Samráð fyrirhugað 31.01.2019—15.02.2019
Til umsagnar 31.01.2019—15.02.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 15.02.2019
Niðurstöður birtar 12.02.2020

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis o.fl.)

Mál nr. 34/2019 Birt: 31.01.2019 Síðast uppfært: 12.02.2020
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Fjölmiðlun

Niðurstöður birtar

Frumvarp var lagt fram á Alþingi, á þskj. 645 á 150. löggjafarþingi.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 31.01.2019–15.02.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 12.02.2020.

Málsefni

Meginefni frumvarpsins er að veita stjórnvöldum heimild til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla í formi endurgreiðslu á allt að 25% af tilteknum hluta ritstjórnarkostnaðar.

Fyrirliggjandi eru drög að frumvarpi til laga um breytingar á fjölmiðlalögum, sem fela í sér heimildir til að veita styrki í formi endurgreiðslu á hluta ritstjórnarkostnaðar einkarekinna fjölmiðla.

Frumvarpið er unnið á grundvelli stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar og fjármálaáætlunar 2019 – 2023 þar sem gerð er grein fyrir því að unnið verði að því að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla á tímabilinu. Þá er frumvarpið í samræmi við það meginmarkmið stjórnvalda á sviði fjölmiðlunar að viðhalda og efla lýðræðislega umræðu og lýðræðisþátttöku fólks með því að efla miðlalæsi, stuðla að fjölbreytni, gagnsæi og fjölræði í fjölmiðlum. Þá verði forsendur fyrir hendi til að mismunandi fjölmiðlar fái þrifist svo að almenningur hafi aðgang að fjölbreyttu efni, fréttum, samfélagsumræðu og íslenskri menningu. Í skýrslu nefndar um rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla hér á landi, sem skipuð var í lok árs 2016 kemur fram að rekstur einkarekinna fjölmiðla sé svo erfiður að það gefi stjórnvöldum tilefni til að stuðla að bættu rekstrarumhverfi þeirra.

Meginefni frumvarpsins:

· Styrkir til fjölmiðla í formi endurgreiðslu á allt að 25% af tilteknum hluta ritstjórnarkostnaðar.

· Skilyrði um að viðtakendur styrkja uppfylli ýmis skilyrði fjölmiðlalaga, efni þeirra sé fjölbreytt og fyrir allan almenning og byggist á fréttum, fréttatengdu efni og samfélagsumræðu í víðum skilningi.

· Þak á hámarksfjárhæð styrkja og heimild til að veita staðbundnum miðlum álag.

Helstu skilyrði

Þar sem megin markmiðið með aðgerðum stjórnvalda er að tryggja lýðræðislega umræðu og samræður í samfélaginu um málefni þess eru gerðar kröfur um að fjölmiðlarnir uppfylli tiltekin skilyrði til að geta hlotið styrk eða endurgreiðslu á hluta kostnaðar við öflun og miðlun frétta, fréttatengt efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Helstu skilyrði eru:

· Fjölmiðill skal vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar

· Fjölmiðill hafi starfað óslitið í tólf mánuði eða lengur fyrir þann tíma er umsókn berst til fjölmiðlanefndar.

· Aðalmarkmið fjölmiðils skal vera miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni.

· Efni fjölmiðilsins skal vera fjölbreytt og fyrir allan almenning á Íslandi.

· Prentmiðlar skulu koma út að lágmarki fjörutíu og átta sinnum á ári. Netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skulu miðla nýju efni daglega.

· Ritstjórnarefni skal að lágmarki vera 40% af því efni sem birtist í prentmiðlum sem dreift er endurgjaldslaust til lesenda. Ritstjórnarefni í öðrum prentmiðlum og hjá netmiðlum skal að lágmarki vera helmingur af birtu efni.

· Einn sjötti hluti ritstjórnarefnis skal byggja á sjálfstæðri frétta- eða heimildaöflun.

Endurgreiðsluhæfur kostnaður og endurgreiðslur

Gert er ráð fyrir endurgreiðsluhæfur kostnaður verði bundinn við beinan launakostnað blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara auk

verktakagreiðslna fyrir sömu störf. Hlutfall endurgreiðslu verði að hámarki vera 25% af kostnaði við frmangreint, þó ekki hærri en 50 millj. kr. til hvers umsækjanda vegna síðastliðins árs. Þá er reglugerðarheimild sem kveður m.a. á um heimild til að veita staðbundnum fjölmiðlum viðbótar endurgreiðslu.

Framkvæmd, gildistaka og endurskoðun

Gert er ráð fyrir að fjölmiðlanefnd sjái um framkvæmd og að kostnaður við hana verði tekinn af árlegum fjárveitingum til verkefnisins. Lagt er til að lögin taki gildi 1. janúar 2020 og endurgreiðslur miðist við síðast liðið ár. Lögin verði endurskoðuð fyrir 31. desember 2024 .

Mat á áhrifum og árangri

Til að meta hvort markmið laganna hafi náðst verður gerð úttekt á áhrifum og árangri stuðnings við einkarekna fjölmiðla fyrir lok árs 2023. Athugað verður skoðað hvort stuðningskerfið hafi náð fram þeim markmiðum sem að er stefnt með frumvarpinu. Í því sambandi skal m.a. kanna hvort stuðningskerfið hafi stuðlað að aukningu á miðlun frétta og fréttatengds efnis einkarekinna fjölmiðla, hvort hlutfall efnis sem byggist á sjálfstæðri frétta- eða heimildaöflun hafi aukist, hvort starfsfólki á ritstjórnum fjölmiðla hafi fjölgað og fleira.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Sigurður Ægisson - 31.01.2019

Einhvern veginn finnst mér að minnstu einkareknu fjölmiðlarnir séu ekki inni í þessu væntanlega frumvarpi. Þá á ég við fjölmiðla þar sem sami einstaklingur er ritstjóri, blaðamaður og ljósmyndari. Þeir eru margir í landinu. Minn t.d., Siglfirðingur.is. Hann er að verða níu ára. Og hann er skráður. Þar hafa birst allt að sjö fréttum á dag, en suma daga er ekkert að frétta og þess vegna er ekkert sett í loftið. Enda er hann staðbundinn.

Og hvernig á ég að geta tekið mér sumarfrí ef kvöðin er sú að daglega þurfi að birtast frétt?

Mér finnst að þau sem að þessu frumvarpi vinna þurfi að hafa samband við Fjölmiðlanefnd og fá upp gefið hvernig skiptingin er, hversu margir eru stórir, hversu margir reknir af einum aðila o.s.frv. Að öðrum kosti þarf að breyta nafni frumvarpsins, því það er ekki að tala til allra einkarekinna fjölmiðla í landinu, bara sumra.

Afrita slóð á umsögn

#2 Ólafur Valtýr Hauksson - 05.02.2019

Meðfylgjandi eru nokkrar athugasemdir og ábendingar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Hafliði Breiðfjörð Guðmundsson - 14.02.2019

Athugasemdir frá Fótbolta.net.

Við gerum alvarlegar athugasemdir við að samkeppnisstaða fjölmiðla verður gríðarlega skert verði lögin sett samkvæmt lokadrögum.

Fótbolti.net er í samkeppni við íþróttasíður mbl.is, Vísis.is, DV/433.is og Fréttablaðsins. Ef ég skil drögin rétt fá allir þessir miðlar endurgreiðsluna.

