Umsagnir bárust frá kærunefnd útlendingamála, Útlendingastofnun, lögmannsstofunni Rétti – Aðalsteinssyni & Partners, félagsmálaráðuneytinu, Rauða krossinum á Íslandi og ríkis-lögreglu¬stjóra. Þá sendi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna inn umsögn við vinnslu frumvarpsins vegna endurflutnings þess haustið 2019.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 20.02.2019–03.03.2019.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 12.11.2019.
Dómsmálaráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd og brottvísunartilskipunin).
Um er að ræða frumvarp sem kveður á um breytingar á lögum um útlendinga. Við framkvæmd á nýjum lögum um útlendinga nr. 80/2016 hafa komið í ljós ýmsir hnökrar sem þarf að leysa. Undanfarin misseri hefur umsóknum um alþjóðlega vernd fjölgað frá umsækjendum sem hafa dvalið í öðrum ríkjum Schengen-svæðisins áður en komið var til Íslands (e. secondary movement). Fjárframlög til málaflokksins hafa aukist umtalsvert undanfarin ár og þykir brýnt að auka skilvirkni í afgreiðslu mála svo stytta megi málsmeðferðartíma og draga úr allri bið innan kerfisins fyrst og fremst umsækjendum um alþjóðlega vernd til hagsbóta en jafnframt draga úr kostnaði ríkissjóðs. Í byrjun árs 2017 var þátttaka Íslands í Schengen samstarfinu tekin út. Að úttekt lokinni bárust ráðuneytinu drög að skýrslu vegna úttektar á þeim þáttum sem varða framkvæmd Íslands á tilskipun þingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Í skýrslunni er ítarlega farið yfir framkvæmd við endursendingar hér á landi auk þess sem helstu lög og reglugerðir er varða endursendingar eru raktar. Í frumvarpinu er kveðið á um nauðsynlegar lagabreytingar svo mæta megi athugasemdum úttektarnefndarinnar og fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum Íslands í Schengen-samstarfinu.