Samráð fyrirhugað 17.01.2019—10.02.2019
Til umsagnar 17.01.2019—10.02.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 10.02.2019
Niðurstöður birtar 19.05.2020

Stjórnendastefna ríkisins

Mál nr. 18/2019 Birt: 16.01.2019 Síðast uppfært: 19.05.2020
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Alls bárust 7 umsagnir og ábendingar í Samráðsgátt. Almennt voru umsagnirnar jákvæðar, nokkuð var um ábendingar varðandi kaup og kjör og stjórnendasamtöl. Tekið var tillit til athugasemda í áframhaldandi vinnu. Stjórnendastefna ríkisins var gefin út í júní 2019 og var kynnt í september sama ár, sbr. umfjöllun á vef Stjórnarráðsins: https://www.stjornarradid.is/verkefni/mannaudsmal-rikisins/starfsumhverfi-stjornenda-rikisins/stjornendastefna-rikisins/ Aðgerðaáætlun var sett í framkvæmd strax í kjölfarið og lauk vinnu fyrstu aðgerðahópa um áramótin 2019/2020. Innleiðing aðgerða er fullum gangi

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.01.2019–10.02.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 19.05.2020.

Málsefni

Hverjir eiga að vera efnisþættir stjórnendastefnu ríkisins og aðgerðaáætlunar til þriggja ára? Fjallað er um málið í drögum að stjórnendastefnu sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birtir til umsagnar, sjá „Skjöl til samráðs“.

Unnin hafa verið drög að stjórnendastefnu fyrir ríkið. Í stefnunni er kveðið á um hvaða hæfni, þekkingu og eiginleika stjórnendur þurfa að bera og hvernig ríkið ætlar að styðja við stjórnendur til að ná framúrskarandi árangri.

Í drögum að stjórnendastefnu ríkisins kemur m.a. fram:

Stjórnendur og starfsfólk ríkisins gegna lykilhlutverki í veitingu opinberrar þjónustu. Stjórnendur þurfa að búa yfir hæfni og þekkingu til að geta brugðist við breytingum í samfélaginu og sífellt flóknara starfsumhverfi. Til að tryggja öfluga stjórnun hjá ríkinu þarf að búa stjórnendum umhverfi þar sem eftirsóknarvert er að starfa og tækifæri til að eflast og þróast í starfi.

Stjórnendastefna er liður í því að efla stjórnun hjá ríkinu. Í stefnunni er kveðið á um hvaða hæfni, þekkingu og eiginleika stjórnendur þurfa að bera og hvernig ríkið ætlar að styðja við stjórnendur til að ná framúrskarandi árangri.

Almenningi, atvinnulífi og stjórnsýslu er boðið að taka þátt í samráði og leggja fram sín sjónarmið um framtíðarsýn, markmið, kjörmynd stjórnenda og aðra efnisþætti stjórnendastefnunnar, auk aðgerðaáætlunar.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Ingibjörg St Sverrisdóttir - 29.01.2019

Margt mjög gott í þessum drögum að stjórnendastefnu ríkisins og mikil framför frá eldra fyrirkomulagi. Nútímalegt, opið og skiljanlegt.

Það þarf að lesa vel yfir með tilliti til málfars og stafsetningar, allt of mikið af villum.

Þá þarf að endurskoða 23. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, eða samræma túlkun á ákvæðum hennar um auglýsingar starfa forstöðumanna á fimm ára fresti. Það vantar um þetta í Aðgerðaáætlun 2019-20121.

Kveðja

Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir

Afrita slóð á umsögn

#2 Kristján Sverrisson - 31.01.2019

Hin ágætasta stjórnendastefna. Sakna þó skýrara orðalags varðandi starfsþróun og starfskjör.

Forstöðumenn hafa lagt á það áherslu að geta átt kost á tilfærslu á milli sviða eða stofnana til að breikka og dýpka reynslu en orðalag um starfsþróun er meira í átt við að bjóða stjórnendum kost á endurmenntun og þjálfun fyrir sín tilteknu störf.

Þá er kafli um kjör stjórnendna svo orðaður:

,,Samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir stjórnendur. Laun fylgja launaþróun á vinnumarkaði og þróast í samræmi við hæfni og frammistöðu.

Laun og almenn starfskjör stjórnenda ríkisins skulu byggja á hlutlægum mælikvörðum og skulu endurmetin í takt við almenna þróun. Lögð er áhersla á að innleiða frammistöðumat fyrir alla stjórnendur ríkisins sem hefur áhrif á launasetningu.

Nýtt launaumhverfi forstöðumanna byggir á samræmdu matskerfi. Matið byggir á fjórum þáttum: Færni, stjórnun, ábyrgð og umfangi."

Vissulega er gott að hverfa frá geðþótta-ákvörðunum Kjararáðs og yfir í samræmdara og gegnsærra kerfi. Nú þegar hefur verið gefið út plagg um launasetningu grunnlauna forstöðumanna ríkisstofnana sem gilda á frá 1.janúar 2019. Hins vegar er ekki lýst hvernig launaþróun getur endurspeglað starfsaldur, þekkingu, reynslu og árangur. Flestar stéttir hafa í samningum við ríkið ýmiss atriði er lúta að t.d. starfsaldurshækkunum en forstöðumenn virðast einir búa við það að vera á grunnlaunum alla sína starfsæfi en fylgja síðan einhverri meðaltalshækkun e-s tiltekins hluta vinnumarkaðar. Ný stjórnendastefna tekur ekki nægilega skýrt á þessu atriði að mati undirritaðs.

