Samráð fyrirhugað 20.12.2018—13.01.2019
Til umsagnar 20.12.2018—13.01.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 13.01.2019
Niðurstöður birtar 20.12.2019

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi

Mál nr. 257/2018 Birt: 20.12.2018 Síðast uppfært: 20.12.2019
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Sjávarútvegur og fiskeldi

Niðurstöður birtar

Um samráð er fjallað í 5. kafla frumvarps þess sem varð að lögum nr. 101/2019 (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.) og vísast til þess sem þar segir.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 20.12.2018–13.01.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.12.2019.

Málsefni

Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi svo sem um áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.

Frumvarp til laga sem hér er til kynningar og samráðs, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi(áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.), er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Markmið frumvarpsins er að styrkja lagaumgjörð fiskeldis þannig að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og það verði þannig sterk og öflug atvinnugrein jafnframt því að stuðla að ábyrgu fiskeldi, þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna.

Gert er ráð fyrir að með lagasetningunni verði náð meiri sátt um uppbyggingu fiskeldisins þannig að það geti vaxið eðlilega í sátt við helstu hagsmunaaðila og ekki síst að ímynd íslensks fiskeldis verði umhverfisvæn sem aftur skapi sérstöðu íslenskra fiskeldisafurða á markaði. Frumvarpinu er einnig ætlað að leggja grunn að öflugu og skilvirku eftirliti með fiskeldi. Jafnframt er í samfélaginu gerð krafa um aukna upplýsingagjöf og betra aðgengi almennings að upplýsingum sem tengjast fiskeldi. Frumvarpinu er ætlað að mæta þessum kröfum.

Með samþykkt þessa frumvarps er hrint í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu hennar. Frumvarpið byggist að stærstum hluta á tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem fram koma í skýrslu starfshópsins til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Jafnframt er ýmsum ákvæðum laga um fiskeldi, nr. 71/2008, breytt eða þau felld brott. Þessi endurskoðun er í samræmi við ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 49/2014 sem kvað á um að endurskoða skyldi lögin innan 18 mánaða frá gildistöku þeirra.

Frumvarp með sama heiti var lagt fram á 148. löggjafarþingi. Við framlagningu þessa frumvarps eru gerðar eftirfarandi efnislegar breytingar frá fyrra frumvarpi:

– Skilgreining á áhættumati erfðablöndunar í 1. gr. frumvarpsins er endurbætt þannig að hún tekur almennt til eldis í sjó þ.e. einnig til eldis með lokuðum eldisbúinaði auk eldiskvía. Jafnframt tekur skilgreiningin nú einnig til mótvægisaðgerða ef um slíkar aðgerðir er að ræða.

– Skilgreining á lífmassa í 1. gr. frumvarpsins er gerð skýrari og áréttað að skilgreiningin gildi einnig um eldi á landi.

– Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 4. gr. laganna, sem kveður á um að ráðherra skipar samráðsvettvang sem er stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis. Hlutverk vettvangsins er að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggir á, áhættu vegna sjúkdóma og sníkjudýra og leggja mat á framkvæmd eftirlits með starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Í hópnum eiga sæti sjö fulltrúar og eru þeir skipaðir til fjögurra ára í senn.

– Gerðar eru breytingar á 7. gr. a. frumvarpsins. Í fyrsta lagi er það áréttað að áhættumat erfðablöndunar mælir áhættu af erfðablöndun frjórra eldislaxa við villta laxastofna miðað við magn frjórra eldislaxa á tilteknum hafsvæði. Jafnframt er áréttað að markmið áhættumats erfðablöndunar er að koma í veg fyrir möguleg skaðleg áhrif af erfðablöndun eldislaxa við nytjastofna villtra laxa og að sjálfbærri nýtingu þeirra verði ekki stefnt í hættu. Í öðru lagi er lagt til að ráðherra staðfesti tillögur Hafrannsóknastofnunar um áhættumat erfðablöndunar. Í fyrra frumvarpi var það Hafrannsóknastofnun sem gaf út áhættumatið án aðkomu ráðherra. Einnig er gert ráð fyrir að ráðherra staðfesti tillögur stofnunarinnar að fengnu áliti samráðsvettvangs stjórnvalda skv. 2. mgr. 4. gr. laganna en álit hópsins er ekki bindandi fyrir ráðherra.

– Í 7. gr. a. frumvarpsins er jafnframt áréttað að ráðherra setji reglur í reglugerð sem fylgja ber þegar áhættumat erfðablöndunar breytist til hækkunar eða lækkunar á magni ófrjós lax á tilteknu hafsvæði. Þannig er gert ráð fyrir að fyrir liggi skýrar reglur um þá framkvæmd þegar rekstrarleyfishafi þarf t.d. að draga úr eldismagni fyrir frjóan lax á tilteknu hafsvæði í samræmi við endurskoðað áhættumat.

– Gert er ráð fyrir í 7. gr. a að ráðherra geti sett reglur um málsmeðferð við útgáfu áhættumats erfðablöndunar og kveðið á um mótvægisaðgerðir vegna erfðablöndunar í reglugerð.

– Í 7. gr. b. frumvarpsins er gerð samsvarandi breyting og lögð er til í 7. gr. a. frumvarpsins hér að framan þegar útgefið burðarþol Hafrannsóknastofnunar breytist til hækkunar eða lækkunar og rekstrarleyfihafi vill bregðast við hækkun eða ber skylda til að takmarka eldismagnið við lækkun burðarþolsmatsins.

– Í 10 gr. frumvarpsins er orðalagi breytt þannig Matvælastofnun skal taka tillit til áhættumats erfðablöndunar og burðarþolsmats en skal ekki taka rökstudda afstöðu til þessara mata eins og kveðið var á um í fyrra frumvarpi.

– Í 11. gr. frumvarpsins er felld brott sú heimild Matvælastofnunar að gefa út rekstrarleyfi til skemmri tíma en 16 ár ef áhættumat vegna erfðablöndunar skv. 6. gr. a eða burðarþolsmat skv. 6. gr. b mæla með því. Ekki er talin þörf á þessari heimild enda takmarka bæði burðarþol og áhættumat erfðablöndunar það magn sem heimilt er að ala í sjókvíum á gildistíma rekstrarleyfisins.

– Felld er brot sú krafa í 11. gr. frumvarpsins að í rekstrarleyfi skuli kveðið á um skyldu rekstrarleyfishafa til að annast vöktun og rannsóknir á nánasta umhverfi sínu. Hér er um að ræða skilyrði um umhverfismengun sem byggja á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Slík skilyrði eiga heima í starfsleyfi sem umhverfisstofnun gefur út en ekki rekstrarleyfi sem Matvælastofnun gefur út á grundvelli laga nr. 71/2008, um fiskeldi.

– Í 11. gr. frumvarpsins er jafnframt ný efnisákvæði sem vísa til þessa að í rekstrarleyfi skuli halda skrá yfir uppruna eldislaxa, sem byggir á gagnagrunni um erfðaefni hjá framleiðanda hrogna. Jafnframt er almennt vísað til skyldu til merkinga þannig að unnt sé að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva. Tilvísanir um tilteknar aðferðir við merkingar svo sem örmerkingar eða notkun erfðavísa eru felldar brott úr textanum.

– 14. gr. frumvarpsins er umorðuð með það að markmiði að skýra betur út hverjar skyldur Fiskistofu eru þegar eldisfiskur strýkur úr sjóeldi.

– Gert er ráð fyrir því í 15. gr. frumvarpsins að tilteknar landeldisstöðvar skuli starfrækja gæðakerfi sem hluta af innra eftirliti. Þessi skylda var ekki í fyrra frumvarpi. Gert er ráð fyrir að skylda miðist við tiltekin stærðarmörk sem verða ákveðin í reglugerð sem ráðherra setur. Við það er miðað að landeldisstöðvar sem hafa rekstarleyfi með framleiðslumagn yfir 20 tonn skuli starfrækja gæðakerfi.

– Í 17. gr. b. frumvarpsins er sagt skýrum orðum að Matvælastofnun þurfi ekki að birta tilteknar upplýsingar. Hér er verið að horfa til gagna um fjárhags- eða við¬skipta¬hagsmuni fyrirtækja enda óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og við¬skipta¬leyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikil¬væga viðskiptahagsmuni sbr. upplýsingalög, nr. 140/2012.

– Samkvæmt 19. gr. frumvarpsins er lögð til hækkun á árlegu gjald rekstrarleyfishafa í Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Í frumvarpinu er lagt til að gjaldið verði að upphæð 20 SDR árlega fyrir hvert tonn af frjóum laxi í miðað við heimilt framleiðslumagn í rekstrarleyfi. Í núgildandi lögum er árlegt gjald að upphæð 12 SDR fyrir hvert tonn. Gert er ráð fyrir að þeir rekstrarleyfishafar sem stunda eldi í kvíum á ófrjóum laxi, regnbogasilungi og með lokuðum eldisbúnaði greiði hins vegar helming þess gjalds sem þarf að greiða vegna eldis með frjóan lax eða 10 SDR árlega fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða. Í fyrra frumvarpi voru þessir aðilar undanþegnir gjaldinu til 2025.

– Samkvæmt nýju ákvæði til bráðabirgða skal þrátt fyrir ákvæði 7. gr. a. frumvarpsins endurskoða áhættumat erfðablöndunar tveim mánuðum eftir samþykkt laganna.

