Samráð fyrirhugað 15.01.2019—05.02.2019
Til umsagnar 15.01.2019—05.02.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 05.02.2019
Niðurstöður birtar 21.03.2019

Drög að leiðbeinandi reglum fyrir sveitarfélög um þjónustu stuðningsfjölskyldna

Mál nr. 15/2019 Birt: 15.01.2019 Síðast uppfært: 21.03.2019
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Örorka og málefni fatlaðs fólks
  • Fjölskyldumál

Niðurstöður birtar

Alls bárust fjórar umsagnir um leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks, Tekið var tillit til athugasemda eftir atvikum. Leiðbeinandi reglurnar hafa verið birtar á vef félagsmálaráðuneytisins á slóðinni: https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/fatlad-folk/leidbeinandi-reglur-fyrir-sveitarfelog/

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 15.01.2019–05.02.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 21.03.2019.

Málsefni

Félagsmálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að leiðbeinandi reglum fyrir sveitarfélög um framkvæmd þjónustu stuðningsfjölskyldna skv. lögum nr. 38/2018.

Lög nr. 38/2018, 15. gr. Stuðningsfjölskyldur:

Fjölskyldur fatlaðra barna eiga rétt á stuðningsfjölskyldu eftir því sem þörf krefur. Dvöl fatlaðs barns hjá stuðningsfjölskyldu skal bundin í samningi og miðast við ákveðið tímabil.

Ráðherra skal gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um framkvæmd þjónustunnar á grundvelli ákvæðis þessa. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Lúðvík Júlíusson - 30.01.2019

Umsögn mín fylgir í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Þroskahjálp,landssamtök - 04.02.2019

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi drögin.

Lagt er til að eftir „Þörf barns fyrir stuðningsfjölskyldu er alltaf metin í samráði við foreldra þess“ í 1. gr. reglnanna komi nýr málsliður svohljóðandi:

Leitast skal við að veita barninu þjónustu inni á heimili sínu eftir því sem kostur er.

Með þessu eru árréttuð sérstaklega réttindin og skyldan sem mælt er fyrir um í inngangi samnings SÞ um réttindi barnsins þar sem segir að ríki sem aðild eiga að samningnum viðurkenni „að barn eigi að alast upp innan fjölskyldu, við hamingju, ást og skilning, til þess að persónuleiki þess geti mótast á heilsteyptan og jákvæðan hátt“, sbr. lög nr. 19/2013, sbr. einnig 23. gr. samnings SÞ um réttindi fatlað fólks þar sem segir m.a.:

„Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum jafnan rétt með tilliti til fjölskyldulífs. Til þess að þessi réttur verði að veruleika og í því skyni að koma í veg fyrir að fötluðum börnum sé leynt, þau yfirgefin, vanrækt eða að þau séu þolendur aðskilnaðar skulu aðildarríkin skuldbinda sig til þess að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra snemma alhliða upplýsingar, þjónustu og stuðning.

Aðildarríkin skulu tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra nema lögbær yfirvöld ákveði, með fyrirvara um endurskoðun dómsvalds og í samræmi við gildandi lög og málsmeðferð, að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur ef það er barninu fyrir bestu. Barn skal aldrei taka frá foreldrum sínum vegna fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja.

Aðildarríkin skulu reyna til þrautar, ef kjarnafjölskylda er ófær um að annast fatlað barn, að sjá barninu fyrir annarri umönnun innan stórfjölskyldunnar, en að öðrum kosti tryggja því umönnun hjá fjölskyldu innan samfélagsins.“

Þá leggja samtökin til að ákvæði í 1. gr. reglnanna varðandi skyldu til að vísa máli til sérfræðingateymis verði samræmd eftir því sem við getur átt ákvæðum þar að lútandi í 5. gr. reglugerðar nr. 1037/ 2018, um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum.

Afrita slóð á umsögn

#3 Samband íslenskra sveitarfélaga - 05.02.2019

Þjónusta við 18 ára og eldri

Í leiðbeiningum um þjónustu stuðningsfjölskyldna skv. eldri lögum (dags. 24. janúar 2012) kemur fram að þjónusta stuðningsfjölskyldna geti einnig staðið til boða fyrir fatlaða einstaklinga sem eru 18 ára og eldri, hafi samningur verið gerður þar að lútandi. Fyrirliggjandi drög ganga á hinn bóginn út frá því að þjónusta við 18 ára og eldri einskorðist við þau tilvik þar sem gildandi samningur er framlengdur eftir að fatlað barn verður 18 ára.

