Samráð fyrirhugað 08.02.2019—18.02.2019
Til umsagnar 08.02.2019—18.02.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 18.02.2019
Niðurstöður birtar 22.03.2019

Drög að frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði

Mál nr. 42/2019 Birt: 08.02.2019 Síðast uppfært: 22.03.2019
  • Forsætisráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Umsagnirnar voru almennt afar jákvæðar og fjölmargir aðilar fögnuðu framlagningu þess og töldu það tvímælalaust fela í sér miklar réttarbót fyrir trans og intersex fólk. Ýmsir aðilar gerðu þó athugasemdir við að í frumvarpinu væri ekki fjallað um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Þeirra á meðal voru Samtökin ˈ78, félögin Trans Ísland og Intersex Ísland, umboðsmaður barna, UNICEF, Amnesty International og Barnaheill. Var á það bent að í þessu fælist ósamræmi þar sem eitt af markmiðum frumvarpsins væri að tryggja rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi en það ætti þó einungis við um einstaklinga 16 ára og eldri. Eins og fram kemur í frumvarpinu var það ætlunin að frumvarpið hefði að geyma grein sem fjallaði um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Ekki náðist samkomulag innan hópsins sem samdi frumvarpsdrögin um framsetningu og efni þeirrar greinar og var jafnframt mat sérfræðinga að ýmis atriði í því sambandi þyrfti að gaumgæfa betur. Var því ákvörðun ráðuneytisins að leggja frumvarpið fram án greinar um þetta efni en kveða á um skipun starfshóps sem hefði meðal annars það verkefni að gera tillögu um slíka grein. Samtökin ˈ78 og félögin Trans Ísland og Intersex Ísland voru samstíga í umsögnum sínum og settu, auk athugasemda um ofangreint atriði, fram ábendingar varðandi takmörkun á heimild til að breyta skráningu kyns, sbr. 7. gr. frumvarpsins, um hæfisskilyrði lögfræðings sérfræðinefndar skv. 9. gr. og skipan starfshóps samkvæmt ákvæði til bráðabirgða. Einnig lögðust þessi félög gegn því að teymi Landspítala og BUGL, sbr. 12. og 13. gr., yrðu kennd við kynósamræmi og töldu að fremur ætti að nota orðið kynvitund, enda væri það hlutlaust, lýsandi, ólíklegt til að úreldast og feli ekki í sér tiltekna sjúkdómsgreiningu. Farið hefur verið að flestum tillögum félaganna.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 08.02.2019–18.02.2019. Umsagnir voru birtar í gáttinni að umsagnarfresti liðnum. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 22.03.2019.

Málsefni

Í frumvarpinu er komið til móts við ný og breytt viðhorf til opinberrar skráningar kyns og stuðlað að réttarbótum trans og intersex einstaklinga. Lagt er til að kveðið verði á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina sjálfir kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar.

Lagt er til að íslenskri löggjöf verði kveðið á um um rétt einstaklinga til þess að skilgreina sjálfir kyn sitt og miða þannig að því að tryggja að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar. Einnig er lögunum ætlað að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi.

Í frumvarpi þessu er staðfestur réttur einstaklinga til að breyta kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun og án þess að þurfa að sæta skilyrðum um sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð eða uppfylla kröfur um atferlisþjálfun líkt og núverandi lög kveða á um. Miðað er að því að virða og styrkja sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins þar sem eigin skilningur á kynvitund er lagður til grundvallar ákvarðanatöku varðandi opinbera skráningu. Með frumvarpinu er því komið til móts við ný og breytt viðhorf til opinberrar skráningar kyns og stuðlað að réttarbótum trans og intersex einstaklinga með því að heimila einstaklingum að skilgreina kyn sitt á eigin forsendum og ráða skráningu þess, enda séu aðrir ekki betur til þess bærir.

Lagt er til að lögin taki þegar gildi en að aðilar sem skrásetji kyn skuli hafa sex mánaða frest frá gildistöku laganna til að aðlaga skráningarform, eyðublöð, skilríki og þess háttar.

Jafnframt er lagt til að lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, nr. 57/2012 falli úr gildi.

Lagt er til að sérhver einstaklingur sem náð hefur 15 ára aldri hafi rétt til að fá breytt skráningu á kyni sínu í þjóðskrá og barn yngra en 15 ára geti með fulltingi forsjáraðila sinna fengið breytt opinberri skráningu kyns síns. Samkvæmt frumvarpinu mun Þjóðskrá Íslands annast breytingu á skráðu kyni og gert er ráð fyrir að breytingin verði ekki háð neinum skilyrðum. Óheimilt verði að gera læknisfræðilegar meðferðir að skilyrði fyrir slíkri breytingu (t.d. skurðaðgerð, lyfjameðferð, hormónameðferð eða aðra læknismeðferð, svo sem geðlæknismeðferð eða sálfræðimeðferð). Þetta fyrirkomulag felur í sér grundvallarbreytingu frá gildandi lögum um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda, nr. 57/2012.

Samhliða breytingu á skráðu kyni öðlast einstaklingurinn sem breytinguna gerir rétt til að breyta nafni sínu. Um nafnbreytingu fer samkvæmt ákvæðum laga um mannanöfn nr. 45/1996. Þá á fólk rétt á því að skilríki þess endurspegli kyn þess eins og það er skráð í þjóðskrá. Jafnframt er kveðið á um rétt einstaklings sem hefur fengið breytt skráningu kyns síns í þjóðskrá til þess að fá endurútgefin gögn sem varða menntun og starfsferil, svo sem prófskírteini og þess háttar, þannig að þau samræmist breytingunni. Skylda til að láta slík gögn í té hvílir jafnt á opinberum aðilum sem einkaaðilum.

Breyting á skráningu kyns samkvæmt frumvarpinu og samhliða nafnbreyting skal einungis heimiluð einu sinni nema sérstaklega standi á. Einstaklingur sem hefur fengið breytt opinberri skráningu kyns síns nýtur allra þeirra réttinda að lögum sem skráð kyn ber með sér.

