Samráð fyrirhugað 15.01.2019—05.02.2019
Til umsagnar 15.01.2019—05.02.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 05.02.2019
Niðurstöður birtar 22.02.2019

Drög að leiðbeinandi reglum fyrir sveitarfélög um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks

Mál nr. 17/2019 Birt: 15.01.2019 Síðast uppfært: 22.02.2019
  • Félagsmálaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Örorka og málefni fatlaðs fólks
  • Fjölskyldumál

Niðurstöður birtar

Alls bárust fjórar umsagnir um leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks, Tekið var tillit til athugasemda eftir atvikum. Leiðbeinandi reglurnar hafa verið birtar á vef félagsmálaráðuneytisins á slóðinni: https://www.stjornarradid.is/verkefni/felags-og-fjolskyldumal/fatlad-folk/leidbeinandi-reglur-fyrir-sveitarfelog/

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 15.01.2019–05.02.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 22.02.2019.

Málsefni

Félagsmálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að leiðbeinandi reglum fyrir sveitarfélög um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks skv. lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Lög nr. 38/2018, 25. gr. Styrkir:

Sveitarfélögum er heimilt að veita fötluðu fólki styrki eða fyrirgreiðslu vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:

1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.

2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

Ráðherra skal gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um framkvæmd styrkveitinganna á grundvelli ákvæðis þessa, svo sem skilyrði sem uppfylla þarf til að njóta aðstoðarinnar og viðmiðunarreglur um fjárhæð styrkja. Sveitarstjórnum er jafnframt heimilt að setja sér nánari reglur um styrkina á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra. Kostnaður vegna styrkja skv. 1. mgr. greiðist af sveitarfélögum.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Sigurbjörn Marinósson - 04.02.2019

Í drögum að leiðbeinandi reglum, 2. gr. Hverjir eiga kost á styrk, stendur m.a.:

,,Aðstæður í sveitarfélagi með tilliti til námsúrræða geta einnig haft áhrif á mótun reglna, til dæmis er eðlilegt að sveitarfélag þar sem framhaldsskóli er starfræktur taki afstöðu til þess hvort fatlaðir nemendur, yngri en 18 ára, geti átt kost á styrk til kaupa á fartölvu sem gagnast við námið“.

Lagt er til að þessi málsgrein komi í staðinn:

,,Þátttaka í framhaldsnámi getur einnig haft áhrif á mótun reglna, til dæmis er eðlilegt að sveitarfélag taki afstöðu til þess hvort fatlaðir nemendur, yngri en 18 ára, geti átt kost á styrk til að kaupa fartölvu sem gagnast við námið“.

Skýring:

Með þessari tillögu eru sveitarfélög hvött til að taka afstöðu, án tillits til staðsetningar framhaldsskóla, þ.e. horft verði frekar til námstækifæra svo sem fjarnáms.

Afrita slóð á umsögn

#2 Þroskahjálp,landssamtök - 04.02.2019

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi drögin.

Lagt er til að eftir „Þörf barns fyrir stuðningsfjölskyldu er alltaf metin í samráði við foreldra þess“ í 1. gr. reglnanna komi nýr málsliður svohljóðandi:

Leitast skal við að veita barninu þjónustu inni á heimili sínu eftir því sem kostur er.

Með þessu eru árréttuð sérstaklega réttindin og skyldan sem mælt er fyrir um í inngangi samnings SÞ um réttindi barnsins þar sem segir að ríki sem aðild eiga að samningnum viðurkenni „að barn eigi að alast upp innan fjölskyldu, við hamingju, ást og skilning, til þess að persónuleiki þess geti mótast á heilsteyptan og jákvæðan hátt“, sbr. lög nr. 19/2013, sbr. einnig 23. gr. samnings SÞ um réttindi fatlað fólks þar sem segir m.a.:

„Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum jafnan rétt með tilliti til fjölskyldulífs. Til þess að þessi réttur verði að veruleika og í því skyni að koma í veg fyrir að fötluðum börnum sé leynt, þau yfirgefin, vanrækt eða að þau séu þolendur aðskilnaðar skulu aðildarríkin skuldbinda sig til þess að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra snemma alhliða upplýsingar, þjónustu og stuðning.

Aðildarríkin skulu tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra nema lögbær yfirvöld ákveði, með fyrirvara um endurskoðun dómsvalds og í samræmi við gildandi lög og málsmeðferð, að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur ef það er barninu fyrir bestu. Barn skal aldrei taka frá foreldrum sínum vegna fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja.

Aðildarríkin skulu reyna til þrautar, ef kjarnafjölskylda er ófær um að annast fatlað barn, að sjá barninu fyrir annarri umönnun innan stórfjölskyldunnar, en að öðrum kosti tryggja því umönnun hjá fjölskyldu innan samfélagsins.“

Þá leggja samtökin til að ákvæði í 1. gr. reglnanna varðandi skyldu til að vísa máli til sérfræðingateymis verði samræmd eftir því sem við getur átt ákvæðum þar að lútandi í 5. gr. reglugerðar nr. 1037/ 2018, um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum.