– Í kafla 3. um meginefni frumvarpsins er nýr kafli 3.8., þar sem skýrt er út hvers vegna lagt er til í 9. gr frumvarpsins að heimild í 2. mgr. 17. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum þar sem framkvæmdaraðili getur óska eftir leyfi Skipu¬lagsstofnunar til að vinna samtímis að mati á umhverfisáhrifum og starfsleyfi er felld brott.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Páll Ísleifur Jónsson - 03.01.2019

Mótmæli hér með fyrirhuguðum breytingum á fiskeldislögum, þar á að færa ráðherra úrslitavald í flestum ágreiningsefnum er varða fiskeldi við strendur Íslands og minnka gagnsæi stofnana, nánar í meðsendu viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Árni Snæbjörnsson - 10.01.2019

Bréf LV til ANR Umsögn um Fiskeldisfrumvarp 10. jan. 2019 pdf.pdf

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Samband íslenskra sveitarfélaga - 11.01.2019

Vinsamlegast sjá meðfylgjandi umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Virðingarfyllst,

f.h. sambandsins,

Vigdís Häsler, lögmaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Samtök atvinnulífsins - 11.01.2019

Í viðhengi má finna umsögn SA um mál S-257/2018 og S-258/2018

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Náttúrustofa Vestfjarða - 11.01.2019

Í viðhengi má finna umsögn Náttúrustofu Vestfjarða um mál S-257/2018.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Umhverfisstofnun - 11.01.2019

Umsögn Umhverfisstofnunar - Drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.)

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Vestfjarðastofa ses. - 11.01.2019

Umsögn Vestfjarðastofu ses

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Kjartan Davíð Sigurðsson - 13.01.2019

Hér eru umsagnir frá Fiskeldi Austfjarða (kt. 520412-0930) sem varða drög að frumvarpi til laga um breytinga á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) - 13.01.2019

Í viðhengi má finna umsögn SFS.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Einar Örn Gunnarsson - 13.01.2019

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Jóhannes Sturlaugsson - 13.01.2019

Undirritaður er lífffræðingur sem rekið hefur rannsóknafyrirtækið Laxfiska frá árinu 2003, og starfað við rannsóknir á laxi og öðrum fiskum í ríflega 30 ár. Síðustu 4 árin hef ég árlega sinnt vöktunarrannsóknum á laxa- og silungsstofnum í þremur ám við Arnarfjörð þar sem rannsökuð eru áhrif eldis á laxi í opnum sjókvíum á þá fiskistofna.

Umsögn mín um lagafrumvarpið er að finna í meðfylgjandi fylgiskjali.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Þorsteinn Másson - 13.01.2019

Umsögn Arnarlax vegna breytinga á ýsmum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Jón Kaldal - 13.01.2019

Umsögn The Icelandic Wildlife Fund (IWF) við drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Sjá PDF skjal í viðhengi

Með góðum kveðjum,

Jón Kaldal

s. 660 2002

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Gauti Geirsson - 13.01.2019

Í viðhengi fylgir umsögn Háafells ehf. sem varðar drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Gísli Jón Kristjánsson - 13.01.2019

Meðfylgjandi er umsögn Ís 47 ehf

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Gísli Jón Hjaltason - 13.01.2019

Í viðhengi er umsögn

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#19 Gísli Jón Kristjánsson - 13.01.2019

Meðfylgjandi er umsögn Ís 47 ehf

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Gísli Jón Hjaltason - 13.01.2019

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Skúlagötu 4

101 Reykjavík

postur@anr.is

Reykjavík, 13.01.2019

Umsögn Hábrúnar ehf. um drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum

sem tengjast fiskeldi, S-257/2018 og um drög að frumvarpi til laga um gjald til

nýtingar eldissvæða í sjó, S-258/2018.

Hábrún ehf. hefur verið frumkvöðull á sviði fiskeldis í Ísafjarðardjúpi samfellt í hartnær 2 áratugi. Fyrirtækið hefur nú leyfi til eldis á 700 tonnum af regnbogasilungi.

Gerðar eru eftirfarandi athugasemdir við drög að ofantöldum frumvörpum.

Lög sem tengjast fiskeldi s-257/2018

Frumkvöðlaréttur

Hábrún telur það mikið réttlætismál að hagsmunir frumkvöðla sem starfrækja fiskeldi á tilteknum svæðum verði ekki fyrir borð bornir og hefðarréttur skapi þeim réttmætan forgangsrétt að viðkomandi svæðum þegar lagt er mat á tilboð (umsóknir) við úthlutun svæða. Oft er um að ræða tiltölulega lítil fyrirtæki heimamanna sem lagt hafa mikinn tíma, vinnu og hlutfalslega mikla fjármuni í þá áhættu sem frumkvöðlastarfi fylgir. Það hefur verið gert í þeirri trú að geta síðan aukið umfang eldisins í hæfilegum skrefum þegar reynslu hefur verið náð og innviðir þróast.

Því leggjum við til að bætt verði við 3.mgr 3.gr eftirfarandi setningu: „Þá skal við úthlutun leyfa tekið fullt tillit til frumkvöðla sem stunda fiskeldi á viðkomandi svæði.“

Þá leggjum við til að eftirfarandi breyting verði gerð á 22.grein málslið b. (II) laganna:

• að setning sem nú hljóðar: „Umsóknir um rekstrarleyfi á sama sjókvíaeldissvæði skv. 1. málsl. skulu afgreiddar í þeirri röð sem þær berast Matvælastofnun….“

• muni hljóða: „Umsóknir um rekstrarleyfi á sama sjókvíaeldissvæði skv. 1. málsl. skulu afgreiddar í þeirri röð sem þær berast Matvælastofnun að teknu fullu tilliti til forgangsréttar frumkvöðla sem starfrækja eldi á svæðinu......“

Að okkar mati er hér um mikið réttlætismál að ræða og ekki hægt að fara fram með málið án þess að taka tillit til þessara sjónarmiða. Þessu til stuðnings nægir að líta til stöðunnar í Ísafjarðardjúpi. Fari fram sem horfir gæti svo farið að lítið sem ekkert pláss verði fyrir eðlilegan vöxt frumkvöðlafyrirtækja heimamanna (Hábrún/Sjávareldi og Háafell), sem jafnframt eru þeir einu sem verið hafa með starfsemi á svæðinu og hafa kosið að byggja sig upp af varfærni.

Ræktun á ófrjóum laxi

Það er skoðun Hábrúnar að allar greinar sem lúta að úthlutun svæða undir tilraunir með ófrjóan lax skuli feldar úr frumvarpinu. Við teljum að eldi á ófrjóum laxi sé eingöngu á tilraunastigi og ekki rétt að binda í lög ákvæði sem eingöngu leiða til ótímabærra umsókna og úthlutunar leyfa án krafna um nýtingu. Ræktun á ófrjóum laxi er seinni tíma mál og þarf engin sér ákvæði um hana enda mun hún falla vel að öðrum ákvæðum laganna þegar og ef hún verður að veruleika.

Hábrún leggur til að samin verði sérstök grein er lúti að tilraunaeldi á ófrjóum laxi. Þar verði kveðið á um að tilraunir verði leystar með sérstökum takmörkuðum úthlutunum til tilraunaeldis á vegum Hafrannsóknarstofnunar líkt og hugsunin er með tilraunaeldi stofnunarinnar í Ísafjarðardjúpi.

Gjöld af fiskeldi s-258/2018.

Almennt

Hábrún telur ekki tímabært að koma fram með frumvarp um sérstaka aukagjaldtöku af atvinnugrein sem er enn á þróunarstigi - gjaldtöku sem getur jafnframt haft mikil áhrif vilja til fjárfestinga og þar með möguleg neikvæð áhrif á þróun og afkomu heilla landshluta. Hér er mikilvægt að fara hægt í sakirnar og vanda til verka.

Samræmis við aðrar atvinnugreinar verði gætt

Að mati Hábrúnar er það grundvallaratriði, þegar sérstök lög eru sett um aukaálögur á fiskeldi, að horft verði til þess hvernig staðið hefur verið að styrkjum, gjaldtöku, skattlagningu og skattaívilnunum til annarra atvinnugreina sem byggst hafa upp á landinu á undanförnum árum.

Virðingarfyllst,

Gísli Jón Hjaltason

stjórnarformaður Hábrúnar ehf.

Brunngötu 14

400 Ísafirði

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Ólafur Ingi Sigurgeirsson - 13.01.2019

Umsögn eða athugasemd þessi snýr að áhættumati Hafrannsóknarstofnunarinnar vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.

Afrita slóð á umsögn

#22 Ólafur Ingi Sigurgeirsson - 13.01.2019

Umsögn er í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Ólafur Ingi Sigurgeirsson - 13.01.2019

Umsögn er í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Ólafur Ingi Sigurgeirsson - 13.01.2019

Umsögn er í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#25 Ólafur Ingi Sigurgeirsson - 13.01.2019

Umsögn er í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#26 Ólafur Ingi Sigurgeirsson - 13.01.2019

Umsögn er í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#27 Friðleifur E Guðmundsson - 13.01.2019

Umsögn NASF á Íslandi er í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#28 Sigurður Pétursson - 13.01.2019

Umsögn Arctic Fish um drög að lagafrumvarpi um breytingu á ýmsum lagafrumvörpum sem tengjast fiskeldi er að vinna í meðfylgjandi skjali

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#29 Friðleifur E Guðmundsson - 13.01.2019

Umsögn NASF á Íslandi er í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#30 Jón Þór Ólason - 13.01.2019

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Skúlagötu 4

101 Reykjavík

Reykjavík 13. janúar 2019

Efni: Umsögn SVFR um drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

1. Inngangur

Stangaveiðifélag Reykjavíkur (hér eftir SVFR) undrast það mjög að ekki hafi verið gengið það þarfa skref að taka lög nr. 71/2008 til heildarendurskoðunar, sbr m.a. IV. bráðabirgðaákvæði laga nr. 49/2014 um heildarendurskoðun fiskeldislaga. Í athugasemdum með greinargerð frumvarpsins kemur fram að markmið lagasetningarinnar sé að styrkja lagaumgjörð fiskeldis þannig að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og það verði þannig sterk og öflug atvinnugrein jafnframt því að stuðla að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Þá er því lýst að gert sé ráð fyrir að með lagasetningunni verði náð meiri sátt um uppbyggingu fiskeldisins þannig að það geti vaxið eðlilega í sátt við helstu hagsmunaaðila. Því miður er það svo að frumvarp þetta fer víðsfjarri því tilefni sem lýst er hér að framan og leggst SVFR alfarið gegn því að frumvarp þetta verði að lögum.

