Samráð fyrirhugað 13.09.2018—28.09.2018
Til umsagnar 13.09.2018—28.09.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 28.09.2018
Niðurstöður birtar 02.10.2018

Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (eiginfjáraukar).

Mál nr. 128/2018 Birt: 12.09.2018 Síðast uppfært: 02.10.2018
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Markaðseftirlit, neytendamál og stjórnsýsla atvinnumála
  • Alþingi og eftirlitsstofnanir þess

Niðurstöður birtar

Áform um lagasetningu ásamt kostnaðarmati voru birt til umsagnar hinn 12. september 2018 í samráðsgátt stjórnarráðsins og veittar voru tvær vikur til að skila inn umsögnum. Engin umsögn barst.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 13.09.2018–28.09.2018. Umsagnir voru birtar í gáttinni að umsagnarfresti liðnum. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 02.10.2018.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki þar sem lagðar verða til breytingar á ákvæðum laganna er varða eiginfjárauka.

Í gildandi lögum er kveðið á um fjóra eiginfjárauka og er tilgangur þeirra að auka viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja gegn áföllum og stuðla að jafnara lánsframboði í gegnum hag- og fjármálasveiflur. Eiginfjáraukarnir fjórir eru verndunarauki, sveiflujöfnunarauki, eiginfjárauki vegna kerfisáhættu og eiginfjárauki á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki. Þá er alla að finna í CRD IV tilskipuninni en hún kveður jafnframt á um fimmta eiginfjáraukann sem ekki hefur verið lögfestur á Íslandi, þ.e. eiginfjárauka á kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á alþjóðavísu (e. Globally Systemically Important Institutions). Er nú áformað að lögfesta þennan fimmta eiginfjárauka.

Í CRD IV tilskipuninni er að finna ákvæði um tilkynningaskyldu til evrópskra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði og aðkomu þeirra að ákvörðunum um gildi eiginfjárauka o.fl. Reglugerðir Evrópusambandsins um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði voru ekki orðnar hluti EES-samningsins þegar frumvörp sem urðu að lögum nr. 57/2015 og nr. 96/2016 voru til meðferðar á Alþingi og var ákveðið að bíða með innleiðingu þeirra ákvæða CRD IV tilskipunarinnar sem vísa til evrópskra eftirlitsstofnanna þar til reglugerðir um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði yrðu teknar upp í EES-samninginn. Evrópsku reglugerðirnar voru teknar upp í landsrétt með lögum nr. 24/2017, um evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði eftir að Evrópureglugerðirnar (reglugerðir (ESB) nr. 1092/2010 1093/2010, 1094/2010 og 1095/2010) höfðu verið aðlagaðar að EES-samningnum.

Í 86. gr. b – 86. gr. d laga nr. 161/2002 er kveðið á um hvernig sveiflujöfnunarauki, eiginfjárauki vegna kerfisáhættu og eiginfjárauki fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki eru ákvarðaðir en verndunarauki sem kveðið er á um í 86. gr. e laganna er fastur. Samkvæmt 86. gr. c er Fjármálaeftirlitinu skylt að kveða árlega á um eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki en samkvæmt 86. gr. b og 86. gr. d laganna er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kveða á um eiginfjárauka vegna kerfisáhættu og sveiflujöfnunarauka. Allir eiginfjáraukarnir eru komnir til framkvæmda hér á landi og hefur Fjármálaeftirlitið metið það svo að ákvarðanir um þá séu stjórnvaldsákvarðanir og um þær gildi málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ráðstafanir á grundvelli 86. gr. a – 86. gr. e laganna ,um að viðhalda eigin fé vegna eiginfjárauka, beinast ávallt að hópi fjármálafyrirtækja hverju sinni, en ekki einstökum fyrirtækjum. Ráðstafanirnar eru því þess eðlis að eiga meira sameiginlegt með stjórnvaldsfyrirmælum en stjórnvaldsákvörðunum. Skylda til að viðhalda eiginfjárauka á grundvelli íslenskra laga þarf einnig að geta tekið til erlends fjármálafyrirtækis með starfsemi eða eignir hér á landi (t.d. ákveðnar tegund áhættuskuldbindinga sbr. 3. mgr. 86. gr. b laganna). Til þess að tryggja jafnræði á milli íslenskra og erlendra fjármálafyrirtækja sem hafa starfsemi hér á landi er nauðsynlegt að þær skyldur sem leiða af 86. gr. a – 86. gr. e laganna komi fram í stjórnvaldsfyrirmælum enda tekur Fjármálaeftirlitið ekki ákvarðanir gagnvart erlendum fjármálafyrirtækjum sem eru með starfsleyfi í öðru ríki á EES-svæðinu og heyra undir eftirlit í því nema í undantekningartilfellum. Með hliðsjón af framangreindu er því talið réttara að Fjármálaeftirlitið fái heimild í lögum til að setja reglur um gildi og gildissvið sveiflujöfnunarauka, eignfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki, eiginfjárauka vegna kerfisáhættu og nýs eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki á alþjóðavísu. Þessi breyting fæli í sér að reglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ. á m. um andmælarétt, myndu ekki gilda þegar eiginfjáraukarnir eru virkjaðir og gildi þeirra ákveðið. Þessi breyting er í samræmi við framkvæmd sömu reglna í Noregi sbr. grein 14-3 norskra laga um fjármálafyrirtæki (N. Lov om finansforetak og finanskonsern (finansforetaksloven)) fyrir utan að fjármálaráðherra setur reglur um eiginfjárauka þar í landi.

Þá hefur nánari skoðun á ákvæðum 129. – 142. gr. CRD IV tilskipunarinnar, er varða eiginfjárauka og tilkynningu til evrópskra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði og aðkomu þeirra að ákvörðunum um gildi eiginfjárauka, leitt í ljós að í tilskipuninni eru ákvæði sem ekki hafa verið tekin upp í lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki eða sem ekki gert hefur verið ráð fyrir í reglugerðarákvæðum 86. gr. a – 86. gr. f laganna. Þau er nauðsynlegt að taka upp í lögin þannig að íslenskur réttur sé í fullu samræmi við tilskipunina.

Með frumvarpinu verður lagt til:

1. Að taka upp í íslenskan rétt ákvæði um eiginfjárauka vegna kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja á alþjóðavísu.

2. Að taka upp ákvæði tilskipunar 2013/36/ESB sem varða eiginfjárauka og vísa til aðkomu ESB og Evrópskra eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði í landsrétt með hliðsjón af því hvernig reglugerðir (ESB) nr. 1092/2010, 1093/2010, 1094/2010 og 1095/2010 hafa verið aðlagaðar EES-samningnum.

3. Samræma ákvæði laganna um eiginfjárauka (86. gr. a – 86. gr. f laganna) við efni 128. – 142. gr. tilskipunar 2013/36/ESB þannig að ákvæði tilskipunarinnar séu að fullu innleidd hér á landi.

4. Að veita Fjármálaeftirlitinu heimild til að birta stjórnvaldsfyrirmæli um sveiflujöfnunarauka, eiginfjárauka vegna kerfisáhættu, eiginfjárauka vegna kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja og kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja á alþjóðavísu.

Tengd mál