Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 14.–28.1.2019

2

Í vinnslu

  • 29.1.2019–19.11.2020

3

Samráði lokið

  • 20.11.2020

Mál nr. S-13/2019

Birt: 14.1.2019

Fjöldi umsagna: 1

Áform um lagasetningu

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar

Niðurstöður

Ein umsögn barst frá Verðbréfamiðstöð Íslands en að hennar mati var tíminn til að skila inn umsókn um starfsleyfi of skammur ef frumvarpið yrði að lögum strax að loknu vorþingi 2019. Enn fremur var vakin athygli á því að bein eignarskráning í verðbréfamiðstöðvum hafi verið meginreglan hér og á Norðurlöndunum. Var framlagningu frumvarpsins frestað fram á haust en frumvarpið breytir ekki þeirri framkvæmd að bein eignarskráning í verðbréfamiðstöð á endanlegan eiganda er meginreglan í framkvæmd á Íslandi.

Málsefni

Áformað er að leggja fram á vorþingi frumvarp til laga um verðbréfauppgjör og verðbréfamiðstöðvar til innleiðingar á reglugerð ESB nr. 909/2014 um sama efni (e. Central Securities Depositories Regulation (CSDR)).

Nánari upplýsingar

Lagt er til að setja ný heildarlög um verðbréfauppgjör og starfsemi verðbréfamiðstöðva sem innleiði með tilvísunaraðferðinni reglugerð ESB um sama efni í íslenskan rétt. CSDR leysir að mestu leyti lög nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa af hólmi og er því lagt til að þeim lögum verði breytt á þann hátt að þau verði að mestu felld úr gildi en ákvæðin sem fjalla um réttarvernd eignarréttinda verðbréfa haldi gildi sínu, enda ekki að finna ákvæði sambærileg við þau í CSDR. Frumvarpið felur einnig í sér smávægilegar breytingar á lögum nr. 90/1999 um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum til samræmis við ákvæði CSDR.

CSDR breytir umgjörð um starfsemi verðbréfamiðstöðva töluvert og felur í sér auknar kröfur til verðbréfamiðstöðva og verðbréfauppgjörskerfa. Allar verðbréfamiðstöðvar innan EES þurfa að sækja um nýtt starfsleyfi. Verðbréfauppgjörskerfin sem verðbréfamiðstöðvar reka verða að standast gæðaprófun og þær kröfur sem CSDR gerir til þeirra til að geta fengið starfsleyfi. CSDR kveður einnig á um breytta stjórnarhætti verðbréfamiðstöðva, t.a.m. þarf einn þriðji stjórnar að vera óháðir stjórnarmenn, verðbréfamiðstöð þarf sinn eigin regluvörð og skipa skal notendanefnd sem samanstendur af þeim sem njóta þjónustu verðbréfamiðstöðvarinnar. CSDR kveður einnig á um hertar eiginfjárkröfur og áhættustýringu auk þess sem verðbréfamiðstöðvar skulu hafa í gildi endurbótaáætlun um endurreisn og skilameðferð.

CSDR er einnig ætlað að bæta verðbréfauppgjör. Í fyrsta lagi skulu öll verðbréf sem reglugerðin nær til vera á rafrænu formi. Uppgjörstími innan EES-svæðisins verður samræmdur sem viðskiptadagur +2 dagar.

Verðbréfamiðstöðvar fá aukna ábyrgð í því að draga úr uppgjörsbrestum en þeim ber að beita sektum og uppgjörskaupum (e. buy-in) við uppgjörsbrest, vakta uppgjörsbresti og senda eftirlitsstjórnvaldi skýrslu um öll slík tilvik. Þá ber þeim að geyma færslugögn í 10 ár.

Fjármálaeftirlitið mun áfram verða eftirlitsstjórnvald með verðbréfamiðstöðvum á Íslandi. Ný eftirlitsverkefni munu bætast við auk þess sem stofnunin mun annast útgáfu starfsleyfis verðbréfamiðstöðva í stað fjármála- og efnahagsráðuneytisins eins og núgildandi lög kveða á um.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa fjármálamarkaða

postur@fjr.is