Samráð fyrirhugað 18.01.2019—05.02.2019
Til umsagnar 18.01.2019—05.02.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 05.02.2019
Niðurstöður birtar 12.02.2019

Áformuð lagasetning um vandaða starfshætti í vísindum

Mál nr. 20/2019 Birt: 18.01.2019 Síðast uppfært: 08.05.2019
  • Forsætisráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Háskólastig
  • Nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar

Niðurstöður birtar

Níu umsagnir bárust um áformin, frá einstaklingum, fyrirtækjum, stofnunum, félögum og nefndum. Umsagnirnar eru almennt mjög jákvæðar í garð áformanna og tekið undir að nauðsyn sé að setja lög um málefnasviðið. Unnið verður nánar úr athugasemdum og tekið tillit til þeirra eftir atvikum við gerð lagafrumvarpsins. Stefnt er að því að setja frumvarpsdrög í samráð á þessum vettvangi eftir miðjan febrúar.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 18.01.2019–05.02.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 12.02.2019.

Málsefni

Markmiðið er að tryggja eftir megni að siðferðileg viðmið í vísindum séu í heiðri höfð og að góðir vísindalegir starfshættir séu iðkaðir. Það er nauðsynlegt til að hægt sé meta niðurstöður og áreiðanleika rannsókna og til að skapa traust almennings á gildi þeirra.

Úrlausnarefnið er að tryggja góða vísindalega starfshætti og að siðferðileg viðmið í vísindum séu í heiðri höfð. Það er nauðsynlegt til að hægt sé að meta niðurstöður og áreiðanleika rannsókna og til að skapa traust almennings á gildi þeirra. Áríðandi er að skilgreina helstu viðmið og vandamál sem úrlausnarefninu tilheyra og skjóta lagastoð undir það starf sem því mun tengjast. Til staðar þarf að vera fastmótaður ferill til að takast á við mál sem kunna að rísa vegna rökstuddra efasemda um að fagleg viðmið hafi verið í heiðri höfð. Dæmi eru um að slík mál hafi komið upp og þá hefur verið bagalegt að ekki væri fyrir hendi neinn aðili sem gæti metið þau hlutlægt á traustum grunni.

Það hefur lengi verið til umræðu á vettvangi vísinda- og tækniráðs og í vísindasamfélaginu hér á landi að styrkja þurfi ramma um siðferðilegar hliðar vísindarannsókna. Annars staðar á Norðurlöndum eru úrræði á grundvelli laga eða stjórnvaldsfyrirmæla til að leysa úr málum þegar upp koma grunsemdir um óvandaða starfshætti í rannsóknum, svo sem uppspuna, falsanir og ritstuld. Með slíkum úrræðum er leitast við að efla vandaða starfshætti í vísindasamfélaginu og traust almennings á vísindum og rannsóknum.

Á alþjóðavettvangi hafa samfélög vísindamanna og háskólar m.a. tekið á þessum málum með því að setja sér siðareglur um vísindarannsóknir. Á samevrópskum vettvangi má til dæmis nefna The European Code of Conduct for Research Integrity (ný útgáfa 2017) sem gefinn er út af ALLEA (All European Academies), evrópskum samtökum háskóla, vísindafélaga og rannsóknastofnana.

Háskólaráð HÍ ályktaði 2006 að félög háskólakennara ásamt Rannís og fleiri samtökum beiti sér fyrir setningu siðareglna um góð vísindaleg vinnubrögð. Vísinda- og tækniráð tók einnig málið upp 2010 og starfshópi á vegum Rannís var falið að móta drög að siðareglum fyrir íslenskt vísindasamfélag. Í því ferli var haft víðtækt samráð við vísindasamfélagið. Niðurstöður lágu fyrir 2011 og höfðu yfirskriftina Viðmið um vandaða starfshætti og siðferði í vísindum og rannsóknum. Áhersla var lögð á sjálfseftirlit rannsakenda og stofnana, en jafnframt var lagt til að sett yrði á laggirnar miðlæg nefnd sem hefði eftirlit þeim. Nefndin hefði m.a. það hlutverk að leiðbeina í einstökum málum, að rannsaka mál að eigin frumkvæði eða, ef málum væri vísað til hennar, að úrskurða um alvarleika brota og að fræða og upplýsa, bæði vísindasamfélagið, stjórnvöld og almenning. Lagt var til að samin yrðu sérstök lög um nefndina þar sem hlutverk og valdsvið hennar væri skilgreint.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Valdimar Össurarson - 27.01.2019

Meðfylgjandi í viðhengi er umsögn Valdimars Össurarsonar, frkv.stj Valorku og formanns SFH

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Íslensk erfðagreining ehf. - 01.02.2019

Umsögn Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar er í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Eiríkur Brynjólfur Baldursson - 04.02.2019

Ath Eftir fer umsögn einstaklings:

Umsögn

1. Það er mikilvægt og tímabært að skapa hér ramma til þess að styrkja siðfræðilega umföllun um vísindarannsóknir og heilindi líkt og tíðkast með öðrum þjóðum. Vandaðir starfshættir í rannsóknum eru forsenda fyrir öflugu samstarfi við aðrar þjóðir. Þetta hefur sýnt sig skipta miklu fyrir erlent samstarf á sviði heilbrigðisrannsókna sem eru eina sviðið í rannsóknum hér á landi þar sem fjallað er með skipulegum hætti um siðferðilegar hliðar rannsókna – þó einkum í ljósi hagsmuna þátttakenda. Má ætla að fyrirkomulagið geri íslenska vísindamenn að áhugaverðari samstarfsaðilum um leið og styrkveitendur og ritstjórnir birtingaraðila gera í vaxandi mæli kröfur um að siðanefnd hafi fjallað um rannsóknirnar.

