Samráð fyrirhugað 14.02.2019—28.02.2019
Til umsagnar 14.02.2019—28.02.2019
Niðurstöður í vinnslu frá 28.02.2019
Niðurstöður birtar 11.06.2019

Drög að reglugerð um bann við álaveiðum

Mál nr. 48/2019 Birt: 14.02.2019 Síðast uppfært: 11.06.2019
  • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Sjávarútvegur og fiskeldi

Niðurstöður birtar

Niðurstaða málsins er í stuttu máli sú að þrjár umsagnir bárust um drögin að reglugerðinni. Með tölvubréfi, dags. 20. mars 2019 óskaði ráðuneytið eftir áliti Hafrannsóknastofnunar á innsendum athugasemdum. Í bréfi Hafrannsóknastofnunar, dags. 2. apríl 2019, er fjallað um umsagnirnar og tekin afstaða til þeirra atriða sem þar koma fram. Einnig kemur þar fram að með reglugerðinni náist nokkur mikilvæg markmið. Nýting áls verði í höndum veiðiréttarhafa sem beri ábyrgð á nýtingu. Frekari upplýsingar fáist um ástundun, afla og útbreiðslu sem síðar geti orðið mikilvæg undirstaða þess að hægt sé að rannsaka vistfræði og veiðiþol stofnsins frekar. Komið sé til móts við tilmæli alþjóðastofnana um að setja reglugerðir til verndar álastofnum á meðan það ástand vari sem nú sé varðandi minnkandi stofnstærð og veiðiþol. Sú reglugerð sem fram sé komin sé í anda varúðarreglu og í samræmi við ábyrga stjórnun fiskveiða. Drögin voru gefin út sem reglugerð nr. 408/ 2019, um bann við álaveiðum. Hér fyrir neðan er slóð á reglugerðina í Stjórnartíðindum. https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=51f2ab03-adaa-4855-9ce8-beb952bf277f

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 14.02.2019–28.02.2019. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 11.06.2019.

Málsefni

Um er að ræða drög að reglugerð um bann við álaveiðum sem áformað er að setja samkvæmt heimild í 2. mgr. 20. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Með lögum nr. 29/2018, um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, var lögfest ákvæði sem varð 2. mgr. 20. gr. laganna þess efnis að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti með reglugerð sett reglur um álaveiðar, m.a. um að banna eða takmarka álaveiðar um allt land eða á tilteknum svæðum ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.

Markmið með setningu reglugerðar nú er að að vernda álastofninn hér á landi gegn ofveiði en samkvæmt reglugerðinni er gert ráð fyrir að allar álaveiðar verði óheimilar hér á landi, með tilteknum undantekningum þar sem gert er ráð fyrir að hægt verði að veita leyfi til veiða á áli til eigin neyslu.

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um ál barst ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar, dags. 22. júní 2018.

Í henni kemur fram m.a. að álastofninn sé í hættu og þoli illa veiðar. Meðan svo er sé það ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að bann verði sett á allar álaveiðar hér á landi. Jafnframt að ef áll veiðist í silungs- eða laxveiðiám verði skylt að sleppa honum. Hafrannsóknastofnun leggi til við ráðuneytið að það beiti sér fyrir slíkri alfriðun sem standi á meðan ástand stofnsins sé undir settu viðmiði. Í tilvikum þar sem sýna megi fram á að álaveiðar hafi verið eða verði stundaðar sem búsílag verði heimilt að sækja um undanþágu frá banni við álaveiði til eigin neyslu. Það leyfi verði háð því skilyrði að inn verði sendar skýrslur um sókn og afla í veiðunum. Með því móti megi fá frekari upplýsingar um fjölda þeirra sem hafi stundað álaveiðar, fá fram afla á sóknareiningu, landsvæði, afla og mögulega fá sýni af veiddum fiskum til frekari rannsókna. Þannig fáist frekari upplýsingar um veiðarnar og ástand álastofnsins hér á landi sem geti orðið grunnur að endurskoðun á ráðgjöf um álaveiðar ef tilefni verður til þess.