Fyrir liggur að síðasta tilraun í þessum efni, þ.e. frumvarp til breytinga á lögum um fiskeldi er lagt var fram á 148. löggjafarþingi, varð ekki að lögum, m.a. vegna þeirrar miklu andstöðu er það mætti meðal almennings og umsagnaraðila. Í stað þess að freista þess að ná einhverri sátt í þessum efnum, er tekin sú ákvörðun að reyna að lappa uppá fyrra frumvarp, sem nú hefur litið dagsins ljós. Sú smíð er nú liggur frammi er hins vegar með þeim hætti að fyrirséð verður að gríðarleg átök eru framundan, enda eru ýmis efnistök frumvarpsins með þeim hætti að engin sátt er í sjónmáli. Frumvarp þetta er ekki nægilega ígrundað og mikið vantar upp á að vernd lífríkis sé höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Hins vegar má búast við að hagsmunaaðilar tengdir laxeldi í sjókvíum taki frumvarpi þessu fagnandi.

Hafa skal í huga að í 1. gr. núgildandi fiskeldislaga er m.a. kveðið á um að tryggja skuli verndun villtra nytjastofna og koma skuli í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra sem og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna. Í ljósi markmiðsyfirlýsingar 2. mgr. 1. gr. fiskeldislaga, sem á að standa óbreytt, koma ýmsar grundvallarbreytingar sem lagðar eru til í drögunum, eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Þannig er með öllu óljóst hver stefnumörkunin er í frumvarpinu enda eru lagabreytingarnar sem lagðar eru til í algjörri andstöðu við framangreinda lagagrein sem og í raun athugasemdir þær er fram koma í greinargerðinni við áðurgreindra lagagrein, sem eru svohljóðandi;

,, Á hinn bóginn er það skýrt og endurspeglast að sínu leyti í markmiðsyfirlýsingu 2. mgr. og fleiri greinum frumvarpsins að vöxtur og viðgangur atvinnugreinarinnar má ekki gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Í þessari takmörkun felst í raun að þegar ekki fara saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar hagsmunir þeirra sem fjallað er sérstaklega um í frumvarpi þessu víkja hinir síðarnefndu.“

SVFR er ekki á móti fiskeldi en hefur hins vegar ávallt lagst gegn sjókvíaeldi á norskættuðum laxi við Íslandsstrendur enda sýna bæði rannsóknir sem og reynsla annarra þjóða sem stunda laxeldi í opnum sjókvíum að ýmsir smitsjúkdómar, sníkjudýr og slysasleppingar munu óhjákvæmilega skaða lífríki í ám og vötnum hér á landi. Er váin raunar meiri hér á landi þar sem heimilað hefur verið sjókvíaeldi á kynbættum frjóum laxi af norskum uppruna, einfaldlega vegna þess að norski laxinn er erfðafræðilega frábrugðinn íslenskum laxastofnum og erfðamengunin, sem er óhjákvæmileg, dregur úr hæfni villta laxins til að lifa af, fjölga sér, skemmir aðlögunarhæfni og eyðileggur ratvísina.

Hin óhjákvæmilega genablöndun eldislax af norskum stofni við villtan lax mun valda óbætanlegu tjóni, m.a. í hinum dreifðu byggðu landsins. Því er mikilvægt að vandað sé til verka og að skammtíma pólitískir hagsmunir verði ekki látnir ráða för. Því áréttar SVFR að mun eðlilegra hefði verið að samin yrði ný heildarlöggjöf um fiskeldi, standi vilji Alþingis virkilega til að skapa sátt um þessi mál og gæta að náttúruverndarsjónarmiðum.

2. ,,Vernd lífríkis sé höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna“

Eins og að framan greinir á ofangreint atriði að vera eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins. SVFR leggur mikla áherslu á að náttúran verði látin njóta vafans, enda ógnar sjókvíaeldið ekki einvörðungu hinum villtu laxastofnum heldur ennfremur hinu viðkvæma lífríki í heild sinni. Sýnt er t.a.m. að frumvarp þetta á að skapa lagalegan grundvöll til að unnt sé að opna fyrir sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi þvert á ráðleggingar vísindamanna og þannig útrýma þeim einstöku villtu laxastofnum sem þar er að finna.

Margs konar mengun fylgir sjókvíaeldinu sem getur valdið skaða á fuglalífi. Það er vitað mál að laxeldi fylgir grútur og önnur mengun, sem gæti leitt til fugladauða, ekki aðeins unga heldur einnig fullorðinna fugla. Grútur og olía gæti borist og sest í fjörur landeigenda og geta valdið búsifjum. Auðveldara gæti orðið fyrir farfugla að ná í fæðu á svæðinu sökum þess hve mikið af fóðri fer út í hinar opnu eldiskvíar. Þetta gæti leitt til þess að farfuglar myndu breyta farmynstri sínu og þar af leiðandi setja vistkerfið enn meira úr jafnvægi. Mikið er t.a.m. um æðarvarp á Vestfjörðum og mörg hver þeirra friðlýst með lögum. Sem dæmi eru sex varin æðarvörp í Dýrafirði einum, Ekki ber aðeins að vernda æðarfuglinn sökum náttúruverndargildis, heldur eru mikil verðmæti fólgin í æðardúni. Á Vestfjörðum er æðarfugl og æðarrækt í öllum fjörðum og því full ástæða til að hafa áhyggjur af áhrifum sjókvíaeldis sem gæti stefnt tekju- og atvinnumöguleikum fjölda einstaklinga í voða.

Þá liggur það ennfremur fyrir að ekki hafa verið gerðar nægilegar rannsóknir á lífríkinu, og landeigendur eða aðrir sem hafa beina og óbeina hagsmuni af að vistkerfinu verði ekki raskað, hafa ekki verið nægjanlega upplýstir til að geta varið hagsmuni sína. T.a.m. liggur ekkert fyrir um að rannsökuð hafi verið áhrif sjókvíaeldis á uppeldisstöðvar nytjastofna t.a.m. þorsks inni á fjörðum þar sem sjókvíaeldið er stundað eða eftir atvikum skeldýra.

Þá vantar alveg í frumvarpsdrögin umfjöllun um úrgangsmengun sjókvíaeldis, en fyrir liggur að 10.000 tonna sjókvíaeldi skilar árlega um 5.000 tonnum af saur og fóðurleifum í vistkerfi hafsins. Í þessu sambandi má m.a. vísa til ákvæða laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda m.a. 1. gr., i-liðs og k-liðs 6. gr., 16. gr. og 18. gr. Ennfremur vísast til reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sem getur haft í för með sér mengun m.a. gr. 7.4. og 15. gr.

Þá áréttar SVFR að í 6. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er sérstaklega tekið fram að öllum sé skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. SVFR telur að mikið vanti uppá að farið sé eftir þessari aðgæsluskyldu og því mikilvægt að tryggt sé að nákvæmar úttektir og rannsóknir fari fram á viðkomandi vistkerfum og að óháðir rannsóknaraðilar verði fengnir til að framkvæma slíkar rannsóknir.

Sjókvíaeldi er mengandi iðnaður og öll þau ríki sem hafa heimilað slíkan iðnað hafa kynnst því af eigin raun hve alvarlegar afleiðingar það hefur haft í för með sér fyrir vistkerfi hafsins og náttúruvernd. Því leggur SVFR á það áherslu að öll útgáfa leyfa fyrir laxeldi í opnum sjókvíum verði stöðvuð þar til farið hefur fram ítarleg vísindaleg rannsókn á áhrifum þessarar mengandi starfsemi á umhverfið. Er sú krafa í raun gerð með hliðsjón af hinum tilgreindu markmiðum frumvarpsins að ,,Vernd lífríkis sé höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna“. Þá liggur fyrir að Erfðanefnd landbúnaðarins hefur metið hinn frjóa norska kynbætta lax sem framandi stofn í íslenskri náttúru og því hvatt til varúðar við útgáfu eldisleyfa í stórum stíl. Er í þessu sambandi ennfremur vísað til 63. gr. XI. kafla laga um náttúruvernd nr. 60/2013 um innflutning og dreifingu lifandi framandi lífvera og skilgreininga þeirra laga í þessu sambandi.

Væntir SVFR því að ekki sé einvörðungu um að ræða orðin tóm heldur raunverulegan vilja ráðherra til að skapa frekari sátt um málaflokkinn enda var því lýst í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar að meginstefið skyldi vera að gæta varúðar við uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Er því skorað á ráðherra að draga frumvarpsdrög þessi til baka og hefja áður boðaða vinnu við heildarendurskoðun fiskeldislaga nr. 71/2008.