Fótbolti.net mun hinsvegar ekki fá endurgreiðsluna verandi einungis íþróttamiðill. Samkeppnisstaða okkar verður verulega skekkt.

Það þýðir að samkeppni um starfsfólk verður nánast vonlaus enda þurfum við að leggja fram 33% meiri pening til að greiða starfsmanni sömu laun og samkeppnisaðilarnir sem fá 25% endurgreiðslu.

Þetta gæti gert út um starfsemi fjölmiðils sem hefur verið rekinn í 17 ár og alltaf greitt alla reikninga og gjöld á réttum tíma.

Hvetjum ykkur því til að gæta að því að vernda alla fjölmiðla með setningu laganna en ekki gera rekstur ákveðinna fjölmiðla erfiðari.

Hafliði Breiðfjörð Guðmundsson

Framkvæmdastjóri

Fótbolti.net

Afrita slóð á umsögn

#4 Karl Garðarsson - 14.02.2019

Frjáls fjölmiðlun ehf., útgefandi DV, fagnar frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis o.fl.). Félagið telur það mikilvægt fyrsta skref til að jafna samkeppnisstöðu fjölmiðla. Þó þarf að ganga mun lengra og líta til fleiri þátta.

Rekstrarskilyrði einkarekinna fjölmiðla aldrei verið verri en núna. Að óbreyttu stefnir í að margir þeirra fari hreinlega í þrot. Það er nauðsynlegt að sem flestar raddir og skoðanir fái að heyrast í lýðræðisþjóðfélagi og verður því mikilvægi einkarekinna fjölmiðla seint ofmetið. Samkeppnisstaðan er mjög skekkt vegna stöðu RÚV á markaði. Það vita flestir og því er mikilvægt að endurskoða hlutverk RÚV strax og tryggja stofnuninni það fjármagn sem þarf til að sinna breyttu hlutverki. Með því að setja skorður við aðgengi RÚV á auglýsingamarkaði myndi staða einkarekinna fjölmiðla batna til muna.

Varðandi frumvarpsdrögin sjálf gerir Frjáls fjölmiðlun ehf. ekki athugasemdir við einstakar greinar þess. Þó er rétt að benda á eitt atriði sem þyrfti að lagfæra. Gert er ráð fyrir að endurgreiðslur taki m.a. mið af þeim sem vinna við útgáfu blaða. Þar eru t.d. nefndir blaðamenn, ljósmyndarar o.fl. Þar vantar inn í umbrotsmenn, en það eru þeir aðilar sem koma blöðunum í endanlegt horf og setja þau upp í tölvum, þannig að hægt sé að prenta þau. Þessir aðilar þurfa að vera með í upptalningunni.

Karl Garðarsson

framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf.

Afrita slóð á umsögn

#5 Fröken ehf. - 14.02.2019

Athugasemdir frá Reykjavík Grapevine.

Meðfylgjandi eru athugasemdir og rökstuðningur.

Hilmar Steinn Grétarsson, framkvæmdastjóri Fröken ehf.

Jón Trausti Sigurðarson, formaður stjórnar útgáfufélags Fröken ehf.

Valur Grettisson, Ritstjóri Reykjavík Grapevine

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Bændasamtök Íslands - 14.02.2019

Meðfylgjandi er umsögn Bændasamtaka Íslands, útgefanda Bændablaðsins, um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2011 (stuðningur við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis o.fl.).

Virðingarfyllst, Tjörvi Bjarnason, sviðsstjóri útgáfu- og kynningarsviðs BÍ.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Kjarninn miðlar ehf. - 14.02.2019

Almenn umsögn við frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011

Kjarninn miðlar ehf., útgefandi Kjarnans og Vísbendingar, telur að frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um breytingar á lögum um fjölmiðla, sem hefur það markmið að koma á stuðningi við öflun og miðlun frétta og fréttatengds efnis, sé mikið þarfaverk og gott fyrsta skref í átt að því að bæta stöðu íslensks fjölmiðlaumhverfis.

Í um áratug hefur hið opinbera valið að standa hjá og horfa á rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, lítilla sem stórra, verða mjög krefjandi, og fyrir suma óbærilegt. Gömlu við­skipta­mód­elin sem héldu einka­reknum fjöl­miðlum öfl­ugum eiga mjög undir högg að sækja, meðal ann­ars vegna tækni- og upp­lýs­inga­bylt­ing­ar­inn­ar sem hefur gjörbreytt öllum neytendavenjum.

Hún leiðir af sér að sífellt færri vilja greiða fyrir fréttir og frétta­vinnslu og hefur gert það að verkum að nýjar teg­undir miðla, sér­stak­lega sam­fé­lags­miðl­ar, eru farnir að taka til sín sífellt stærri sneið af tekjum sem áður runnu til íslenskra miðla.

Það er stað­reynd að atgervis­flótti og speki­leki er úr starfs­stétt blaða- og frétta­manna. Fært fólk end­ist ekki í starfi vegna lélegra launa, álags og áreitni sem því fylgir að fjalla um sam­fé­lags­mál í örsam­fé­lagi. Þessari þróun þarf að snúa við. Nær öll lönd í kringum okkur átta sig á mik­il­vægi öfl­ugra fjöl­miðla fyrir lýð­ræðið og gera sitt til að tryggja starf­semi og öryggi þeirra.

Færa má rök fyrir því að það sé enn mik­il­væg­ara í jafn litlu sam­fé­lagi og tungu­mála­svæði og Ísland er. Ef ráðamenn eru þeirrar skoðunar að fjölmiðlar séu nauðsynlegur hluti, jafnvel hornsteinn, lýðræðisins þá þarf að grípa inn í þróunina og tryggja fjölbreytta flóru öflugra fjölmiðla.

Varðandi efnisatriði frumvarpsins þá lýsir Kjarninn sig að uppistöðu samþykkan þeim ramma sem mótaður er um endurgreiðanlegan kostnað og skilyrði sem þarf að uppfylla, með nokkrum undantekningum sem raktar eru nánar hér að neðan.

Það er til að mynda nauðsynlegt að vera með skilyrði um rekstrarsögu, starfsmannafjölda og um hversu stórt hlutfall birts efnis þurfi að vera ritstjórnarefni sem byggist á sjálfstæðri frétta- og heimildaöflun. Það tryggir að endurgreiðslurnar lendi hjá þeim sem frumvinna mest efni og miðlum sem þegar hafa sannað tilverurétt sinn og eftirspurn með því að hafa starfað í tiltekin tíma. Þá er það réttlætismál að undanskilja alla þá fjölmiðla sem hafa ekki greitt lögbundin gjöld til opinbera aðila, lífeyrissjóða og stéttarfélaga frá því að vera hæfir til að fá endurgreiðslu. Of margir fjölmiðlar hafa fengið að starfa óáreittir árum saman hérlendis á síðustu árum, á grundvelli ólöglegra lána frá hinu opinbera, án þess að gripið hafi verið í taumanna. Þetta hefur valdið öllum þeim fjölmiðlafyrirtækjum sem keppa heiðarlega og löglega miklum skaða.

Viðeigandi væri að stjórnendur fjölmiðla sem sýnt hafa af sér slíka rekstrarhegðun yrðu útilokaðir frá endurgreiðslum þótt þeir verði sér úti um nýtt nafn á miðil og nýja kennitölu. Hægt væri að binda slíka útilokun við t.d. tíu ár.