Lagt er til að farið verði eftir þessari ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og reglugerðardrög þau sem hér eru birt til umsagnar eru í samræmi við hana.

Samantekt

Markmið með setningu þessarar reglugerðar nú er að að vernda álastofninn hér á landi gegn ofveiði. Samkvæmt reglugerðardrögunum er gert ráð fyrir að allar álaveiðar verði óheimilar hér á landi, með tilteknum undantekningum þar sem gert er ráð fyrir að hægt verði að veita leyfi til veiða á áli til eigin neyslu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Jóhannes Laxdal Baldvinsson - 18.02.2019

Ég mótmæli harðlega þeim hroðvirknislegu vinnubrögðum sem birtast hér í þessari svokölluðu samráðsgátt.

Sú litla þekking sem þó var til hér á landi um íslenzka álinn virðist hafa farið forgörðum við samruna Hafrannsóknarstofnunarinnar og Veiðimálastofnunarinnar 2016. Þau trúarbrögð sem virðast gegnumgangandi hjá ICES og Hafró, að veiðar mannsins séu afgerandi þættir í nýliðun og stofnstærðum hinna ýmsu fiskstofna á norðurslóðum styðjast ekki við neinar vísindalegar rannsóknir. Í umsögn Hafrannsóknarstofnunar er þetta viðurkennt en samt er mælt með alfriðun vegna lélegrar nýliðunar!

Þegar svona er staðið að ráðgjöf hljóta að vakna efasemdir um vísindalega nálgun þessarar stofnunar sem á samkvæmt lögum að vera stjórnvöldum til ráðgjafar.

Af þessum ástæðum einum hlýtur ráðuneytið að hafna þessum tilmælum ICES um alfriðun íslenzka álastofnsins.

Bjarni Jónsson fiskifræðingur veit sennilega meira um íslenzka álinn en allir fræðingar Hafró til samans. Kannski að ráherrann leitaði eftir áliti hans og svo ekki sé minnst á þá bændur sem hafa smá nytjar af þessum veiðum. Ef staðið yrði rétt að málum gætu einmitt veiðar aukið þekkingu á þessum stofni sem er mjög verðmæt matvara í Asíu.

Hafrannsóknir eru í skötulíki og ráðgjöfin óvísindaleg. Legg til að ráðuneytið láti gera stjórnsýsluúttekt á Hafrannsóknarstofnun líkt og gert var með Fiskistofu. Fiskveiðar gætu staðið undir miklu stærri hluta af útgjöldum ríkisins en nú er, bara ef veiðiráðgjöfin byggði á raunverulegri stofnstærð en ekki uppdiktaðri aflareglu.

Afrita slóð á umsögn

#2 Atli Árnason - 21.02.2019

Ágæti ráðherra!

Meginástæða mín til umsagnar er að ég tel

1. Grundvöll ákvarðana og stefnu reglugerðarinnar langt fyrir utan meðalhóf stjórnsýslu. Þarna er farið algjöru offari. Banna landeigendum að nytja sitt land sem eiga allt undir því að viðhalda lífríkinu á viðkomandi landi.

Sölubann þegar áll úr sama stofni er fluttur inn í matarbúðir er undarleg mismunun

2. Þekkingarleysi á hegðun álsins gagnvart íslandi er mjög léleg og muni ekki skána með slíku banni nema með ærnum tilkostnaði af opinberri hálfu. Miðað við peningaþörf í stjórnkerfinu er það ólíklegt að það verði gert . Frekar ætti að hvetja landeigendur til að leggja álagildrur hér og þar í alls kyns tjörnum og víðar til að kanna af alvöru útbreiðslu álsins og senda upplýsingar þar um. Ekki má gleyma að áll(einnig gleráll) getur ferðast landleiðina þegar þarf

3. Hvergi séð sönnun á því að Áll sem hefur alist upp hér á Íslandi hafi náð að hrygna og eiga afkvæmi sem svo hafi aftur "borist" sem gleráll með golfstraumnum til Íslands þar sem állinn hrygnir að sögn á miklu dýpi enda erfitt um vik tæknilega.