3. Erfðablöndun o.fl.

Fyrir liggur að hér á landi hefur verið heimilað að notast við framandi laxastofn í sjókvíaeldi, sem er t.a.m. bannað í norskum lögum. Ef náttúran ætti í raun og veru að njóta vafans í þessu sambandi ætti viðgangur þeirra er stunda laxeldi á framandi laxi í opnum sjókvíum ekki að gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna og að hagsmunir þeirra er slíkt eldi stunda ættu að víkja fyrir þeim sem eiga veiðirétt samkvæmt lax- og silungsveiðilögum, sbr. m.a. tilvitnaðar athugasemdir í greinargerð með 2. mgr. 1. gr. fiskeldislaga nr. 71/2008. Krafa SVFR, sem og raunar allra þeirra er vilja að náttúran njóti vafans, er sú að innblöndunin verði engin.

Í þessu sambandi má ennfremur benda á að erfðanefnd landbúnaðarins hefur opinberlega lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu íslenskra laxastofna vegna mögulegra áhrifa laxeldis í sjókvíum með stofni af erlendum uppruna, m.a. með hliðsjón af almennri stöðu þekkingar um áhrif eldislaxa á villta laxastofna og varúðarreglu náttúruverndarlaga, sbr. 9. gr. laga nr. 60/2013. Þannig hefur nefndin lagst gegn notkun á frjóum, norskum eldislaxi í sjókvíaeldi við Íslandsstrendur þar sem það geti valdið óafturkræfum breytingum á erfðasamsetningu íslenskra laxastofna með ófyrirséðum afleiðingum, enda samrýmist sú stefna ekki markmiðum laga um fiskeldi og náttúruvernd, sem og samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem leggur áherslu á að vernda lífríki á öllum skipulagsstigum þess, þ.m.t. þeirra erfðaauðlinda sem lífríkið býr yfir.

Ráðleggingar nefndarinnar til stjórnvalda voru einnig á þá leið að: „Nefndin ráðleggur stjórnvöldum að koma í veg fyrir alla frekari útgáfu leyfa til sjókvíaeldis á laxi, þar með talið þá tugi þúsunda tonna sem komin eru í formleg umsóknarferli.“ Hvergi er þó vikið að ráðleggingum nefndarinnar í frumvarpsdrögunum og er nefndin þó skipuð helstu erfðafræðingum og líffræðingum landsins og hefur það hlutverk að veita ráðgjöf til hagsmunaaðila og stjórnvalda um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði, en þar falla m.a. undir ferskvatnsfiskar.

Þá vísar SVFR jafnframt til 8. gr. framangreindra laga um náttúruvernd sem kveður á um að ákvarðanir stjórnvalda sem varða náttúruna skulu eins og kostur er byggjast á vísindalegri þekkingu á verndarstöðu og stofnstærð tegunda. Í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að finna svonefnda rannsóknarreglu, sem leggur þá kvöð á stjórnvald að því sé skylt að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Má því fullyrða að skylt sé að nauðsynlegt sé að rannsaka alla þá þætti er snúa að áhrifum laxeldis í opnum sjókvíum og að þær rannsóknir verði gerðar af óvilhöllum vísindamönnum eins og áður hefur komið fram.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að þó laxeldi sé einvörðungu staðsett fyrir Vestfjörðum og á Austurlandi þá eru allar laxveiðiár landsins í hættu. Norskar rannsóknir hafa líka sýnt að strokulaxar hafa ferðast í allt 2000 km áður en hann hefur gengið upp í ár. Hér má t.a.m. taka ánna Tista í Noregi sem dæmi en hún er í um 400 km fjarlægð frá næstu eldisstöð en er samt sem áður uppfull af eldislaxi. Aukinheldur hefur það komið fram í yfirlýsingu vísindamanna Hafrannsóknastofnunar, að allar laxveiðiár landsins séu í áhættu hvar sem eldið er staðsett. Sér þessa þó hvergi merki í frumvarpsdrögunum, þrátt fyrir að það sé alvarleg hugsanavilla að halda því fram að einvörðungu þær ár séu í hættu sem eru nálægt eldisstöðvunum. Það er nefnilega svo, alveg sama hve hugurinn er góður, að fiskur sem er í opnum sjókvíum mun alltaf sleppa, það er raunar viðurkennt af öllum aðilum, hvar sem menn eru í sveit settir. Þá verða ýmsir sjúkdómar og plágur ávallt vandamál, líkt og t.a.m. laxalúsin.

4. Um samráðsvettvang

SVFR leggst alfarið gegn því að settur verði á laggirnar svonefndur samráðsvettvangur sem hafi það verkefni ,,að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggi á.“, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Samkvæmt frumvarpinu skal hann vera stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis og leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggir á. Þá skal Hafrannsóknarstofnun byrja á því að leggja tillögu að áhættumatinu fyrir samráðsvettvanginn ásamt öllum gögnum sem áhættumatið byggist á og taka síðan rökstudda afstöðu til álits samráðsvettvangsins og eftir atvikum endurskoða tillögu sína.

Ákvörðunin um staðfestingu áhættumatsins er svo gerð að pólitískri ákvörðun þar sem hið endanlega ákvörðunarvald er fært í hendur ráðherra, þar sem álit Hafrannsóknarstofnunar er ekki bindindi. Hér er í raun um grímulausa aðför að Hafrannsóknarstofnun að ræða sem er í engu samræmi við þær yfirlýsingar að hafa skuli vísindin að leiðarljósi. Þannig eru engar hæfniskröfur gerðar í frumvarpinu til þeirra einstaklinga er raka munu sæti í nefndum samráðsvettvangi, en boðað er að ráðherra muni setja reglugerð um hlutverk og starfshætti samráðsvettvangsins. Í engu er því tryggt að sérfræðingar á sviði vísinda taki sæti í þessum vettvangi og því er sýnt að þar kunni að vera tilnefndir leikmenn og sætir það mikilli furðu hvernig slíkir leikmenn verði falið það hlutverk að endurskoða vísindalegar niðurstöður sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar, en í þessu sambandi er vert að hafa í huga að hagsmunaaðilar tengdir fiskeldi hafa verið mjög gagnrýnir á störf stofnunarinnar. Leggst SVFR harðlega gegn þessari fyrirætlan, enda er hún með öllu órökstudd og raunar fráleit með öllu.

5. Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsdraganna.

SVFR áréttar enn og aftur áskorun um að frumvarp þetta verði dregið til baka og að þegar verði hafin heildarendurskoðun á fiskeldislögum nr. 71/2008. Þá telur SVFR verulega hafa skort á samráð við gerð þessara draga enda hafi allir hagsmunaaðilar veiðiréttar og veiði verið sniðgengnir við frumvarpsgerðina, enda má glögglega sjá á frumvarpinu að hagsmunir fiskeldismanna hafa verið hafðir í fyrirrúmi við gerð frumvarpsdraganna. SVFR leyfir sér á þessu stigi að gera athugasemdir við nokkrar greinar frumvarpsdraganna.

1. gr.

Breytt hefur verið skilgreiningunni í 1. tl. að því er varðar áhættumat erfðablöndunar, þannig að orðalaginu ,,að teknu tilliti til mótvægisaðgerða“ hefur verið bætt við, auðsýnilega vegna krafna fiskeldismanna. Eðli málsins samkvæmt liggur það í hlutarins eðli er tekið tillit til allra þátta sem skipt geta máli í því sambandi og því er þessi viðbót með öllu óþörf og bera að fella brott. í þessu sambandi koma hinar svonefndu ,,mótvægisaðgerðir“ ávallt til skoðunar í umhverfismati í hverju tilviki fyrir sig, sbr. lög nr. 106/2000. Þannig er það hlutverk skipulagsstofnunar að leggja mat á tillögur framkvæmdaraðila um mótvægisaðgerðir. Eðlilegra væri að vísa sérstaklega til þess að frjór lax af framandi stofni væri notaður í eldið.

2. gr.

í a. lið 2. gr. er að finna einn af umdeildari þáttum þessa frumvarps, þ.e. nefndan samráðsvettvang, sbr. umfjöllun í kafla 4 hér að framan. SVFR gerir kröfu um að liður þessi verður felldur úr frumvarpinu enda er það með öllu óskiljanlegt að Hafrannsóknarstofnun verði gert að endurskoða faglegt vísindalegt mat á grundvelli álits leikmanna þegar kemur að áhættumati erfðablöndunar.

Í b. lið 2. gr. er lagt til að 2. málsl. 3. mgr. falli brott, en í umræddum málslið kemur fram að við setningu reglugerða skuli ávallt leita faglegrar umsagnar þartilgreindra opinberra stofnana, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga. Hér er um afturför að ræða enda hlýtur það að vera eðlileg stjórnsýsla að leita skuli umsagnar þeirra aðila sem hafa beina hagsmuni af þeirri reglugerð sem verið er að setja. Hvergi má finna því stað í frumvarpinu hvers vegna umsagnarréttur þessi er felldur á brott.

3. gr.

Í 3. gr. er fjallað um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, auglýsing og úthlutun þeirra. Hér er enn á ný vald ráðherra aukið til mikilla muna. Athyglivert er að skoða það hvaða aðilar það eru sem fá umsagnarrétt samkvæmt ákvæðinu, en Landssamband veiðifélaga, ýmis náttúruverndarsamtök eru t.a.m. ekki þar á meðal. Þá liggur fyrir að burðarþol og útgáfa leyfa er ekki hagsmunamál eins sveitarfélags þar sem þetta getur varðað mörg sveitarfélög þar sem mengunar og áhrifa fiskeldis í opnum sjókvíum getur gætt víða.