Þá er nauðsynlegt að fyrir liggi með skýrum og gagnsæjum hætti hvert eignarhald og yfirráð yfir öllum fjölmiðlum séu. Svo virðist sem að á þessu þurfi að skerpa í lögum og færa fjölmiðlanefnd meiri völd til að grípa til aðgerða þegar raunverulegt eignarhald og/eða yfirráð eru falin.

Þetta er mikilvægt, meðal annars til að sporna við því að fjölmiðlafyrirtæki geti orðið að vettvangi peningaþvættis, þar sem illa fengnu fé er komið í vinnu.

Það er óskandi að þetta frumvarp sé einungis fyrsta skrefið af nokkrum sem þarf að stíga til að koma á eðlilegu rekstrarumhverfi og jafnvægi á íslenskum fjölmiðlamarkaði þannig að á honum geti keppt fjölbreytt flóra ólíkra miðla sem saman og í sitthvoru lagi hafa það að megin markmiði að upplýsa almenning. Önnur nauðsynlegt skref eru til að mynda breytingar á rekstrarfyrirkomulagi RÚV með því að draga úr umsvifum þess á auglýsingamarkaði og skapa með því svig­rúm fyrir aðra til að auka sínar tekj­ur.

Fjárlög ársins 2019 gera ráð fyrir því að framlag ríkissjóðs til RÚV hækki um 534 milljónir króna, eða um 12,8 prósent. Breyt­ing­una má rekja til 175 milljón króna hækk­unar á fram­lagi til RÚV vegna sjóðs sem ætlað er að kaupa efni frá sjálf­stæðum fram­leið­endum hér­lendis og 360 milljón króna hækk­unar á fram­lagi til RÚV. Alls mun RÚV fá um 4,7 milljarða króna úr ríkissjóði á árinu 2019. Því má ætla að tekjur RÚV fari nálægt, og jafnvel yfir, sjö milljarða króna í ár ásamt þeim auglýsingatekjum sem auglýsingadeild fyrirtækisins, ein sú aðgangsharðasta og öflugasta á landinu, mun væntanlega ná inn í kassann.

RÚV hefur líka getað aukið rekstr­­ar­hæfi sitt með öðrum leiðum en auknum tekjum og fram­lögum á síð­­­ustu árum. Samanlagður hagnaður RÚV á árunum 2016 og 2017 nam tæplega 1,8 milljarði króna. Þar skipti hagnaður af sölu byggingalóða við Efstaleiti mestu máli. Engin annar fjölmiðill gat selt ríkiseignir til að auka rekstrarhæfi sitt.

Til viðbótar gerði RÚV tímamótasamkomulag við Líf­eyr­is­­­sjóð starfs­­­manna rík­­­is­ins (LSR) um að breyta skil­­­málum á skulda­bréfi í eigu sjóðs­ins sem er til­­­komið vegna ógreiddra líf­eyr­is­skuld­bind­inga ríkisfjölmiðilsins. Í sam­komu­lag­inu fólst að veru­­lega er lengt í greiðslu­­­ferli bréfs­ins, en loka­gjald­dagi þess er nú 1. októ­ber 2057 í stað 1. apríl 2025. Sam­hliða er höf­uð­­­stóll hækk­­­aður og vextir lækk­­­aðir úr fimm pró­­­sentum í 3,5 pró­­­sent. Þetta mun gera það að verkum að greiðsla skuld­­ar­innar mun teygja sig til nýrra kyn­slóða en fjár­­­magns­­gjöld sem RÚV greiðir árlega munu lækka umtals­vert.

Þá þarf, á einhverjum tímapunkti, að laga samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla við erlenda fjölmiðla og samfélagsmiðla. Það má til að mynda gera með því að grípa til aðgerða sem miða að því að alþjóðleg stórfyrirtæki, sem hafa étið sig inn í tekjumódel íslenskra fjölmiðla, verði látin greiða skatt hérlendis líkt og íslensku fyrirtækin sem keppa við þau.

Þá er það þannig að skerpa þarf verulega á lögum um banni við t.d. áfengis- og veðmálaauglýsingum. Slík fyrirtæki eru á meðal stærstu auglýsenda í heimi. Það er þannig, í alþjóða­væddum og nettengdum heimi, að íslenskir neyt­endur sjá slíkar aug­lýs­ingar á hverjum degi. Þær eru birtar á sam­fé­lags­miðl­um, erlendum net­miðlum, á erlendum sjón­varps­stöðvum sem sumar hverjar eru seldar í áskrift af íslenskum fyr­ir­tækj­um, erlendum tíma­ritum og dag­blöðum og í afþrey­ing­ar­efni sem íslenskir fjöl­miðlar kaupa og sýna, t.d. kapp­leikjum í íþrótt­um.

Auk þess er bæði áfeng­is­sala og veð­mál, sem er lög­leg starf­semi, aug­lýst á Íslandi. ÁTVR aug­lýsir versl­anir sínar undir for­varn­ar­for­merkjum og Íslensk get­spá aug­lýsir sína veð­mála­starf­semi umtals­vert.

Bann við þessum aug­lýs­ingum í íslenskum miðl­um, og af hendi íslenskra fyr­ir­tækja, gerir ekk­ert nema að skekkja sam­keppn­is­stöðu þeirra. Það leysir engan vanda sem af þessum vágestum hlýst. Það væri því skyn­sam­legra að setja skýrar reglur um hvers konar for­varn­ar­skila­boð þurfi að fylgja birt­ingu slíkra aug­lýs­inga í íslenskum miðlum en að banna þeim að hafa tekjur af þeim.

Athugasemdir við frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011 (stuðningur við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis o.fl.).

Athugasemd 1.

Gerð er athugasemd við umfjöllun um endurgreiðsluhæfan kostnað.

Í frumvarpinu er hún svona:

Eftirfarandi kostnaðarliðir falla undir endurgreiðsluhæfan kostnað samkvæmt lögum þessum, enda sé um að ræða kostnað sem telst frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt:

a. Beinn launakostnaður blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara vegna öflunar og miðlunar á efni skv. d-lið 1. mgr. 62. gr. g.

b. Beinar verktakagreiðslur til aðila skv. a-lið vegna öflunar og miðlunar á efni skv. d-lið 1. mgr. 62. gr. g. Laun og verktakagreiðslur teljast eingöngu til endurgreiðsluhæfs kostnaðar séu þau sannanlega skattlögð hér á landi.

Lagt er til að við ákvæðið bætist ný málsgrein:

Eftirfarandi kostnaðarliðir falla undir endurgreiðsluhæfan kostnað samkvæmt lögum þessum, enda sé um að ræða kostnað sem telst frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt:

a. Beinn launakostnaður blaða- og fréttamanna, ritstjóra og aðstoðarritstjóra, myndatökumanna, ljósmyndara og prófarkalesara vegna öflunar og miðlunar á efni skv. d-lið 1. mgr. 62. gr. g.

b. Beinar verktakagreiðslur til aðila skv. a-lið vegna öflunar og miðlunar á efni skv. d-lið 1. mgr. 62. gr. g.

Laun og verktakagreiðslur teljast til endurgreiðsluhæfs kostnaðar séu þau sannanlega skattlögð hér á landi.

Þrátt fyrir 2 mgr. falla beinar verktakagreiðslur til aðila skv. a-lið, sem skattlagðir eru í öðru landi, vegna kaups á efni skv. d-lið 1. mgr. 62. gr. g. sem unnið er til birtingar á íslensku, undir endurgreiðsluhæfan kostnað samkvæmt lögum þessum, að fjárhæð allt að kr. 10 milljónir hvert almanaksár.