Frumvarpið gengur jafnframt út frá því að þeir einstaklingar sem frumvarpið tekur til eigi greiðan aðgang að þeirri heilbrigðisþjónustu sem það þarf á að halda og að óheimilt verði að gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum einstaklings 16 ára eða eldri án skriflegs samþykkis. Á Landspítala skal starfa teymi sérfræðinga um kynósamræmi og lagt er til að óformlegt teymi sem starfað hefur á BUGL og hefur veitt börnum sem upplifa kynósamræmi nauðsynlega aðstoð undanfarin ár verði lögfest og að skipun þess verði tryggð.

Mikilvægt er að sérstakt tillit verði tekið til réttinda barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Lagt er því til í bráðabirgðaákvæði frumvarps þessa að ráðherra skipi starfshóp sem hafi það hlutverk að semja frumvarp til laga um breytingar á lögum um kynrænt sjálfræði, verði frumvarp þetta að lögum, þar sem mælt verði fyrir um meginsjónarmið og reglur sem gilda skulu um breytingar á kyneinkennum barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.

Gildandi lög gera það ekki að skilyrði fyrir breytingu á kynskráningu að viðkomandi hafi gengist undir ófrjósemisaðgerð. Sá möguleiki er því fyrir hendi að karlmaður gangi með og ali barn og að kona geti barn. Þetta er í sjálfu sér ekki ný staða en möguleikinn gæti orðið enn raunhæfari verði frumvarp þetta að lögum enda er í því gerður skýr greinarmunur á breytingu á kynskráningu í samræmi við kynvitund einstaklings annars vegar og breytingu á kyneinkennum hins vegar sem viðkomandi kann – eða kann ekki – að óska eftir. Enn hafa ekki verið gerðar breytingar á íslenskum lögum til að samræma þau þessum veruleika en brýnt er að gera það til að tryggja réttindi einstaklinga í þessari stöðu. Með þetta í huga er lagt til að ráðherra setji á fót starfshóp sem hafi það verkefni að fjalla um og gera tillögur um breytingar á öðrum lögum til að tryggja réttindi trans fólks, ekki síst varðandi barneignir og foreldrastöðu

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Birna Björg Guðmundsdóttir - 09.02.2019

Mikið er gott að þetta frumvarp sé að líta dagsins ljós og getur hjálpað okkur foreldrum Transbarns að breyta nafninu. Það er mjög erfitt að fara til læknis, apótek og aðra staði þar sem nafnið kemur fyrir og þurfa að heyra nafnið sem er ekki lengur í notkun. Það tekur líka á fyrir barnið þar sem því líður mjög illa að heyra hitt nafnið og að við foreldrarnir þurfum ítrekað að leiðrétta fólk.

Afrita slóð á umsögn

#2 Dagný Sjöfn Guðmundsdóttir - 09.02.2019

Ég styð þétta frumvarp

Afrita slóð á umsögn

#3 Björn Bergmann Þorvaldsson - 10.02.2019

Ég velti því fyrir mér hvaða tilgangi kynskráning hafi ef hver og einn ræður því sjálfur hvað er skráð í opinber gögn.

Ég legg því til að skráningin verði felld niður.

Afrita slóð á umsögn

#4 Sandra Tryggvadóttir - 13.02.2019

Þetta er frábær tillaga og mikil réttindabót fyrir einstaklinga hverrar kynvitund er í ósamræmi við líffræðilegt kyn. Það hlýtur þó í einhverum tilfellum að skipta máli hvert líffræðilegt kyn einstaklinga er, þ.e. í heilbrigðistengdum aðstæðum, enda koma einkenni sjúkdóma oft ólíkt fram í konum en körlum og sumir sjúkdómar eru algengari í öðru kyninu en hinu. Ég legg því til að allir séu skráðir áfram út frá líffræðilegu kyni og verði þá intersex bætt við listann svo kynin verði þrjú. Ég legg líka til að AUK líffræðilegs kyns verði skráð á skírteini og skilríki kynvitund og geti einstaklingar breytt kynvitundinni einu sinni og fái þá öll þau réttindi og megi bera nafn sem samræmist kynvitund sinni. Farið væri þá eftir kynvitund alla jafna en í heilbrigðiskerfinu væri einnig tekið tillit til líffræðilegs kyns viðkomandi þegar við á.

Afrita slóð á umsögn

#5 Jón Gísli Björgvinsson - 13.02.2019

Þetta er góð byrjun, og löngu kominn tími til! Gerum þetta, og svo meira.

Afrita slóð á umsögn

#6 Elsa Bára Traustadóttir - 16.02.2019

Fyrir hönd Transteymis Landspítala vísa ég til fyrri umsagnar teymisins um téð frumvarp.

Við erum sammála þeim breytingum sem felast í lögunum varðandi kynskráningu og nafnabreytingu.

Í lokamálsgreinum bréfsins er ræddur sá möguleiki að skipa þurfi sérstakar nefndir til að gera tillögur um framkvæmd laganna og ýmis réttindi transfólks. Við leggjum áherslu á að transteymið hefur séð um og fylgt eftir um 300 einstaklingum í transferli frá árinu 1997. Við teljum nauðsynlegt að fulltrúi teymisins verði hafður með í allri slíkri nefndarvinnu.

Afrita slóð á umsögn

#7 Lotta B Jónsdóttir - 17.02.2019

Frábært lagafrumvarp sem mun viðurkenna tilvist mína og réttindi, en sárt að sjá að líkamleg friðhelgi barna verði ekki að fullu tryggð með lögum í þessu frumvarpi.

Afrita slóð á umsögn

#8 Birna Björg Guðmundsdóttir - 18.02.2019

Hagsmunasamtök foreldra og aðstandenda trans barna og ungmenna á Íslandi - Trans vinir.

Stjórn hagsmunasamtakanna fagnar þessu frumvarpi. Það mun hafa miklar og góðar breytingar í för með sér fyrir börnin okkar. Í núverandi lagaumhverfi eru börnin okkar sífellt minnt þá erfiðleika sem þau þurftu að ganga í gegnum áður en nafni þeirra var breytt og áður en þau fengu að tjá kynvitund sína. Við foreldrar og aðstandendur þurfum sífellt að útskýra aðstæður sérstaklega sem þetta frumvarp mun minnnka til muna. Frumvarpið mun hafa jákvæð áhrif á líðan og líf trans barna og ungmenna á Íslandi. Þau geta þá fengið skilríki sem sýna rétt nafn og kynvitund og geta þá ferðast án vandræða og frekari útskýringa.