Þá er orðalag og hugtakanotkun að mörgu leyti óskýr, m.a. hvaða sjónarmið það eru sem horfa beri til þegar vísað er til samfélagslegrar ábyrgðar í frumvarpstextanum, sérstaklega þegar fyrir liggur að þess er hvergi að finna stað í reynslu annarra þjóða að fiskeldi í opnum sjókvíum sé unnt að stunda í sátt við náttúruna, sbr. umfjöllun hér að framan.

Þá er ljóst að uppboðsleið sú er boðuð er að mörgu leyti óheppileg og erfið í framkvæmd, enda liggur fyrir að ekki eru margir um hituna og því mikil hætta á samráði aðila í tilboðsgerðinni. Mun eðlilegra er að setja fast ákvæði um auðlindagjald líkt og tíðkast í Noregi. Þá fellst í síðustu mgr. ákvæðisins enn og aftur of mikið framsal á valdi til ráðherra.

4. gr.

Í 4. gr. frumvarpsdraganna er m.a. mælt fyrir um það að umsækjandi skuli afhenda MAST bæði umsókn um starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi MAST. Eðlilegra hlýtur að teljast að umsóknir þessar afhendist sitthvorri stofnuninni sem hvor í sínu lagi rannsaki og meti sjálfsætt hvort lagaskilyrði séu uppfyllt.

5. gr.

Eðlilegra væri að umorða 3. mgr. 3. gr. með þeim hætti að 5. gr. laganna gæti staðið nánast óbreytt að því undanskildu að Hafrannsóknarstofnun væri falið að ákveða skiptinguna, sbr. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.

7. gr.

7. gr. frumvarpsins er harðlega mótmælt af hálfu SVFR er felast í vanhugsuðum breytingum á meðferð áhættumats erfðablöndunar, sbr. fyrri umfjöllun. Leggur SVFR til að öll ákvæði er varða hinn svonefnda ,,samráðsvettvang“ verði endurskoðuð og nefndur vettvangur felldur úr lögunum. Öll vísindaleg rök hníga að þeirri niðurstöðu að Hafrannsóknarstofnun verði falið að tilgreina áhættumat erfðablöndunar með sjálfstæðum hætti líkt og stofnun hefur gert til þessa og þá án íhlutunar ráðherra. Þá er ennfremur lagt til að felld verði brott úr greininni heimild ráðherra til þess að krefjast þess að áhættumat verði endurskoðað þegar og ef honum þurfa þykir.

8. gr.

Með hliðsjón af sjónarmiðum um dýravernd væri eðlilegt að bæta inn í drögin málslið um lágmarksviðmið um afföll í framleiðslu.

11. gr.

Gera verður alvarlegar athugasemdir við því að fyrirhugað sé að gefa út ótímabundin leyfi eða leyfi til 16 ára. Er hér raunar um svo stórt mál að ræða að eðlilegt er að kannað verði sérstaklega þau stjórnskipulega álitamál er upp geta komið í tengslum við heimildar til slíkrar ótímabundinnar leyfisútgáfu. Engar eðlilegar skýringar hafa verið færðar fyrir því að lengja þurfi tímann frá núgildandi fiskeldislögum. Þá er eðlilegt að sett sé inn málsgrein er kveður á um að óheimilt sé að gefa út rekstrarleyfi ef umhverfisáhrif framkvæmdar eru neikvæð að áliti Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknarstofnunar eða skipulagsstofnunar. Réttara væri að orðalag 10. gr. laga nr. 71/2008 stæði óbreytt, nema hvað 6. mgr. félli niður.

12. gr.

Athugasemdafrestur við tillögur að rekstrar- og starfsleyfi þarf að breytast úr 4 vikum í fyrra horf með 6 vikna fresti.

14. gr.

Slysasleppingar eru og verða fylgifiskar sjókvíaeldis og því væri eðlilegt að Alþingi myndi kanna sérstaklega hvernig núgildandi 2. mgr. 13. gr. laganna hefur reynst í framkvæmd. Reynslan er hins vegar því miður sú að slysasleppingar hafa ekki verið tilkynntar með fullnægjandi hætti. Þannig hafa skýr merki um erfðablöndun þegar verið greind í sex vatnsföllum í nágrenni eldissvæða á Vestfjörðum, en þetta var tilkynnt af Hafrannsóknarstofnun í ágústmánuði 2017.

Í tilkynningunni kom jafnframt fram að aldursgreining á blendingum hafi tengt erfðablöndunina við göngur kynþroska eldislaxa í vatnsföll á árunum 2014 og 2015, sem bendi til að erfðablöndunin hafi orðið árið 2012 en líkt og árið 2015 voru samt sem áður engar slysasleppingar laxa úr sjókvíum tilkynntar. Ekki voru heldar tilkynntar slysasleppingar á regnbogasilungi úr sjókvíum á árinu 2016 en engu að síður veiddist slíkur ófögnuður í ám hringinn í kringum landið. Eðlilegra væri að fiskar í opnum sjókvíum væru örmerktir til að unnt væri að rekja uppruna hans og láta rekstrarleyfishafann sæta ábyrgð hafi slysasleppingin ekki verið tilkynnt, enda eru gríðarlegir hagsmunir undir.

15. gr.

SVFR mótmælir því harðlega að fiskeldisfyrirtækjum verði heimilt að hafa eftirlit með eigin rekstri, sbr. m.a. ofangreind umfjöllun um 14. gr. frumvarpsins. Það er enda ljóst að fjárhagslegir hagsmunir fiskeldisfyrirtækja og tilkynningar um slysasleppingar eiga ekki samleið, enda geta þeir þá eftir atvikum kallað yfir sig skaðabótaskyldu, misst rekstrarleyfið eða verið gert að greiða sekt. Öll málefnaleg rök hníga í þá átt að Fiskistofu verði falið eftirlit með þeim aðilum sem stunda sjókvíaeldi.

16. gr.

Eðlilegra væri að eftirlit það sem mælt er fyrir um í greininni væri hjá Fiskistofu.

17. gr.

Í ljósi þeirrar náttúruváar sem er viðblasandi í sjókvíaeldi er það eðlileg krafa að allar upplýsingar um eftirlit séu birtar opinberlega og að ráðherra sé ekki í sjálfsvald sett að halda vissum upplýsingum leyndum. Raunar takmarkar 17. gr. b. í frumvarpinu að óþörfu rétt almennings skv. lögum nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfisáhrif. Ef vilji stæði til þess að halda einhverjum upplýsingum leyndum væri eðlilegra að þær væru sérstaklega skilgreindar í ákvæðinu.

Þá er mikilvægt að allar upplýsingar um laxalús séu birtar og lögákveðinn verði viðmiðunarmörk laxalúsar sem viðunandi ástands, er í því sambandi vísað til þess að í Noregi eru mörkin 0,2 lýs á hvern fisk, sjá hér einnig þarfar lagabreytingar á lögum nr. 60/2006 um varnir gegn fisksjúkdómum.

Þá er með öllu óljóst hvers vegna rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar skulu vera tímabundnar og hvers vegna stofnunin sé skyldug til samráðs við Umhverfisstofnun og MAST. Eðlilegra hlýtur að teljast að sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar séu sjálfstæðir í rannsóknum sínum.

e. (V) liður bráðabirgðaákvæðis 22. gr.

SVFR leggur til að ákvæði þetta verði fellt niður, en í ákvæðinu kemur fram að Hafrannsóknarstofnun skuli leggja tillögu að endurskoðuðu áhættumati erfðablöndunar fyrir títtnefndan samráðsvettvang innan tveggja mánaða eftir að lagaákvæðið tekur gildi. Er vísað til fyrri sjónarmiða að því er varðar samráðsvettvanginn. Ljóst má vera að bráðabirgðaákvæði þetta er tilkomið vegna þrýstings fiskeldisfyrirtækja.

Hins vegar má öllum vera ljóst að eðli málsins samkvæmt er ekki komin reynsla á fyrirliggjandi áhættumat Hafrannsóknarstofnunar sem miðast við 72 þúsund tonna hámarkslífmassa frjórra framandi laxa í opnum sjókvíum, sérstaklega þegar horft er til þess að ársframleiðslan nú losar rúm 10 þúsund tonn. Er því með öllu óljóst hvaða tilgang bráðabirgðaákvæði þetta hefur annan en þann að koma til móts við gagnrýni fiskeldisfyrirtækja. Er bráðabirgðaákvæði þessu því harðlega mótmælt og þess krafist að það verði fellt á brott úr lögunum.

6. lokaorð.

Með vísan til framangreinds skorar SVFR á ráðherra að draga frumvaprsdrög þessi til baka og ráðast þegar í stað í heildarendurskoðun á löggjöf um fiskeldi heldur en að ráðast í óvandaðar og umdeildar breytingar á núverandi löggjöf. Er SVFR reiðubúið til alls samstarfs á þeim grundvelli. Þá áréttar SVFR að frumvarp þetta getur aldrei stuðlað að sátt um uppbyggingu fiskeldsins og það geti því vaxið í eðlilegri sátt við helstu hagsmunaaðila. Frumvarp þetta er hins vegar til þess fallið að skapa meiri óeiningu og var þó af nógu að taka fyrir.