Rökstuðningur/sjónarmið:

1. Umfjöllun um erlend málefni og Ísland í alþjóðlegu samhengi varðar íslenskan almenning miklu máli. Íslenskir fjölmiðlar hafa um árabil keypt efni frá erlendum sérfræðingum, fréttaveitum og fræðimönnum til birtingar í miðlum hér á landi. Má nefna kaup á efni frá AFP, Financial times, Foreign Policy og fræðimönnum og sérfræðingum sem skrifa greinar í blöð á alþjóðavettvangi.

2. Þessi umfjöllun skiptir miklu máli og er hluti af uppfræðsluhlutverki fjölmiðla og almannaþjónustu þeirra. Þetta efni er ekki alltaf endilega vinsælasta efnið, og því gætu fjölmiðlar freistast til þess að leggja minni áherslu á að sinna þessari þjónustu. Mikilvægt er að halda inni hvata í lögum þessum, til að sinna þessari hlið blaða- og fréttamennskunnar af metnaði, og þá sem hluta af almannaþjónustuhlutverki fjölmiðla. Í alþjóðavæddum heimi má ekki gleyma mikilvægi erlendra frétta og sérfræðiskrifa erlendis frá, ekki síst þar sem Ísland heldur úti umfangsmikilli utanríkisþjónustu á vegum hins opinbera, á í mikilvægu viðskiptasambandi við útlönd og erlendis búa tæplega tíu prósent Íslendinga. Ísland er hluti af alþjóðavæddum heimi, og tækifæri þeirra sem hafa mikilvægar upplýsingar fram að færa fyrir íslenskan almenning, eiga að ekki að þurfa að skerðast vegna þess hvar þeir eru með lögheimili.

Athugasemd 2.

Gerð er athugasemd við umfjöllun um skilyrði endugreiðslu.

Í frumvarpinu er hún svona:

Skilyrði fyrir endurgreiðslu til einkarekins fjölmiðils, sbr. 62. gr. i, eru eftirfarandi:

a. Um sé að ræða endurgreiðsluhæfan kostnað samkvæmt 62. gr. h.

b. Fjölmiðill skal vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar samkvæmt IV. kafla og uppfylla að öðru leyti skilyrði laga þessara.

c. Fjölmiðill hafi starfað óslitið í tólf mánuði eða lengur fyrir þann tíma er umsókn berst til fjölmiðlanefndar.

d. Aðalmarkmið prent- og netmiðla skal vera miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skulu starfrækja sjálfstæða fréttastofu eða miðla daglega nýjum fréttum, fréttatengdu efni eða umfjöllun um samfélagsleg málefni.

e. Efni sem birtist í fjölmiðli skal vera fjölbreytt og fyrir allan almenning á Íslandi.

f. Prentmiðlar skulu koma út að lágmarki fjörutíu og átta sinnum á ári. Netmiðlar, hljóðog myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skulu miðla nýju efni samkvæmt d-lið daglega.

g. Ritstjórnarefni skal að lágmarki vera 40% af því efni sem birtist í prentmiðlum sem dreift er endurgjaldslaust til lesenda. Ritstjórnarefni í öðrum prentmiðlum og hjá netmiðlum skal að lágmarki vera helmingur af birtu efni. Sömu skilyrði eiga við um staðbundna prent- og netmiðla, en áskilið er að minnst helmingur ritstjórnarefnis varði útbreiðslusvæði miðilsins með beinum eða óbeinum hætti. h. Einn sjötti hluti ritstjórnarefnis sem birtist í prent- og netmiðlum skal byggja á sjálfstæðri frétta- eða heimildaöflun. Sami áskilnaður er gerður um fréttir, fréttatengt efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni sem miðlað er af hljóð- og myndmiðlum og öðrum sambærilegum miðlum.

Lagt er til, að orðlagið í frumvarpinu, verði á þessa leið:

Skilyrði fyrir endurgreiðslu til einkarekins fjölmiðils, sbr. 62. gr. i, eru eftirfarandi:

a. Um sé að ræða endurgreiðsluhæfan kostnað samkvæmt 62. gr. h.

b. Fjölmiðill skal vera skráður eða hafa leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar samkvæmt IV. kafla og uppfylla að öðru leyti skilyrði laga þessara.

c. Fjölmiðill hafi starfað óslitið í tólf mánuði eða lengur fyrir þann tíma er umsókn berst til fjölmiðlanefndar.

d. Aðalmarkmið prent- og netmiðla skal vera miðlun frétta, fréttatengds efnis og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skulu starfrækja sjálfstæða fréttastofu eða miðla daglega nýjum fréttum, fréttatengdu efni eða umfjöllun um samfélagsleg málefni.

e. Efni sem birtist í fjölmiðli skal vera fjölbreytt og fyrir allan almenning á Íslandi.

f. Prentmiðlar skulu koma út að lágmarki fjörutíu og átta sinnum á ári. Netmiðlar, hljóð og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar skulu miðla nýju efni samkvæmt d-lið daglega.

g. Ritstjórnarefni skal að lágmarki vera 40% af því efni sem birtist í prentmiðlum sem dreift er endurgjaldslaust til lesenda. Ritstjórnarefni í öðrum prentmiðlum og hjá netmiðlum skal að lágmarki vera helmingur af birtu efni. Sömu skilyrði eiga við um staðbundna prent- og netmiðla, en áskilið er að minnst helmingur ritstjórnarefnis varði útbreiðslusvæði miðilsins með beinum eða óbeinum hætti.

h. Einn sjötti hluti ritstjórnarefnis sem birtist í prent- og netmiðlum skal byggja á sjálfstæðri frétta- eða heimildaöflun. Sami áskilnaður er gerður um fréttir, fréttatengt efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni sem miðlað er af hljóð- og myndmiðlum og öðrum sambærilegum miðlum.

i. Fjölmiðlafyrirtæki sem sækir um endurgreiðslu má ekki hafa meira en 1.000 milljónir í tekjur á ári.

Rökstuðningur/sjónarmið:

1. Fyrirtæki sem eru með meira en 1.000 milljónir í tekjur á ári eru í sterkri stöðu gagnvart minni fyrirtækjum á litlum íslenskum markaði fyrir fjölmiðla.

2. Endurgreiðslur kostnaðar, samkvæmt skilgreiningu, er óverulegur hluti fyrir fyrirtæki af þeirri stærðargráðu að tekjur ná því að vera meira en 1.000 milljónir á ári.

3. Má sem dæmi nefna að stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins sem sinnir fréttaþjónustu, Sýn, var með 14.268 milljónir króna í tekjur á árinu 2017 og eigið fé á sama tíma upp á 10.131 milljón króna. Hámarksendurgreiðslur upp á 50 milljónir nema því um 0,5 prósent af eigin fé þess fyrirtækis. Það félag er auk þess skráð á aðallista Nasdaq kauphallar Íslands og er með stærstu lífeyrissjóði landsins sem helstu hluthafa.

4. Fyrir mörg minni fyrirtæki er samkeppnin við stærstu fyrirtækin á markaðnum oft erfið. Endurgreiðslur kostnaðar hjá fjölmiðlafyrirtækjum, sem hafa þann hvata að styðja við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í greininni, tryggja betur fjölbreytni og grósku í greininni, og endurnýjun til framtíðar litið.

