Samráð fyrirhugað 17.09.2018—25.09.2018
Til umsagnar 17.09.2018—25.09.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 25.09.2018
Niðurstöður birtar 09.10.2018

Þjóðarsjóður

Mál nr. 131/2018 Birt: 17.09.2018 Síðast uppfært: 30.10.2018
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir

Niðurstöður birtar

Alls bárust sjö umsagnir í opnu samráðsferli um áformin. Í þeim voru efnislegar ábendingar um mikilvægi þess að sjóðnum væri tryggt sjálfstæði, gætt væri að kynjahlutföllum í stjórn hans, horft yrði til Noregs varðandi fyrirmyndir og skýr mörk væru á milli hlutverks Náttúruhamfaratryggingar Íslands og Þjóðarsjóðs. Þessar ábendingar eru allar í samræmi við það sem lagt var upp með frá upphafi af hálfu ráðuneytisins sem og sérfræðingahópsins.

Í umsögn Samorku (samtök orku- og veitufyrirtækja) var bent á mikilvægi þess að ekki yrðu um nýja og íþyngjandi gjaldtöku af orkufyrirtækjum að ræða. Engin gjaldtaka er fyrirhuguð í frumvarpinu, heldur einungis gert ráð fyrir auknum tekjum sem leiða beint af eignarhaldi á fyrirtækjum og auðlindum. Einnig er af hálfu samtakanna bent á að of rík arðsemiskrafa geti skert samkeppnishæfni. Undir þetta tekur ráðuneytið, enda hluti af almennri eigendastefnu ríkisins að ríkissjóður skuli einungis fá „eðlilegan arð af eigin fé í samræmi við áhættu rekstrar“. Gert er ráð fyrir að auknar tekjur af eignarhaldi orkufyrirtækja og auðlinda komi til vegna aukinnar arðsemi fyrirtækjanna og eðlilegs gjalds vegna nýtingar auðlinda.

Þá er kallað eftir því af hálfu Samtaka iðnaðarins að fjárfestingarstefna sjóðsins liggi fyrir þegar málið er tekið til afgreiðslu á Alþingi, sem og skilyrði útgreiðslu. Sú ábending á rétt á sér upp að vissu marki, enda er ætlunin með samningu frumvarpsins að meginlínur fjárfestingarstefnu verði lögákveðnar og skilyrði útgreiðslu lögbundin. Gagnrýnt er í sömu umsögn að hluti af fjárveitingum til sjóðsins fari fyrst um sinn í önnur verkefni og því lýst að þar með hafi freistnivandi vegna fjármunanna þegar raungerst. Tilhögunin, sem er tímabundin, byggir á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og því er ekki staldrað frekar við athugasemdina.

Í umsögnum Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins er vikið að stöðu lífeyrisskuldbindinga ríkisins og því velt upp hvort fjármunum væri betur varið til uppgreiðslu þeirra. Jafnframt er bent á möguleg ruðningsáhrif sjóðsins á gjaldeyrismarkaði. Af hálfu síðarnefnda hagsmunaaðilans er auk þess lagt til að fremur verði ráðist í lækkun skatta vegna þess svigrúms sem aukinn arður af orkuauðlindum kann að skapa. Þessu er til að svara, í fyrsta lagi, að ríkisábyrgð á skuldbindingum A-deildar LSR var aflétt eftir uppgjör á deildinni árið 2016 og að með ráðstöfunum af hálfu ríkissjóðs sem þegar eru hafnar og m.a. er gerð grein fyrir í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að B-deild LSR geti staðið skil á skuldbindingum sínum að fullu. Í öðru lagi, varðandi áhrif á gjaldeyrismarkað ber að líta til þess að þær auknu tekjur sem um ræðir hefðu að öðrum kosti mögulega verið varið í að greiða skuldir orkuvinnslufyrirtækja, sem eru að stóru leyti í erlendri mynt. Þá mætti skoða þann möguleika við arðgreiðslur að þær verði að hluta til í erlendri mynt og renni þannig inn á innstæðureikning ríkissjóðs í stað þess að fara í gegnum gjaldeyrisjöfnuð þótt þetta fjárstreymi verði varla í þeim mæli að það hafi teljandi áhrif. Loks, að því er varðar hugmyndir um skattalækkanir, þá er til þess að líta að ekki er fullvissa um hinar auknu tekjur af orkufyrirtækjum til langs tíma litið og því ekki æskilegt að nýta þær eins og hefðbundna tekjustofna til að standa undir auknum ríkisútgjöldum eða sem forsendu fyrir lækkun skatttekna, auk þess sem fjárhagslegur viðbúnaður til að mæta stóráföllum yrði lakari fyrir vikið.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.09.2018–25.09.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 09.10.2018.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp til laga um að komið verði á fót varúðarsjóði til að mæta hugsanlegum fátíðum efnahagslegum skakkaföllum.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp til laga um að komið verði á fót varúðarsjóði til að mæta hugsanlegum fátíðum efnahagslegum skakkaföllum s.s. vegna vistkerfisbrests eða náttúruhamfara. Sjóðnum verði sett sérstök stjórn, sem hafi yfirumsjón með rekstri og fjárfestingum hans á erlendum fjármálamörkuðum. Framlög ríkissjóðs til sjóðsins verði jafnhá nýjum tekjum frá orkuvinnslufyrirtækjum í eigu ríkisins sem horfur eru á að falli til á komandi árum. Verði ríkissjóður fyrir verulegum fjárhagslegum skaða af völdum ófyrirséðs áfalls sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir verði heimilt með samþykki Alþingis að veita fé úr Þjóðarsjóði til ríkissjóðs, sem nemi allt að helmingi eigna sjóðsins á hverjum tíma.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Kristín Vala Ragnarsdóttir - 19.09.2018

Mikilvægt er að sjóðurinn hafi stjórn sem er algjörlega óháð stjórmálamönnum á hverjum tíma. Einnig þarf sjóðurinn að hafa jöfn kynjahlutföll, allavega einn siðfræðing, og einn erlendan aðila.