Virðingarfyllst,

Jón Þór Ólason

Formaður SVFR

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#31 Jón Þór Ólason - 13.01.2019

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Skúlagötu 4

101 Reykjavík

Reykjavík 13. janúar 2019

Efni: Umsögn SVFR um drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

1. Inngangur

Stangaveiðifélag Reykjavíkur (hér eftir SVFR) undrast það mjög að ekki hafi verið gengið það þarfa skref að taka lög nr. 71/2008 til heildarendurskoðunar, sbr m.a. IV. bráðabirgðaákvæði laga nr. 49/2014 um heildarendurskoðun fiskeldislaga. Í athugasemdum með greinargerð frumvarpsins kemur fram að markmið lagasetningarinnar sé að styrkja lagaumgjörð fiskeldis þannig að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og það verði þannig sterk og öflug atvinnugrein jafnframt því að stuðla að ábyrgu fiskeldi þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Þá er því lýst að gert sé ráð fyrir að með lagasetningunni verði náð meiri sátt um uppbyggingu fiskeldisins þannig að það geti vaxið eðlilega í sátt við helstu hagsmunaaðila. Því miður er það svo að frumvarp þetta fer víðsfjarri því tilefni sem lýst er hér að framan og leggst SVFR alfarið gegn því að frumvarp þetta verði að lögum.

Fyrir liggur að síðasta tilraun í þessum efni, þ.e. frumvarp til breytinga á lögum um fiskeldi er lagt var fram á 148. löggjafarþingi, varð ekki að lögum, m.a. vegna þeirrar miklu andstöðu er það mætti meðal almennings og umsagnaraðila. Í stað þess að freista þess að ná einhverri sátt í þessum efnum, er tekin sú ákvörðun að reyna að lappa uppá fyrra frumvarp, sem nú hefur litið dagsins ljós. Sú smíð er nú liggur frammi er hins vegar með þeim hætti að fyrirséð verður að gríðarleg átök eru framundan, enda eru ýmis efnistök frumvarpsins með þeim hætti að engin sátt er í sjónmáli. Frumvarp þetta er ekki nægilega ígrundað og mikið vantar upp á að vernd lífríkis sé höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Hins vegar má búast við að hagsmunaaðilar tengdir laxeldi í sjókvíum taki frumvarpi þessu fagnandi.

Hafa skal í huga að í 1. gr. núgildandi fiskeldislaga er m.a. kveðið á um að tryggja skuli verndun villtra nytjastofna og koma skuli í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra sem og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna. Í ljósi markmiðsyfirlýsingar 2. mgr. 1. gr. fiskeldislaga, sem á að standa óbreytt, koma ýmsar grundvallarbreytingar sem lagðar eru til í drögunum, eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Þannig er með öllu óljóst hver stefnumörkunin er í frumvarpinu enda eru lagabreytingarnar sem lagðar eru til í algjörri andstöðu við framangreinda lagagrein sem og í raun athugasemdir þær er fram koma í greinargerðinni við áðurgreindra lagagrein, sem eru svohljóðandi;

,, Á hinn bóginn er það skýrt og endurspeglast að sínu leyti í markmiðsyfirlýsingu 2. mgr. og fleiri greinum frumvarpsins að vöxtur og viðgangur atvinnugreinarinnar má ekki gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. Í þessari takmörkun felst í raun að þegar ekki fara saman annars vegar hagsmunir þeirra sem veiðirétt eiga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar hagsmunir þeirra sem fjallað er sérstaklega um í frumvarpi þessu víkja hinir síðarnefndu.“

SVFR er ekki á móti fiskeldi en hefur hins vegar ávallt lagst gegn sjókvíaeldi á norskættuðum laxi við Íslandsstrendur enda sýna bæði rannsóknir sem og reynsla annarra þjóða sem stunda laxeldi í opnum sjókvíum að ýmsir smitsjúkdómar, sníkjudýr og slysasleppingar munu óhjákvæmilega skaða lífríki í ám og vötnum hér á landi. Er váin raunar meiri hér á landi þar sem heimilað hefur verið sjókvíaeldi á kynbættum frjóum laxi af norskum uppruna, einfaldlega vegna þess að norski laxinn er erfðafræðilega frábrugðinn íslenskum laxastofnum og erfðamengunin, sem er óhjákvæmileg, dregur úr hæfni villta laxins til að lifa af, fjölga sér, skemmir aðlögunarhæfni og eyðileggur ratvísina.

Hin óhjákvæmilega genablöndun eldislax af norskum stofni við villtan lax mun valda óbætanlegu tjóni, m.a. í hinum dreifðu byggðu landsins. Því er mikilvægt að vandað sé til verka og að skammtíma pólitískir hagsmunir verði ekki látnir ráða för. Því áréttar SVFR að mun eðlilegra hefði verið að samin yrði ný heildarlöggjöf um fiskeldi, standi vilji Alþingis virkilega til að skapa sátt um þessi mál og gæta að náttúruverndarsjónarmiðum.

2. ,,Vernd lífríkis sé höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna“

Eins og að framan greinir á ofangreint atriði að vera eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins. SVFR leggur mikla áherslu á að náttúran verði látin njóta vafans, enda ógnar sjókvíaeldið ekki einvörðungu hinum villtu laxastofnum heldur ennfremur hinu viðkvæma lífríki í heild sinni. Sýnt er t.a.m. að frumvarp þetta á að skapa lagalegan grundvöll til að unnt sé að opna fyrir sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi þvert á ráðleggingar vísindamanna og þannig útrýma þeim einstöku villtu laxastofnum sem þar er að finna.

Margs konar mengun fylgir sjókvíaeldinu sem getur valdið skaða á fuglalífi. Það er vitað mál að laxeldi fylgir grútur og önnur mengun, sem gæti leitt til fugladauða, ekki aðeins unga heldur einnig fullorðinna fugla. Grútur og olía gæti borist og sest í fjörur landeigenda og geta valdið búsifjum. Auðveldara gæti orðið fyrir farfugla að ná í fæðu á svæðinu sökum þess hve mikið af fóðri fer út í hinar opnu eldiskvíar. Þetta gæti leitt til þess að farfuglar myndu breyta farmynstri sínu og þar af leiðandi setja vistkerfið enn meira úr jafnvægi. Mikið er t.a.m. um æðarvarp á Vestfjörðum og mörg hver þeirra friðlýst með lögum. Sem dæmi eru sex varin æðarvörp í Dýrafirði einum, Ekki ber aðeins að vernda æðarfuglinn sökum náttúruverndargildis, heldur eru mikil verðmæti fólgin í æðardúni. Á Vestfjörðum er æðarfugl og æðarrækt í öllum fjörðum og því full ástæða til að hafa áhyggjur af áhrifum sjókvíaeldis sem gæti stefnt tekju- og atvinnumöguleikum fjölda einstaklinga í voða.

Þá liggur það ennfremur fyrir að ekki hafa verið gerðar nægilegar rannsóknir á lífríkinu, og landeigendur eða aðrir sem hafa beina og óbeina hagsmuni af að vistkerfinu verði ekki raskað, hafa ekki verið nægjanlega upplýstir til að geta varið hagsmuni sína. T.a.m. liggur ekkert fyrir um að rannsökuð hafi verið áhrif sjókvíaeldis á uppeldisstöðvar nytjastofna t.a.m. þorsks inni á fjörðum þar sem sjókvíaeldið er stundað eða eftir atvikum skeldýra.

Þá vantar alveg í frumvarpsdrögin umfjöllun um úrgangsmengun sjókvíaeldis, en fyrir liggur að 10.000 tonna sjókvíaeldi skilar árlega um 5.000 tonnum af saur og fóðurleifum í vistkerfi hafsins. Í þessu sambandi má m.a. vísa til ákvæða laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda m.a. 1. gr., i-liðs og k-liðs 6. gr., 16. gr. og 18. gr. Ennfremur vísast til reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sem getur haft í för með sér mengun m.a. gr. 7.4. og 15. gr.

Þá áréttar SVFR að í 6. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd er sérstaklega tekið fram að öllum sé skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt. SVFR telur að mikið vanti uppá að farið sé eftir þessari aðgæsluskyldu og því mikilvægt að tryggt sé að nákvæmar úttektir og rannsóknir fari fram á viðkomandi vistkerfum og að óháðir rannsóknaraðilar verði fengnir til að framkvæma slíkar rannsóknir.

Sjókvíaeldi er mengandi iðnaður og öll þau ríki sem hafa heimilað slíkan iðnað hafa kynnst því af eigin raun hve alvarlegar afleiðingar það hefur haft í för með sér fyrir vistkerfi hafsins og náttúruvernd. Því leggur SVFR á það áherslu að öll útgáfa leyfa fyrir laxeldi í opnum sjókvíum verði stöðvuð þar til farið hefur fram ítarleg vísindaleg rannsókn á áhrifum þessarar mengandi starfsemi á umhverfið. Er sú krafa í raun gerð með hliðsjón af hinum tilgreindu markmiðum frumvarpsins að ,,Vernd lífríkis sé höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna“. Þá liggur fyrir að Erfðanefnd landbúnaðarins hefur metið hinn frjóa norska kynbætta lax sem framandi stofn í íslenskri náttúru og því hvatt til varúðar við útgáfu eldisleyfa í stórum stíl. Er í þessu sambandi ennfremur vísað til 63. gr. XI. kafla laga um náttúruvernd nr. 60/2013 um innflutning og dreifingu lifandi framandi lífvera og skilgreininga þeirra laga í þessu sambandi.

Væntir SVFR því að ekki sé einvörðungu um að ræða orðin tóm heldur raunverulegan vilja ráðherra til að skapa frekari sátt um málaflokkinn enda var því lýst í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar að meginstefið skyldi vera að gæta varúðar við uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Er því skorað á ráðherra að draga frumvarpsdrög þessi til baka og hefja áður boðaða vinnu við heildarendurskoðun fiskeldislaga nr. 71/2008.