4. Ef virkilega er áhugi á að styðja við vöxt ála á Íslandi þá væru það að auðvelda glerálnum uppgöngu og vernda þær umhverfisaðstæður og þekktu leiðir frá fornu fari sem gleráll nýtir sér á Íslandi ef svo vill til að golfstraumurinn ber þá til Íslands.

'Allinn lifir eftir að inn í land er komið á leirkenndum botni þar sem hann getur grafið sig niður í leirinn. Kemur aðeins upp til að nærast þegar hitastig í umhverfinu hefur náð >10 gr. Sækir því eðlilega í læki og afföll sem hafa aðgang að heitu vatni eða tjarnir sem hitna vel í sól.

4. Markmiðum reglugerðarinnar mætti því ná með miklu einfaldari aðgerðum. Skráðir séu veiðistaðir samkvæmt tilkynningum um veiðar. Umhverfi þar sem slíkar veiðar séu stundaðar sé kannað og komist að því hvað gerir vöxt áls á því svæði mögulegan. Unnið sé skipulega að því að vernda þær nátturulegu aðstæður sem gera það kleyft. Gerðar verði rannsóknir á glerálagöngum í sama tilgangi og meira að segja hægt að ala upp þann glerál og/eða sleppa honum á lífvænleg svæði.

5. Veit af því að það sé almennur ótti um framtíð álsins í Evrópu sem lifir þessu flókna lífsmunstri. Hugsanlega er þetta meginástæða þess að Hafró fari fram með þetta. Mikilvægt þá að gleyma því ekki að Ísland er og hefur verið á mörkum nýrstu útbreiðslu álsins(sem hér kemur frá hryggningarsvæðinu) og algjörlega háð stefnu og styrkleika golfstraumsins hvernig éða hvort áll kemur hér að landi hverju sinni. Auk svo nátturulegra óvina fiska og svo sérstaklega fugla þegar glerállin er að skríða upp auk umhverfistruflana svo sem mannvirki(Brýr hús og hafnir) og mengun (Skolp)

Áll er aðallega í dag í Evrópu veiddur sem gleráll komandi með golfstraumnum í stórum gildrum(háfum) í sjó ( Eystrasaltið og víðar og tekinn í eldi. Einnig er hann veiddur þá mest í árósum þar sem fullorðni állinn er að undirbúa sig undir ferðalagið langa.

Á ´´Islandi hafa ekki verið skipulagðar glerálaveiðar svo ég viti til og því mikilvægt að rannsaka það hvar áll berst að landi hringinn í kringum landið.

Erum við ef til vill að uppfylla einhverja óskhyggju að geta krossað við að á Íslandi séu álveiðar bannaðar af því við séum svo mikilir náttúruverndarsinnar??

Hvað er ég að skipta mér af þessu?

Hef verið áhugamaður um ál og álaveiðar frá 5 ára aldri eða í 63 ár. Kynntist álnum fyrst sem barn að Reykjum í Mosfellsbæ þar sem eitt sumarið fylltist Varmáin sá litli og þá hlýi lækur sem rennur í gegnum Álafoss af glerálum. Við krakkarnir óðum í ánni og liftum steinum og náðum með sigtum glerálum sem földu sig þar undir og settum í glerkrukkur.

Síðan var farið þegar eldri að veiða ál með öngli og veiðistöngum í Varma við Brúarland og þótti best að beita osti. Síðan var girnið haft 3 falt því áll ef hann beit á átti til að vefja sig utan um alls kyns drasl sem var í læknum (járn og drasl sem hafði verið hent í ánna) og togaði á móti. Þetta voru spennandi veiðar fyrir okkur börnin. Launin voru þau að borða svo steiktan ál að dönskum hætti.

Keypti mér um þrítugt eina litla álagildru í Danmörku á veiddi síðan ál með mjög góðun árangri vestast í Vífilsstaðavatni með leyfi landráðanda.

Lét reykja álinn og borðaði einnig steyktan en allt til eigin neyslu. Hef síðan díft gildrunni minni sem komin er talsvert til ára sinni hér og þar m.a. í ófiskgenga leirtjörn í Álftafirði Eystra og viti menn þar var líka áll.