Þar sem ég hef reynslu af því að stjórnarmönnum ríkisfyrirtækja sé skipt út við hverjar kosningar, legg ég til að allir sjóðsnefndarmenn verði kosnir í 3-4 ár, megi etv sitja í 2 tímabil, aldrei lengur og skuli ekki vera skipt út við hverja kosningu til alþingis. Sjóðurinn sé þannig óháður pólitík á hverjum tíma.

Ég bið hér með um að leitað verði til Norðmanna um aðstoð við að setja upp, reka sjóðinn og siðfræðiviðmið þeirra við fjárfestingaval - til að læra af þeirra 25 ára reynslu í að reka sinn olíusjóð.

Afrita slóð á umsögn

#2 Samband íslenskra sveitarfélaga - 24.09.2018

Hjálagt sendist umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um áform um setningu laga um stofnun Þjóðarsjóðs. gerð er alvarleg athugasemd við stuttan umsagnartíma um málið.

F.h. sambandsins

Guðjón Bragason

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Baldur Dýrfjörð - 24.09.2018

Fjármála og efnahagsráðuneytið

Umsögn um áform um lagasetingu - Þjóðarsjóður Samráðsgátt mál - S-131/2018

Hjálögð er umsögn Samorku um málið ásamt fylgiskjali.

Kveðja, Baldur Dýrfjörð

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Baldur Dýrfjörð - 24.09.2018

Fylgiskjal með umsögn Samorku.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Náttúruhamfaratrygging Íslands - 24.09.2018

Fram kemur að sjóðnum verði ætlað að gegna því meginhlutverki að verða eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag. Er hér átt við stórfelldar náttúruhamfarir, sjúkdóma og önnur áföll, sem valda stórfelldu efnahagslegu tjóni umfram þann skaða sem tryggður er með öðrum hætti s.s. með náttúruhamfaratryggingum hjá NTÍ.

Með lagasetningunni er áformað að komið verði á fót varúðarsjóði með sérstakri stjórn, sem hafi yfirumsjón með rekstri og fjárfestingum hans. Í áformum um lagasetninguna koma fram hugmyndir um að greiðslur úr Þjóðarsjóði komi til í stóráföllum þar sem tjón væri a.m.k. 50 milljarðar umfram það sem kynni að verða borið af öðrum tryggingum.

NTÍ leggur áherslu á að tryggt verði að gerður verði skýr greinarmunur á hlutverki Þjóðarsjóðs og NTÍ og að ljóst verði hvar mörkin milli þeirra liggja.

Heildargreiðslugeta NTÍ í einstökum stóratburði er um 73 milljarðar króna miðað við núverandi endurtryggingavernd. Ríkið hefur val um að tryggja hagsmuni með sjóðsmyndun til að mæta ófyrirséðum tjónum eða vátryggja þá. Ekki er augljóst hvort Þjóðarsjóði sé ætlað það hlutverk að taka við þegar eignir og endurtryggingar NTÍ þrýtur, en ástæða væri til að leggjast í umfangsmikla útreikninga á því hvar skurðpunkturinn er á hagkvæmni þess að vátryggja og endurtryggja áhættuna, samanborið við að safna sjóðum til að standa straum af framtíðaráföllum. Það er ávallt mikilvægt að vega og meta hvort mæta eigi tjónum með vátryggingum eða bótum úr sjóðum þegar ekki er ætlunin að eigendur beri tjón sitt sjálfir. Ef miðað er við 50 milljarða þröskuld á útborgunum úr Þjóðarsjóði eru hverfandi líkur á að komi til greiðslna úr Þjóðarsjóði þó að stórfellt tjón yrði á samgöngumannvirkjum. Dæmi um slík tilvik væri eyðilegging á jarðgöngum, sem NTÍ er nú óheimilt að vátryggja. Benda má á að möguleikar eru fyrir hendi til að leggja mat á hvort eðlilegra væri að einhver mannvirki, eignir og hagsmunir sem nú standa utan vátryggingar, yrðu vátryggð gegn náttúruhamförum hjá NTÍ í stað þess að þau falli utan vátrygginga og verði í allra versta falli greidd úr Þjóðarsjóði.

Ríkisstjórnin áformaði árið 2016 að setja á stofn Hamfarasjóð þar sem hugmyndir voru uppi um að eitt af hlutverkum hans yrði að greiða bætur í meiri háttar náttúruhamförum. Ekki kemur skýrt fram í gögnum hvort þau áform séu enn til staðar. Við vinnslu málsins er rétt að vekja athygli á þessu.

NTÍ vill að lokum benda á að í skjalinu „Áform um lagasetningu“ kemur fram að samráð hafi farið fram við NTÍ í undirbúningi málsins, en það er misskilningur. Ekki hefur verið haft samráð við NTÍ vegna málsins.

fh. stjórnar NTÍ,

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, frkv.stjóri

Afrita slóð á umsögn

#6 Samtök iðnaðarins - 25.09.2018

Góðan daginn,

meðfylgjandi er umsögn Samtaka iðnaðarins um áform til lagasetningar um Þjóðarsjóð.

kveðja,

Björg Ásta

Lögfræðingur SI

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Viðskiptaráð Íslands - 25.09.2018

Meðfylgjandi er umsögn Viðskiptaráðs Íslands.

Með vinsemd, Konráð S. Guðjónsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Samtök atvinnulífsins - 25.09.2018

Umsögn Samtaka atvinnulífsins er meðfylgjandi í viðhengi.

Viðhengi