3. Erfðablöndun o.fl.

Fyrir liggur að hér á landi hefur verið heimilað að notast við framandi laxastofn í sjókvíaeldi, sem er t.a.m. bannað í norskum lögum. Ef náttúran ætti í raun og veru að njóta vafans í þessu sambandi ætti viðgangur þeirra er stunda laxeldi á framandi laxi í opnum sjókvíum ekki að gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna og að hagsmunir þeirra er slíkt eldi stunda ættu að víkja fyrir þeim sem eiga veiðirétt samkvæmt lax- og silungsveiðilögum, sbr. m.a. tilvitnaðar athugasemdir í greinargerð með 2. mgr. 1. gr. fiskeldislaga nr. 71/2008. Krafa SVFR, sem og raunar allra þeirra er vilja að náttúran njóti vafans, er sú að innblöndunin verði engin.

Í þessu sambandi má ennfremur benda á að erfðanefnd landbúnaðarins hefur opinberlega lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu íslenskra laxastofna vegna mögulegra áhrifa laxeldis í sjókvíum með stofni af erlendum uppruna, m.a. með hliðsjón af almennri stöðu þekkingar um áhrif eldislaxa á villta laxastofna og varúðarreglu náttúruverndarlaga, sbr. 9. gr. laga nr. 60/2013. Þannig hefur nefndin lagst gegn notkun á frjóum, norskum eldislaxi í sjókvíaeldi við Íslandsstrendur þar sem það geti valdið óafturkræfum breytingum á erfðasamsetningu íslenskra laxastofna með ófyrirséðum afleiðingum, enda samrýmist sú stefna ekki markmiðum laga um fiskeldi og náttúruvernd, sem og samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem leggur áherslu á að vernda lífríki á öllum skipulagsstigum þess, þ.m.t. þeirra erfðaauðlinda sem lífríkið býr yfir.

Ráðleggingar nefndarinnar til stjórnvalda voru einnig á þá leið að: „Nefndin ráðleggur stjórnvöldum að koma í veg fyrir alla frekari útgáfu leyfa til sjókvíaeldis á laxi, þar með talið þá tugi þúsunda tonna sem komin eru í formleg umsóknarferli.“ Hvergi er þó vikið að ráðleggingum nefndarinnar í frumvarpsdrögunum og er nefndin þó skipuð helstu erfðafræðingum og líffræðingum landsins og hefur það hlutverk að veita ráðgjöf til hagsmunaaðila og stjórnvalda um varðveislu og nýtingu erfðaauðlinda í landbúnaði, en þar falla m.a. undir ferskvatnsfiskar.

Þá vísar SVFR jafnframt til 8. gr. framangreindra laga um náttúruvernd sem kveður á um að ákvarðanir stjórnvalda sem varða náttúruna skulu eins og kostur er byggjast á vísindalegri þekkingu á verndarstöðu og stofnstærð tegunda. Í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að finna svonefnda rannsóknarreglu, sem leggur þá kvöð á stjórnvald að því sé skylt að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Má því fullyrða að skylt sé að nauðsynlegt sé að rannsaka alla þá þætti er snúa að áhrifum laxeldis í opnum sjókvíum og að þær rannsóknir verði gerðar af óvilhöllum vísindamönnum eins og áður hefur komið fram.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að þó laxeldi sé einvörðungu staðsett fyrir Vestfjörðum og á Austurlandi þá eru allar laxveiðiár landsins í hættu. Norskar rannsóknir hafa líka sýnt að strokulaxar hafa ferðast í allt 2000 km áður en hann hefur gengið upp í ár. Hér má t.a.m. taka ánna Tista í Noregi sem dæmi en hún er í um 400 km fjarlægð frá næstu eldisstöð en er samt sem áður uppfull af eldislaxi. Aukinheldur hefur það komið fram í yfirlýsingu vísindamanna Hafrannsóknastofnunar, að allar laxveiðiár landsins séu í áhættu hvar sem eldið er staðsett. Sér þessa þó hvergi merki í frumvarpsdrögunum, þrátt fyrir að það sé alvarleg hugsanavilla að halda því fram að einvörðungu þær ár séu í hættu sem eru nálægt eldisstöðvunum. Það er nefnilega svo, alveg sama hve hugurinn er góður, að fiskur sem er í opnum sjókvíum mun alltaf sleppa, það er raunar viðurkennt af öllum aðilum, hvar sem menn eru í sveit settir. Þá verða ýmsir sjúkdómar og plágur ávallt vandamál, líkt og t.a.m. laxalúsin.

4. Um samráðsvettvang

SVFR leggst alfarið gegn því að settur verði á laggirnar svonefndur samráðsvettvangur sem hafi það verkefni ,,að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggi á.“, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Samkvæmt frumvarpinu skal hann vera stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis og leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggir á. Þá skal Hafrannsóknarstofnun byrja á því að leggja tillögu að áhættumatinu fyrir samráðsvettvanginn ásamt öllum gögnum sem áhættumatið byggist á og taka síðan rökstudda afstöðu til álits samráðsvettvangsins og eftir atvikum endurskoða tillögu sína.

Ákvörðunin um staðfestingu áhættumatsins er svo gerð að pólitískri ákvörðun þar sem hið endanlega ákvörðunarvald er fært í hendur ráðherra, þar sem álit Hafrannsóknarstofnunar er ekki bindindi. Hér er í raun um grímulausa aðför að Hafrannsóknarstofnun að ræða sem er í engu samræmi við þær yfirlýsingar að hafa skuli vísindin að leiðarljósi. Þannig eru engar hæfniskröfur gerðar í frumvarpinu til þeirra einstaklinga er raka munu sæti í nefndum samráðsvettvangi, en boðað er að ráðherra muni setja reglugerð um hlutverk og starfshætti samráðsvettvangsins. Í engu er því tryggt að sérfræðingar á sviði vísinda taki sæti í þessum vettvangi og því er sýnt að þar kunni að vera tilnefndir leikmenn og sætir það mikilli furðu hvernig slíkir leikmenn verði falið það hlutverk að endurskoða vísindalegar niðurstöður sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar, en í þessu sambandi er vert að hafa í huga að hagsmunaaðilar tengdir fiskeldi hafa verið mjög gagnrýnir á störf stofnunarinnar. Leggst SVFR harðlega gegn þessari fyrirætlan, enda er hún með öllu órökstudd og raunar fráleit með öllu.

5. Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsdraganna.

SVFR áréttar enn og aftur áskorun um að frumvarp þetta verði dregið til baka og að þegar verði hafin heildarendurskoðun á fiskeldislögum nr. 71/2008. Þá telur SVFR verulega hafa skort á samráð við gerð þessara draga enda hafi allir hagsmunaaðilar veiðiréttar og veiði verið sniðgengnir við frumvarpsgerðina, enda má glögglega sjá á frumvarpinu að hagsmunir fiskeldismanna hafa verið hafðir í fyrirrúmi við gerð frumvarpsdraganna. SVFR leyfir sér á þessu stigi að gera athugasemdir við nokkrar greinar frumvarpsdraganna.

1. gr.

Breytt hefur verið skilgreiningunni í 1. tl. að því er varðar áhættumat erfðablöndunar, þannig að orðalaginu ,,að teknu tilliti til mótvægisaðgerða“ hefur verið bætt við, auðsýnilega vegna krafna fiskeldismanna. Eðli málsins samkvæmt liggur það í hlutarins eðli er tekið tillit til allra þátta sem skipt geta máli í því sambandi og því er þessi viðbót með öllu óþörf og bera að fella brott. í þessu sambandi koma hinar svonefndu ,,mótvægisaðgerðir“ ávallt til skoðunar í umhverfismati í hverju tilviki fyrir sig, sbr. lög nr. 106/2000. Þannig er það hlutverk skipulagsstofnunar að leggja mat á tillögur framkvæmdaraðila um mótvægisaðgerðir. Eðlilegra væri að vísa sérstaklega til þess að frjór lax af framandi stofni væri notaður í eldið.

2. gr.

í a. lið 2. gr. er að finna einn af umdeildari þáttum þessa frumvarps, þ.e. nefndan samráðsvettvang, sbr. umfjöllun í kafla 4 hér að framan. SVFR gerir kröfu um að liður þessi verður felldur úr frumvarpinu enda er það með öllu óskiljanlegt að Hafrannsóknarstofnun verði gert að endurskoða faglegt vísindalegt mat á grundvelli álits leikmanna þegar kemur að áhættumati erfðablöndunar.

Í b. lið 2. gr. er lagt til að 2. málsl. 3. mgr. falli brott, en í umræddum málslið kemur fram að við setningu reglugerða skuli ávallt leita faglegrar umsagnar þartilgreindra opinberra stofnana, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga. Hér er um afturför að ræða enda hlýtur það að vera eðlileg stjórnsýsla að leita skuli umsagnar þeirra aðila sem hafa beina hagsmuni af þeirri reglugerð sem verið er að setja. Hvergi má finna því stað í frumvarpinu hvers vegna umsagnarréttur þessi er felldur á brott.

3. gr.

Í 3. gr. er fjallað um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, auglýsing og úthlutun þeirra. Hér er enn á ný vald ráðherra aukið til mikilla muna. Athyglivert er að skoða það hvaða aðilar það eru sem fá umsagnarrétt samkvæmt ákvæðinu, en Landssamband veiðifélaga, ýmis náttúruverndarsamtök eru t.a.m. ekki þar á meðal. Þá liggur fyrir að burðarþol og útgáfa leyfa er ekki hagsmunamál eins sveitarfélags þar sem þetta getur varðað mörg sveitarfélög þar sem mengunar og áhrifa fiskeldis í opnum sjókvíum getur gætt víða.

