Samráð fyrirhugað 08.01.2019—29.01.2019
Til umsagnar 08.01.2019—29.01.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 29.01.2019
Niðurstöður birtar 20.05.2019

Áform um frumvarp til laga um dreifingu vátrygginga ásamt breytingum á lögum um vátryggingarsamninga.

Mál nr. 1/2019 Birt: 03.01.2019 Síðast uppfært: 20.05.2019
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála

Niðurstöður birtar

Áform um frumvörpin voru birt 8. janúar 2019 í samráðsgátt stjórnvalda. Veittar voru 2 vikur til umsagnar. Ábending barst frá ráðgjafarnefnd um eftirlit á vegum hins opinbera, samkvæmt lögum 27/1999, sem tekið var tillit til eftir því sem unnt var.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 08.01.2019–29.01.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.05.2019.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp til laga um dreifingu vátrygginga og breytingar á lögum um vátryggingarsamninga til að innleiða tilskipun 2016/97/ESB um dreifingu vátrygginga.

Áformað er að leggja fram frumvarp til að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2016/97/ESB frá 20. janúar 2016 um dreifingu vátrygginga. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 214/2018 frá 26. október 2018 sem breytti IX. viðauka við EES-samninginn (Fjármálaþjónustu).

Meginmarkmið tilskipunarinnar er að samræma ákvæði um dreifingu vátrygginga.

Með dreifingu vátrygginga er átt við:

a. starfsemi sem felst í að kynna, bjóða fram eða undirbúa með öðrum hætti samninga um vátryggingu, að koma á slíkum samningum eða aðstoða við framkvæmd slíkra samninga, einnig þegar krafa um vátryggingarbætur er sett fram.

b. starfsemi sem felst í að veita upplýsingar um vátryggingarsamninga eftir ákveðnum viðmiðum sem viðskiptamaður velur, á vefsíðu eða á öðrum miðlum, og gera samantekt um vátryggingar sem eru í boði, ásamt verði, samanburði eða afslætti á vátryggingum ef viðskiptamaður getur gert vátryggingarsamning, beint eða óbeint, á vefsíðunni eða miðlinum.

Þeir sem hafa heimild til að dreifa vátryggingum hér á landi eru:

1. Vátryggingafélög sem hafa starfsleyfi hér á landi.

2. Útibú vátryggingafélaga sem hafa leyfi til að starfa hér á landi.

3. Vátryggingamiðlarar sem hafa starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins.

4. Aðilar sem dreifa vátryggingum sem aukaafurð.

5. Vátryggingaumboðsmenn sem skráðir eru hjá vátryggingafélagi.

6. Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn með starfsleyfi í öðru aðildarríki.

7. Vátryggingamiðlarar og vátryggingaumboðsmenn með starfsleyfi utan aðildarríkja sem hafa fengið leyfi til að reka útibú hér á landi.

Tilskipunin var sett til að víkka út ákvæði tilskipunar 2002/92//EB, um vátryggingamiðlun. Síðarnefnda tilskipunin náði einungis yfir vátryggingamiðlara en nýja tilskipunin nær auk vátryggingamiðlara til vátryggingafélaga og aðila sem dreifa vátryggingum sem aukaafurð.

Annars vegar er áformað að leggja fram frumvarp til laga um dreifingu vátrygginga sem kemur í stað laga nr. 32/2005, um miðlun vátrygginga. Það frumvarp mun meðal annars fela í sér ákvæði um þá aðila sem dreifa vátryggingum, þ.e. starfskilyrði, starfshætti og hæfi og hæfni þeirra. Auk þess verða ákvæði um frjálst flæði þjónustunnar og eftirlit með starfseminni og dreifingaraðilum.

Hins vegar er áformað að breyta lögum nr. 32/2004, um vátryggingarsamninga og meðal annars bæta þar ákvæðum vegna aukinna krafna um upplýsingaskyldu vegna dreifingar á vátryggingum og ákvæðum um vátryggingatengdar fjárfestingarafurðir.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Sigurður Örn Guðleifsson - 21.01.2019

Hjálagðar eru ábendingar ráðgjafarnefndar um eftirlit á vegum hins opinbera, sem starfar á grundvelli laga nr. 27/1999.

F.h. nefndarinnar,

Sigurður Örn Guðleifsson, formaður.

Viðhengi