvangur grunnrannsókna á fræðasviðum sínum og starfar í alþjóðlegu vísindaumhverfi. Stofnunin er hluti af Raunvísinda- og Jarðvísindadeildum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Raunvísindastofnun fagnar drögum að frumvarpi til laga um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) og tekur heils hugar undir orð greinargerðar með frumvarpinu:

"Til að hægt sé að stunda framúrskarandi rannsóknir þurfa vísindamenn að hafa aðgang að hágæða rannsóknarinnviðum (t.d. tækjabúnaði, gagnagrunnum og rafrænum innviðum). Oft er um að ræða mjög dýra og/eða umfangsmikla rannsóknarinnviði sem útilokað er að einstakt ríki hafi bolmagn til að koma sér upp. Til að vera samkeppnishæft á alþjóðlegan mælikvarða hefur íslenskt vísindasamfélag hag af því að geta tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi um rannsóknarinnviði. Með aðild að stórum rannsóknarinnviðum fá vísindamenn aðgengi að aðstöðu, tækjabúnaði, mæligögnum, aðferðafræði og ekki síst alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi sem er lífsnauðsynlegt íslensku vísindasamfélagi."

Starfsmenn Raunvísindastofnunar taka þátt í fjölbreyttu alþjóðlegu samstarfi. Í þessu samstarfi skapast oft aðgangur að margvíslegum rannsóknainnviðum. Þátttaka í ERIC samtökunum mun vafalítið nýtast rannsóknum í eðlisfræði, efnafræði, efnisvísindum, jarðvísindum og örtækni með bættu aðgengi að samhraðalsstofnunum, hringhröðlum, samstarfi örtæknikjarna, tölvuþyrpingum, stjörnusjónaukum, efnagreiningum, jarðskjálftahermum svo að fátt eitt sé nefnt.

Virðingarfyllst

f.h. stjórnar Raunvísindastofnunar Háskólans

Hafliði Pétur Gíslason, prófessor

Formaður stjórnar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Veðurstofa Íslands - 14.12.2018

Veðurstofa Íslands telur mjög mikilvægt að Íslandi sé heimil þátttaka í samtökum um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) og fagnar því lagafrumvarpsdrögum þessum.

Veðurstofan gerir engar athugasemdir við texta frumvarpsins sjálfs en vill bæta við og leiðrétta þrjú atriði í greinargerð með því.

Í 2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar, þar sem fjallað er um Veðurstofu Íslands, segir að stofnsetning EPOS-ERIC samtakanna setji aðild Veðurstofunnar í uppnám. Hér mætti koma fram að stofnunin telur mjög mikilvægt að hún geti orðið fullgildur aðili að samtökunum með atkvæðisrétt fyrir Íslands hönd, en vegna stærðar og skipulags þeirra má leiða líkur að því að þau verði einn mikilvægasti samráðsvettvangur fagsviða í jarðvísindum í Evrópu og þ.a.l. um vöktun náttúruvár í álfunni.

Í 2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar, þar sem fjallað er um Veðurstofu Íslands, segir að EPOS hafi haft töluverð áhrif á rannsóknarköll í bæði 7. og 8. rammaáætlun ESB. Hér á að standa 7. og H2020 rammaáætlun ESB.

Í 5. Mat á áhrifum segir að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi greitt árgjald fyrir Veðurstofu Íslands í EPOS um nokkurra ára skeið eða áður en EPOS tók upp ERIC rekstrarformið. Rétt er hinsvegar að ráðuneytið hefur samþykkt að greiða árgjaldið að EPOS-ERIC, sem stofnsett voru formlega í nóvember 2018. Því hefur ekki komið til innheimtu árgjaldsins enn.