Virðingarfyllst

Kristján Sverrisson

Afrita slóð á umsögn

#3 Sigurbjörn Árni Arngrímsson - 01.02.2019

Um margt flott skjal og vel unnið. Ég vil samt sem áður gera lokaorð Kristjáns einnig að mínum

Vissulega er gott að hverfa frá geðþótta-ákvörðunum Kjararáðs og yfir í samræmdara og gegnsærra kerfi. Nú þegar hefur verið gefið út plagg um launasetningu grunnlauna forstöðumanna ríkisstofnana sem gilda á frá 1.janúar 2019. Hins vegar er ekki lýst hvernig launaþróun getur endurspeglað starfsaldur, þekkingu, reynslu og árangur. Flestar stéttir hafa í samningum við ríkið ýmiss atriði er lúta að t.d. starfsaldurshækkunum en forstöðumenn virðast einir búa við það að vera á grunnlaunum alla sína starfsæfi en fylgja síðan einhverri meðaltalshækkun e-s tiltekins hluta vinnumarkaðar. Ný stjórnendastefna tekur ekki nægilega skýrt á þessu atriði að mati undirritaðs.

Afrita slóð á umsögn

#4 Þórólfur Halldórsson - 01.02.2019

Þau drög að stjórnendastefnu sem hér eru til umsagnar hafa verið all lengi í mótun og forstöðumenn átt kost á því að taka virkan þátt í ferlinu, og margir nýtt sér það. Í ljósi þess og þeirra ákvarðana sem KMR og ráðuneyti hafa þegar tekið um laun forstöðumanna á þessum grunni með gildistöku 1. janúar 2019, geri ég athugasemdir við þá aðgerðaráætlun 2019-2021 sem hér er lögð til. Aðgerðaráætlunin þarf að vera skýrari um það í hvaða röð einstaka liðir hennar verða teknir fyrir og tímasetja verður nánar hvern þátt hennar. Ef vel er haldið á spilunum ætti að vera mögulegt að ljúka flestum þáttum aðgerðaráætlunarinnar á árinu 2019 og ástæðulaust að draga á langinn jafnvel út árið 2021. Óvissa um þennan framgang er ekki til góðs.

Afrita slóð á umsögn

#5 BSRB - 04.02.2019

Efni: Umsögn BSRB um stjórnendastefnu ríkisins

BSRB hefur tekið til umsagnar drög að stjórnendastefnu ríkisins. BSRB lítur það jákvæðum augum að ríkið sem vinnuveitandi taki upp sérstaka stjórnendastefnu. Þó hefur BSRB nokkrar hugleiðingar og athugasemdir sem komið verður á framfæri hér.

Að mati BSRB mætti orða markmið og tilgang stefnunnar skýrar. Í inngangi kemur fram að stjórnendastefnan sé liður í því að efla stjórnun hjá ríkinu. Í kaflanum um markmið og framtíðarsýn eru háleit markmið sem snúa að betri og skilvirkari þjónustu við samfélagið, sem aftur miði að bættum lífskjörum á Íslandi. Báðir þessir kaflar eru afar almennir og erfitt að átta sig á því hvað felst í þessum orðum.

BSRB telur jákvætt að skilgreindir séu þær hæfniskröfur sem gerðar eru til stjórnenda almennt, umfram almenn hæfisskilyrði starfsmannalaga. BSRB hefur ekki sérstakar athugasemdir við þennan þátt stefnunnar. Þó vaknar spurning um hvernig samspil við erindisbréf stjórnenda, sbr. 38. gr. starfsmannalaga, verður.

Í kaflanum um starfsumhverfi er m.a. fjallað um heilsu og líðan og að gera skuli ráðstafanir til að koma í veg fyrir að stjórnendur verði fyrir einelti, áreitni og ofbeldi í starfi. BSRB tekur undir að þetta sé mikilvægt, og í samræmi við skyldur ríkisins sem vinnuveitanda skv. vinnuverndarlögum og reglugerð 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. BSRB veltir því þó upp hvort ekki þurfi að huga sérstaklega að þjálfun stjórnenda í því að skapa vinnuumhverfi þar sem einelti, áreitni og ofbeldi þrífst ekki ásamt því hvernig bregðast skal við ef upp kemur grunur um tilvik af þeim toga meðal undirmanna stjórnenda. Í 5. gr. reglugerðarinnar eru lagðar skyldur á atvinnurekanda að bregðast við ef upp koma aðstæður sem geta leitt til eineltis, áreitni eða ofbeldis ef ekki verður gripið til aðgerða. Telja verður að þarna séu stjórnendur í lykilhlutverki og mikilvægt að þeir búi yfir þeirri þekkingu og færni sem til þarf, og geti leitað aðstoðar sérfræðinga eftir því sem við á.

Hvað varðar stjórnendasamtöl og endurgjöf er fjallað um að samtöl milli stjórnenda og yfirmanna skuli byggja á samræmdu formi og skilgreindum mælikvörðum um árangur. Ekkert er fjallað um hvaða mælikvörðum skuli beitt og virðist ekki fjallað um það heldur í aðgerðaráætlun sem fylgir stefnunni. Að mati BSRB mætti skilgreina þetta nánar.

Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind

lögfræðingur

Afrita slóð á umsögn

#6 Jóhanna Áskels Jónsdóttir - 08.02.2019

Meðfylgjandi er umsögn stjórnar Félags forstöðumanna ríkisstofnana

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Helgi Þorkell Kristjánsson - 08.02.2019

Ágæti móttakandi.

Ég myndi gjarnan vilja sjá texta um stjórnendakannanir í skjalinu undir kaflanum um stjórnendasamtal og endurgjöf sbr. handbók um stjórnendamat hjá opinberum stofnunum.

Viðhengi