Afrita slóð á umsögn

#9 Elvar Þór Arnórsson - 18.02.2019

Lýst vel á þetta frumvarp

Afrita slóð á umsögn

#10 Karitas Sara Gunnarsdóttir Haesler - 18.02.2019

Ég er fylgjandi þessu frumvarpi, vill þó gjarnan að tekið sé líka á líkamlegum breytingum á börnum án þeirra samþykkis.

Afrita slóð á umsögn

#11 Þórdís Hulda Tómasdóttir - 18.02.2019

Ég er fylgjandi þessu frumvarpi.

Afrita slóð á umsögn

#12 Stefanía Ósk Benediktsdóttir - 18.02.2019

Ég samþykki

Afrita slóð á umsögn

#13 Steinar Axelsson - 18.02.2019

Ég er fylgjandi þessu frumvarpi

Afrita slóð á umsögn

#14 Melanie Stegemann - 18.02.2019

Èg samþykki

Afrita slóð á umsögn

#15 Anna Jóhannsdóttir - 18.02.2019

Ég vil bara lýsa ánægju minni við frumvarpið. Takk og gangi ykkur vel.

Afrita slóð á umsögn

#16 Þjóðskrá Íslands - 18.02.2019

Meðfylgjandi er umsögn Þjóðskrár Íslands vegna draga að frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#17 Sigrid Aldís Ruth Roloff - 18.02.2019

Ég samþykku.

Afrita slóð á umsögn

#18 María Ósk Jónasdóttir - 18.02.2019

Ég er móðir 7 ára trans barns og er mjög fylgjandi þessu

Afrita slóð á umsögn

#19 Kolbrún Kristínard. Anderson - 18.02.2019

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um kynrænt sjálfræði

Intersex Ísland fagnar því að forsætisráuneytið leggi fram þetta metnaðarfulla frumvarp fram til Alþingis. Staða trans fólks mun stór bætast við þessa lagasetningu og hluti intersex fólks sem einnig skilgreinir sig sem trans mun einnig njóta góðs af breyttu lagaumhverfi. Meirihluti intersex fólks er hins vegar ekki trans og munu því þessar lagabreytingar engin áhrif hafa á líf of réttindi þeirra. Intersex Ísland lýsir því einnig yfir áhyggjum að ekki sé verið að uppfylla stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar sem tekur fram að þetta frumvarp muni uppfylla tilmæli Evrópuráðsins um réttindi intersex fólks.

Við teljum fagnaðarefni að réttur einstakinga eldri en 16 ára til líkamlegrar friðhelgi verði lögfestur og að ekki megi lengur gera læknisfræðilegar meðferðir að skilyrði fyrir breytingu á kynskráningu. Við teljum þó mjög alvarlegt að réttur barna til líkamlegrar friðhelgi njóti ekki verndar undir þessu frumvarpi. Markmið þessa frumvarps er að standa vörð um rétt sérhvers einstaklings til þess að taka eigin ákvarðanir um hvað sé gert við kyneinkenni þeirra. Það orkar tvímælis að eingöngu sé tryggður réttur þeirra sem náð hafa 16 ára aldri en ekki barna. Flest brot á líkamlegri friðhelgi þegar kemur að kyneinkennum eiga sér stað þegar einstaklingarnir eru á barnsaldri og því er ljóst að nær öll brot á líkamlegri friðhelgi verða ennþá leyfileg ef þessi drög verða að veruleika.

Núverandi drög gera ekki ráð fyrir að inngrip á kyneinkennum barna verði skráð. Intersex Ísland sér engin haldbær rök fyrir því að fresta lögbundna skráningu á inngripum í kyneinkennum barna. Engin tölfræði er til á Íslandi yfir umfang slíkra inngripa og teljum við algjöra lágmarkskröfu að sá hluti tilmæla Evrópuráðsins verði uppfylltur með þessari löggjöf.

Athugasemdir við einstakar greinar og kafla

I. kafli: Markmið og skilgreiningar

1) Skilgreining á kynvitund (6. mgr. 2.gr.)

Í skilgreiningu á kynvitund er þágufallsending sem á ekki heima þar. Rétt skilgreining væri: „Kynvitund: Upplifun einstaklings af eigin kyni og skilgreining hans á því.“

II. kafli: Réttur einstaklings til að skilgreina sjálfur kyn sitt.

1) Líkamleg friðhelgi og sjálfræði, ekki sjálfstæði (3.gr., d-liður)

Í d-lið 3. greinar hefur orðasambandinu „líkamleg friðhelgi og sjálfræði“ verið breytt í „líkamleg friðhelgi og sjálfstæði“, frá því sem var í fyrri útgáfum. Þetta er í engu samræmi við heiti, inntak og markmið frumvarpsdraganna.

2) Takmörkun á heimild til að breyta skráningu kyns (7. gr.)

Takmörkun á heimild til að breyta skráningu kyns tekur ekki tillit til raunveruleika margra undir trans regnhlífinni. Kynvitund einstaklinga getur þróast með tímanum og gerir frumvarpið ekki ráð fyrir því. Einstaklingar gætu líka þurft að breyta kynskráningu sinni af öryggisástæðum. Í mörgum löndum eru viðhorf til hinsegin fólks af allt öðrum toga en á Íslandi og öruggara getur verið fyrir einstakling að ferðast með skilríki sem samsvara fremur útliti en kynvitund manneskjunnar. Þessi takmörkun getur því heft ferðafrelsi einstaklings eða stefnt öryggi þeirra utan Ísland í hættu.

3) Lögfræðingur sérfræðinefndar skv. 9.gr.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum skal „lögfræðingur, tilnefndur af ráðherra sem fer með mannréttindamál,“ eiga sæti í sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningum barna. Intersex Ísland telur rétt að þessi lögfræðingur hafi sérþekkingu á réttindum barna, enda eru aðrir sérfræðingar nefndarinnar með málefni barna sem sérsvið.