2. Sá rammi og regluverk sem sett verður um heilindi í vísindastarfi taki mið af því sem gert er meðal annarra þjóða, ekki síst í þeim ríkjum sem samstarf er við um vísindi og rannsóknir. Séríslenskar reglur og viðmið gætu orðið til trafala í erlendu samstarfi, en öllu vísindastarfi er sammerkt að það er mikilvægt að rannsakendur leggi verk sín og niðurstöður í dóm hins alþjóðlega vísindasamfélags.

3. Í háskólatengdum rannsóknum, sem einatt eru grunnrannsóknir, þarf að tryggja gæði og heilindi. Krafan er sanngjörn: Þeir sem kosta rannsóknirnar – almenningur eða einkaaðilar – eiga heimtingu á því að farið sé vel með fjármuni sem eru til ráðstöfunar og þeim sé varið til verkefna sem eru talin mikilvæg fyrir þróun fræðanna og fyrir þá hagnýtingu sem stefnt er að. Sú framhaldsmenntun sem boðin er þarf að uppfylla ströng gæðaviðmið og kröfur, þar á meðal að góðir og viðurkenndir starfshættir séu viðhafðir í framhaldsnámi sem felur í sér rannsóknaþjálfun og hjá þeim rannsóknaaðilum sem bjóða framhaldsmenntuðum störf að námi loknu hér á landi eða erlendis. Íslenskir háskólar eru einkum í erlendri samkeppni hvað þetta varðar.

4. Í fyrirliggjandi hugmyndum er lögð áhersla á sjálfsmat rannsóknaraðila til að tryggja að heilindi séu ástunduð í vísindastarfinu. Þetta er einmitt lykilatriði. Heilindi í rannsóknum verða aldrei tryggð nema með því að áhersla sé lögð á þessi atriði í starfsemi bæði mennta- og rannsóknarstofnana, svo og hjá einkaaðilum sem stunda rannsóknir. Gæðastarfið sem vikið var að hér að ofan er óhjákvæmilegur liður í þessu. Áherslu á siðfræðilegar hliðar rannsókna þarf að efla í allri menntun sem felur í sér rannsóknaþjálfun.

5. Ekki er gert ráð fyrir því að væntanleg nefnd eigi kröfu til þess að fá í hendurnar öll gögn sem kynnu að varða umfjöllun hennar um einstök mál. Þetta er umdeilanlegt og ekki er víst að það nægi að treysta alfarið á að rannsakandi sem er til skoðunar sjái hag sínum best borgið með því að leggja öll viðeigandi gögn fyrir nefndina. Þeir sem hafa gerst sekir um refsivert athæfi munu líklega ekki leggja fram öll gögn. Þó ætla mætti að rannsakendur átti sig almennt á því að hagsmunum þeirra er best borgið með þessum hætti þá er rétt að nefndin geti gert kröfu um gögn sem að hennar mati eru nauðsynleg til þess að leiða til lykta mál sem hún fjallar um.

6. Miklu skiptir að sú umgjörð sem þessari starfsemi verður valin tryggi sjálfstæði gagnvart stjórnvöldum, háskólum, rannsóknastofnunum og öðrum opinberum eða einkaaðilum, þmt fræðafélögum og hagsmunasamtökum í fræðasamfélaginu, stjórnmálaöflum eða öðrum hagsmunaaðilum. Sjálfstæðið þarf að ná til þess verklags sem fylgt verður, til skilgreiningar á viðmiðum sem unnið verður eftir innan þess lagaramma sem nær til vísindarannsókna á öllum fræðasviðum. Sjálfstæðið nær einnig til þess sem nefndin hefur úr að spila til þess að geta sinnt verkefnum sínum. Skipun í nefnd sem stofnuð yrði þarf að vera með þeim hætti að einstaklingar sem yrðu skipaðir geta ekki verið fulltrúar hagsmunaaðila. Það þarf að vera lögbundið að hvorki það stjórnvald sem þessi starfsemi verður látin heyra undir né tilnefningaraðilar, hafi neitt boðvald um efnislegar ákvarðanir sem teknar verða. Um stjórnsýsluleg málefni verði farið að stjórnsýslulögum.

7. Rétt er að halda því til haga að nefnd/rammi af því tagi sem hér er um rætt leysir ekki úr þeirri þörf sem er til þess að vernda þátttakendur í öðrum rannsóknum en vísindarannsóknum á heilbrigðissviði. Það eru mörg verkefni t.d. á svið félagsvísinda þar sem unnið er með viðkvæmar upplýsingar og um er að ræða virka þátttöku einstaklinga í rannsóknunum.

Afrita slóð á umsögn

#4 Hildigunnur H. H. Thorsteinsson - 05.02.2019

Góðan dag,

Umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, Orku náttúrunnar, Veitna og Gagnaveitunnar er í viðhengi.

Kær kveðja,

Hildigunnur Thorsteinsson

Framkvæmdastjóri Þróunar OR

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Sigurður Óli Sigurðsson - 05.02.2019

Umsögn gæðaráðs íslenskra háskóla

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Erla Björk Örnólfsdóttir - 05.02.2019

Umsókn Háskólans á Hólum

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Samtök iðnaðarins - 05.02.2019

Gott kvöld,

meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um áformaða lagasetningu um vandaða starfshætti í vísindum.

Virðingarfyllst,

Björg Ásta Þórðardóttir,

lögfræðingur SI

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Védís Ragnheiðardóttir - 05.02.2019

Sjá umsögn Félags doktorsnema og nýrannsakenda við Háskóla Íslands í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Þórður Kristinsson - 08.02.2019

Umsögn vísindanefndar háskólaráðs

Viðhengi