Afrita slóð á umsögn

#3 Þroskahjálp,landssamtök - 04.02.2019

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi drögin.

Samtökin telja að í reglunum þurfi að koma skýrar fram en er í fyrir liggjandi drögum, sbr. 7. og 9. gr. þeirra, að sveitarfélög verði að tryggja eftir vþí sem nokkur kostur er að upplýsingar um þessa styrki komist örugglega til allra sem hagsmuna kunan að hafa að gæta, óháð fötlun þeirra. Í því sambandi væri eðlilegt að gerð væri krafa um að allir sem fá þjónustu sveitarfélags samkvæmt lögum nr. 38/2018 skuli upplýstir um þetta með viðeigandi hætti sem taki m.a. mið af fötlun þeirra og þörfum. Fólk sem fær þjónustu eftir lögunum á að hafa málstjóra hjá félagsþjónustu sem gæti borið ábyrgð á að kynna þessa styrki fyrir einstaklingunum með viðeigandi hætti og aðstoðað þá við að sækja um óski þeir þess.

Afrita slóð á umsögn

#4 Samband íslenskra sveitarfélaga - 07.02.2019

Vísað er til kynningar á samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-17/2019). Hér á eftir fylgja athugasemdir sambandsins við fyrirliggjandi drög.

Hverjir eiga kost á styrk

Gengið er út frá því að hver einstaklingur sem býr við fötlun og þarf sérstakan stuðning af þeirri ástæðu til hæfingar, endurhæfingar eða starfsendurhæfingar geti sótt um styrk samkvæmt reglum sveitarfélagins. Sambandið gerir athugasemdir við að í framkomnum drögum er gert ráð fyrir því að aðstæður í sveitarfélagi með tilliti til námsúrræða geta einnig haft áhrif á mótun reglna, til dæmis sé eðlilegt að sveitarfélag þar sem framhaldsskóli sé starfræktur taki afstöðu til þess hvort fatlaðir nemendur, 18 ára, geti átt kost á styrk til kaupa á fartölvu sem gagnast við námið.

Allir fatlaðir nemendur eiga að hafa rétt til þess að sækja um styrk til verkfæra- og tækjakaupa óháð því hvort framhaldsskóli sé staðsettur í þeirra sveitarfélagi eður ei. Markmið reglnanna skal vera að auðvelda fötluðu fólki að verða sér út um þekkingu og reynslu

og til að auka möguleika sína til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Með því að gera að tillögu aðrar útfærslur á reglum sem háðar eru staðsetningu framhaldsskóla er síst verið að gera fötluðum framhaldsskólanemum færi á því að afla sér þekkingar til jafns við aðra. Mikilvægt er að staðsetning menntastofnana eða annarra úrræða sem nýtast einstaklingum við nám, hafi ekki áhrif á rétt þeirra til þess að sækja um styrk til kaupa á tækjabúnaði sem getur verið nauðsynlegt hjálpartæki við nám. Því leggur sambandið til að setning þar að lútandi verði felld úr núverandi drögum að leiðbeinandi reglum.

Heimildargreiðslur

Sambandið leggur áherslu á að skv. 25. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er um heimildargreiðslur að ræða. Jafnframt er bent á að styrkir af þessu tagi eiga nána samleið með annars vegar vinnumarkaðsúrræðum og hins vegar stuðningi til náms.

Til framtíðar litið er rétt að tekin verði afstaða til þess að þessir styrkir verði samþættir almennri þjónustu á umræddum málefnasviðum, í stað þess að vera sérstakt úrræði innan fötlunarþjónustunnar. Mörg sveitarfélög og þjónustusvæði þeirra hafa lýst yfir vilja til slíkrar þróunar. Hugsanlega mætti sjá sem skref á þeirri leið að það væri liður í samstarfssamningum þjónustusvæða og VMST (sem gerðir eru á grundvelli 23. gr. laga nr. 38/2018) að styrkjum af þessu tagi verði úthlutað í samspili við vinnumarkaðsaðgerðir.

SAMBAND ÍSLENSKRA SVEITARFÉLAGA

Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur

Afrita slóð á umsögn

#5 Öryrkjabandalag Íslands - 11.02.2019

Leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólk

Það segir í reglunum að sveitarfélögum sé heimilt að veita fötluðu fólki styrki eða fyrirgreiðslu vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni og til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

Verkfæri og tæki eru ekki sérstaklega skilgreind í reglunum og því er óljóst hver munurinn er á þeim og hjálpartækjum, en sveitarfélögum er skylt að annast afgreiðslu umsókna vegna hjálpartækja til fatlaðra einstaklinga til náms (16 ára og eldri) og atvinnu (18 ára og eldri), skv. 7. gr. reglugerðar um styrki vegna hjálpartækja nr. 1155/2013. Það er æskilegt að skilgreining fylgi.