Að mati sambandsins er ekki ástæða til þess að leiðbeiningar ráðuneytisins einskorðist við aldursmörk, enda verður að líta svo á að sveitarfélög geti ákveðið í sínum reglum að nýta þjónustu stuðningsfjölskyldna fyrir fjölskyldur fatlaðra einstaklinga þar sem það þykir henta. Mikilvægt er að hafa í huga að tilgangur þessa þjónustuforms er að létta álagi af fjölskyldum fatlaðs fólks og auka möguleika þess til félagslegrar þátttöku. Jákvætt er að sjá ráðagerð um það í 6. gr. leiðbeininganna að nýta megi þetta þjónustuform til þess að styðja fatlaða eða seinfæra foreldra.

Fjölskylduform

Lög gera ráð fyrir því að barn eigi lögheimili hjá öðru foreldra sinna, sbr. nú 5. og 6. gr. laga nr. 80/2018, um lögheimili og aðsetur. Þjónusta stuðningsfjölskyldna er veitt á grundvelli lögheimilis sbr. 3. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Af þeirri ástæðu er ekki til staðar almennur réttur til þess að þjónusta stuðningsfjölskyldna sé veitt gagnvart tveimur fjölskyldum fatlaðs barns, hvort sem þessar fjölskyldur búa báðar í sama sveitarfélagi eða sitt hvoru.

Þrátt fyrir þetta lítur sambandið svo á að sveitarfélög geti samið um það sín á milli að þjónusta stuðningsfjölskyldna sé veitt gagnvart tveimur heimilum, með hliðstæðum hætti og gert er innan skólaþjónustu.

Viðmið um þjónustutíma

Sambandið er sammála því almenna viðmiði að það kalli á viðbrögð ef barni er ætlað að dvelja lengur en 15 sólarhringa á mánuði í úrræðum utan heimilis þess. Um leið er rétt að hafa í huga að aðstæður geta verið breytilegar frá einum mánuði til annars. Af þeirri ástæðu er þannig tiltekið í 5. gr. reglugerðar nr. 1037/2018, um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum, að bregðast skuli við sé talin þörf fyrir þjónustu skammtímadvalar í meira en 15 sólarhringa á mánuði í sex mánuði samfleytt.

Eðlilegt er að leiðbeiningar um þjónustu stuðningsfjölskyldna séu settar fram með hliðstæðum hætti, enda tekur viðmiðið til þess að umrædd úrræði saman (þ.e. stuðningsfjölskylda og skammtímadvöl) haldist innan settra marka. Vakin er athygli á því að fleiri úrræði geta spilað hér inn í, sbr. m.a. Rjóðrið sem er hjúkrunar-, hvíldar- og endurhæfingarheimili fyrir langveik og langveik fötluð börn á Landspítala.

Aðkoma sérfræðingateymis

Leiðbeiningarnar lúta að því að sérfræðingateymi skv. 20. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, komi að málum þar sem dvöl í úrræðum utan heimilis (eða heimila) fer umfram sett viðmið. Sambandið er sammála þessari nálgun og leggur áherslu á að sérfræðingateymið hefur aðkomu að töluvert stærri hópi fatlaðra barna en þeim fáu sem fara í úrræði skv. 21. gr. laganna.

Fyrri erindi til ráðuneytisins eru jafnframt ítrekuð um að sérfræðingateymið verði nú þegar skipað og taki til starfa án frekari tafa.

Eftirlit

Á undirbúningsstigi var það niðurstaða umræðu að þjónusta stuðningsfjölskyldna væri ekki starfsleyfisskyld starfsemi í skilningi 7. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í samræmi við það fer sveitarfélag með heimildir og skyldu til eftirlits með þessu þjónustuformi.

Sambandið telur rétt að inn í 9. gr. leiðbeininganna komi bein tilvísun til þessarar niðurstöðu, þ.e. að stuðningsfjölskyldur þurfi ekki starfsleyfi útgefið af ráðuneytinu.