Tvær umsagnir bárust, annars vegar ábending Sambands íslenskra sveitarfélaga um framsetningu meginreglna sem til stendur að setja fram í frumvarpinu og hins vegar áherslur Samtaka atvinnulífsins á að þess meðalhófs sem nýjar valdheimildir ESA eru undirorpnar sé gætt við innleiðingu þeirra. Viðbrögð við umsögnum má sjá í niðurstöðuskjali.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 18.01.2019–04.02.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 06.02.2019.
Áformað frumvarp varðar nýmæli sem leiða af fyrirhugaðri upptöku reglugerðar ráðsins (ESB) 2015/1589 í EES-samninginn og samsvarandi breytingum á bókun 3 við samning EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól (SED). Auk þess er gert ráð fyrir að ákvæði er varða eftirlit með ríkisaðstoð sem nú er að finna í samkeppnislögum nr. 40/2005 verði tekin upp í frumvarpið.
Reglur um valdheimildir ESA og málsmeðferð stofnunarinnar er að finna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum) og í samningi EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól (SED), sem gerður var í tengslum við EES-samninginn. Efnisreglur um ríkisaðstoð, þ.e. hvenær ríkisaðstoð telst lögmæt og samrýmanleg EES-samningnum er einkum að finna í 59.-61. gr. samningsins og afleiddum EES-gerðum.
Með fyrirhuguðu frumvarpi verður lagt til að ákvæði sem varða ríkisaðstoð og er nú að finna í samkeppnislögum nr. 44/2005 verði færð yfir í sérlög um meðferð ríkisaðstoðarmála. Um leið verði lögfest nýmæli sem leiða af breytingum sem fyrirséðar eru á bókun 3 með SED og varða eftirlit með ríkisaðstoð. Þau nýmæli koma fram í reglugerð ráðsins (ESB) nr. 734/2013 um breytingar á reglugerð ráðsins (EB) nr. 659/1999. Reglugerðirnar hafa verið sameinaðar með „kerfisbindingu“ í reglugerð ráðsins (ESB) 2015/1589. Ennfremur verði lögfest ákvæði sem endurspegla stjórnsýsluframkvæmd í ríkisaðstoðarmálum.
Frumvarpið mun ekki mæla fyrir um heimildir til að njóta ríkisaðstoðar eða undir hvaða skilyrðum ríkisaðstoð telst samrýmanleg EES-samningnum. Skilyrði þess að ríkisaðstoðarráðstafanir samrýmist EES-samningnum koma fram í ákvæðum hans og gerðum sem af honum leiða. Efni frumvarpsins verður takmarkað við reglur um málsmeðferð í tengslum við ráðstafanir sem fela eða kunna að fela í sér ríkisaðstoð. Megintilgangur frumvarpsins verður að tryggja framgang eftirlits með ríkisaðstoðarmálum á Íslandi, en það eftirlit er í höndum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Með heildarlögum um meðferð ríkisaðstoðarmála sem lögð verða til í frumvarpinu er þannig ætlunin að tryggja lagagrundvöll fyrir skilvirku eftirlit og um leið að stuðla að fylgni við reglur sem lúta að samskiptum stofnunarinnar við innlend stjórnvöld og fyrirtæki.
Góðan dag,
Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um hina áformuðu lagasetningu.
ViðhengiHjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.
F.h. sambandsins,
Guðjón Bragason
Viðhengi