Samráð fyrirhugað 23.01.2019—04.02.2019
Til umsagnar 23.01.2019—04.02.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 04.02.2019
Niðurstöður birtar

Áform um lagabreytingar um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008

Mál nr. S-25/2019 Birt: 23.01.2019 Síðast uppfært: 24.01.2019
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Háskólastig
  • Leikskólar, grunnskólar, starfsnám og stjórnsýsla mennta- og menningarmála

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (23.01.2019–04.02.2019). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Áformað er að gera breytingar á lögum nr. 87/2008 þar sem meðal annars verður stuðlað að aukinni samfellu og sveigjanleika milli skólastiga með útgáfu eins leyfisbréfs til kennslu.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnir áform um breytingar á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008.

Með setningu fyrrgreindra laga voru ríkari kröfur gerðar til menntunar kennara með það að leiðarljósi að skapa nemendum sem bestu mögulegu skilyrði til uppeldis og náms. Markmið þeirra var einnig að auka samfellu milli skólastiga, færa þau nær hvert öðru og stuðla að því að strax í leikskóla hæfist undirbúningur að samfellu í skólastarfi þar sem eitt skólastig tæki við af öðru. Í greinargerð með frumvarpi laganna 2008 kemur fram sú fyrirætlan að gildissvið leyfisbréfa leik-, grunn- og framhaldsskólakennara verði útvíkkuð til aðliggjandi skólastiga þannig að viðkomandi kennari hafi einnig heimild til að kenna ákveðnum aldursflokkum eða á sérsviði sínu. Tilgangurinn var að þannig yrði stuðlað að ákveðnum sveigjanleika milli skólastiga.

Markmiðum um sveigjanleika og samfellu milli skólastiga hefur ekki verið náð. Kennarar sem valið hafa að starfa á aðliggjandi skólastigi á grundvelli sérstakrar heimildar annað en leyfisbréf þeirra tilgreinir, hafa verið ráðnir til kennslu sem leiðbeinendur og starf þeirra auglýst árlega. Hefur þetta m.a. haft í för með sér að heimild þeirra til að kenna á aðliggjandi skólastigum hefur ekki verið viðurkennd við ráðningar sem leitt hefur til þess að þeir búa við ófullnægjandi starfsöryggi. Mennta- og menningarmálaráðuneyti hafa borist upplýsingar um að hæfir og reynslumiklir kennarar hafi kosið að láta af störfum sem leiðbeinendur því ekki sé unnt að greiða þeim laun í samræmi við stöðu þeirra, auk þess sem starfsöryggi þeirra sé óviðunandi. Brýnt er að bregðast við ofangreindum vanda og ágalla á lögunum, standa vörð um réttindi og starfsöryggi kennara, auka flæði milli skólastiga, fjölga tækifærum til starfsþróunar kennara og fjölbreytileika í menntakerfinu.

Með breytingu á lögum nr. 87/2008 er ætlunin að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennslu sem staðfesting á hæfni sem leik-, grunn- og framhaldsskólakennarar þurfa að búa yfir. Gert er ráð fyrir að breytingarnar leiði til aukins sveigjanleika og flæðis kennara milli skólastiga, hvatningu til starfsþróunar, gæði menntunar og fjölbreytileiki verði meiri, auk þess sem stuðlað verði að starfsöryggi kennara. Í breytingunum felst einnig viðurkenning á hæfni og störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra. Enn fremur eru taldar líkur á að þær leiði til aukinnar skólaþróunar á öllum skólastigum og aukinnar nýliðunar kennara.

Með endurskoðun laganna verður enn fremur mælt fyrir um heimild til að fela þar til bæru stjórnvaldi afgreiðslu og útgáfu leyfisbréfa samkvæmt lögum þessum.

Samkeppnishæfni þjóða má að hluta rekja til menntunarstigs hennar. Kennarar eru lykilstarfsmenn menntakerfisins, það eru þeir sem leiða breytingar til umbóta og auka gæðin í skólastarfi. Fjölgun á hæfum kennurum styrkir þannig samkeppnishæfni landsins. Brýnt er að hér á landi verði stór hópur kennara sem búi yfir hæfni til að takast á við framtíðaráskoranir sem blasa við næstu árin og áratugi. Íslenskt menntakerfi þarf að búa nemendur þessa lands undir líf og störf í síbreytilegu samfélagi og skapa þeim jöfn tækifæri til menntunar. Hæfir kennarar á öllum skólastigum eru forsenda þess að sú framtíðarsýn verði að veruleika.