III. kafli: Líkamleg friðhelgi og breytingar á kyneinkennum.

Intersex Ísland sér ekki hvernig hægt er að telja að núverandi drög uppfylli þingsályktun Evrópuráðsins þar sem börnum verður ekki tryggð vernd fyrir læknisfræðilegum inngripum sem mæta ekki brýnni heilsufarslegri nauðsyn. Að tryggja eingöngu líkamlega friðhelgi fyrir einstaklinga eldri en 16 ára, en ekki börn, er skýr mismunun á grundvelli aldurs. Intersex Ísland gerir því skýlausa kröfu að bætt verði við ákvæði sem tryggir börnum sömu vernd.

Við styðjum heilshugar þá útfærslu sem var hluti af frumvarpsdrögunum þegar þau voru afhent velferðarráðuneytinu veturinn 2017-18.

2) Skráningar á breytingum á kyneinkennum barna

Enga raunverulega tölfræði yfir varanlegar breytingar sem gerðar eru á kyneinkennum barna er að finna hérlendis. Algjört lágmarks skilyrði er að öll slík inngrip verði skráð svo hægt sé að sjá umfang slíkra inngripa hérlendis. Intersex Ísland sér engin haldbær rök fyrir því að halda ekki slíka skrá líkt og er gert með umfang ýmissa annarra læknisfræðilegra inngripa og meðferða hérlendis. Við leggjum því til að eftirfarandi grein verði bætt við í III. kafla:

„Læknar sem gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna skulu halda skrá yfir þær og veita landlækni árlega upplýsingar um fjölda og eðli inngripa og aldur þeirra sem þær undirgangast.“

3) Notkun orðsins „kynósamræmi“ í 12. og 13. gr.

Intersex Ísland sér ekki ástæðu fyrir því lögfesta greiningarheiti í íslenskri löggjöf. Slíkt var gert með lögum um réttarstöðu fólks með kynáttunarvanda, nr. 57/2012 og það fordæmi sýnir að slíkt er ekki ráðlagt. Slík lögfesting á greiningarheiti ýtir undir og styður við þá hugmynd að það að vera trans sé sjúkdómur en einnig þar sem greiningarheitið gæti tekið breytingum í framtíðinni. Ef frumvarp þetta verður að lögum er ljóst að lögin myndu sjálfkrafa verða úrelt ef greiningarheitið myndi breytast í framtíðinni.

a. Í heitum teymanna sem skilgreind eru í 12.gr. og 13.gr. verði orðinu „kynami“ skipt út fyrir „kynvitund“, sem svo: „Teymi Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum“, „Teymi barna- og unglingageðdeildar um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni“.

b. Í 3.málsl. 1.mgr. 13.gr. komi orðasambandið „sem upplifa ósamræmi milli kynvitundar sinnar og úthlutaðs kyns“ í stað „sem upplifa kynósamræmi“.

c. Í skilgreiningum (2.gr.) verði skilgreiningin á kynósamræmi (nr. 4) fjarlægð, enda komi orðið „kynósamræmi“ þá hvergi fyrir í texta frumvarpsins sjálfs.

V. Ákvæði til bráðabirgða

1) Samsetning starfshóps

Við leggjum til eftirtaldar breytingar á samsetningu starfshóps um breytingar á kyneinkennum barna:

a. Breytingar á kyneinkennum barna koma geðlækningum ekki við, því teljum við ónauðsynlegt að barnageðlæknir eigi sæti í hópnum.

b. Við teljum að tveir lögfræðingar eigi að sitja í hópnum, einn með sérþekkingu á mannréttindamálum og annar með sérþekkingu á réttindamálum barna þar sem starfshópnum er falið að semja frumvarp til laga um breytingar á þessum lagafrumvarpi.

c. Við teljum við að sjónarmið siðfræðinga ættu að hafa aukið vægi innan starfshópsins og leggjum til að þeir verði tveir frekar en einn.

d. Við teljum að setja ætti starfshópnum tímatakmörk og leggjum til 6 mánuði.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Samtökin '78,félag hinsegin fólks á Íslandi - 18.02.2019

Samtökin ’78 fagna því að forsætisráðuneytið leggi þetta metnaðarfulla frumvarp fram til Alþingis. Verði frumvarp þetta að lögum mun það hafa í för með sér gríðarlega mikilvægar réttarbætur og skipa Íslandi í fremstu röð hvað varðar kynrænt sjálfræði og viðurkenningu trans fólks.

Um leið gerum við alvarlegar athugasemdir við það að frumvarpið tryggi ekki börnum undir 16 ára aldri líkamlega friðhelgi og vernd gegn ónauðsynlegum inngripum í kyneinkenni þeirra. Yfirlýst markmið frumvarpsins er að standa vörð um rétt einstaklinga til líkamlegrar friðhelgi. Samkvæmt 3. gr. nýtur „sérhver einstaklingur … óskoraðs réttar til … líkamlegrar friðhelgi og sjálfstæðis [sic] varðandi breytingar á kyneinkennum.“ Það orkar því alvarlegs tvímælis að frumvarpið skilgreini einungis í hverju þessi friðhelgi felst fyrir einstaklinga yfir 16 ára aldri.

Þetta er þeim mun alvarlegra þar sem brot gegn sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga yfir kyneinkennum sínum eiga sér nær undantekningalaust stað á barnsaldri. Á það einkum við um intersex börn eða börn með ódæmigerð kyneinkenni, en alþjóðlegar rannsóknir meta að um 1 af hverjum 200 fæddum börnum séu í alvarlegri hættu á því að verða fyrir ónauðsynlegum og óafturkræfum inngripum í kyneinkenni sín. Samtökin ‘78 gera því þá skýlausu kröfu að við frumvarpið verði bætt ákvæðum sem tryggja líkamlega friðhelgi barna.

Athugasemdir við einstakar greinar og kafla

I. kafli: Markmið og skilgreiningar

1) Skilgreining á kynvitund (6. mgr. 2.gr.)

Í skilgreiningu á kynvitund hefur slæðst með þágufallsending sem ekki á heima þar. Rétt skilgreining væri: „Kynvitund: Upplifun einstaklings af eigin kyni og skilgreining hans á því.“

II. kafli: Réttur einstaklings til að skilgreina sjálfur kyn sitt.

1) Líkamleg friðhelgi og sjálfræði, ekki sjálfstæði (3.gr., d-liður)

Í d-lið 3. greinar hefur orðasambandinu „líkamleg friðhelgi og sjálfræði“ verið breytt í „líkamleg friðhelgi og sjálfstæði“, frá því sem var í fyrri útgáfum. Þetta er í engu samræmi við heiti, inntak og markmið frumvarpsdraganna.