5. Með því að setja skorður við 1.000 milljónir í tekjur á ári - án þess að skerða heildarframlagið sem stjórnvöld ráðstafa - þá beinist endurgreiðsla kostnaðar að minni fyrirtækjum, þar á meðal nýjum fyrirtækjum og frumkvöðlum. Það er í takt við áherslur stjórnvalda, meðal annars þegar kemur að endurgreiðslu á kostnaði við rannsóknir og þróun, hjá nýsköpunar- og iðnfyrirtækjum, og stuðningi við lítil og meðalstór fyrirtæki.

6. Stjórnvöld hafa yfirlýsta stefnu í stjórnarsáttmála um að gera skilyrði fyrir frumkvöðlastarfsemi framúrskarandi. „Skilyrði fyrir frumkvöðla og sprotafyrirtæki verði framúrskarandi,“ segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Ef allra stærstu fyrirtækin eiga að njóta ívilnana á sviði fjölmiðlunar, langt umfram þau minni, þá getur það haft neikvæð áhrif á frumkvöðlastarfsemi á sviði fjölmiðlunar.

Með því að styðja við frumkvöðlastarfsemi á sviði fjölmiðlunar, og einangra stuðninginn við fyrirtæki í uppbyggingu, smærri fyrirtæki eða með sérhæfða starfsemi, sem ekki veltir meiru en 1.000 milljónum á ári, þá nýtist féð vel og með áhrifamiklum hætti. Fyrirtæki geta frekar sótt fram með slíkum stuðningi, frekar en þau stærri, sem jafnvel hafa lítil sem engin sóknarfæri til vaxtar.

Án þess að hafa takmarkanir á stærð fyrirtækjanna - með tilliti til tekna - sem geta sótt um endurgreiðslu kostnaðar, þá fer stærsti hluti fjármunanna ávallt til stærstu fyrirtækjanna á markaðnum, sem hafa fjársterka hluthafa, digrustu sjóðina og mestu möguleikana til að fóta sig á litlum og viðkvæmum samkeppnismarkaði.

7. Mikilvægt er að huga að því að lítil og meðalstór fyrirtæki eru hryggjarstykkið í hagkerfinu, og þar vinna flestir landsmenn, eða um 70 til 80 prósent samkvæmt upplýsingum Samtaka atvinnulífsins. Ívilnanir eins og þessar sem hið opinbera ætlar að lögfesta, þurfa að taka tillit til þess.

8. Sérfræðingar tala fyrir því að stuðningur við nýsköpun sé markviss þegar hann kemur á réttum tíma, hjá litlum fyrirtækjum, ekki síst þeim sem eru að slíta barnskónum. Í þessu tilviki, þar sem horft er til þess að fjárfesta 400 milljónum á ári, í að styrkja ritstjórnarvinnu fjölmiðla, þá liggur fyrir, að stór fyrirtæki sem taka megnið af upphæðinni til sín, eru afar ólíkleg til að valda miklu margfeldi í sínum rekstri með 50 milljónum.

Sé dæmi tekið af Sýn, stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtækinu sem sinnir ritstjórnarvinnu á Íslandi, þá námu skuldir fyrirtækisins 15,2 milljörðum króna í lok árs 2017. Hámarksendurgreiðslan, 50 milljónir, er 0,3 prósent af þeirri upphæð, og aðeins brot af árlegum vaxtakostnaði fyrirtækisins. Hjá minni fyrirtækjunum hefur endurgreiðslan mun meiri margfeldisáhrif þar sem hún getur farið beint í ráðningar á starfsfólki/blaðamönnum, faglega uppbyggingu og frekari vöxt. Þannig styrkir hún beint fjölmiðlunina og skapar hinu opinbera meiri tekjur, frekar en þegar upphæðin rennur til stóru fyrirtækjanna.

9. Svo má bæta við að Sýn og Síminn, tvö stærstu einkareknu fjölmiðlafyrirtækin, njóta nú þegar mikils ágóða af niðurgreiðslukerfi hins opinbera, sem styður við framleiðslu í kvikmyndagerð. Framleiðendur kvikmynda eða sjónvarpsefnis á Íslandi eiga kost á endurgreiðslum á allt að 25 prósent af framleiðslukostnaði sem fellur til hér á landi. Það er mikill styrkur, sem flest önnur einkarekin fjölmiðlafyrirtæki í landinu geta ekki nýtt sér af neinu ráði, sökum lágmarksumfangs sem þarf til að geta nýtt þær aðgerðir. Það má svo bæta við, að það kerfi hefur reynst mikilvægt til að stuðla að faglegri kvikmyndagerð, að mati stjórnvalda, og hefur með árunum verið eflt, meðal annars vegna þess að styrkirnir eru taldir skila sér til baka með meiri veltu og nýjum skatttekjum.

10. Það sem nýtist stærstu fyrirtækjunum á markaði best, er að hlutverk RÚV verði takmarkað á auglýsingamarkaði. Það myndi skila sér mest til þeirra stærstu, til skemmri tíma. Breytingar í þá veru eru ekki hluti af þessum lagabreytingum, en ættu að koma til skoðunar sem fyrst, þegar kemur að því að styrkja rekstrarumhverfi fjölmiðlafyrirtækja á Íslandi (sjá almenna umsögn meðfylgjandi).

Athugasemd 3.

Gerð er athugasemd við hluta af umfjöllun um einstakar greinar frumvarpsins.

Í frumvarpinu er hún svona:

„Skilyrðið er matskennt en almennt má segja að í áskilnaði um fjölbreytileika þess efnis sem birtist í fjölmiðli sé átt við að efnið hafi breiða skírskotun og efnistök séu almenn og fjölbreytt þannig að birt efni sé ekki nær eingöngu bundið við ákveðið afmarkað eða afmörkuð svið, svo sem menningu, trúmál, íþróttir, matreiðslu, lífstíl eða tísku.“

Lagt er til, að orðlagið í frumvarpinu, verði á þessa leið:

„Skilyrðið er matskennt en almennt má segja að í áskilnaði um fjölbreytileika þess efnis sem birtist í fjölmiðli sé átt við að efnið hafi breiða skírskotun og efnistök séu almenn og fjölbreytt.“

Rökstuðningur/sjónarmið:

1. Þó vitnað sé til norskrar fyrirmyndar í þessum texta í umfjöllunar um einstakar greinar frumvarpsins, þá er mikilvægt að hafa í huga að Ísland er eitt og Noregur annað. Íslenski markaðurinn er örmarkaður með einungis 350 þúsund íbúa en Noregur er margfalt stærri með rúmlega 5 milljónir íbúa.

2. Sérhæfing er eitt af því sem er talið eitt það mikilvægasta í blaðamennsku, þar sem þekking blaðamanna á ákveðnum sviðum byggist upp með menntun og reynslu. Með sérhæfingu tekst að byggja upp sérþekkingu á ákveðnum málefnum og litlir miðlar sem sérhæfa sig í tilteknum málaflokkum þjóna mikilvægum tilgangi fyrir almenning, og geta markað sér stöðu til að byggja upp starfsemi.

3. Taka má miðla sem sinna umfjöllunum um tilteknaríþróttir og lýðheilsu sem dæmi. Þeir byggja upp sérhæfingu á ákveðnum sviðum, sem tengjast mikilvægum atriðum fyrir almenning. Hættan er sú að það verði of mikil einsleitni í fjölmiðlalandslaginu ef sérhæfð fréttaþjónusta minnkar eða veikist.

