Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 17.–25.9.2018

2

Í vinnslu

  • 26.9.–8.10.2018

3

Samráði lokið

  • 9.10.2018

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-131/2018

Birt: 17.9.2018

Fjöldi umsagna: 8

Áform um lagasetningu

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir

Þjóðarsjóður

Niðurstöður

Alls bárust sjö umsagnir í opnu samráðsferli um áformin. Í þeim voru efnislegar ábendingar um mikilvægi þess að sjóðnum væri tryggt sjálfstæði, gætt væri að kynjahlutföllum í stjórn hans, horft yrði til Noregs varðandi fyrirmyndir og skýr mörk væru á milli hlutverks Náttúruhamfaratryggingar Íslands og Þjóðarsjóðs. Þessar ábendingar eru allar í samræmi við það sem lagt var upp með frá upphafi af hálfu ráðuneytisins sem og sérfræðingahópsins. Í umsögn Samorku (samtök orku- og veitufyrirtækja) var bent á mikilvægi þess að ekki yrðu um nýja og íþyngjandi gjaldtöku af orkufyrirtækjum að ræða. Engin gjaldtaka er fyrirhuguð í frumvarpinu, heldur einungis gert ráð fyrir auknum tekjum sem leiða beint af eignarhaldi á fyrirtækjum og auðlindum. Einnig er af hálfu samtakanna bent á að of rík arðsemiskrafa geti skert samkeppnishæfni. Undir þetta tekur ráðuneytið, enda hluti af almennri eigendastefnu ríkisins að ríkissjóður skuli einungis fá „eðlilegan arð af eigin fé í samræmi við áhættu rekstrar“. Gert er ráð fyrir að auknar tekjur af eignarhaldi orkufyrirtækja og auðlinda komi til vegna aukinnar arðsemi fyrirtækjanna og eðlilegs gjalds vegna nýtingar auðlinda. Þá er kallað eftir því af hálfu Samtaka iðnaðarins að fjárfestingarstefna sjóðsins liggi fyrir þegar málið er tekið til afgreiðslu á Alþingi, sem og skilyrði útgreiðslu. Sú ábending á rétt á sér upp að vissu marki, enda er ætlunin með samningu frumvarpsins að meginlínur fjárfestingarstefnu verði lögákveðnar og skilyrði útgreiðslu lögbundin. Gagnrýnt er í sömu umsögn að hluti af fjárveitingum til sjóðsins fari fyrst um sinn í önnur verkefni og því lýst að þar með hafi freistnivandi vegna fjármunanna þegar raungerst. Tilhögunin, sem er tímabundin, byggir á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og því er ekki staldrað frekar við athugasemdina. Í umsögnum Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins er vikið að stöðu lífeyrisskuldbindinga ríkisins og því velt upp hvort fjármunum væri betur varið til uppgreiðslu þeirra. Jafnframt er bent á möguleg ruðningsáhrif sjóðsins á gjaldeyrismarkaði. Af hálfu síðarnefnda hagsmunaaðilans er auk þess lagt til að fremur verði ráðist í lækkun skatta vegna þess svigrúms sem aukinn arður af orkuauðlindum kann að skapa. Þessu er til að svara, í fyrsta lagi, að ríkisábyrgð á skuldbindingum A-deildar LSR var aflétt eftir uppgjör á deildinni árið 2016 og að með ráðstöfunum af hálfu ríkissjóðs sem þegar eru hafnar og m.a. er gerð grein fyrir í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að B-deild LSR geti staðið skil á skuldbindingum sínum að fullu. Í öðru lagi, varðandi áhrif á gjaldeyrismarkað ber að líta til þess að þær auknu tekjur sem um ræðir hefðu að öðrum kosti mögulega verið varið í að greiða skuldir orkuvinnslufyrirtækja, sem eru að stóru leyti í erlendri mynt. Þá mætti skoða þann möguleika við arðgreiðslur að þær verði að hluta til í erlendri mynt og renni þannig inn á innstæðureikning ríkissjóðs í stað þess að fara í gegnum gjaldeyrisjöfnuð þótt þetta fjárstreymi verði varla í þeim mæli að það hafi teljandi áhrif. Loks, að því er varðar hugmyndir um skattalækkanir, þá er til þess að líta að ekki er fullvissa um hinar auknu tekjur af orkufyrirtækjum til langs tíma litið og því ekki æskilegt að nýta þær eins og hefðbundna tekjustofna til að standa undir auknum ríkisútgjöldum eða sem forsendu fyrir lækkun skatttekna, auk þess sem fjárhagslegur viðbúnaður til að mæta stóráföllum yrði lakari fyrir vikið.

Málsefni

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp til laga um að komið verði á fót varúðarsjóði til að mæta hugsanlegum fátíðum efnahagslegum skakkaföllum.

Nánari upplýsingar

Fjármála- og efnahagsráðuneytið áformar að leggja fram frumvarp til laga um að komið verði á fót varúðarsjóði til að mæta hugsanlegum fátíðum efnahagslegum skakkaföllum s.s. vegna vistkerfisbrests eða náttúruhamfara. Sjóðnum verði sett sérstök stjórn, sem hafi yfirumsjón með rekstri og fjárfestingum hans á erlendum fjármálamörkuðum. Framlög ríkissjóðs til sjóðsins verði jafnhá nýjum tekjum frá orkuvinnslufyrirtækjum í eigu ríkisins sem horfur eru á að falli til á komandi árum. Verði ríkissjóður fyrir verulegum fjárhagslegum skaða af völdum ófyrirséðs áfalls sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir verði heimilt með samþykki Alþingis að veita fé úr Þjóðarsjóði til ríkissjóðs, sem nemi allt að helmingi eigna sjóðsins á hverjum tíma.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Engin skráður umsjónaraðili.