Samráð fyrirhugað 11.09.2018—25.09.2018
Til umsagnar 11.09.2018—25.09.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 25.09.2018
Niðurstöður birtar 10.01.2020

Endurskoðun reglna um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum nr. 321/2009

Mál nr. 126/2018 Birt: 11.09.2018 Síðast uppfært: 10.01.2020
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Háskólastig

Niðurstöður birtar

Reglur voru birtar í Stjórnartíðindum 28. janúar 2019 sem reglur nr. 1368/2018.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 11.09.2018–25.09.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 10.01.2020.

Málsefni

Endurskoðun reglna um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum, nr. 321/2009 miða að því að samræma reglurnar starfsemi gæðaráðs íslenskra háskóla og tryggja að gæðastarf íslenskra háskóla falli að alþjóðlegum viðmiðum sem Ísland hefur skuldbundið sig til þar um.

Reglur um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum nr. 321/2009 lúta að gæðastarfi háskóla, innra starfi sem og ytra eftirliti, en miklar breytingar urðu á gæðastarfi á háskólastigi á árinu 2010, ári eftir að reglurnar voru settar, er gæðaráð íslenskra háskóla var sett á laggirnar. Því hefur um nokkurt skeið verið þörf á að laga þær að breyttu fyrirkomulagi. Einnig þarf gæðamat íslenskra háskóla að taka mið af evrópskum stöðlum sem gefnir eru út um slíkt mat undir hatti evrópska háskólasvæðisins og Bologna samstarfsins og Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja (Standards and Guidelines for Quality Assurance in the European Higher Education Area , 2015). Evrópsku staðlarnir benda sérstaklega á mikilvægi fjárhagslegs frelsis (e: financial independence) og frelsis til starfa (e: operational independence) í rekstri eininga er sjá um gæðaúttektir á háskólastarfsemi, og að starfsmenn þess séu óháðir öðrum verkum er snúa að háskólastarsemi. Til að tryggja þetta sjálfstæði og til að skýra betur hlutverk ráðsins og gæðastarf skólanna var ráðist í breytingar á reglum um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum nr. 321/2009.

Helstu breytingar sem gerðar hafa verið á reglunum í tillögu að endurskoðaðri útgáfu eru eftirfarandi:

· Ábyrgð á gæðaeftirliti í íslenskum háskólum og útgáfu viðmiða þar um er falið gæðaráði íslenskra háskóla en var áður á ábyrgð ráðherra. Ráðherra skipar þó eftir sem áður ráðið, til 6 ára í senn. Þá er sérstaklega tekið fram að stúdentar skuli eiga sæti í ráðinu og skal fulltrúi þeirra vera tilnefndur af Landssamtökum íslenskra stúdenta.

· Til að tryggja sjálfstæði ráðsins felur ráðherra ráðinu að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila að annast þjónustu í nafni gæðaráðsins. Gæðaráði íslenskra háskóla er heimilt að ráða framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn til að annast í umboði ráðsins daglega framkvæmd og stjórnun þeirra verkefna sem ráðinu eru falin samkvæmt reglum þessum. Með þessari breytingu verður ráðið að sjálfstæðri einingu og framkvæmdastjóri þess og aðrir starfsmenn, ef einhverjir eru, starfa fyrir ráðið.

· Í 7.gr. er sett inn heimild fyrir gæðaráð íslenskra háskóla að kalla eftir samræmdum upplýsingum frá háskólum til skýrslugerðar (en að öðru leyti vísað til viðmiða ráðherra um um öflun, úrvinnslu og birtingu lykilupplýsinga um starfsemi háskóla).

· Leiðbeiningar um ytra mat háskóla hafa verið uppfærðar og lagaðar að starfi gæðaráðs íslenskra háskóla, þ.m.t. tekið út ákvæði um að einn matsmaður skuli vera íslenskur.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Áslaug Helgadóttir - 21.09.2018

Frá ráðgjafarnefnd gæðaráðs íslenskra háskóla

Endurskoðun reglna um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum nr. 321/2009.

Mál nr. S-126/2018.

Ráðgjafarnefnd gæðaráðs íslenskra háskóla fagnar þeirri breytingu sem boðuð er á reglum nr. 321/2009 um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna við íslenska háskóla. Það er álit nefndarinnar að það sé til bóta að verið sé að færa regluverkið nær þeim veruleika sem nú er við lýði hvað varðar gæðaeftirlit með háskólum og starfsemi þeirra. Eftirfarandi eru athugasemdir nefndarinnar við endurskoðaðar reglur um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum nr. 321/2009.

1. Gæðaráði íslenskra háskóla, sem sett var á laggirnar af Mennta- og menningarmálaráðruneytinu 2010, er nú fundin viðeigandi lagastoð í viðkomandi reglugerð. Hins vegar má benda á að ráðgjafarnefnd gæðaráðs íslenskra háskóla hefur starfað jafnlengi gæðaráðinu og var einnig komið á fót af ráðuneytinu. Hlutverk nefndarinnar er enda skilgreint í 8. kafla 2. útg. handbókar gæðaráðsins frá 2017. Ráðgjafarnefndin gegnir mikilvægu hlutverki sem tengiliður gæðaráðs við íslenskt háskólasamfélag ásamt því að hafa haft umsjón með kynningu þessa málaflokks og annast námskeið, ráðstefnur og almenna uppfræðslu um þessi málefni. Ráðgjafarnefnd vill því koma þeirri ábendingu til stjórnvalda að æskilegt sé að binda hlutverk nefndarinnar í viðkomandi regluverk til að tryggja framgang málaflokksins í heild sinni og að sá mikilvægi hlekkur í gæðakeðjunni verði tryggður til frambúðar.

2. Í 3. gr. er kveðið á um að einn fulltrúi stúdenta sé skipaður skv. tilnefningu Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS). Samkvæmt því skipulagi sem nú er við lýði er einn fulltrúi stúdenta skipaður í ráðið sem fullgildur meðlimur en annar sem áheyrnarfulltrúi. Ekki er ljóst af texta tillögunnar hvað verður um áheyrnarfulltrúa stúdenta með breyttu fyrirkomulagi. Þá er ákjósanlegra að skipunartími fulltrúa stúdenta sé til þriggja ára að hámarki til að tryggja að sá fulltrúi sé í raun í forsvari fyrir stúdenta á skipunartímanum. Æskilegt væri að gera betur grein fyrir þessu í texta nýrrar reglugerðar.

3. Í lok 3.gr. er kveðið á um að framkvæmdastjóri gæðaráðs skuli hafa háskólamenntun og búa yfir sérþekkingu á sviði gæðamála háskóla. Æskilegt væri að nánar yrði skilgreint hvað felist í þessari sérþekkingu og hvernig hún skuli metin.

Viðhengi