Samráð fyrirhugað 06.02.2019—20.02.2019
Til umsagnar 06.02.2019—20.02.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 20.02.2019
Niðurstöður birtar 06.05.2019

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála, lögum um dómstóla o.fl.

Mál nr. 40/2019 Birt: 06.02.2019 Síðast uppfært: 06.05.2019
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Dómstólar

Niðurstöður birtar

Þrjár umsagnir bárust um frumvarpið í Samráðsgátt auk umsagnar frá Lögmannafélagi Íslands og Landssambandi lögreglumanna. Gerð er grein fyrir meðferð umsagna í meðfylgjandi niðurstöðuskjali. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 30. mars og er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=149&mnr=783

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 06.02.2019–20.02.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 06.05.2019.

Málsefni

Tilefni lagasetningarinnar er að gera nokkrar breytingar á ákvæðum réttarfarslöggjafar eins og þessum lögum var breytt þegar millidómsstigi var komið á fót. Þá eru jafnframt lagðar til nokkrar breytingar á lögum um dómstóla og öðrum lögum.

Frumvarpið felur jöfnum höndum í sér breytingar á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um dómstóla og öðrum lögum. Veigamestu breytingarnar sem frumvarpið felur í sér eru eftirfarandi:

Upptökur og miðlun upplýsinga úr þinghaldi. Samkvæmt gildandi lögum er óheimilt að hljóðrita eða taka myndir í þinghaldi án þess að dómari veiti til þess undanþágu og gildir þá einu hvort um einkamál eða sakamál er að ræða. Í frumvarpinu er lagt til að jafnframt verði óheimilt að streyma hljóði eða mynd úr þinghaldi eða senda þaðan samtíma endursögn af því sem fram fer. Dómari getur veitt undanþágu frá þessu. Þá verði óheimilt að birta slíkar upptökur sem gerðar hafa verið án leyfis dómara að viðlögðum sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum. Sama gildi um hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði sem dómstóll annast.

Afhending hljóð- og myndupptaka til aðila máls. Samkvæmt gildandi lögum skal, á meðan mál er rekið fyrir Landsrétti eða í héraði, unnt er að skjóta því til æðri dóms eða mál er rekið fyrir æðri dómi, dómstóll láta aðilum í té hljóð- og myndupptökur af munnlegum framburði. Þetta gildir bæði í einkamálum og sakamálum. Í frumvarpinu er lögð til sú breyting að einungis hljóðupptökur af munnlegum framburði verði afhentar aðilum málsins en aftur á móti verði þeim leyft að horfa á slíkar myndupptökur í húsakynnum dómstóls. Um þetta fari nánar eftir reglum sem dómstólasýslan setji.

Kæra á frávísunarúrskurðum Landsréttar. Lagt er til að skýrt verði kveðið á um það í lögum að úrskurðir Landsréttar um að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um frávísun séu ekki kæranlegir til Hæstaréttar. Eftir sem áður verður heimilt að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar um að vísa máli frá héraðsdómi að eigin frumkvæði. Þessi breyting er lögð til bæði er varðar einkamál og sakamál.

Málsmeðferðartími í kærumálum. Lagt er til að Landsréttur og Hæstiréttur geti kveðið upp dóm eða úrskurð í kærumálum, hvort heldur í einkamáli eða sakamáli, þegar er greinargerð varnaraðila hefur borist jafnvel þótt hann hafi ekki nýtt til þess allan lögbundinn frest. Þessi breyting leiðir til styttri málsmeðferðartíma í einhverjum tilvikum en samkvæmt gildandi lögum er óheimilt að kveða upp slíkan dóm eða úrskurð fyrr en vika er liðin frá því að kærumálsgögn bárust viðkomandi dómstól.

Afhending gagna í kærumálum í sakamálum. Lagt er til í frumvarpinu að í stað þess að fastsetja með lögum að héraðsdómur afhendi Landsrétti gögn kærumála í sakamálum í fjórriti, þá afhendi héraðsdómur gögnin á því formi eða í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveður. Með því er að gera lögin hlutlaus að því er varðar sendingarmáta á þennan hátt er opnað á þann möguleika að gögn verði send með rafrænum hætti á milli dómstiganna og þannig stigið skref í átt að rafrænu réttarfari.

Kæra til Hæstaréttar og kæruleyfi. Í hagkvæmnisskyni er lagt til að kæra til Hæstaréttar og ósk um kæruleyfi í einkamálum verði eftirleiðis sett fram í einu og sama skjalinu þar sem við á.

Áfrýjunarstefna í einkamálum. Lagt er til að við áfrýjun til Landsréttar þurfi ekki lengur að greina í áfrýjunarstefnu þá sem áfrýjandi hyggst leiða fyrir dóm til skýrslugjafar um atvik máls og í hvaða skyni það skuli gert. Nægilegt sé að slíkt komi skýrlega fram í greinargerð áfrýjanda sem lögð er fram við þingfestingu.

