Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 18.1.–5.2.2019

2

Í vinnslu

  • 6.–11.2.2019

3

Samráði lokið

  • 12.2.2019

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-20/2019

Birt: 18.1.2019

Fjöldi umsagna: 9

Áform um lagasetningu

Forsætisráðuneytið

Háskólastig

Áformuð lagasetning um vandaða starfshætti í vísindum

Niðurstöður

Níu umsagnir bárust um áformin, frá einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum, félögum og nefndum. Umsagnirnar eru almennt mjög jákvæðar í garð áformanna og tekið undir að nauðsyn sé að setja lög um málefnasviðið. Unnið verður nánar úr athugasemdum og tekið tillit til þeirra eftir atvikum við gerð lagafrumvarpsins. Stefnt er að því að setja frumvarpsdrög í samráð á þessum vettvangi eftir miðjan febrúar.

Málsefni

Markmiðið er að tryggja eftir megni að siðferðileg viðmið í vísindum séu í heiðri höfð og að góðir vísindalegir starfshættir séu iðkaðir. Það er nauðsynlegt til að hægt sé meta niðurstöður og áreiðanleika rannsókna og til að skapa traust almennings á gildi þeirra.

Nánari upplýsingar

Úrlausnarefnið er að tryggja góða vísindalega starfshætti og að siðferðileg viðmið í vísindum séu í heiðri höfð. Það er nauðsynlegt til að hægt sé að meta niðurstöður og áreiðanleika rannsókna og til að skapa traust almennings á gildi þeirra. Áríðandi er að skilgreina helstu viðmið og vandamál sem úrlausnarefninu tilheyra og skjóta lagastoð undir það starf sem því mun tengjast. Til staðar þarf að vera fastmótaður ferill til að takast á við mál sem kunna að rísa vegna rökstuddra efasemda um að fagleg viðmið hafi verið í heiðri höfð. Dæmi eru um að slík mál hafi komið upp og þá hefur verið bagalegt að ekki væri fyrir hendi neinn aðili sem gæti metið þau hlutlægt á traustum grunni.

Það hefur lengi verið til umræðu á vettvangi vísinda- og tækniráðs og í vísindasamfélaginu hér á landi að styrkja þurfi ramma um siðferðilegar hliðar vísindarannsókna. Annars staðar á Norðurlöndum eru úrræði á grundvelli laga eða stjórnvaldsfyrirmæla til að leysa úr málum þegar upp koma grunsemdir um óvandaða starfshætti í rannsóknum, svo sem uppspuna, falsanir og ritstuld. Með slíkum úrræðum er leitast við að efla vandaða starfshætti í vísindasamfélaginu og traust almennings á vísindum og rannsóknum.

Á alþjóðavettvangi hafa samfélög vísindamanna og háskólar m.a. tekið á þessum málum með því að setja sér siðareglur um vísindarannsóknir. Á samevrópskum vettvangi má til dæmis nefna The European Code of Conduct for Research Integrity (ný útgáfa 2017) sem gefinn er út af ALLEA (All European Academies), evrópskum samtökum háskóla, vísindafélaga og rannsóknastofnana.

Háskólaráð HÍ ályktaði 2006 að félög háskólakennara ásamt Rannís og fleiri samtökum beiti sér fyrir setningu siðareglna um góð vísindaleg vinnubrögð. Vísinda- og tækniráð tók einnig málið upp 2010 og starfshópi á vegum Rannís var falið að móta drög að siðareglum fyrir íslenskt vísindasamfélag. Í því ferli var haft víðtækt samráð við vísindasamfélagið. Niðurstöður lágu fyrir 2011 og höfðu yfirskriftina Viðmið um vandaða starfshætti og siðferði í vísindum og rannsóknum. Áhersla var lögð á sjálfseftirlit rannsakenda og stofnana, en jafnframt var lagt til að sett yrði á laggirnar miðlæg nefnd sem hefði eftirlit þeim. Nefndin hefði m.a. það hlutverk að leiðbeina í einstökum málum, að rannsaka mál að eigin frumkvæði eða, ef málum væri vísað til hennar, að úrskurða um alvarleika brota og að fræða og upplýsa, bæði vísindasamfélagið, stjórnvöld og almenning. Lagt var til að samin yrðu sérstök lög um nefndina þar sem hlutverk og valdsvið hennar væri skilgreint.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Hallgrímur J. Ámundason

hallgrimur.amundason@for.is