Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 23.1.–4.2.2019

2

Í vinnslu

  • 5.2.2019–28.1.2020

3

Samráði lokið

  • 29.1.2020

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-25/2019

Birt: 23.1.2019

Fjöldi umsagna: 6

Áform um lagasetningu

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Háskólastig

Áform um lagabreytingar um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008

Niðurstöður

Lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla voru samþykkt á Alþingi 1, júlí 2019.

Málsefni

Áformað er að gera breytingar á lögum nr. 87/2008 þar sem meðal annars verður stuðlað að aukinni samfellu og sveigjanleika milli skólastiga með útgáfu eins leyfisbréfs til kennslu.

Nánari upplýsingar

Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnir áform um breytingar á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008.

Með setningu fyrrgreindra laga voru ríkari kröfur gerðar til menntunar kennara með það að leiðarljósi að skapa nemendum sem bestu mögulegu skilyrði til uppeldis og náms. Markmið þeirra var einnig að auka samfellu milli skólastiga, færa þau nær hvert öðru og stuðla að því að strax í leikskóla hæfist undirbúningur að samfellu í skólastarfi þar sem eitt skólastig tæki við af öðru. Í greinargerð með frumvarpi laganna 2008 kemur fram sú fyrirætlan að gildissvið leyfisbréfa leik-, grunn- og framhaldsskólakennara verði útvíkkuð til aðliggjandi skólastiga þannig að viðkomandi kennari hafi einnig heimild til að kenna ákveðnum aldursflokkum eða á sérsviði sínu. Tilgangurinn var að þannig yrði stuðlað að ákveðnum sveigjanleika milli skólastiga.

Markmiðum um sveigjanleika og samfellu milli skólastiga hefur ekki verið náð. Kennarar sem valið hafa að starfa á aðliggjandi skólastigi á grundvelli sérstakrar heimildar annað en leyfisbréf þeirra tilgreinir, hafa verið ráðnir til kennslu sem leiðbeinendur og starf þeirra auglýst árlega. Hefur þetta m.a. haft í för með sér að heimild þeirra til að kenna á aðliggjandi skólastigum hefur ekki verið viðurkennd við ráðningar sem leitt hefur til þess að þeir búa við ófullnægjandi starfsöryggi. Mennta- og menningarmálaráðuneyti hafa borist upplýsingar um að hæfir og reynslumiklir kennarar hafi kosið að láta af störfum sem leiðbeinendur því ekki sé unnt að greiða þeim laun í samræmi við stöðu þeirra, auk þess sem starfsöryggi þeirra sé óviðunandi. Brýnt er að bregðast við ofangreindum vanda og ágalla á lögunum, standa vörð um réttindi og starfsöryggi kennara, auka flæði milli skólastiga, fjölga tækifærum til starfsþróunar kennara og fjölbreytileika í menntakerfinu.

Með breytingu á lögum nr. 87/2008 er ætlunin að gefið verði út eitt leyfisbréf til kennslu sem staðfesting á hæfni sem leik-, grunn- og framhaldsskólakennarar þurfa að búa yfir. Gert er ráð fyrir að breytingarnar leiði til aukins sveigjanleika og flæðis kennara milli skólastiga, hvatningu til starfsþróunar, gæði menntunar og fjölbreytileiki verði meiri, auk þess sem stuðlað verði að starfsöryggi kennara. Í breytingunum felst einnig viðurkenning á hæfni og störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra. Enn fremur eru taldar líkur á að þær leiði til aukinnar skólaþróunar á öllum skólastigum og aukinnar nýliðunar kennara.

Með endurskoðun laganna verður enn fremur mælt fyrir um heimild til að fela þar til bæru stjórnvaldi afgreiðslu og útgáfu leyfisbréfa samkvæmt lögum þessum.

Samkeppnishæfni þjóða má að hluta rekja til menntunarstigs hennar. Kennarar eru lykilstarfsmenn menntakerfisins, það eru þeir sem leiða breytingar til umbóta og auka gæðin í skólastarfi. Fjölgun á hæfum kennurum styrkir þannig samkeppnishæfni landsins. Brýnt er að hér á landi verði stór hópur kennara sem búi yfir hæfni til að takast á við framtíðaráskoranir sem blasa við næstu árin og áratugi. Íslenskt menntakerfi þarf að búa nemendur þessa lands undir líf og störf í síbreytilegu samfélagi og skapa þeim jöfn tækifæri til menntunar. Hæfir kennarar á öllum skólastigum eru forsenda þess að sú framtíðarsýn verði að veruleika.

Stefnt er að því að drög frumvarps þessa efnis verði kynnt í Samráðsgátt síðar í vetur og gefst á hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum einnig kostur á að senda inn umsagnir.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa háskóla og vísindamála

postur@mrn.is