4. Annað dæmi er umfjöllun um efnahagsmál og viðskipti. Það er sérhæfð fréttaþjónusta. Umfjöllunin varðar almenning miklu máli, eins og reyndin er með það sem snertir efnahag fyrirtækja og heimila. Sérhæfing þar er styrkur og mikilvægt að henni sé viðhaldið og hún efld.

5. Hið sérhæfða hlutverk er ekki síður mikilvægt fyrir fjölmiðlaflóruna, og það ritstjórnarstarf, til dæmis í gegnum hlaðvörp, fréttaskrif og myndbandsinnslög, skiptir miklu máli fyrir fjölbreytt fjölmiðlalandslag.

6. Eins og íslenskt fjölmiðlalandslag hefur þróast, meðal annars með töluverðu brottfalli úr greininni og hagræðingu, þá er skynsamlegt að styrkja sérhæfða miðla - fyrst það er verið að gera það á annað borð - sem til dæmis sinna umfjöllun um menningu, íþróttir, lýðheilsu, viðskipti, rannsóknir, vísindi, málefni einstakra svæða, og slík málefni. Með því að einangra endurgreiðslu kostnaðar við vítt hlutverk, þá beinast fjármunirnir frekar til stærstu miðlana, sem geta frekar skilgreint sig með þeim hætti, sem orðalagið í umfjöllun um einstakar greinar frumvarpsins gerir ráð fyrir. Mikilvægt að er að muna að litlu sérhæfðu miðlarnir skipta miklu máli, og eru líklegri til að nýta fjármunina til vaxtar og margfeldis frekar en þeir stóru. Þeir eru ekki síður mikilvægir en stóru fjölmiðlafyrirtækin.

Magnús Halldórsson og Þórður Snær Júlíusson, hluthafar, stofnendur og stjórnendur hjá Kjarnanum miðlum ehf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Mosfellingur ehf - 14.02.2019

Undirritaðir gera athugasemdir við það skilyrði að svæðisbundinn prentmiðill skuli koma út að lágmarki 48 sinnum á ári. Við sem ennþá höldum úti héraðs- og bæjarblöðum vítt og breitt um landið höfum það ekki endilega að markmiði að gefa út blað í viku hverri.

Mosfellingur, bæjarblaðið í Mosfellsbæ, kemur út á þriggja vikna fresti. Blaðið er mjög veglegt sem telur oftast í kringum 40 síður (32-64). Þess á milli eru fluttar fréttir á vefsíðu og eru bæjarbúar einnig upplýstir í gegnum samfélagsmiðla.

Kópavogsblaðið kemur einnig út á þriggja vikna fresti. Það telur oftast í kringum 16 síður. Blaðið heldur jafnframt úti virkri heimasíðu þar sem fréttir úr nærumhverfi lesandans eru fluttar.

Báðum þessum blöðum er dreift frítt til íbúa. Allur kostnaður er borinn uppi af auglýsingum.

Héraðsfréttablöðum hefur farið fækkandi og væri því ekki úr vegi að að gera þau undanskilin þeirri kvöð að þurfa að gefa út nánast vikulega.

Að gefa út 8 síðna blað í hverri viku virðist því heillavænlegra samkvæmt drögum þessa frumvarps en að gefa út metnaðarfyllra/veglegra blað með lengra millibili.

Eins mætti í sjálfu sér taka tillit til prentkostnaðar sem er jú okkar stærsti útgjaldaliður.

Í frumvarpinu er talað um mikilvægi svæðisbundinna miðla og miðlun þeirra sé mikilvæg fyrir þau svæði sem þau þjóna. Og segir jafnframt: „Þannig eru staðbundnir fjölmiðlar í senn vettvangur fyrir opna lýðræðislega umræðu, skoðanaskipti og gagnrýni auk þess sem þeir gegna þýðingarmiklu hlutverki sem upplýsingaveita um menn, atburði og málefni. Þá eru slíkir miðlar mikilvægur hlekkur í að efla staðar- og nærvitund og stuðla þannig að aukinni samheldni íbúa.“

Virðingafyllst:

Hilmar Gunnarsson, ritstjóri og útgefandi Mosfellings (www.mosfellingur.is)

Auðun Georg Ólafsson, ritstjóri og útgefandi Kópavogsblaðsins (www.kopavogsbladid.is)

Afrita slóð á umsögn

#9 Sæþór Helgi Jensson - 15.02.2019

Èg heiti Sæþòr og er mikil fòtbolta unandi og skoða mikið fòtbolta fréttir á fotbolti.net. og finnst mjög Sorglegt að litlu miðlarnir fái ekki neina endur greiðslur. Dæmi gerð vinnu brögð hjá sjálfstæðis flokknum að hylla þann stòra og gefa skìt ì þann litla.. Lagið þetta. Kveðja sæþòr.

Afrita slóð á umsögn

#10 Myndir mán. ehf. - 15.02.2019

Góðan dag

Hér kemur punktur sem ætti að vera sá allra fyrsti sem verður skoðaður:

Brot gegn stjórnarskrá?

Öll tímarit og aðrir minni miðlar eru undanþegin en eru að keppa á einum og sama auglýsingamarkaði við miðla sem munu verða styrktir. Það er því vert að velta því upp hvort að frumvarpið brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár?

Afrita slóð á umsögn

#11 Samkeppniseftirlitið - 15.02.2019

Meðfylgjandi er umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarpsdrögin.

Afrita slóð á umsögn

#12 Kjartan Þorbjörnsson - 15.02.2019

Umsögn um breytingar á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011

Stuðningur ríkis við fjölmiðla getur átt rétt á sér til að tryggja frjálsa fjölmiðlun, en framkvæmdin þarf að vera sanngjörn.

Við hjá Iceland Review gefum út eitt vandaðasta tímarit landsins um íslensk málefni og höldum samtímis úti fréttasíðunni www.icelandreview.is. Þrátt fyrir að lagabreytingin geri ekki ráð fyrir að styðja við bakið á prentútgáfu sem kemur út sjaldnar en vikulega, uppfyllum við með fréttasíðu okkar öll skilyrði sem sett eru fyrir stuðningi í þessum lagabreytingum, nema eitt. Við skrifum allar okkar fréttir á ensku og þýsku en ekki íslensku. Þrátt fyrir að allt efni í tímaritinu og á vefsíðunni sé unnið af ritstjórn og ekkert borgað kynningarefni eða annað aðsent efni sé birt í miðlum Iceland Review erum við útilokuð frá þessum stuðningi á grundvelli tungumálsins.

Sú staðreynd að eingöngu fréttaskrif á íslensku skulu teljast styrkhæf, jafnvel þó allt fréttaefni og annað ritstjórnarefni sé um Ísland og íslensk málefni, setur okkur því í erfiða stöðu ekki síst vegna þess samkeppnisstaða okkar á fjölmiðlamarkaði skekkist verulega. Stærri fjölmiðlablokkir sem halda úti síðum á ensku til hliðar við aðalmiðla sína á íslensku munu með þessum styrkjum fá mikið samkeppnisforskot sem erfitt er fyrir okkur að brúa.

Mjög stórir hópar útlendinga sem búa á Íslandi en tala ekki íslensku nota www.icelandreview.is til að afla sér frétta úr samfélaginu og fylgjast með. Flestir þeirra borga skatta sína og skyldur hér á landi þó aðeins örfáir tali eða lesi íslensku.