Þá er orðalag og hugtakanotkun að mörgu leyti óskýr, m.a. hvaða sjónarmið það eru sem horfa beri til þegar vísað er til samfélagslegrar ábyrgðar í frumvarpstextanum, sérstaklega þegar fyrir liggur að þess er hvergi að finna stað í reynslu annarra þjóða að fiskeldi í opnum sjókvíum sé unnt að stunda í sátt við náttúruna, sbr. umfjöllun hér að framan.

Þá er ljóst að uppboðsleið sú er boðuð er að mörgu leyti óheppileg og erfið í framkvæmd, enda liggur fyrir að ekki eru margir um hituna og því mikil hætta á samráði aðila í tilboðsgerðinni. Mun eðlilegra er að setja fast ákvæði um auðlindagjald líkt og tíðkast í Noregi. Þá fellst í síðustu mgr. ákvæðisins enn og aftur of mikið framsal á valdi til ráðherra.

4. gr.

Í 4. gr. frumvarpsdraganna er m.a. mælt fyrir um það að umsækjandi skuli afhenda MAST bæði umsókn um starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi MAST. Eðlilegra hlýtur að teljast að umsóknir þessar afhendist sitthvorri stofnuninni sem hvor í sínu lagi rannsaki og meti sjálfsætt hvort lagaskilyrði séu uppfyllt.

5. gr.

Eðlilegra væri að umorða 3. mgr. 3. gr. með þeim hætti að 5. gr. laganna gæti staðið nánast óbreytt að því undanskildu að Hafrannsóknarstofnun væri falið að ákveða skiptinguna, sbr. 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins.

7. gr.

7. gr. frumvarpsins er harðlega mótmælt af hálfu SVFR er felast í vanhugsuðum breytingum á meðferð áhættumats erfðablöndunar, sbr. fyrri umfjöllun. Leggur SVFR til að öll ákvæði er varða hinn svonefnda ,,samráðsvettvang“ verði endurskoðuð og nefndur vettvangur felldur úr lögunum. Öll vísindaleg rök hníga að þeirri niðurstöðu að Hafrannsóknarstofnun verði falið að tilgreina áhættumat erfðablöndunar með sjálfstæðum hætti líkt og stofnun hefur gert til þessa og þá án íhlutunar ráðherra. Þá er ennfremur lagt til að felld verði brott úr greininni heimild ráðherra til þess að krefjast þess að áhættumat verði endurskoðað þegar og ef honum þurfa þykir.

8. gr.

Með hliðsjón af sjónarmiðum um dýravernd væri eðlilegt að bæta inn í drögin málslið um lágmarksviðmið um afföll í framleiðslu.

11. gr.

Gera verður alvarlegar athugasemdir við því að fyrirhugað sé að gefa út ótímabundin leyfi eða leyfi til 16 ára. Er hér raunar um svo stórt mál að ræða að eðlilegt er að kannað verði sérstaklega þau stjórnskipulega álitamál er upp geta komið í tengslum við heimildar til slíkrar ótímabundinnar leyfisútgáfu. Engar eðlilegar skýringar hafa verið færðar fyrir því að lengja þurfi tímann frá núgildandi fiskeldislögum. Þá er eðlilegt að sett sé inn málsgrein er kveður á um að óheimilt sé að gefa út rekstrarleyfi ef umhverfisáhrif framkvæmdar eru neikvæð að áliti Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknarstofnunar eða skipulagsstofnunar. Réttara væri að orðalag 10. gr. laga nr. 71/2008 stæði óbreytt, nema hvað 6. mgr. félli niður.

12. gr.

Athugasemdafrestur við tillögur að rekstrar- og starfsleyfi þarf að breytast úr 4 vikum í fyrra horf með 6 vikna fresti.

14. gr.

Slysasleppingar eru og verða fylgifiskar sjókvíaeldis og því væri eðlilegt að Alþingi myndi kanna sérstaklega hvernig núgildandi 2. mgr. 13. gr. laganna hefur reynst í framkvæmd. Reynslan er hins vegar því miður sú að slysasleppingar hafa ekki verið tilkynntar með fullnægjandi hætti. Þannig hafa skýr merki um erfðablöndun þegar verið greind í sex vatnsföllum í nágrenni eldissvæða á Vestfjörðum, en þetta var tilkynnt af Hafrannsóknarstofnun í ágústmánuði 2017.

Í tilkynningunni kom jafnframt fram að aldursgreining á blendingum hafi tengt erfðablöndunina við göngur kynþroska eldislaxa í vatnsföll á árunum 2014 og 2015, sem bendi til að erfðablöndunin hafi orðið árið 2012 en líkt og árið 2015 voru samt sem áður engar slysasleppingar laxa úr sjókvíum tilkynntar. Ekki voru heldar tilkynntar slysasleppingar á regnbogasilungi úr sjókvíum á árinu 2016 en engu að síður veiddist slíkur ófögnuður í ám hringinn í kringum landið. Eðlilegra væri að fiskar í opnum sjókvíum væru örmerktir til að unnt væri að rekja uppruna hans og láta rekstrarleyfishafann sæta ábyrgð hafi slysasleppingin ekki verið tilkynnt, enda eru gríðarlegir hagsmunir undir.

15. gr.

SVFR mótmælir því harðlega að fiskeldisfyrirtækjum verði heimilt að hafa eftirlit með eigin rekstri, sbr. m.a. ofangreind umfjöllun um 14. gr. frumvarpsins. Það er enda ljóst að fjárhagslegir hagsmunir fiskeldisfyrirtækja og tilkynningar um slysasleppingar eiga ekki samleið, enda geta þeir þá eftir atvikum kallað yfir sig skaðabótaskyldu, misst rekstrarleyfið eða verið gert að greiða sekt. Öll málefnaleg rök hníga í þá átt að Fiskistofu verði falið eftirlit með þeim aðilum sem stunda sjókvíaeldi.

16. gr.

Eðlilegra væri að eftirlit það sem mælt er fyrir um í greininni væri hjá Fiskistofu.

17. gr.

Í ljósi þeirrar náttúruváar sem er viðblasandi í sjókvíaeldi er það eðlileg krafa að allar upplýsingar um eftirlit séu birtar opinberlega og að ráðherra sé ekki í sjálfsvald sett að halda vissum upplýsingum leyndum. Raunar takmarkar 17. gr. b. í frumvarpinu að óþörfu rétt almennings skv. lögum nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfisáhrif. Ef vilji stæði til þess að halda einhverjum upplýsingum leyndum væri eðlilegra að þær væru sérstaklega skilgreindar í ákvæðinu.

Þá er mikilvægt að allar upplýsingar um laxalús séu birtar og lögákveðinn verði viðmiðunarmörk laxalúsar sem viðunandi ástands, er í því sambandi vísað til þess að í Noregi eru mörkin 0,2 lýs á hvern fisk, sjá hér einnig þarfar lagabreytingar á lögum nr. 60/2006 um varnir gegn fisksjúkdómum.

Þá er með öllu óljóst hvers vegna rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar skulu vera tímabundnar og hvers vegna stofnunin sé skyldug til samráðs við Umhverfisstofnun og MAST. Eðlilegra hlýtur að teljast að sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar séu sjálfstæðir í rannsóknum sínum.

e. (V) liður bráðabirgðaákvæðis 22. gr.

SVFR leggur til að ákvæði þetta verði fellt niður, en í ákvæðinu kemur fram að Hafrannsóknarstofnun skuli leggja tillögu að endurskoðuðu áhættumati erfðablöndunar fyrir títtnefndan samráðsvettvang innan tveggja mánaða eftir að lagaákvæðið tekur gildi. Er vísað til fyrri sjónarmiða að því er varðar samráðsvettvanginn. Ljóst má vera að bráðabirgðaákvæði þetta er tilkomið vegna þrýstings fiskeldisfyrirtækja.

Hins vegar má öllum vera ljóst að eðli málsins samkvæmt er ekki komin reynsla á fyrirliggjandi áhættumat Hafrannsóknarstofnunar sem miðast við 72 þúsund tonna hámarkslífmassa frjórra framandi laxa í opnum sjókvíum, sérstaklega þegar horft er til þess að ársframleiðslan nú losar rúm 10 þúsund tonn. Er því með öllu óljóst hvaða tilgang bráðabirgðaákvæði þetta hefur annan en þann að koma til móts við gagnrýni fiskeldisfyrirtækja. Er bráðabirgðaákvæði þessu því harðlega mótmælt og þess krafist að það verði fellt á brott úr lögunum.

6. lokaorð.

Með vísan til framangreinds skorar SVFR á ráðherra að draga frumvaprsdrög þessi til baka og ráðast þegar í stað í heildarendurskoðun á löggjöf um fiskeldi heldur en að ráðast í óvandaðar og umdeildar breytingar á núverandi löggjöf. Er SVFR reiðubúið til alls samstarfs á þeim grundvelli. Þá áréttar SVFR að frumvarp þetta getur aldrei stuðlað að sátt um uppbyggingu fiskeldsins og það geti því vaxið í eðlilegri sátt við helstu hagsmunaaðila. Frumvarp þetta er hins vegar til þess fallið að skapa meiri óeiningu og var þó af nógu að taka fyrir.

Virðingarfyllst,

Jón Þór Ólason

Formaður SVFR

Afrita slóð á umsögn

#32 Ísafjarðarbær - 17.01.2019

Sjá umsögn í meðfylgjandi skjali

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#33 Óttar Yngvason - f.h. Náttúruverndarsamtaka Íslands og náttúruverndarfélagsins LAXINN LIFI - 17.01.2019

Sjá meðfylgjandi skjöl

Viðhengi Viðhengi Viðhengi Viðhengi Viðhengi