Stefnt er að því að drög frumvarps þessa efnis verði kynnt í Samráðsgátt síðar í vetur og gefst á hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum einnig kostur á að senda inn umsagnir.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Sigurbjörg Friðriksdóttir - 28.01.2019

Sammála þessari breytingu.

Afrita slóð á umsögn

#2 Haraldur Freyr Gíslason - 01.02.2019

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Sigurbjörn Árni Arngrímsson - 01.02.2019

Breytingarnar á lögunum munu opna ýmsa möguleika og auka flæði kennara á milli skólastiga. Hins vegar myndast ýmsar flækjur við þessar breytingar. Til að mynda virðast þær stangast á við reglugerð 872/2009 um inntak menntunar leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Þar kemur fram að talsverður munur er gerður á þeim fjölda eininga (ECTS) sem þarf að vera til staðar til að uppfylla skilyrði um menntun leik-, grunn- og framhaldsskólakennara. Leikskólakennari þarf t.d. að hafa lokið eigi minna en 150 einingum í uppeldis- og kennslufræði og inntak faggreina sem tengist námssviðum leikskólans skal eigi vera minna en 90 einingar á meðan framhaldsskólakennari þarf að hafa lokið eigi minna en 60 einingum í uppeldis- og kennslufræði og faggreinin skal eigi vera minna en 180 staðlaðar ­ein­ingar í aðalkennslugrein. Þarna ber talsvert í milli enda langt á milli þessara skólastiga. Ef skólastjórnendum ber skylda til að ráða kennara með leyfisbréf (t.d. leikskólakennara til stærðfræðikennslu í framhaldsskóla eða eðlisfræðikennara úr framhaldsskóla til kennslu í yngstu deild leikskólans) umfram hæfari einstakling sem hefur reynslu eða fagmenntun á sviðinu (þó svo að kennsluréttindin vanti) er verr af stað farið en heima setið. Lagabreytingin þarf að tryggja að fólk með þekkingu á faggreininni gangi fyrir eða standi að minsta kosti jafnfætis fólki án þekkingar á faggreininni en með kennsluréttindi sem upphaflega voru hugsuð til kennslu á öðru skólastigi.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson

Skólameistari Framhaldsskólans á Laugum

Afrita slóð á umsögn

#4 Sara Ósk Halldórsdóttir - 02.02.2019

Góðan daginn,

Varðandi að gefa eitt leyfisbréf fyrir alla þrjá skóla leik-, grunn- og framhaldsskóla er ég ekki sammála. Mér þykir mjög mikilvægt að einstaklingar sem kenna börnunum okkar séu að læra það sem þeir eru að kenna eða svipuð fræði og þeir eru að kenna.

Ég tel að í sumum tilfellum kæmi þetta niður á gæðum kennslunar, ekki endilega alltaf. Ég er leiðbeinandi í dag, ég er í 100% starfshlutfalli að vinna í 20 einingum í Háskóla Íslands við að reyna að klára B.Ed. gráðuna mína í sumar. Ég er að leggja það á mig að læra það sem ég vil kenna til frambúðar. En ég veit fullvel að samningur minn er til eins árs hvert skipti. Ef leikskólakennari og framhaldsskólakennari vilja fá viðeigandi laun í grunnskóla þá er eðlilegt að þeir þurfi að bæta við sig einhverjum fögum í HÍ, hvaða fög það yrðu er hins vegar allt annað mál og má kannski ráðgast við Strakkahlíð hvað þeim þætti mikilvægast fyrir einstaklinga sem hoppa milli skólastiga.

Ég tel sérstaklega varhugavert að vera að hleypa leikskólakennurum upp í grunnskóla, án viðeigandi menntunar, og að hleypa grunnskólakennurum upp í framhaldsskóla án viðeigandi menntunar. Hvernig stofnanirnar eru uppsettar er gjörólíkt.