Við erum því mótfallin þeirri þröngsýni að skilyrða stuðning við íslenska fréttamiðla við íslenskuna.

fh. Iceland Review / MD Reykjavík

Kjartan Þorbjörnsson útgefandi

Afrita slóð á umsögn

#13 Samkeppniseftirlitið - 15.02.2019

Meðfylgjandi er umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvarpsdrögin.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Guðni Gíslason - 15.02.2019

Í kafla um skilyrði endurgreiðslu segir í f-lið að prentmiðlar skulu koma út að lágmarki 48 sinnum á ári.

Þetta er ósanngjarnt ákvæði og er ekki í takt við að hægt sé að reka staðbundinn fjölmiðil á einum til tveimur starfsmönnum.

Undirritaður hefur stýrt bæjarblaði í tæp 18 ár tókst mér aðeins að ná þessum mörkum með því að taka ekkert sumarfrí. Það fer mjög eftir því hvernig stendur á frídögum hvenær er raunhæft að gefa út blað og reiknað er með 4 vikna sumarfríi og engri útgáfu á milli jóla og nýárs er hámarksvikufjöldi vikublaða 46 og lítið þarf út af bregða til að þau verði enn færri. Ef gera á ráð fyrir vikulegri útgáfu ætti hámarkið ekki að vera hærra en 45 blöð.

Því er það ósanngjarnt gagnvart þeim miðlum sem þó koma út vikulega að ætlast til að það náist að gefa út 48 tölublöð árlega, ekki síst þar sem oft eru það einyrkjar sem standa að slíkri útgáfu og mikilvægt að þeir fái að hlaða batteríin eins og annað fólk.

Sömu rök gilda fyrir því ákvæði að netmiðlar þurfi að birta daglegar fréttir. Ákvæðið væri þá aðeins til þess að þessir minni staðarmiðlar framleiddu efni fram í tímann og birtu sjálfkrafa daglega eða dreifðu efni á fleiri daga sem ætti e.t.v. allt heima sama daginn.

Rekstur staðarmiðla er gríðarlega erfiður og samkeppnisstaða þeirra hefur versnað töluverð og því mikilvægt að þessi stuðningur nái vel til þessara miðla sem er mikilvægt mótvægi við stóru fréttamiðlanna.

Sem útgefandi og ritstjóri Fjarðarfrétta og www.fjardarfrettir.is fagna ég þessu frumvarpi og vona að það megi styðja við tilvist staðbundinna miðla.

Afrita slóð á umsögn

#15 Hólmgeir Baldursson - 15.02.2019

Góðan dag,

Við hyggjum á rekstur afþreyingaveitu, en ekki er tekið á kostnaði við íslenskar þýðingar kvikmynda sem er töluvert stór kostnaðarliður og því er okkur settur sá afarkostur að reka veitur erlendis þar sem þýðingarskylda er ekki fyrir hendi og streyma þeim hingað eins og Netflix gerir.

Afrita slóð á umsögn

#16 Hallgrímur Kristinsson - 15.02.2019

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011

Vísað er til máls nr. S-34/2019 í Samráðsgátt þar sem leitað var eftir athugasemdum almennings við drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011.

Umsögn þessi (í viðhengi) er send af hálfu FRÍSK, Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði. Félagsmenn eru helstu sjónvarpsstöðvar, myndefnisveitur og kvikmyndahúsaiðnaðurinn hér á landi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Magnús Magnússon - 15.02.2019

Fyrir hönd Skessuhorns - fréttaveitu Vesturlands, fagna ég meðfylgjandi frumvarpsdrögum. Vandað hefur verið til verka og fylgt fordæmi annarra Norðurlandaþjóða sem fyrir margt löngu hafa viðurkennt nauðsyn þess að styðja við innlenda fjölmiðlun. Við óbreyttar aðstæður er framtíð einkarekinna fjölmiðla á litla Íslandi stefnt í hættu. Nú þegar hafa fjölmargir fjölmiðlar hætt rekstri og skörð hafa myndast í fréttaþjónustu víða á landsbyggðinni. Einkum er þetta vegna þess að auglýsingum hefur í vaxandi mæli verið beint inn á erlendar efnisveitur með tilheyrandi tekjurýrnum fyrir innlenda fjölmiðla. Frumvarpið mun, ef það verður að lögum, auka líkur á að í flestum landshlutum verði áfram starfandi blaðamenn og er því frumvarpið mikið hagsmunamál fyrir byggðirnar. Eftir að hafa kynnt mér frumvarpið get ég ekki annað en lýst ánægju með hvernig komið er til móts við hagsmuni lítilla og meðalstórra íslenskra fjölmiðla.

Afrita slóð á umsögn

#18 Magnús Ragnarsson - 15.02.2019

Allt frá því að frumvarp Ragnhildar Helgadóttir menntamálaráðherra um afnám ríkiseinokunar í útvarpsrekstri varð að lögum í ársbyrjun 1986 hefur samkeppnisumhverfi ljósvakamiðla verið rammskakkt vegna ríkisstuðnings sem Ríkisútvarpið hefur notið. Fyrirkomulag fjármögnunar Ríkisútvarpsins hefur verið sérstaklega umdeilt og einnig hefur háttsemi stofnunarinnar á samkeppnismarkaði verið gagnrýnd harkalega. Árið 2008 gekk Samkeppniseftirlitið svo langt að gefa út álit nr. 4/2008, Samkeppnishömlur sem stafa af stöðu og háttsemi Ríkisútvarpsins á markaði fyrir sölu auglýsinga í ljósvakamiðlum. Í álitinu er gerð grein fyrir athugun Samkeppniseftirlitsins á markaði fyrir sölu auglýsinga og kostunar í útvarpi (sjónvarpi og hljóðvarpi). Athugunin leiddi í ljós að auk þeirrar samkeppnislegu mismununar sem felst í þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði samhliða tekjum þess af skattfé, hafi RÚV með tilboðum sínum og afsláttum gert samkeppnistöðuna enn verri á þessu sviði. Þetta hafði RÚV gert með því að starfa ekki í samræmi við tilgang og markmið þeirra reglna sem settar hafa verið varðandi verðlagningu fyrirtækisins. Samkeppniseftirlitið gekk svo langt að setja fram eftirfarandi athugasemdir:

• RÚV hefur í ríkum mæli vikið verulega frá birtri gjaldskrá sinni um auglýsingar, sem gengur gegn markmiðum um gagnsæi.

• RÚV hefur boðið fríbirtingar, tímabundin eða einstaklingsbundin tilboð, vöruskipti og samtvinnun auglýsinga og kostunar sem ganga gegn kröfunni um gagnsæi um afsláttarkjör fyrir kostunaraðila og auglýsendur. Jafnframt er líklegt að tiltekin afsláttarkjör hafi ekki staðið öllum til boða og jafnræði því ekki tryggt.

• Vísbendingar eru um skaðleg undirboð, þ.e. að opinbert fé hafi verið notað til þess að niðurgreiða auglýsingastarfsemi og samkeppni keppinauta sem ekki njóta ríkisstyrkja þannig raskað.