Áfrýjun til Hæstaréttar. Lagt er til að skýrt verði tekið fram í lögum að Hæstarétt sé heimilt að takmarka áfrýjunarleyfi, hvort heldur í einkamáli eða sakamáli, við tiltekin atriði máls.

Gæsluvarðhald. Lagt er til að ekki verði lengur kveðið á um það í lögum að gæsluvarðhaldi ljúki þegar er dómur héraðsdóms hefur verið kveðinn upp. Í stað þess verði kveðið á um að gæsluvarðhald ljúki með endanlegum dómi ef ákærði er sýknaður eða dæmd refsing sem er vægari en óskilorðsbundið fangelsi. Þá er lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögum að heimilt sé að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald á meðan á áfrýjunarfresti til Hæstaréttar stendur svo og meðan mál er til meðferðar fyrir æðri dómi.

Vitni í sakamálum. Lagt er til að vitnum í sakamálum verði einungis gert að greina frá nafni sínu og kennitölu, en ekki heimili líkt og nú gildir. Þá er lagt til að lögreglumönnum verði einungis gert að greina frá nafni og lögreglunúmeri.

Dómsmálagjöld við meðferð einkamála. Lagt er til að tvímæli séu tekin af um að gjald sé tekið fyrir kæru til Hæstaréttar þegar um beina kæruheimild til Hæstaréttar er að ræða, en í þeim tilvikum sem lög mæla fyrir um að óska þurfi eftir leyfi Hæstaréttar til kæru sé greitt fyrir beiðni um kæruleyfi, hvort sem kæruleyfi er veitt eður ei. Ekki þurfi aftur á móti að greiða viðbótargjald fyrir kæru verði leyfið veitt. Þá er jafnframt lagt til að skýrt verði kveðið á um að gjald sé tekið fyrir að leggja fram beiðni um leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar einkamáls hvort sem slíkt leyfi sé veitt eður ei. Sé beiðni um áfrýjunarleyfi samþykkt skal greiða viðbótargjald fyrir útgáfu áfrýjunarstefnu.

Sérfóðir meðdómsmenn og barnaverndarmál. Lagt er til að skylt verði að kveða til meðdómsmann eða meðdómsmenn í málum sem rekin eru skv. 54. gr. barnarverndarlaga nr. 80/2002. Um fjölda þeirra og kvaðningu fari aftur á móti eftir almennum reglum um meðferð einkamála.

Samræmdar reglur um birtingu dóma. Lagt er til að dómstólasýslunni verði falið að setja samræmdar reglur um birtingu dóma og úrskurða allra dómstiganna þriggja. Samkvæmt gildandi lögum ná reglur dómstólasýslunnar einungis til birtingu héraðsdóma, en um birtingu dómsúrlausna Landsréttar og Hæstaréttar fer eftir ákvörðun þessara dómstóla að höfðu samráði við dómstólasýsluna. Lögð er áhersla á að ekki eru í þessu frumvarpi lagðar til neinar aðrar breytingar á reglum um birtingu dóma.

Þá hefur frumvarpið að geyma nokkrar smærri lagfæringar á orðalagi einstaka ákvæða og tilvísunum á milli lagaákvæða sem þó þykja nauðsynlegar til að tryggja nægilegan skýrleika ákvæðanna. Nánari grein er gerð fyrir þessum breytingartillögum í athugasemdum við einstök ákvæði.

Vakin er athygli á því að með frumvarpinu birtist hér jafnframt vinnuskjal sem inniheldur samanburð á gildandi rétti og þeim breytingum sem lagðar eru til með frumvarpinu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Guðmundur Fylkisson - 06.02.2019

Ég mæli með að skrefið verði tekið til fulls er varðar lögreglumenn, að þeim verði aðeins gert að gefa upp lögreglunúmer. Lögreglunúmer eru auðkenni viðkomandi einstaklinga og enginn annar ber sama númer. Lögreglumenn eru að verða fyrir óþægindum, hótunum og áreiti í framhaldi af því að þeir gefa upp nafn. Sjálfur heiti ég mjög einkennandi nafni, þe. Guðmundur Fylkisson, og er enginn annar slíkur til. Veit reyndar að sjálfur er ég þekktur en er meira að hugsa um aðra lögreglumenn, sem síðar koma, og eða hafa ,,einstakt" nafn. Vek einnig athygli á því hvort ekki sé rétt að sama gildi um t.d. heilbrigðisstarfsmenn, lækna og hjúkrunarfræðinga, sem þurfa að gefa vitnisburð í sakamálum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Hörður Sævar Harðarson - 07.02.2019

Tek undir með Guðmundi Fylkissyni varðandi að einungis eigi að gefa upp lögreglunumer en ekki nafn fyrir dómi. Auðvelt er að fá allar upplýsingar um viðkomandi lögreglumann ef nafn hans er komið með aðstoð td google og facebook.

Afrita slóð á umsögn

#3 Hagsmunasamtök heimilanna - 20.02.2019

Sjá viðhengi.

Viðhengi