2) Takmörkun á heimild til að breyta skráningu kyns (7. gr.)

Ýmsar gildar ástæður geta verið fyrir því að einstaklingur óski þess að breyta kynskráningu sinni oftar en einu sinni. Kynvitund einstaklinga getur þróast með tímanum, og einnig geta komið upp sérstakar aðstæður þar sem manneskja óttast um öryggi sitt ef hún notast við skilríki með réttri kynskráningu (t.d. við ferðalög til landa þar sem miklir fordómar ríkja í garð hinsegin fólks).

Samtökunum ‘78 er mjög til efs að þessarar greinar sé þörf. Hún stangast verulega á við markmið frumvarpsins um að einstaklingar skuli njóta sjálfræðis um kynskráningu sína. Verði hún áfram hluti af frumvarpinu mælumst við til þess að skilgreint verði hvaða stjórnvald metur hvort önnur breyting sé heimil. Einnig verði kveðið á um að heimilt sé að breyta kynskráningu aftur sé það í samræmi við þróun kynvitundar viðkomandi eða vegna aðstæðna þar sem núverandi skráning gæti stefnt öryggi viðkomandi í hættu.

3) Lögfræðingur sérfræðinefndar skv. 9.gr.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum skal „lögfræðingur, tilnefndur af ráðherra sem fer með mannréttindamál,“ eiga sæti í sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningum barna. Samtökin ‘78 telja rétt að þessi lögfræðingur hafi sérþekkingu á réttindum barna, enda eru aðrir sérfræðingar í nefndinni með málefni barna sem sérsvið innan síns fags.

III. kafli: Líkamleg friðhelgi og breytingar á kyneinkennum.

1) Líkamleg friðhelgi – vernd til handa börnum (11. gr.)

Líkt og fram kemur í inngangi að umsögn þessari, orkar alvarlegs tvímælis að frumvarpið skilgreini einungis í hverju líkamleg friðhelgi varðandi kyneinkenni felst fyrir einstaklinga yfir 16 ára aldri. Samtökin ‘78 gera þá kröfu að bætt verði við ákvæði sem kveður á um sambærilega vernd fyrir kyneinkenni barna. Við styðjum heilshugar þá útfærslu sem var hluti af frumvarpsdrögunum þegar þau voru afhent velferðarráðuneyti veturinn 2017-18.

2) Skráningar á breytingum á kyneinkennum barna

Tölfræði yfir varanlegar breytingar sem gerðar eru á kyneinkennum barna hérlendis er stórlega ábótavant. Nauðsynlegt er að öll slík inngrip verði skráð svo unnt sé að henda betur reiður á stöðu þessara mála í íslensku heilbrigðiskerfi. Við leggjum því til að eftirfarandi grein verði bætt við í III. kafla:

„Læknar sem gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna skulu halda skrá yfir þær og veita landlækni árlega upplýsingar um fjölda og eðli inngripa og aldur þeirra sem þær undirgangast.“

3) Notkun orðsins „kynósamræmi“ í 12. og 13. gr.

Einn stærsti gallinn á núgildandi lögum um málefni trans fólks, Lögum um réttarstöðu fólks með kynáttunarvanda, nr. 57/2012, er að þau byggja á hinu úrelta sjúkdómsheiti „kynáttunarvandi“ (e. gender identity disorder), sem hvarf út úr alþjóðlegum greiningarviðmiðum áður en umrædd lög voru samþykkt á Alþingi. Þessi reynsla sýnir hve varhugavert er að festa tilteknar greiningar í lög. Því er ekki að neita að þessi lög fela í sér nákvæmari útlistun á heilbrigðisþjónustu en gengur og gerist, en af því leiðir einnig að frumvarpið er ekki bundið af fordæmi um að nota skuli tiltekið greiningarheiti í lögum sem þessum. Samtökin ‘78 mæla því með að orðinu „kynósamræmi“ verði skipt út fyrir „kynvitund“, sem er hlutlaust, lýsandi, ólíklegt til að úreldast og felur ekki í sér tiltekna sjúkdómsgreiningu

Í heitum teymanna sem skilgreind eru í 12.gr. og 13.gr. verði orðinu „kynami“ skipt út fyrir „kynvitund“, sem svo: „Teymi Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum“, „Teymi barna- og unglingageðdeildar um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni“.

Í 3.málsl. 1.mgr. 13.gr. komi orðasambandið „sem upplifa ósamræmi milli kynvitundar sinnar og úthlutaðs kyns“ í stað „sem upplifa kynósamræmi“.

Í skilgreiningum (2.gr.) verði skilgreiningin á kynósamræmi (nr. 4) fjarlægð, enda komi orðið „kynósamræmi“ þá hvergi fyrir í texta frumvarpsins sjálfs.

V. Ákvæði til bráðabirgða

1) Samsetning starfshóps

Við leggjum til eftirtaldar breytingar á samsetningu starfshóps um breytingar á kyneinkennum barna:

Þar eð breytingar á kyneinkennum barna koma ekki geðlækningum við, teljum við ónauðsynlegt að barnageðlæknir eigi sæti í hópnum.

Verði starfshópnum falið að gera tillögu að breytingu á lögum munu sjónarmið og þekking lögfræðinga vega þar þungt. Við teljum því að tveir lögfræðingar eigi að sitja í hópnum, einn með sérþekkingu á mannréttindamálum og annar með sérþekkingu á réttindamálum barna.

Einnig teljum við að sjónarmið siðfræðinga ættu að hafa aukið vægi innan starfshópsins og leggjum til að þeir verði tveir frekar en einn.

Skyldu einhverjar spurningar vakna varðandi umsögn þessa má beina þeim til undirritaðrar.

F.h. Samtakanna ‘78

María Helga Guðmundsdóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Trans Ísland, félag transgender fólks á Íslandi - 18.02.2019

Reykjavík, 18. febrúar 2019

Umsögn um drög að frumvarpi um kynrænt sjálfræði (sjá viðhengi fyrir PDF útgáfu af umsögn).