Hvaða aumingjavæðing er þetta líka að gefa afslátt af menntun? Haldið þið að hjúkrunarfræðingur fái kannski einhvern tíman að vinna sem læknir á lærri launum? Eða að læknir fái að spreyta sig sem sjúkraþjálfari? Mér finnst þetta algjör vanvirðing við kennarastéttina að segja að öll þessi skólastig séu bara eins og kennarar geti hoppað á milli eins og þeim sýnist þrátt fyrir að vera sérhæfðir í einhverju. Ég verð líka spólandi vitlaus í skapinu, ef að ég er kominn með Masterinn minn, og sæki um stöðu í kennslu yngstu barna í grunnskóla og skólastjórinn hefur leyfi til að taka leikskólakennara fram yfir mig, þegar ég er með sérhæfingu á sviðinu. Hver ætlar að passa að þess sé gætt??

Það mun ENGINN bera virðingu fyrir kennarastarfinu meðan þetta er svona, væl ofan í væl í stað þess að bara taka einhver námskeið í fjarnámi og vera kominn með annað skólastig.

MIKIÐ, á móti þessari tillögu.

Mbkv.

Sara Ósk Halldórsdóttir,

Háskólanemi, að sligast stundum undan náms og vinnuálagi en vælir ekki yfir því að vera leiðbeinandi, og læri bara það sem ég ÆTLA að kenna.

Afrita slóð á umsögn

#5 Samband íslenskra sveitarfélaga - 04.02.2019

Vinsamlegast sjá meðfylgjandi umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, við áform um lagabreytingar um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda, nr. 87/2008.

Virðingarfyllst,

f.h. sambandsins,

Vigdís Häsler, lögmaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Árni Friðriksson - 04.02.2019

Þessar lagabreytingar virðast í fljótu bragði ekki til góðs og vart skiljanlegar. Framhaldsskólakennarar hafa almennt ekki sérþekkingu á mikilvægum hlutum er viðkoma kennslu yngri stiga, s.s. málþroska, lestrarkennslu og að læra í gegnum leik. Leikskólakennarar hafa að sama skapi almennt ekki þekkingu til að kenna vissar faggreinar á unglingastigi grunnskóla eða á framhaldsskólastigi. Eru hagsmunir nemenda hafðir að leiðarljósi við þessar lagabreytingar? Útgáfa leyfisbréfa framhaldsskólakennara er bundin við vissa faggrein sem viðurkennir nauðsyn faglegrar þekkingar á þeim viðfangsefnum sem kennd eru. Heppilegra væri að tryggja vissa skörun á milli aðliggjandi skólastiga, t.d. að leikskólakennari geti kennt á yngsta stigi í grunnskóla og öfugt. Eins ættu grunnskólakennarar að geta kennt á fyrsta ári í framhaldsskóla og framhaldsskólakennarar þá á efsta stigi í grunnskóla. Þessi skörun er að vissu leyti þegar í gangi og þessu ætti því að vera hægt að koma á án þess að gjörbylta því kerfi sem nú er við lýði og hefur reynst á margan hátt ágætlega. Er verið að breyta bara til að breyta? Með því að stytta framhaldsskólann í þrjú ár hefur verið vegið að starfsöryggi framhaldsskólakennara. Eru þessar reglubreytingar enn einn liður í því að losa sig við framhaldsskólakennarastéttina?

Grundvöllur kennslu ætti að vera sá að einstaklingar sem valdir eru til kennslu á hverju stigi hafi fagþekkingu á bak við sig sem henti því stigi og tillögur um eitt leyfisbréf virðist kalla á tilslökun á þeim kröfum. Allt í einu á það engu að skipta hvort einstaklingur hafi á bak við sig sérmenntun sem hentar þeim aldursflokki sem kennslunnar á að njóta. Ein ástæða þessara lagabreytinga á að vera að til að uppræta ófullnægjandi starfsöryggi, en er ekki alveg eins víst að þessar breytingar ýti undir óöryggi hjá kennurum um störf sín? Fara þarf varlega í lagabreytingar af þessu tagi þar sem í fljótu bragði er ekki hægt að sjá að breytingarnar hafi aukin gæði í skólastarfi í för með sér.

Árni Friðriksson,

formaður Kennarafélags Menntaskólans á Egilsstöðum.