Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 15.2.–4.3.2019

2

Í vinnslu

  • 5.–7.3.2019

3

Samráði lokið

  • 8.3.2019

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-41/2019

Birt: 8.2.2019

Fjöldi umsagna: 0

Drög að frumvarpi til laga

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Markaðseftirlit og neytendamál

Meðferð ríkisaðstoðarmála - frumvarpsdrög

Niðurstöður

Engar ábendingar eða athugasemdir bárust í umsagnarferlinu.

Málsefni

Í frumvarpsdrögunum er lögð til lögfesting nýmæla er varða meðferð ríkisaðstoðarmála að því marki sem nýjar málsmeðferðarreglur, sem teknar verða upp í EES-samninginn, kalla á lagaheimildir. Jafnframt er í þeim að finna óbreytt eða lítt breytt ákvæði um málsmeðferð ríkisaðstoðarmála sem hafa fram til þessa verið í samkeppnislögum og meginreglur um meðferð mála sem endurspegla núverandi framkvæmd.

Nánari upplýsingar

Með frumvarpsdrögunu eru lögð til heildarlög um meðferð ríkisaðstoðarmála. Þau hafa að geyma nýmæli sem leiða af upptöku reglugerðar ráðsins (ESB) 2015/1589 í EES-samninginn og samsvarandi breytingum á bókun 3 við SED, en auk þess er lagt til að ákvæði er varða eftirlit með ríkisaðstoð sem nú er að finna í samkeppnislögum nr. 40/2005 flytjist úr þeim lögum. Loks eru í drögunum ákvæði sem endurspegla stjórnsýsluframkvæmd í málaflokknum og meginreglur á réttarsviðinu. Athygli er vakin á því að upptaka ESB reglugerðarinnar og samsvarandi breytingar á bókun 3 við SED hafa ekki átt sér stað þegar frumvarpsdrögin eru birt.

Í drögunum er ekki mælt fyrir um heimildir til að njóta ríkisaðstoðar eða undir hvaða skilyrðum ríkisaðstoð telst samrýmanleg EES-samningnum. Skilyrði þess að ríkisaðstoðarráðstafanir samrýmist EES-samningnum koma fram í ákvæðum hans og afleiddum gerðum. Efni frumvarpsdraganna er að mestu takmarkað við málsmeðferð í tengslum við ráðstafanir sem fela eða kunna að fela í sér ríkisaðstoð og er megintilgangur frumvarpsins að tryggja skilvirkt eftirlit með ríkisaðstoðarmálum á Íslandi, af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Mælt er fyrir um almenn atriði er varða samstarf innlendra stjórnvalda og ESA í tengslum við eftirlit með ríkisaðstoð, einkum tengd upplýsingagjöf og afturköllun ríkisaðstoðar. Þá eru heimildir til vettvangsskoðunar, sem lengi hafa verið í SED, teknar upp í frumvarpinu.

Lögð er til lagastoð fyrir heimildir ESA til milliliðalausrar upplýsingaöflunar frá fyrirtækjum. Heimildirnar eru bundnar við þau tilvik þegar formleg rannsókn hefur verið sett af stað og fyrir liggur að hefðbundin upplýsingaöflun með milligöngu stjórnvalda hefur reynst ófullnægjandi. Jafnframt er sérstaklega áskilið tillit til reglunnar um meðalhóf og til viðbótar þarf að koma til samþykki stjórnvalda þegar um upplýsingar frá meintum aðstoðarþega er að ræða.

Þá eru ákvæði í frumvarpinu vegna sektarheimilda ESA í tengslum við ófullnægjandi eða ranga upplýsingagjöf fyrirtækja. Slíkum málum er unnt að skjóta til EFTA-dómstólsins. Hinar nýju sektarheimildir tengjast áherslubreytingum í ríkisaðstoðareftirliti sl. áratug, sem fela í sér aukið eftirlit með stórum málum sem hafa mikil áhrif á samkeppni, samfara einföldun á reglum þegar um viðaminni ráðstafanir er að ræða, en í þann flokk fellur langstærstur hluti allrar ríkisaðstoðar.

Loks er kveðið á um tilhögun samstarfs innlendra dómstóla við ESA í ríkisaðstoðarmálum, sambærilegt við það sem lögfest var árið 2005 á sviði samkeppnismála.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

postur@fjr.is