Trans Ísland, félag trans fólks á Íslandi, lýsir yfir eindregnum stuðningi við drög að frumvarpi um kynrænt sjálfræði og fagnar því að frumvarpið sé nú loks að líta dagsins ljós. Frumvarpið er einstakt tækifæri fyrir íslenskt samfélag til að koma á fót stærstu réttarbót í réttindamálum trans fólks og intersex fólks hérlendis, ef ekki á heimsvísu.

Trans Ísland vill hinsvegar gera alvarlegar athugasemdir við að frumvarpið tryggi börnum undir 16 ára aldri ekki líkamlega friðhelgi, en slíkt fer gegn tilgangi og markmiði þessa frumvarps. Í 3. grein, lið (d er skýrt tekið fram að hver einstaklingur njóti óskorðars réttar til „líkamlegrar friðhelgi og sjálfræðis varðandi breytingar á kyneinkennum“. Það gefur því auga leið að slíkt ætti að ná yfir einstaklinga undir 16 ára aldri, en þau inngrip sem gerð eru á börnum með ódæmigerð kyneinkenni og intersex fólki eru nær öll framkvæmd á ungabörnum. Þau inngrip leiða til frekari inngripa síðar meir á lífsleiðinni og jafnvel í marga áratugi, ásamt því að sum inngrip gera einstaklinga háða hormónameðferð alla þeirra ævi.

Trans Ísland vill því undirstrika mikilvægi þess að líkamleg friðhelgi allra verði tryggð, til að standa vörð um réttindi barna og fólks sem hefur þurft að þola skömm og leyndarhyggju í marga áratugi af sökum óþarfra inngripa.

Athugasemdir við einstaka greinar og kafla frumvarpins

Kafli: Skilgreiningar (2. grein).

6. Kynvitund: Upplifun einstaklings af eigin kyni og skilgreiningu hans á því.

Hér hefur ratað inn þágufall á orðinu skilgreining, en rétt orðalag væri: „Kynvitund: Upplifun einstaklings af eigin kyni og skilgreining hans á því.“

II. Kaflli: Réttur einstaklinga til að skilgreina sjálfur kyn sitt.

Réttur einstaklings til að skilgreina sjálfur kyn sitt (3. grein), liður d).

Hér hefur orðinu „sjálfræði“ verið skipt út fyrir „sjálfstæði“. Slíkt breytir merkingu liðsins til muna og er ekki í samræmi við markmið og tilgang þessa frumvarps. Þess er því óskað að þessu sé breytt aftur til fyrra horfs.

Takmörkun á heimild til að breyta skráningu kyns (7. grein).

Óljóst er hér hvað er átt við með að „sérstaklega standi á“ og hver ákveður hvenær er nægileg ástæða til þess að fólk breyti oftar en einu sinni um kynskráningu. Hér er mikilvægt að undirstrika að kynvitund fólks getur verið breytileg og er því mikilvægt að tryggt sé að einstaklingar geti breytt kynskráningu sinni oftar en einu sinni. Sömuleiðis geta verið aðrar ástæður fyrir því að fólk vill breyta kynskráningu sinni og getur það t.d. átt við þegar fólk ferðast til landa þar sem eru miklir fordómar í garð hinsegin fólks og vilja því hafa kynskráningu sem ógnar ekki öryggi þeirra frekar.

Trans Ísland gerir því athugasemd við orðalagið og dregur í efa hvort að slíkrar greinar sé þörf. Hún stangast á við markmið frumvarpsins sem er að veita einstaklingum rétt á að ráða eigin kynskráningu. Að setja fólki höft um að breyta henni fer því þvert á markmið þessara frumvarps.

Ef talið er að það sé sérstaklega mikilvægt að tilgreina að fólk geti breytt kynskráningu sinni einu sinni nema að sérstaklega standi á, þá þarf orðalagið að vera opnara, tilgreint hver ákveður (hvaða stofnun eða yfirvald) hvenær það sé í lagi að breyta aftur og á hvaða grundvelli slíkar ákvarðanir eru teknar.

Sérfræðinefnd um breytingar á kynskráningu barna (9. grein).

Í sérfræðinefndinni er tilgreint að það þurfi að sitja lögfræðingur sem er skipaður af ráðherra sem fer með mannréttindamál, en Trans Ísland vill undirstrika að mikilvægt er að sá lögfræðingur hafi sömuleiðis reynslu af mannréttindum barna, enda allir aðrir sérfræðingar í nefndinni með sérstaka reynslu og sérfræðiþekkingu á því sviði.

III. Kafli: Líkamleg friðhelgi og breytingar á kyneinkennum.

Líkamleg friðhelgi og breytingar á kyneinkennum (11. grein).

Trans Ísland vill undirstrika mikilvægi þess að börn undir 16 ára aldri hljóti líka líkamlega friðhelgi og hvetja til þess að réttur þeirra verði einnig tryggður í þessu frumvarpi, enda það sá hópur sem er hvað viðkvæmastur og er mest hætta á að brotið sé á þeirra líkamlegu friðhelgi. Í upprunalegum drögum sem afhent voru Velferðarráðuneyti veturinn 2017-18 af vinnuhóp frumvarpsins var slíkur réttur tryggður og vill Trans Ísland undirstrika mikilvægi þess þær tillögur verði virtar. Mikilvægt er að hlustað sé á raddir þeirra sem sátu í þeim vinnuhóp, enda einstaklingar þar sem þetta á beint erindi við, og hafa inngrip í kyneinkenni barna haft alvarlegar neikvæðar afleiðingar á bæði líkamlega og andlega heilsu fólks í áratugi.