Nú, 11 árum síðar, hefur ekkert breyst varðandi markaðshegðun eða fyrirkomulag fjármögnunar Ríkisútvarpsins. Eftirlitsstofnun EFTA rannsakaði um tíma lögmæti ríkisstuðningsins en féll frá rannsókninni í kjölfar setningu nýrra laga um Ríkisútvarp nr. 23/2013. Í þeim lögum var kveðið á um að stofnunin skyldi færa allan samkeppnisrekstur í dótturfélög og sett ný kvöð um fjárhagslegan aðskilnað samkeppnisreksturs frá fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Skemmst er frá að segja að stofnunin fékk 5 ár til að færa samkeppnisreksturinn í dótturfélög en hefur nú verið brotlegt við þá grein síðan síðasti frestur rann út 1. janúar 2018.

Hvað varðar markaðshegðan stofnunarinnar hefur Fjölmiðlanefnd ítrekað fundið hana brotlega við lög um Ríkisútvarp og þurft að beita fjársektum sem þó virðast aldrei bíta enda ábatinn af hinni brotlegu hegðan alltaf hærri en sektirnar. Á Ríkisútvarpinu starfar öflugasta söludeild landsins með um 20 starfsmenn og hvatakerfi hafa leitt deildina í þá freistni að brjóta ítrekað lög og reglur hvort sem þau snúa að vöruinnsetningum, vöruvöndli, áfengisauglýsingum, tímamörkum eða kostunum.

Útþensla Ríkisútvarpsins inná nýja markaði þar sem stofnunin á ekkert erindi hefur líka verið eftirtektarverð. Þannig var til dæmis aldrei þörf fyrir ríkisrekinn fréttavef þegar mbl.is og visir.is voru miklu fyrr á markað. Aldrei var þörf á Rás 2, sérstaklega ekki nú þegar meðalaldur hlustenda á þessa unglingastöð ríkisins er 56 ár, og Rondo er óréttlætanleg viðbót við útvarpsflóruna. RUV2 er ónauðsynleg og helst aldrei notuð, spilari RUV er ný innrás á markað með ólínulegt sjónvarp og kapphlaup með að koma efni í snjalltæki er umdeilanlegt. Allt litast þetta af þeirri stefnu að ríkið skuli hvergi gefa eftir.

Í þessu samkeppnisumhverfi skiptir nýtt frumvarp menntamálaráðherra nær engu máli. Ef raunverulegur vilji er til að leiðrétta markaðinn verður að koma böndum á Ríkisútvarpið og myndi sú breyting þá nýtast öllum samkeppnisaðilum. Hið nýja frumvarp er þannig ekkert annað en lítill plástur á risastórt mein og reyndar má færa rök fyrir því að hin nýju lög myndu skekkja markaðinn enn meira:

1) Í fyrsta lagi gagnast fyrirhuguð breyting aðeins fáum útvöldum meðan aðrir sitja óbættir hjá garði. Þannig myndi sérvefir á borð við fotbolti.net aldrei hljóta náð fyrir augum nefndarinnar og efnisveitur ekki heldur. Báðar þessar tegundir miðlunar þurfa að keppa við Ríkisútvarpið hvern einasta dag.

2) Samkeppni milli einkamiðlanna raskast. Hvernig á fjölmiðill sem ekki nýtur endurgreiðslu að keppa um starfsfólk þegar samkeppnin fær 25% launakostnaðar endurgreiddan frá ríkinu? Sami starfsmaður gæti kostað fyrirtæki A 500.000 á mánuði en fyrirtæki B 375.000 á mánuði. Fyrirtæki B býður honum aðeins hærri laun og fyrirtæki A situr eftir með sárt ennið.

3) Litlum, sérhæfðum fjölmiðlum er ýtt út í að opna almenna fréttadeild til málamynda. 25% endurgreiðsla á þriggja manna vinnustað þýðir að hann getur bætt fjórða fréttamanninum í almennar fréttir við frítt í boði ríkisins. Slíkir hvatar eru í hæsta máta óeðlilegir.

4) Settar eru kröfur á einkarekna miðla umfram Ríkisútvarpið. Þannig er skilyrði að einkareknir miðlar skuli vera í fullum skilum með opinber gjöld svo sem greiðslur í lífeyrissjóði til að mega sækja um endurgreiðslu. Ríkisútvarpið hefur verið í vanskilum með lifeyrisskuldbindingar frá því á síðustu öld og munu verða það áfram til ársins 2057 þegar síðasta afborgun núverandi skuldabréfs er fyrirhuguð. Er ríkið reiðubúið að veita einkareknum miðlum sömu tryggingar á það hefur veitt Ríkisútvarpinu?

Gert er ráð fyrir að um 350 mkr verði varið í þessar sértæku stuðningaðgerðir en ágætt er að hafa í huga að á sama tíma vex framlag ríkisins til Ríkisútvarpsins um 560 mkr sem enn veitir stofnuninni aukið samkeppnisforskot. Sem andsvar gerir frumvarp menntamálaráðherra afar lítið til að leiðrétta forsendubrest á auglýsingamarkaði.

Afrita slóð á umsögn

#19 Bindindissamtökin IOGT - 15.02.2019

IOGT á Íslandi geldur varhugar gagnvart glæpsamlegri fjármögnun fjölmiðla þegar þeir brjóta lög og reglur um birtingar áfengisauglýsinga.

Hugtökin fjarkaup og viðskiptaboð eru skilgreind í 12. og 40. tölul. 2. gr. gildandi laga. Af þeim skilgreiningum leiðir að ritstjórnarefni er allt það efni sem birtist eða miðlað er af fjölmiðli nema það efni sem vísað er til í 12. og 40. tölul. 2. gr. gildandi laga. Hér er fyrst og fremst um að ræða auglýsingar, kostun, vöruinnsetningar, og fjarkaup sem falla því ekki undir hugtakið ritstjórnarefni.

Hugtakið ritstjórnarefni er skilgreint í 1. gr. frumvarpsins sem allt það efni sem birtist eða miðlað er af fjölmiðli, nema viðskiptaboð og fjarkaup sem miðlað er gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi eða til kynningar í eigin þágu. Samkvæmt 40. tölul. 2. gr. gildandi laga teljast m.a. auglýsingar, kostun og vöruinnsetning til viðskiptaboða.

Mikilvægt er að ef fjölmiðill gerist brotlegur gagnvart lögum með birtingu efnis hvort sem er auglýsing, fjarkaup, viðskiptaboð eða ritstjórnarefni falli niður allir styrkir af almannafé.

Mikilvægt er að fjölmiðlanefnd hafi beitt verkfæri til að vernda almenning fyrir slíkum lögbrotum.

Aðalsteinn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Bindindissamtakanna IOGT á Íslandi

Afrita slóð á umsögn

#20 Rakel Sveinsdóttir - 15.02.2019

Undirrituð sendir hérmeð inn umsögn fyrir hönd FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu (kt.7105992979). Undirrituð er formaður stjórnar FKA og sækir umboð sitt þangað fyrir hönd félagsins.

Rakel Sveinsdóttir

Formaður FKA

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Ríkisútvarpið ohf. - 15.02.2019

Meðfylgjandi er umsögn Ríkisútvarpsins ohf.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Torg ehf. - 15.02.2019

Sjá umsögn í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Hjálmar Jónsson - 15.02.2019

Blaðamannafélag Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#24 Árvakur hf, Haraldur Johannessen - 18.02.2019

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#25 Sýn hf, Páll Ásgrímsson lögmaður - 18.02.2019

Sjá pdf skjal.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#26 Kristján V. Sigurjónsson - 18.02.2019

Sjá pdf skjal með umsögn

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#27 Síminn, Eiríkur Hauksson - 19.02.2019

Umsögn Símans er í pdf skjali

Viðhengi