Þá væri æskilegt að skilgreina viðeigandi aðlögun, en hún merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.

Í dæmum um mögulega forgangsröðun eða áherslusvið við úthlutun styrkja í 2. mgr., 2. gr., er talið eðlilegt að sveitarfélag þar sem framhaldsskóli er starfræktur eigi kost á því að kaupa fartölvu sem gagnast við námið. Hér er gengið út frá mismunun milli nemenda út frá búsetu sem eðlilegum hlut.

Í reglurnar vantar alveg leiðbeiningar um skörun á þjónustu milli sveitarfélaga, t.d. ef einstaklingur stundar nám eða vinnu í öðru sveitarfélagi.

Einnig er tekið sem dæmi að sveitarfélag geti forgangsraðað styrkjum eftir því hvernig hæfing geti nýst á vinnumarkaði, með tilliti til aldurs umsækjenda. Hér er hugsanlega verið að veita heimild til að mismuna fólki vegna þess að lítið sé eftir af starfsaldri.

Í 4. gr. er sett sem málefnalegt skilyrði að fyrir liggi staðfesting á skráningu í nám eða námskeið. Yfirleitt þarf að greiða staðfestingargjald við skráningu í nám eða námskeið. Ef einstaklingur er háður því að fá styrk til tækja- eða verkfærakaupa til að stunda téð nám, ætti hann ekki að þurfa að greiða staðfestingargjald upp á von og óvon.

Í 4. gr. er það skilyrði sett að umsækjandi eða talsmaður hans „...lýsi því yfir að aðrir möguleikar til styrkja hafi verið kannaðir og nýttir. Í þessu sambandi er vísað til sjóða stéttarfélaga sem umsækjandi greiðir til, lögbundinna framlaga vegna hjálpartækja og þess ef nám er lánshæft samkvæmt lögum og úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.“ Ekki er eðlilegt að krefjast þess að umsækjandi sæki í eigin sjóði vegna kaupa á tækjum eða verkfærum sem teljast nauðsynleg, sveitarfélögum ber sjálfum að veita lögbundin framlög vegna hjálpartækja eins og komið er inn á hér að ofan og þá er ekki eðlilegt að krefjast þess að umsækjandi sæki um námslán til kaupa á tækjum eða verkfærum sem teljast nauðsynleg. Það eykur ekki möguleika einstaklingsins til að sækja sér menntun ef umsókn um styrk til skólagjalda er synjað vegna þess að námið er lánshæft. Þá verður að líta til þess að fatlað fólk getur oft ekki stundað fullt nám, sem kemur niður á lánshæfni þess.

Í 4.gr. er tekið fram að aðstoðin sé einstaklingsbundin en renni ekki til fyritækis. Styrkur til að veita viðeigandi aðlögun á vinnustað er sannarlega einstaklingsbundin en getur þó verið í því formi að það sé til að mynda breyting á húsnæði fyrirtækis.

Í 4. gr. er fjallað um þau gögn sem umsækjandi þarf að skila inn vegna umsóknar og eru örorkuskírteini og læknisvottorð þar talið upp. Fatlað fólk er ekki allt með örorkuskírteini og því væri einkennilegt að það væri skilyrði fyrir úthlutun. Ef umsækjandi hefur þegar skilað inn læknisvottorði til sveitarfélagsins vegna sinnar fötlunar ætti ekki að vera skilyrði að viðkomandi skili inn læknisvottorði að nýju í sambandi við styrki. Það er ólíðandi að fatlað fólk sé sífellt krafið um læknisvottorð til að staðfesta sína fötlun.

Í 1. mgr., 8. gr. er sveitarfélagi „...heimilt að úthluta einu sinni á ári á grundvelli auglýsingar, sbr. 7. gr., eða afgreiða umsóknir innan tiltekins tímabils.“ Ekki er rétt að miða úthlutanir við ákveðnar dagsetningar eða tímabil, heldur vinna þær á ársgrundvelli. Nám eða starf getur staðið til boða hvenær sem er árs. Það er ekki æskilegt að einstaklingar verði að hafna úrræðum vegna þess að úthlutunarfrestur er nýliðinn.

Þá er sveitarfélögum gefin heimild skv. 2. og 3. mgr, 8. gr. að takmarka úthlutanir til einstaklings við ákveðið hlutfall eða tíðni. Rétt er að takmarka ekki möguleika einstaklinga á hæfingu eða endurhæfingu með þessum hætti, heldur ganga út frá virkni hans sem forgangsatriði.

Ekkert um okkur án okkar!

Fyrir hönd Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ),

Þórdís Viborg og Stefán Vilbergsson