Skráning á breytingum kyneinkanna einstaklinga (viðbót)

Tölfræði yfir fjölda inngripa sem hafa verið framkvæmdar á kyneinkennum einstaklinga er sárlega ábótavant og hefur lengi ríkt mikil leynd varðandi þessi mál hérlendis sem og erlendis. Trans Ísland vill því hvetja til þess að sérstaklega verði tekið fram í 11. grein að slík inngrip eigi að vera skráð af þeim læknum og/eða heilbrigðissstarfsfólki sem framkvæma slík. Trans Ísland leggur því til að eftirfarandi verði bætt við 11. grein:

„Læknar sem gera varanlegar breytingar á kynfærum, kynkirtlum eða öðrum kyneinkennum barna skulu halda skrá yfir þær og veita landlækni árlega upplýsingar um fjölda og eðli inngripa og aldur þeirra sem þær undirgangast.“

Teymi Landspítala um kynósamræmi og breytingar á kyneinkennum (12. grein) og Teymi barna- og unglingageðdeildar um kynósamræmi og ódæmigerð kyneinkenni (13. grein).

Sjúkdómsvæðing í heilbrigðisþjónustu fyrir trans fólks hefur verið allsráðandi í íslenskum lögum, sem og erlendis. Núgildandi lög um réttarstöðu trans fólks bera heitið „lög um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda“ en kynáttunarvandi er þýðing á úrelta enska hugtakinu gender identity disorder.

Miklar breytingar hafa orðið á nálgun heilbrigðisþjónustu fyrir trans fólk og sömuleiðis greiningarferlum. Undanfarin áratug hefur hugtakið kynami (e. gender dysphoria) verið notað til að lýsa þeim ama og vanlíðan sem einstaklingar upplifa við að þurfa að lifa í röngu kyni, og hefur verið grundvöllur til að veita fólki þjónustu víðsvegar um heim. Í nýjustu útgáfu á ICD sem er gefin út af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni WHO (World Health Organization) hefur hinsvegar verið hörfað frá þeirra skilgreiningu og kynósamræmi (e. gender incongruance) komið þess í stað, sem lýsir sér sem ósamræmi milli kynvitundar og þess kyns sem viðkomandi fékk úthlutað við fæðingu.

Hugtakið hefur sömuleiðis verið fært úr kafla yfir geðgreiningar í ICD í kafla er varðar kynheilbrigði. Slíkt var gert til þess að draga úr þeim fordómum sem trans fólk hefur þurft að upplifa af sökum sjúkdómsvæðingar, þ.e. að kynvitund þeirra sé álitin geðrænt vandamál eða jafnvel geðsjúkdómur sem þarfnast meðhöndlunar. Sú stefna sem er nú tekin er að trans fólk sé ekki haldið neinskonar geðsjúkdóms, en þarfnist ákveðinnar meðferðar til að geta lifað sínu lífi til fulls í samræmi við eigin kynvitund, ella leiði það til mun lægri lífsgæða og jafnvel alvarlegra geðrænna vandamála sem geti jafnvel leitt til sjálfsvígs.

Þar sem þetta frumvarp gengur út á það að einstaklingar eigi að geta skilgreint sitt eigið kyn í samræmi við eigin kynvitund vill Trans Ísland því leggja til að orðið „kynvitund“ verði sett inn í stað orðsins „kynósamræmi“ í orðalagi frumvarpsins. Slíkt orðalag er ekki einungis til þess að draga úr sjúkdómsvæðingu og þeim fordómum sem henni fylgja, heldur nær heitið mun betur utan um þann víða hóp sem gæti sótt sér heilbrigðisþjónustu af þessu tagi. Slíkt orðalag verður mun síður úrelt og er mun meira lýsandi fyrir störf teymisins.

Trans Ísland leggur því til að breytingar eigi sér stað á eftirfarandi stöðum:

a) Í heitum teymanna sem skilgreind eru í 12. gr. og 13. gr. verði orðinu „kynami“ skipt út fyrir „kynvitund“, sem svo: „Teymi Landspítala um kynvitund og breytingar á kyneinkennum“ og „Teymi barna- og unglingageðdeildar um kynvitund og ódæmigerð kyneinkenni“.

b) Í 3. málsl. 1. mgr. 13.gr. komi orðasambandið „sem upplifa ósamræmi milli kynvitundar sinnar og úthlutaðs kyns“ í stað „sem upplifa kynósamræmi“.

c) Í skilgreiningum (2. gr.) verði skilgreiningin á kynósamræmi (nr. 4) fjarlægð, enda komi orðið „kynósamræmi“ þá hvergi fyrir í texta frumvarpsins sjálfs.

V. Ákvæði til bráðabirgða

Trans Ísland finnst mikilvægt að tryggt sé aðgengi hinsegin fólks og sömuleiðis muni sérfræðihópurinn vera í samræmi við markmið frumvarpins. Við leggjum því fram eftirfarandi breytingar á samsetningu sérfræðihópsins um breytingar á kyneinkennum barna:

Þar sem breytingar á kyneinkennum barna koma ekki geðlækningum beint við, teljum við óþarfi að barnageðlæknir eigi sæti í þeim hóp.

Ef sérfræðihópurinn eigi að gera tillögur að breytingum á lögum munu sérfræðiþekking og tillögur lögfræðinga vega þungt í starfi hópsins. Við teljum því þörf á að allavega tveir lögfræðingar eigi sæti í þeirra nefnd, einn með sérfræðiþekkingu á mannréttindamálum og annar með sérþekkingu á réttindamálum barna..

Einnig leggjum við til að bætt verði við öðrum siðfræðing, enda málið mjög háð félagslegum og samfélagslegum gildum og er vægi þeirra því mjög mikilvægt í hóp sem þessum.

Ef einhverjar spurningar skyldu vakna er sjálfsagt að beina þeim til undirritaðar eða stjórnar Trans Íslands.

f/h Trans Íslands, félags trans fólks á Íslandi

(sjá viðhengi fyrir undirritað eintak)

___________________________________________________________

Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur

uglastefania@gmail.com

stjorn@transisland.is

Afrita slóð á umsögn

#22 Umboðsmaður barna - 18.02.2019

Meðfylgjandi er umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Anton Örn Janusson - 18.02.2019

Þetta frumvarp er mikilvægt. Bæði fyrir intersex fólk og transfólk.

Afrita slóð á umsögn

#24 Aðalheiður Bjarnadóttir - 18.02.2019

Ég er fylgjandi!

Afrita slóð á umsögn

#25 Sæborg Ninja Urðardóttir - 18.02.2019

Þetta er gífurlega gott og þarft frumvarp sem mun bæta hag ótal manns. Ég vil bara taka undir með álitum Samtakanna 78, Intersex Ísland og Trans Ísland.