Mín tilfinnig er sú að áll sem gengur til Íslands þurfi að jafnaði talsvert lengri tíma(>15 ár) til að verða kynþroska og ganga aftur til sjávar en í hlýrri löndum(8-10 ár).

Á núna jörð norður á Melrakkasléttu með miklum leir í botninum og er spenntur fyrir að prófa álaveiðar þar þegar hitastig vatnsins fer yfir 10 gráður.

Þessi reglugerð mundi ef af yrði hindra það. Get heldur ekki ímyndað mér að það séu margir einstaklingar sem fengju leyfi miðað við drögin að veiða ál til eigin nota!

Bann við sölu á ál væri klár mismunun meðan áll úr sömu stofnum er veiddur og seldur hingað frá nágrannal-öndum.

Niðurstaða : Skora á Kristján Þór Júlíusson ráðherra að hætta við setningu þessararreglugerðar og krefjast skynsamlegri tillagna frá sínum undirmönnum og stofnunum.

Ef þetta snýst um sérhagsmuni lax og silungsveiða þá þarf að leysa það á annan hátt.

mbkv Atli Árnason

Afrita slóð á umsögn

#3 Jón Kristjánsson - 27.02.2019

Ég undirritaður legg til að þessi reglugerð verði dregin til baka.

Órökstutt er að áll sé í hættu vegna ofveiði almennt og alls ekki hér á landi. Tilgátan um að minnkandi hrygningarstofn sé orsök minnkandi reks álalirfa til Evuópu er hrein ágiskun. Það þarf ekki miklar breytingar á hafstraumum eða almennu náttúrufari til að það komi fram í minnkuðu reki álalirfa.

Ég vann á Veiðimálastofnun í 17 ár og kom m.a. að álaveiðum og verkefnum þar tengdum, dreifði álagildrum til bænda og hvatti þá til að nýta auðlindana, yfirleitt við litlar undirtektir viðkomandi. Ég álít að álaveiði á Íslandi sé afar lítil og efast um að aflinn nái 10 tonnum. Bann við álaveiðum gerir þeim örfáu sem nýta hann til matar erfitt fyrir og býr til lögbrjóta.

Á Íslandi er miklu meira um ál en menn halda, hann gerir lítið vart við sig. Hann er í öllum vötnum og síkjum sem hafa samband við sjó frá Hornafirði til Vestfjarða. Hann festist ekki í netum en oft má sjá merki um hann því hann skilur eftir sig slímhringi í möskvunum þegar hann treður sér í gegn. Bann við álaveiðum er hreinlega hlægilegt.

Þessi beiðni um álaveiðbann er sett fram að kröfu ICES enda veit Hafró lítið um ál og álaveiðar á Íslandi að eigin sögn:

"Eins og áður sagði eru ekki fyrirliggjandi tölur um álaveiði hér á landi. Ekki eru neinar rannsóknir á nýliðun eða vöktun í gangi hér á landi og því ekki til sértækt mat á veiðiþoli."

Samt segja þeir: "Álastofninn er í hættu og þolir illa veiðar. Meðan svo er er það ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar að bann verði sett á allar álaveiðar hér á landi. Jafnframt að ef áll veiðist í silungs eða laxveiði verði skylt að sleppa honum."

Ekki er samt meiri alvara í þessu en að lagt er til að heimilt verði að sækja um undanþágu til veiða ál til eigin neyslu, m.a. til að afla uppplýsinga um afla og sókn, gögn sem má afla með smávegis símavinnu og vettvangsferðum.

Þrátt fyrir að ICES hafi lagt til bann við öllum álaveiðum frá árinu 2000 er uppgefinn ársafli 2-3 þús. tonn frá árinu 2009. Það eru því ekki allir sem hlusta á ráðgjöfina.

Væntanleg reglugerð er algerlega óþörf og bakar meiri vandræði en gagn. Hana ber að draga til baka.

Virðingarfyllst,

Jón Kristjánsson fiskifræðingur

Afrita slóð á umsögn

#4 Hafrannsóknastofnun - 11.06.2019

Sjá viðhengi.

Viðhengi