Afrita slóð á umsögn

#26 Halldóra Guðlaug Steindórsdóttir - 18.02.2019

Sem móðir tæplega 15 ára trans drengs vil ég láta vita að ég styðji þetta frumvarp og tel það vera mikla bót á stöðu trans fólks á Íslandi.

Það er erfitt að finna nógu þýðingarmikil orð til að útskýra hversu íþyngjandi áhrif það hefur á barn sem upplifir sig sem dreng og gengst við karlkyns nafni það er að fá ekki að breyta kyni og nafni sínu. Því fylgja ýmsar óvelkomnar áminningar um þetta í hvert einasta skipti sem hann þarf að nota skilríki eða eiga samskipti við fyrirtæki, opinbera aðila eða aðra aðila sem stóla á Þjóðskrárupplýsingar í samskiptum, skjölum og skráningum.

Eftir að barnið mitt "kom út" sem trans og samfélagið tók vel á móti þessu nýja sjálfi þá fór lífið að ganga miklu betur. Barnið mitt fann sitt sanna sjálf. Honum leið betur í eigin skinni, varð öruggari með sig, tók meiri þátt í leik og starfi, einkunnir fóru upp á við og allt lífið varð miklu bjartara og gleðilegra.

Þetta var að undangegnum afar erfiðum árum sem einkenndust af lélegri sjálfsmynd, vanlíðan, depurð og kvíða.

Ég vona af öllu hjarta að sá dagur renni upp fljótlega að við getum fylgt þessu eftir alla leið og fengið hans rétta kyn og nafn skráð í Þjóðskrá.

Það er ekki léttvæg ákvörðun að breyta nafni sínu eða kyni, einstaklingur stígur ekki svo stórt skref nema vera verulega sannfærður og finna djúpstæða tengingu við annað kyn en það sem líkami hans gefur til kynna.

Ég tel að reglan um eina nafnabreytingu sé skynsamleg meginregla en einnig að mikilvægt að undanþágan sé til staðar.

Trans einstaklingarnir sjálfir og aðstaðandendur munu líklega vera búin að tileinka sér nýtt nafn og nýtt kyn í lengri tíma áður en það skref er stigið að fara í þessa skráðu breytingu í Þjóðskrá.

Þess vegna mun áfram skipta máli að samtök, fyrirtæki og stofnanir tileinki sér að leyfa skjólstæðingum/viðskiptavinum sínum að skrá annað nafn til nota í samskiptum við þá.

Sem dæmi, þá hefur það reynst okkur mikilvægt dags daglega að í Mentor (kerfi sem grunnskólar nota) geti grunnskólinn skráð inn annað nafn, því á næstum hverjum einasta degi loggar barn og foreldri sig inn og kerfið heilsar með nafni í efra hægra horni. Á hverjum einasta degi fer einhver kennari inn í Mentor og skráir ástundun eða les upp nöfn nemenda. Það væri stöðug áminning um gamla nafnið og gamla kynið, stöðug hindrun í að fá að tjá sig með sínu rétta kyni og venja nærsamfélagið á það þrátt fyrir að formleg skráning í Þjóðskrá hafi ekki enn átt sér stað.

Ég hvet því alla aðila til að leyfa viðskiptavinum/skjólstæðingum sínum að skrá annað nafn hjá þeim en það sem er í Þjóðskrá.

Afrita slóð á umsögn

#27 Sigríður Birna Valsdóttir - 18.02.2019

Í starfi mínu sem fjölskyldufræðingur/ráðgjafi hjá ráðgjafaþjónustu Samtakanna ´78 hef ég síðustu árin unnið mikið með trans fólki á öllum aldri m.a. börnum og ungmennum og aðstandendum þeirra. Ég gleðst mikið yfir þessu frumvarpi og vona innilega að það fari í gegn fljótt og vel. Mörg af þessum börnum lifa í stöðugum ótta við að vera miskynjuð sökum þess að nafnið er ekki rétt skráð opinberlega. Þessi ótti getur valdið miklum kvíða og vanlíðan. Biðin og baráttan við að fá rétta skráningu og þjónustu í heilbrigðiskerfinu hefur verið mörgum of erfið. Það er löngu tímabært að þessi grunnmannréttindi séu færð í lög.

Mig langar sérstaklega að benda á nokkur atriði.

7. grein – takmörkun á heimild til að breyta skráningu kyns. –Það er nokkuð ljóst að fólk leikur sér ekki að því að breyta skráningu á kyni og nafni að ástæðulausu en hvernig fólk upplifir kyn sitt getur verið flæðandi og það getur breyst. Þess vegna hefði ég viljað sjá að þessi takmörkun væri ekki í frumvarpinu.

5. og 9. grein - Það er mjög mikilvægt að sérfræðinefnd taki fyrir mál þeirra barna sem ekki njóta stuðnings forráðamanna sinna. Rannsóknir sýna að trans börn og ungmenni sem ekki njóta stuðnings fjölskyldu og nærsamfélags eru í margfaldri hættu á mikilli vanlíðan og sjálfskaða. Þetta ákvæði er því mjög mikilvægt.

Ég harma það hins vegar að ónauðsynleg inngrip í kyneinkenni barna skuli vera sett í ákvæði til bráðabirgða. Það hefði átt að vera grein í þessu frumvarpi þar sem fram kemur að kyneinkennum barna sé ekki breytt án þeirra samþykkis, það getur haft gríðarleg áhrif á lífsgæði og líðan fólks allt þeirra líf ef gerðar eru slíkar aðgerðir á því á ungaaldri. Það ætti alls ekki að vera leyfilegt að gera slíkar aðgerðir á einstaklingum sem ekki hafa náð aldri til þess að gefa samþykki sitt. Það er ekki að ástæðulausu sem samtök Intersex fólks hafa barist gegn slíkum aðgerðum í mörg ár.

Afrita slóð á umsögn

#28 UNICEF á Íslandi - 19.02.2019

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#29 Kvenréttindafélag Íslands - 19.02.2019

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#30 Barnaheill - 19.02.2019

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#31 Amnesty International - 19.02.2019

Sjá viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#32 Transteymi BUGL - 05.03.2019

Sjá viðhengi

Viðhengi